Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 28. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 19. apríl 2023

1250/2018

Reglugerð um notendastýrða persónulega aðstoð.

I. KAFLI Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til framkvæmdar notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (hér eftir NPA) skv. 11. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að og tryggja sjálfstætt líf fatlaðs fólks og lýsa grunnþáttum NPA, þ.e. skipulagi og útfærslu, hlutverki og ábyrgð sem og eftirfylgni og kostnaðarhlutdeild aðila.

3. gr. Ábyrgð.

Sveitarfélög bera ábyrgð á gerð og framkvæmd NPA-samninga, sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 38/2018, óháð því hvernig aðstoð er skipulögð og hver ber ábyrgð sem umsýsluaðili.

Umsýsluaðili NPA-samnings er vinnuveitandi aðstoðarfólks og ber ábyrgð á að það njóti launa og annarra starfskjara, lögboðinnar vinnuverndar og forsvaranlegs aðbúnaðar í samræmi við lög og kjarasamninga sem gerðir eru samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Sveitarfélög skulu setja nánari reglur í samráði við notendaráð fatlaðs fólks og/eða samtök fatlaðs fólks.

4. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa eftirfarandi hugtök svofellda merkingu:

  1. Aðstoðarverkstjórnandi: Aðstoðarmaður vegna NPA sem starfar í umboði notandans og hefur það hlutverk að aðstoða notanda sem getur ekki annast verkstjórn að fullu sjálfur.
  2. Einstaklingssamningur um NPA: Samningur milli sveitarfélags, umsýsluaðila og notanda varðandi framkvæmd NPA. Sé notandi sjálfur umsýsluaðili gerir hann einstaklingssamning við sveitarfélag.
  3. Framlag vegna launakostnaðar: Sá hluti heildarfjárhæðar (85%) í samkomulagi aðila um vinnustundir sem ætlað er að standa undir greiðslu launa og launatengdra gjalda.
  4. Framlag vegna umsýslu: Sá hluti heildarfjárhæðar (10%) í samkomulagi aðila um vinnustundir sem ætlað er að standa undir kostnaði vegna umsýslu um samning, þ.e. kostnaði við launabókhald og rekstraruppgjör, við ráðningar og að hafa starfsfólk í vinnu, ásamt kostnaði við fræðslu og ráðgjöf.
  5. Framlag vegna starfsmannakostnaðar: Sá hluti heildarfjárhæðar (5%) í samkomulagi aðila um vinnustundir sem ætlað er að standa undir kostnaði við að hafa aðstoðarfólk sem fylgir notandanum í lífi og starfi.
  6. Notandi/verkstjórnandi: Einstaklingur sem hefur gert samkomulag um NPA við sveitarfélag þar sem hann á lögheimili og ber sjálfur daglega stjórnunarábyrgð á framkvæmd NPA.
  7. Samkomulag um úthlutun vinnustunda: Fjöldi vinnustunda sem notandi hefur til ráðstöfunar á grundvelli heildstæðs mats umsækjanda og sveitarfélags á stuðningsþörf.
  8. Samningsfjárhæð: Heildarframlag sveitarfélags til NPA-samnings sem felur í sér launakostnað (85%), kostnað vegna umsýslu (10%) og starfsmannakostnað (5%).
  9. Samstarfssamningur sveitarfélags og umsýsluaðila: Samningur sem kveður á um skipan þjónustu og hlutverk umsýsluaðila, fyrirkomulag samstarfs við aðstoðarfólk á vegum umsýsluaðila, samstarf aðila og gagnkvæmar skyldur, skyldur umsýsluaðila, skyldur sveitarfélags, vanefndir á samningi, kostnað og skilyrði greiðslna og meðferð ágreinings.
  10. Umsýsluaðili: Aðili sem fengið hefur rekstrarleyfi útgefið af Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála til að hafa umsýslu með framkvæmd NPA.

II. KAFLI Meðferð umsókna, skipulag og framkvæmd.

5. gr. Samkomulag um vinnustundir.

