Utanríkisráðuneyti

95/1981

Reglugerð um tollfrjálsar verslanir á Keflavíkurflugvelli á vegum ríkisins. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um tollfrjálsar verslanir á Keflavíkurflugvelli á vegum ríkisins.

1. gr.

Starfræktar skulu, á vegum ríkisins, sölubúðir á Keflavíkurflugvelli er selja tollfrjálsar vörur farþegum og áhöfnum millilandaflugvéla. Nafn sölubúðanna skal vera: Fríhöfnin, Keflavíkurflugvelli.

Í Fríhöfninni má selja hvers konar varning, eins og tíðksast í fríhöfnum erlendis. Í sölubúð þeirri, sem ætluð er farþegum og áhöfnum, sem eru að koma til landsins, skal þó aðeins heimilt að selja eftirtalinn varning svo sem tíðkast hefur, og innan eðlilegra takmarka, að mati tollgæslunnar:

Áfengi, tóbak, sælgæti, ilmvötn, snyrtivörur og filmur. Utanríkisráðherra getur heimilað fleiri tegundir varnings, ef ástæða þykir til.

2. gr.

Fríhöfninni skal stjórnað af forstjóri, sem skipaður er af utanríkisráðherra. Ber hann ábyrgð á rekstri hennar samkvæmt erindisbréfi, sem utanríkisráðherra setur honum. Störf hans heyra beint undir utanríkisráðuneytið. Annað starfslið, sem nauðsynlega þarf við daglegan rekstur fríhafnarinnar, skal ráðið af forstjóri með samþykki ráðuneytis.

3. gr.

Að því er varðar farþega og áhafnir, sem eru að fara af landi brott, skal tollgæslan á Keflavíkurflugvelli sjá um og bera ábyrgð á, að gætt sé nauðsynlegra varúðarráðstafana um meðferð seldrar vöru, uns komið er um borð í flugvél þá, sem er á förum.

Þá skal þess og gætt, að farþegar og áhafnir, er versla við komu til landsins, færi varning sinn beint til tollgæslumanns. Áhöfnum er óheimilt að kaupa tóbak eða áfengi í brottfararverslun.

4. gr.

Fríhöfnin fær, uns annað kann að verða ákveðið, til umráða í flugstöðvarbyggingunni á Keflavíkurflugvelli, húsnæði fyrir skrifstofur og sölubúðir ásamt birgðageymslum, eftir því sem mögulegt er og reksturinn krefst á hverjum tíma, svo og birgðaskemmur innan flugvallirsvæðisins, eftir því sem þörf krefur.

5. gr.

Fríhöfnin skal halda nákvæma skrá (birgðabók) um allar vörur, sem fluttar eru til Fríhafnarinnar.

Þegar vörur eru seldar til Fríhafnarinnar, skal fylgja þeim nákvæm skýrsla til tollgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, þar sem tilgreint er hvaða vörur er um að ræða í hverri sendingu, og skal tollgæslan bera ábyrgð á og hafa eftirlit með, að vörur þessar séu fluttar til Fríhafnarinnar.

6. gr.

Þegar heimilt er að endurgreiða innlent tollvörugjald eða aðflutningsgjöld af hráefni í iðnaðarvöru við útflutning, ber að endurgreiða nefnd gjöld, ef Fríhöfnin kaupir slíkar vörur sem söluvarning. Skulu gjöldin endurgreidd þá, er varan er komin í tollvörugeymslur samkvæmt vottorði tollgæslumanns.

7. gr.

Fríhöfninni er heimilt að annast innflutning á öllum varningi, sem hún óskar að selja á sínum vegum.

Einnig er Fríhöfninni heimilt að kaupa vörur beint úr tollvörugeymslu innflytjenda.

8. gr.

Verslanir Fríhafnarinnar séu aðskildar frá birgðaskemmum og virði varningur, sem afhentur

er verslunum frá birgðaskemmum, reiknaður á útsöluverði verslanna. Í birgðaskemmum skal

fært birgðabókhald, sem sýni nákvæmlega birgðir hverju sinni, enda sé þess vandlega gætt að sem greiðastur aðgangur verði að samanburði birgða verslana og birgðaskemma. Birgðir Fríhafnarinnar skal telja svo oft sem ástæða er til og fært þykir, og skal niðurstaða talningar send utanríkisráðherra og tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli hverju sinni.

9. gr.

Fríhöfnin skal selja varning sinn í erlendum gjaldeyri, þó með þeirri undantekningu, að Íslendingum skal heimilt að versla í Fríhöfninni fyrir þann íslenska gjaldeyri, sem þeim á hverjum tíma er leyfilegt að hafa með sér úr landi.

Erlendum flugfarþegum skal einnig heimilt að versla fyrir allt að þeirri upphæð í íslenskum gjaldeyri, sem þeir geta sýnt kvittun fyrir, að hafi verið keypt í íslenskum banka.

10. gr.

Ef flugvél er komin af stað frá flugvellinum, en verður af einhverjum orsökum að snúa aftur, skulu tollgæslumenn taka í sínar vörslur vörur, sem keyptar hafa verið í Fríhöfninni eða gæta þess, að ekki sé farið með þær út úr flugvélinni.

11. gr.

Fríhöfninni er heimilt að senda vörur í pósti til viðtakenda búsettra erlendis, í samráði við tollyfirvöld, enda hafi varan verið greidd fyrir fram.

Tollgæslan skal bera ábyrgð á, að réttar vörur séu sendar samkvæmt pöntunum og bera ábyrgð á, að vörunum sé komið í hendur póstþjónustunnar.

Útfylla skal afgreiðsluseðla vegna póstsendinga þessara og skulu tollgæslumaður og póstafgreiðslumaður staðfesta með undirskrift sinni móttöku vörunnar fyrir hönd kaupanda.

12. gr.

Ef Fríhöfnin hefur í birgðum sínum illseljanlegar eða gallaðar vörur, er henni heimilt að selja þær til þeirra aðila hjá varnarliðinu, sem rétt hafa til innkaupa, fyrir erlendan gjaldeyri, svo og til sölu varnarliðseigna.

Sala þessi skal fara fram undir eftirliti tollgæslu.

13. gr.

Skrifstofustjóri Fríhafnar hefur yfirumsjón með færslu bókhalds Fríhafnarinnar. Fríhöfnin

skal árlega senda utanríkisráðuneytinu sérstaka áætlun ásamt greinargerð um tekjur og gjöld Fríhafnarinnar.

14. gr.

Fríhöfnin skal að jafnaði eigi sjaldnar en vikulega selja til banka allan innkominn erlendan gjaldeyri.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 47 frá 11. júní 1960 um tollvörugeymslur o.fl., sbr. breyting á þeim lögum nr. 61 frá 12. maí 1970, og öðlast hún gildi þegar í stað.

Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 258 frá 17. júlí 1978 um tollfrjálsar verslanir á Keflavikurflugvelli á vegum ríkisins.

Utanríkisráðuneytið, 11. febrúar 1981.

Ólafur Jóhannesson.

Hörður Helgason.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica