Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

902/2002

Reglugerð um ráðstöfun afgangsvöru varnarliðsins.

Birta efnisyfirlit

1. gr.

Öll umsýsla er fylgir sölu á afgangsvörum varnarliðsins og liðsmanna þess, öðrum en byggingum og mannvirkjum, er í höndum sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli.

Með afgangsvöru er átt við alla þá vöru, búnað, bifreiðar, tæki og mannvirki sem varnarliðið eða liðsmenn þess óska eftir að selja á Íslandi og hafa aflað til að sinna verkefnum varnarliðsins eða í einkaþágu og hefur verið undanþegin greiðslu opinberra gjalda með heimild í lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess og lögum nr. 82/2000, um framkvæmd tiltekinna þátta í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna.

2. gr.

Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins annast sölu á byggingum og mannvirkjum sem eru í eigu varnarliðsins og ekki telst nauðsynlegt að rífa, auk leigu eða sölu á landrými vegna landsskila á varnarsvæðum í samræmi við reglur um ráðstöfun eigna ríkisins.

3. gr.

Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli skal hafa eftirlit með sölu á allri annarri afgangsvöru frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli.

Sýslumannsembættið skal með sama hætti hafa eftirlit með sölu á bifreiðum, vélum, tækjum og búnaði sem liðsmenn varnarliðsins hafa flutt til landsins án greiðslu opinberra gjalda og óska að selja á Íslandi.

4. gr.

Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli skal sinna innheimtu allra opinberra gjalda af sölu varnarliðsins eða liðsmanna þess, skv. 3. gr., á allri afgangsvöru, þar með töldum bifreiðum, vélum, tækjum og búnaði, til innlendra aðila. Við tollmeðferð slíks varnings skulu gilda ákvæði tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, um vörur sem eru fluttar inn á tollsvæði ríkisins, hvað varðar tollverðsákvörðun, álagningu og innheimtu aðflutningsgjalda, lögveðsrétt, tolleftirlit og refsiákvæði.

5. gr.

Sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli skal í samráði við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins setja nánari reglur um fyrirkomulag sölu afgangsvöru skv. 3. gr.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. lögum nr. 110/1951, um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, sbr. lög nr. 106/1954 um yfirstjórn mála á varnarsvæðunum o.fl. og öðlast gildi hinn 1. janúar 2003. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 227/1995, um Umsýslustofnun varnarmála.

Utanríkisráðuneytinu, 17. desember 2002.

Halldór Ásgrímsson.

Gunnar Snorri Gunnarsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.