Þegar mat á stuðningsþörf liggur fyrir samkvæmt reglum hlutaðeigandi sveitarfélags gera notandi og sveitarfélag með sér skriflegt samkomulag um samningsfjárhæð og fjölda vinnustunda sem eru til ráðstöfunar. Samkomulagið skal innihalda fjölda vinnustunda á mánuði en einstaklingi er heimilt að flytja stundir milli mánaða innan almanaksárs. Heimilt er að setja í samkomulag notanda og sveitarfélags um vinnustundir fyrirvara um samþykki fyrir hlutdeild ríkisins í samningsfjárhæð væntanlegs einstaklingssamnings.

Samkomulag um vinnustundir byggist á mati á þörf notanda fyrir nauðsynlegan stuðning til að geta lifað innihaldsríku sjálfstæðu lífi með fullri þátttöku óháð fötlun. Matið tekur einnig til þess hvort notandi þurfi sérstakan stuðning til þess að sinna verkstjórnarhlutverki sínu skv. 10. gr. reglugerðarinnar.

Sé notandi ósammála niðurstöðu mats á stuðningsþörf, fjölda vinnustunda eða samningsfjárhæð getur hann kært niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála skv. 35. gr. laga nr. 38/2018. Aðstoð getur þó hafist á grundvelli ákvörðunar sveitarfélags um fjölda vinnustunda þó að kæruferli sé í gangi.

6. gr. Val á umsýsluaðila.

Á grundvelli samkomulags um vinnustundir getur notandi valið að semja við þann umsýsluaðila sem hann kýs eða sjá sjálfur um umsýsluna. Skilyrði þess að hann geti sjálfur séð um umsýslu er að hann hafi gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga nr. 38/2018.

7. gr. Einstaklingssamningur um NPA.

Sveitarfélag, notandi og umsýsluaðili, sé notandi ekki sjálfur umsýsluaðili, gera með sér samning sem tekur til samskipta og samstarfs milli sveitarfélags og notanda varðandi framkvæmd NPA. Ef notandi á rétt á einstaklingsbundinni þjónustuáætlun skv. 12. gr. laga nr. 38/2018 skal hún fylgja með samningi samkvæmt þessari grein.

Samkomulag um vinnustundir, sbr. 5. gr., einstaklingssamningur um NPA og samstarfssamningur um umsýslu NPA milli sveitarfélags og umsýsluaðila, sbr. 12. eða 13. gr., skulu liggja fyrir áður en NPA hefst.

Einstaklingssamningar eru tímabundnir með endurskoðunar- og uppsagnarákvæðum.

III. KAFLI Ráðning aðstoðarfólks og starfsumhverfi.

8. gr. Leit að aðstoðarfólki.

Notanda standa til boða tvær leiðir við ráðningu aðstoðarfólks:

  1. Að leita til umsýsluaðila sem aðstoðar notendur við að auglýsa eftir aðstoðarfólki fyrir hönd notanda og annast umsýslu og starfsmannahald á grundvelli einstaklingssamnings um NPA. Aðstoðarfólk er á launaskrá hjá þeim umsýsluaðila.
  2. Að leita sjálfur að aðstoðarfólki hafi hann til þess rekstrarleyfi. Notandinn ræður sjálfur aðstoðarfólk á grundvelli einstaklingssamnings um NPA og annast umsýslu vegna hans.

9. gr. Ábyrgð á ráðningu og hlutverk aðstoðarfólks.

Ráðning aðstoðarfólks er á ábyrgð umsýsluaðila í samstarfi við notanda. Notanda og umsýsluaðila ber við ráðningu aðstoðarfólks að fara samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, sem og þeim kjarasamningum sem gilda hverju sinni.

Starfslýsing skal byggð á einstaklingssamningi um NPA, sbr. 7. gr., og skal hún fylgja ráðningarsamningi.

10. gr. Verkstjórn og aðstoðarverkstjórn.

