Utanríkisráðuneyti

733/2000

Reglugerð um tilkynningar á tæknilegum reglum um vörur og fjarþjónustu.

1. gr.

Löggildingarstofa, í umboði utanríkisráðuneytisins, annast samskipti þau á milli íslenskra stjórnvalda og alþjóðastofnana um tæknilegar reglur sem lög nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu taka til, sbr. 4. gr. laganna.

 

2. gr.

Stjórnvöld skulu senda Löggildingarstofu tilkynningu um drög að tæknilegum reglum um vöru og fjarþjónustu sem fyrirhugað er að setja. Tilkynningar skulu vera á tölvutæku formi og skal texti þeirra vera á ensku.

Tilkynningar á grundvelli samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði skulu innihalda þær upplýsingar sem greinir í viðauka I við reglugerð þessa.

Þegar tilkynnt er um tæknilega reglu á grundvelli samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir skal fyllt út það form sem greinir í viðauka II við reglugerð þessa.

 

3. gr.

Tilkynningunni skulu fylgja í heild, á tölvutæku formi, drög að tæknilegu reglunni ásamt öðrum þeim gögnum, þ.m.t. lögum og reglugerðum, sem nauðsynleg eru til að meta inntak tilkynningarinnar. Fylgigögn skulu vera á ensku.

 

4. gr.

Hafi drög að tæknilegri reglu að geyma ákvæði sem ætlað er að takmarka markaðssetningu eða notkun vöru, þ.m.t. kemísks efnis eða efnablöndu, vegna heilsu almennings eða í þeim tilgangi að vernda neytendur eða umhverfi, ber að láta fylgja tilkynningunni yfirlit um eða tilvitnun til allra tiltækra gagna sem geyma upplýsingar sem máli skipta um viðkomandi vöru, þ.m.t. efni eða efnablöndu, og þekktar og fáanlegar hliðstæðar vörur. Jafnframt skal komið á framfæri upplýsingum um fyrirsjáanleg áhrif þessara ráðstafana á heilsu almennings, verndun neytenda eða umhverfis ásamt áhættumati sem fram fari, eftir því sem við á, í samræmi við meginreglur sem gilda um áhættumat kemískra efna.

 

5. gr.

Drög að tæknilegum reglum skulu innihalda eftirfarandi vísun til tilskipunar 98/34/EB:

Lög/reglugerð þessi hafa/hefur verið tilkynnt í samræmi við ákvæði tilskipunar 98/34/EB sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra reglna. (This law/regulation has been notified in accordance with the provisions of Directive 98/34/EC laying down a procedure for the provision of information in the field of technical standards and regulations).

 

6. gr.

Stjórnvöld sem unnið hafa að undirbúningi setningar tæknilegra reglna skulu veita Löggildingarstofu allar nauðsynlegar upplýsingar til að svara athugasemdum er borist hafa við áður tilkynnta reglu.

 

7. gr.

Þegar tæknileg regla hefur verið sett skal stjórnvald sem undirbjó setningu hennar senda Löggildingarstofu endanlegan texta hennar á tölvutæku formi.

 

8. gr.

Athugasemdir vegna tilkynningar á tæknilegri reglu frá öðru ríki skulu berast Löggildingarstofu á ensku og á tölvutæku formi.

Löggildingarstofa hefur með höndum samræmingu þeirra athugasemda sem berast.

Endanleg ákvörðun um efni athugasemda skal tekin að höfðu samráði við þá er gert hafa athugasemdir og utanríkisráðuneytið.

 

9. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 7. gr. laga nr. 57/2000 um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, og öðlast þegar gildi.

 

Utanríkisráðuneytinu, 4. október 2000.

 

Halldór Ásgrímsson.

Sverrir Haukur Gunnlaugsson.


VIÐAUKI I


Í tilkynningu um tæknilega reglu til Eftirlitsstofnunar EFTA skulu eftirtaldir töluliðir endurspegla þær upplýsingar sem óskað er eftir fyrir aftan hvern þeirra. Textinn skal vera á ensku og settur inn beint á eftir hverjum tölulið, þ.e. án fyrirsagna. Ekki er nauðsynlegt að svara 1. og 4. tölul.

1.     Auðkenni tilkynningar (ákveðið af Eftirlitsstofnun EFTA).

2.     Auðkenni landsins sem tilkynninguna sendir (IS).

3.a.   Ráðuneyti sem annast tilkynningaskylduna í viðkomandi landi (utanríkisráðuneytið).

3.b.  Stjórnvald sem undirbýr setningu tæknilegrar reglu (nafn, póstfang, síma- og faxnúmer).

4.     Tilkynningarnúmer (Eftirlitsstofnun EFTA setur þetta númer).

5.     Heiti hinnar tæknilegu reglu.

6.     Varan/fjarþjónustan sem tæknilega reglan mun ná til.

7.     Hvort tæknilega reglan sé einnig tilkynnt samkv. ákvæðum annarra EES-gerða en tilskipunar 98/34/EB.

8.     Helstu efnisatriði hinnar tæknilegu reglu (hámark 20 línur).

9.     Rökstuðningur fyrir setningu hinnar tæknilegu reglu (hámark 10 línur).

10.   Önnur skjöl og gögn sem þurfa að vera aðgengileg til þess að unnt sé að leggja mat á innihald tæknilegu reglunnar.

11.   Upplýsingar um það hvort landið áskilji sér rétt til neyðarferlisins (þ.e. að vera undanþegið þriggja mánaða frestinum t.d. vegna öryggis og almannaheilla).

12.   Rökstuðningur fyrir áskilnaði, sbr. 11. tölul.

13.   Hvort tilkynningin sé trúnaðarmál. Ef svo er þarf að rökstyðja hvers vegna.

14.   Hvort um fjárhagsleg atriði sé að ræða í tæknilegu reglunni.

 

 

VIÐAUKI II

 

Form þetta skal fyllt út er tæknileg regla er tilkynnt Alþjóðaviðskiptastofnuninni: 

World Trade

Organization

Committee on Technical Barriers to Trade

NOTIFICATION

 

1.    Member to Agreement notifying:  ICELAND

       If applicable, name of local government involved.

2.    Agency responsible: 

3.    Notified under Article 2.9.2 [X ], 2.10.1 [ ], 5.6.2 [ ], 5.7.1 [ ], other:

4.    Products covered: 
5.    Title, number of pages and language(s) of the notified document: 
6.    Description of content:
7.    Objective and rationale:
8.    Relevant documents: 

9.    Proposed date of adoption:
       Proposed date of entry into force:

10.  Final date for comments: 
11.  Texts available from:  National enquiry point [ X] or address, e-mail and telefax number of other body:  Löggildingarstofa, Borgartúni 21, IS-105 Reykjavik, ICELAND Fax:  +354 5101101, e-mail: thorunn@ls.is


Þetta vefsvæði byggir á Eplica