Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 29. mars 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 4. jan. 2023

1038/2018

Reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.

I. KAFLI Gildissvið og markmið.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til búsetu barna með miklar þroska- og geðraskanir sem þurfa annars konar og meiri þjónustu en unnt er að veita á heimili forsjáraðila þeirra skv. 21. gr. laga, nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Þegar önnur viðeigandi úrræði hafa verið fullreynd, svo sem greiningar-, ráðgjafar- og geðheilbrigðisþjónusta, stuðningur inn á heimili foreldra, skammtímadvöl og stuðningsfjölskyldur, eða ljóst er að þau koma ekki að gagni, er heimilt, í samræmi við niðurstöðu sérfræðingateymis skv. 20. gr. laga nr. 38/2018, að finna barni annað heimili hjá fjölskyldu í nærsamfélaginu, sé þess kostur, eða útbúa sérstakt húsnæði fyrir barn í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Skal það ávallt gert í samvinnu við forsjáraðila og barn, að teknu tilliti til aldurs þess og þroska.

Gerð og rekstur sérstaks húsnæðis fyrir barn skal byggjast á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, eftir því sem við á, með tilliti til aldurs og þroska viðkomandi barns.

Um nauðung, sem kann að vera beitt í úrræðum samkvæmt reglugerð þessari, gilda ákvæði laga nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

2. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að afmarka umgjörð um þjónustu og búsetu barns með miklar þroska- og geðraskanir, og það heimili sem barnið getur búið á, þegar það er metið svo af hálfu sérfræðingateymis að það sé barninu fyrir bestu, sbr. 20. gr. laga nr. 38/2018. Gera skal barni kleift að búa í nærsamfélagi fjölskyldu sinnar eins og unnt er og viðhalda sambandi við fjölskyldu sína. Jafnframt skal styðja barnið til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu. Ávallt skal hafa hagsmuni barns og velferð að leiðarljósi, sbr. meðal annars 13. gr. laga nr. 38/2018.

II. KAFLI Ábyrgð og eftirlit.

3. gr. Ábyrgð sveitarfélags.

Sveitarfélag ber ábyrgð á því að skipulag og framkvæmd þessarar þjónustu, hvort sem hún er veitt af starfsfólki sveitarfélags eða einkaaðila samkvæmt þjónustusamningi, sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar sem og ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Jafnframt ber sveitarfélag ábyrgð á því að skrifleg kröfulýsing fylgi samningi eða ítarleg þjónustulýsing um þá þjónustu sem veita skal á heimili, komi fram í samningi.

Sveitarfélag skal tilkynna Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og Barna- og fjölskyldustofu um stofnun þjónustu- og húsnæðisúrræðis á grundvelli 21. gr. laga nr. 38/2018.

3. gr. a Rekstrarleyfisskylda.

Einkaaðilum, sem hyggjast veita þjónustu á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar þessarar er skylt að afla rekstrarleyfis Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála áður en byrjað er að veita þjónustuna.

Um málsmeðferð leyfisveitinga fer samkvæmt ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

4. gr. Eftirlit.

Sveitarfélög annast innra eftirlit með starfsemi þjónustu- og húsnæðisúrræða á þeirra vegum, svo sem í formi úttektar, sem meðal annars byggist á kröfulýsingum og heimsóknum þar sem aðstæður eru kannaðar, og með viðræðum við þá aðila sem tengjast úrræðinu, þar á meðal barn, forsjáraðila, aðra nákomna, eftir því sem við á, og starfsfólk, sbr. 11. gr. laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021.

Eftirlit byggist á 4. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, lögum um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, nr. 88/2021 svo og lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

III. KAFLI Framkvæmd þjónustu.

5. gr. Þjónusta.

Hlutverk bæði fjölskyldu í nærsamfélagi barns og sérstaks heimilis er að veita barni umönnun og búsetu í samræmi við þarfir þess hverju sinni. Jafnframt að veita heildstæða þjónustu og stuðning og stuðla að góðum tengslum við forsjáraðila.

Markmiðið er að búa barni öruggt og barnvænt heimili með hliðsjón af einstaklingsbundnum þörfum, þroska, getu og aldri þess. Í sérstöku húsnæði, skv. reglugerð þessari, skal að jafnaði vera eitt barn á hverjum tíma, en að hámarki tvö. Skipuleggja skal þjónustuna með tilliti til væntinga og þarfa barns.

Leitast skal við að hafa þjónustu við barn eins einstaklingsbundna og unnt er sem og heildstæða og sveigjanlega. Ávallt skal haft samráð við barn í samræmi við aldur þess og þroska. Leggja skal ríka áherslu á góð og jákvæð samskipti og nána samvinnu við forsjáraðila og aðra nákomna barninu.

6. gr. Samningur um húsnæði og þjónustutími.

Gildistími búsetusamnings milli forsjáraðila eða ungmennis, og eftir atvikum barns og sveitarfélags, er ótímabundinn við undirritun og gildir á meðan búseta varir, þó ekki lengur en til þess dags er barn nær 18 ára aldri. Stuðningsteymi ber ábyrgð á því að framtíðarþjónusta og búsetuþörf barns sé metin við 17 ára aldur í samráði við barn, forsjáraðila og þá sérfræðinga sem best þekkja til barnsins. Leggja skal áherslu á samfellu í þjónustu við ungmenni frá 18 ára aldri og meðal annars tryggja ungmenninu viðunandi búsetu.

Í þeim tilvikum þegar ungmenni býr áfram á sama heimili fram yfir 18 ára aldur skal sveitarfélag gera nýjan tímabundinn búsetusamning vegna búsetu á heimili auk húsaleigusamnings.

7. gr. Stuðningsáætlun.

Ef fyrir liggur samþykki barns og/eða foreldris fyrir samþættingu þjónustu og tilnefndur hefur verið málstjóri, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021 skal stuðningsteymi eftir því sem tilefni er til gera grein fyrir markmiðum með þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 38/2018 og reglugerðar þessarar í stuðningsáætlun.

Áður en barn verður 18 ára skal stuðningsteymi gera áætlun þar sem fjallað er um þjónustu fyrir barnið eftir að það nær fullorðinsaldri, eftir atvikum í samstarfi við þjónustuteymi, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2018.

8. gr. Lögheimili barns.

Alla jafna skal barn eiga lögheimili hjá foreldrum/forsjáraðilum sínum.

9. gr. Fagleg þjónusta.

Forstöðumaður skal hafa háskólapróf á sviði félags-, heilbrigðis- eða menntavísinda og reynslu sem nýtist í starfi. Jafnframt skal að minnsta kosti einn starfsmaður með fagmenntun vera til staðar á vökutíma.

Sveitarfélag ábyrgist þjónustu samkvæmt þessari reglugerð. Það er meðal annars gert með því að tryggja að ávallt sé nægileg mönnun á heimili svo unnt sé að veita barni viðunandi þjónustu. Sama á við þegar sveitarfélag gerir þjónustusamning við þriðja aðila. Starfsmenn skulu hafa grunnþekkingu á uppeldi og umönnun barna og geta tileinkað sér leiðbeiningar sérfræðinga á sviði geð- og þroskaraskana. Varðandi ráðningu í starf á heimili samkvæmt reglugerð þessari skal fara eftir VI. kafla laga nr. 38/2018.

10. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett er með stoð í 21. og 40. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, öðlast gildi 7. nóvember 2018.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.