Notandinn er ætíð verkstjórnandi við framkvæmd aðstoðarinnar og stýrir því hvaða aðstoð er veitt, hvernig hún er skipulögð, hvenær og hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Sé það niðurstaða sveitarfélags og notanda að hann þurfi sérstakan stuðning til þess að sinna verkstjórnarhlutverki sínu með ábyrgum hætti getur þurft að fela einhverjum einum úr hópi aðstoðarfólks að annast aðstoðarverkstjórn. Aðstoðarverkstjórnandi ber, í umboði notanda, alla jafna faglega ábyrgð á verkstjórninni, þ.e. að skipulag hennar sé fullnægjandi, starfsfólk starfi samkvæmt skýru verklagi, fái leiðbeiningar um störf sín og að starfsskilyrði séu góð.

Aðstoðarverkstjórnanda er einnig ætlað að tryggja, í samráði við notanda, að vilji hans endurspeglist í ákvörðunum, svo sem við val á starfsfólki og skipulagi á vinnu þess, í samræmi við hugmyndafræðina um sjálfstætt líf.

Umsýsluaðili, notandi eða eftir atvikum talsmaður notanda eru tengiliðir við sveitarfélagið. Notandi, og eftir atvikum talsmaður hans, og aðstoðarverkstjórnandi eru tengiliðir við umsýsluaðila vegna framkvæmdar þjónustunnar og ber því að hafa faglega og fjárhagslega yfirsýn yfir hana.

11. gr. Fræðsla.

Ráðuneytið skipuleggur, í samstarfi við fulltrúa notenda, aðstoðarfólks, umsýsluaðila, stéttarfélaga, fræðslusjóða stéttarfélaga, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, regluleg grunnnámskeið fyrir þá sem starfa við NPA. Til viðbótar grunnnámskeiðum eru haldin regluleg framhalds- og endurmenntunarnámskeið fyrir notendur, aðstoðarverkstjórnendur, aðstoðarfólk og umsýsluaðila.

Námskeiðunum er ætlað að styrkja alla þætti þjónustunnar og valdefla notendur til að vera virkir verkstjórnendur í eigin lífi.

Notandi/verkstjórnandi með NPA, aðstoðarfólk og aðstoðarverkstjórnendur skulu sækja grunnnámskeið og framhaldsnámskeið skv. 1. mgr. um leið og kostur er eftir að umsókn um NPA hefur verið samþykkt eða aðstoðarfólk ráðið til starfa.

IV. KAFLI Umsýsla NPA.

12. gr. Hlutverk og skyldur umsýsluaðila.

Sveitarfélag og umsýsluaðili, sé hann ekki sjálfur notandi, skulu gera með sér samstarfssamning um samskipti og samstarf við framkvæmd NPA. Í þeim samstarfssamningi skal meðal annars koma fram að umsýsluaðili skuli sinna eftirfarandi hlutverkum og skyldum:

  1. Taka við öllum greiðslum frá sveitarfélagi og ráðstafa þeim. Um er að ræða heildarframlag sveitarfélags til NPA-samnings sem felur í sér launakostnað (85%), kostnað vegna umsýslu (10%) og starfsmannakostnað (5%).
  2. Aðstoða notendur við að finna og velja aðstoðarfólk.
  3. Gera ráðningarsamninga við aðstoðarfólk í samstarfi við notanda.
  4. Taka þátt í gerð og framkvæmd kjarasamninga vegna starfa aðstoðarfólks.
  5. Ábyrgjast að aðstoðarfólk njóti lögboðinnar vinnuverndar og forsvaranlegs aðbúnaðar.
  6. Greiða laun aðstoðarfólks, standa skil á launatengdum gjöldum og öðrum opinberum gjöldum.
  7. Veita aðstoðarfólki fræðslu og leiðsögn um framkvæmd NPA og þá hugmyndafræði sem þar býr að baki.
  8. Bregðast við breyttum aðstæðum hjá notanda eða sveitarfélagi.
  9. Ganga frá starfslokum aðstoðarfólks fyrir hönd notenda.
  10. Færa rekstrarbókhald fyrir hvern notanda og skila rekstrarskýrslum og gögnum á grundvelli samstarfssamnings við sveitarfélag.
  11. Annast samskipti og samstarf við sveitarfélag um framkvæmd NPA-samnings.
  12. Veita notendum aðra þjónustu, svo sem jafningjaráðgjöf, fræðslu, aðstoð við gerð vaktaáætlunar og skipulag NPA, ráðgjöf við samningaviðræður og samningagerð við sveitarfélög o.fl.

13. gr. Hlutverk og skyldur umsýsluaðila þegar þeir eru sjálfir notendur.

Sveitarfélag og notandi, sé hann umsýsluaðili með gilt rekstrarleyfi, skulu gera með sér samstarfssamning um samskipti og samstarf við framkvæmd NPA. Í þeim samstarfssamningi skal meðal annars koma fram að umsýsluaðili skuli sinna eftirfarandi hlutverkum og skyldum:

  1. Taka við öllum greiðslum frá sveitarfélagi og ráðstafa þeim. Um er að ræða heildarframlag sveitarfélags til NPA-samnings sem felur í sér launakostnað (85%), kostnað vegna umsýslu (10%) og starfsmannakostnað (5%).
  2. Auglýsa eftir og velja aðstoðarfólk.
  3. Gera ráðningarsamninga við aðstoðarfólk.
  4. Taka þátt í gerð og framkvæmd kjarasamninga vegna starfa aðstoðarfólks.
  5. Ábyrgjast að aðstoðarfólk njóti lögboðinnar vinnuverndar og forsvaranlegs aðbúnaðar.
  6. Greiða laun aðstoðarfólks, standa skil á launatengdum gjöldum og öðrum opinberum gjöldum.
  7. Tryggja aðstoðarfólki fræðslu og leiðsögn um framkvæmd NPA og þá hugmyndafræði sem þar býr að baki.
  8. Ganga frá starfslokum við aðstoðarfólk.
  9. Færa rekstrarbókhald og skila rekstrarskýrslum og gögnum á grundvelli samstarfssamnings við sveitarfélag.
  10. Annast samskipti og samstarf við sveitarfélag um framkvæmd NPA-samningsins.

14. gr. Skilyrði samstarfssamnings.

Hver sá sem starfar við umsýslu NPA á grundvelli samstarfssamnings skal hafa gilt rekstrarleyfi sem útgefið er af Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Gildir einu hvort einstaklingur eða einstaklingar hafi það að markmiði að starfrækja aðstoðina fyrir sjálfa sig, aðra eða hvort um er að ræða fyrirtæki, sjálfseignarstofnun eða aðra starfsemi. Umsýsluaðili með fleiri en einum NPA-samningi skal vera lögaðili.

Umsýsluaðili skal hafa sótt grunnnámskeið um NPA og sérstakt námskeið fyrir umsýsluaðila, áður en þeir hefja þjónustuna, þar sem meðal annars er farið yfir réttindi starfsmanna, skil á launagreiðslum og launatengdum gjöldum, vinnuvernd og annað sem tengist vinnuveitendahlutverki þeirra.

V. KAFLI Fjárhagsleg framkvæmd NPA.

15. gr. Almennt.

Kostnaður vegna heildarvinnutímafjölda, sem fram kemur í einstaklingssamningi um NPA, skal skiptast á milli sveitarfélags og ríkisins.

Sveitarfélag metur, í samráði við notanda, kostnað vegna vinnuframlags aðstoðarfólks við aðstoðarverkstjórn. Þessi kostnaður skal vera sérstaklega skilgreindur og leggjast við þann heildarkostnað sem fyrr hefur verið reiknaður og skiptist milli sveitarfélags (75%) og ríkis (25%).

Umsýsluaðili tekur við mánaðarlegu fjárframlagi frá því sveitarfélagi sem gerir einstaklingssamning um NPA vegna viðkomandi notanda. Framlagið er til launakostnaðar, umsýslukostnaðar og starfsmannakostnaðar og skal greitt fyrirfram í upphafi hvers mánaðar. Umsýsluaðili og notandi ráðstafa fjárframlaginu í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar, einstaklingssamnings um NPA, samstarfssamnings og leiðbeininga og reglna sem lúta að framkvæmd þjónustunnar.

Notanda eða umsýsluaðila er ekki heimilt að ráðstafa framlagi á annan hátt en tilgreint er í einstaklingssamningi um NPA og reglum sem um hann gilda, þ.m.t. að breyta hlutföllum af heildarframlagi samkvæmt samningi, þ.e. framlagi til launakostnaðar, starfsmannakostnaðar og umsýslu, án samráðs og samþykkis viðkomandi sveitarfélags.

16. gr. Launakostnaður.

Framlagi til launakostnaðar er ætlað að standa undir launum og launatengdum gjöldum aðstoðarfólks og skal framlagið taka mið af kjörum aðstoðarfólks samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni. Framlagi til launakostnaðar skal haldið aðgreindu frá framlagi til starfsmannakostnaðar og framlagi til umsýslu.

17. gr. Starfsmannakostnaður.

Framlag til starfsmannakostnaðar nýtir notandi til þess að standa undir kostnaði sem tengist því að hafa aðstoðarfólk í vinnu og að aðstoðarfólk fylgi notanda í daglegu lífi. Að meginreglu skal starfsmannakostnaði ráðstafað af notanda. Framlagi til starfsmannakostnaðar skal haldið aðgreindu frá öðru framlagi til NPA-samnings.

18. gr. Umsýslukostnaður.

Umsýslukostnaður er framlag til að standa undir kostnaði við umsýslu með samningi, launabókhaldi, starfsmannamálum, fræðslu og öðru sem við kemur umsýslunni.

Umsýsluaðila ber á grundvelli samstarfssamnings að skila sveitarfélagi sínu staðfestu afriti af skattframtali sínu eða ársreikningi þar sem fram kemur yfirlit yfir ráðstöfun umsýslukostnaðar.

19. gr. Kostnaður vegna þjálfunar notanda, aðstoðarfólks, aðstoðarverkstjórnanda og umsýsluaðila.

Kostnaður við grunnnámskeið og framhaldsnámskeið fyrir notendur, aðstoðarfólk og aðstoðarverkstjórnendur skv. 7. og 11. gr. skal greiddur af umsýslukostnaði. Ráðuneytið skal þó á innleiðingartímabili NPA til ársins 2024 greiða helming kostnaðarins.

Kostnaður vegna greiðslu vinnustunda til aðstoðarfólks á meðan á námi stendur skal vera hluti samkomulags sveitarfélags og notanda um vinnustundir.

Námskeið fyrir umsýsluaðila skal greitt af ráðuneytinu.

20. gr. Kostnaður vegna langtímaveikinda aðstoðarfólks.

Þegar sveitarfélag og notandi hafa komist að samkomulagi um heildarfjölda vinnustunda skal sveitarfélag reikna til viðbótar 1% ofan á heildarsamningsfjárhæðina sem lagt er inn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Jöfnunarsjóður greiðir úr sjóðnum, á grundvelli umsókna frá umsýsluaðilum, framlög til þess að standa straum af viðbótarútgjöldum vegna langtímaveikinda aðstoðarfólks.

21. gr. Heildaruppgjör.

Umsýsluaðili skal mánaðarlega senda sveitarfélagi skilagreinar vegna rekstrarins. Í lok hvers almanaksárs er sveitarfélagi sent heildaruppgjör á NPA-samningi fyrir allt tímabilið. Í heildaruppgjöri skal koma fram sundurliðun á ráðstöfun samningsfjárhæðar NPA-samnings, yfirlit yfir launakostnað og launatengd gjöld, yfirlit yfir ráðstöfun á framlagi til starfsmannakostnaðar og umsýslukostnaðar. Alla jafna skal umsýsluaðili endurgreiða sveitarfélagi það framlag sem hefur ekki verið ráðstafað í lok hvers almanaksárs og hefst þá nýtt uppgjörstímabil.

VI. KAFLI Fyrirkomulag samninga.

22. gr. Endurnýjun samninga.

Samningsaðilar skulu að minnsta kosti á 12 mánaða fresti gera stöðumat á framkvæmd NPA. Horft skal til almennrar framvindu þjónustunnar og hvernig gæði hennar verði sem best tryggð og hvort ástæða sé til umbóta.

Sé það mat samningsaðila, að stöðumati loknu, að aðstæður í lífi notanda hafi ekki breyst frá síðasta stöðumati skal gerður nýr einstaklingssamningur um NPA óski notandi þess.

Komi í ljós við endurskoðun samnings að stuðningsþörf notanda hafi aukist til muna og kalli á sérhæfðari og/eða meiri þjónustu en veitt hefur verið innan NPA-samnings geta aðilar óskað eftir að fram fari sérstakt mat á stuðningsþörf. Við matið skal meðal annars skoða hvernig framtíðarþjónusta og lífsgæði notanda verði best tryggð.

Endurskoðun skal eiga sér stað að lágmarki mánuði áður en gildistími samnings rennur út.

23. gr. Lagastoð.

Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 11. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Sveitarfélag skal, eigi síðar en mánuði eftir gildistöku reglugerðar þessarar, senda notendum og umsýsluaðilum tilkynningu um endurnýjun samninga vegna ársins 2019.

Sé það mat samningsaðila að lokinni endurskoðun að stuðningsþörf notanda hafi ekki breyst frá síðustu samningsgerð skal gerður nýr einstaklingssamningur um NPA óski notandi þess. Allir notendur, starfandi aðstoðarfólk og aðstoðarverkstjórnendur skulu hafa sótt grunnnámskeið um NPA og framhalds- og endurmenntunarnámskeið um NPA eftir því sem við á, sbr. 11. gr., fyrir 31. desember 2019. Umsýsluaðili ber ábyrgð á því að fyrir liggi staðfest afrit um þátttöku og að viðkomandi hafi lokið slíkum námskeiðum.

Kostnaðarhlutdeild ríkisins í heildarkostnaði vegna NPA-samninga verður tekin til endurskoðunar innan þriggja ára frá gildistöku þessarar reglugerðar.

Sveitarfélög, hagsmunasamtök og ráðuneytið skulu fyrir lok 2019 vinna tillögur til ráðherra um hvernig staðið verði að greiðslum vegna sérfræðikostnaðar við viðbótarþarfir þeirra sem fá NPA.

Reglugerð þessa skal endurskoða fyrir 31. desember 2024 að fenginni reynslu á innleiðingartímabili þjónustunnar.

Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. er sveitarfélagi, notanda og umsýsluaðila heimilt að gera samning sem tekur til samskipta og samstarfs milli sveitarfélags og notanda varðandi framkvæmd NPA, sbr. 7. gr, án þess að fyrir liggi útgefið rekstrarleyfi. Skilyrði þessarar heimildar er að sá umsýsluaðili sem valinn er skv. 6. gr. hafi þegar með höndum umsýslu eins eða fleiri NPA-samninga á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða I með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Samningar gerðir samkvæmt þessu ákvæði skulu vera tímabundnir og gilda lengst til 30. september 2019. Kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga skv. 15. gr. gildir um þessa samninga. Standi vilji aðila, sem eru sveitarfélag, notandi og umsýsluaðili, til áframhaldandi samstarfs eftir 30. september 2019 skal gera nýjan NPA-samning frá grunni. Nýr NPA-samningur skal uppfylla öll skilyrði þessarar reglugerðar þar á meðal um útgefið rekstrarleyfi, námskeiðasókn og samþykki fyrir kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.