Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

464/2019

Reglugerð um flutning hergagna með loftförum.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um flutning hergagna með loftförum um íslenskt yfirráðasvæði og með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd. Reglugerðin gildir einnig um flutning annars varnings en hergagna skv. nánari fyrirmælum reglugerðarinnar. Hún gildir þó ekki um ríkisflug, loftför Landhelgisgæslu Íslands og íslenskra lögregluyfirvalda, né flutning þeirra á eigin vopnum með loftförum.

2. gr. Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

Hergögn: merkir hvers konar vopn og skotfæri, sem og búnaður, aðföng og tækni sem annaðhvort hefur verið sérhannað til nota í hernaðarlegum tilgangi eða umbreytt til slíkra nota. Undir hergögn falla m.a.:

  1. Skotvopn 5,56 mm að hlaupavídd (22 kaliber) og stærri.
  2. Sprengjuvörpur, vopn gegn skriðdrekum skotkerfi, hernaðareldvörpur, vörpur eða búnaður til þess að framkalla reyk, gas eða skotelda.
  3. Vopnamið og festingar fyrir vopnamið sem sérhannað hefur verið til hernaðarnota.
  4. Skotfæri fyrir vopn sem skilgreind eru í 1.-2. tölul.
  5. Sprengjur, tundurskeyti, eldflaugar, flugskeyti, sprengiefni, annar sprengjubúnaður, hleðslur og tengdur búnaður.
  6. Skotstýringarbúnaður og tengdur viðbragðs- og viðvörunarbúnaður, ásamt tengdum kerfum, prófunar-, stilli- og gagnárásarbúnaður.
  7. Landökutæki sem hönnuð eru til hernaðarnota, þ.m.t. skriðdrekar og önnur brynvarin ökutæki, sem og búnaður og tækni sérhönnuð til notkunar í hernaðarökutækjum.
  8. Herskip og búnaður og tækni sem sérhönnuð eru til notkunar í herskipum.
  9. Loftför, sérhönnuð eða breytt til hernaðarnota, sem og búnaður og tækni sérhönnuð til notkunar fyrir hernaðarloftför, þ.m.t. á jörðu niðri.
  10. Efni, aðföng, tækni og búnaður sem ætlaður er til framleiðslu, þróunar eða dreifingar efna í kjarnorku-, lífrænum- eða efnahernaði.
  11. Rafeindabúnaður, sérhannaður til hernaðarnota.
  12. Háhraðavopnakerfi.
  13. Brynvarin búnaður eða hlífðarbúnaður.
  14. Sérhæfður búnaður til herþjálfunar.
  15. Mynd- og gagnaðgerðabúnaður, sérhannaður til hernaðarnota.
  16. Búnaður sem hannaður hefur verið til framleiðslu vara sem tilgreindar hafa verið hér að framan.
  17. Vopnakerfi sem nota stefnuvirka orku.
  18. Vél- og hugbúnaður sem sérhannaður hefur verið til þróunar, framleiðslu, reksturs, stýringar eða viðhalds á þeim hergögnum sem tilgreind eru hér að framan.

Við skilgreiningu hergagna samkvæmt reglugerð þessari skiptir eigi máli hvort hergagnið er flutt samansett eða í hlutum þ.m.t. ef um er að ræða varahluti eða íhluti sem sérhannaðir hafa verið til notkunar fyrir viðkomandi hergögn.

Til hergagna teljast þó ekki venjuleg veiði- og markskotvopn, sem og neyðar- og viðvörunarbúnaður loftfarsins og annað það sem nauðsynlegt má telja vegna öryggis flugsins, áhafnarinnar og farþeganna. Sama gildir um skotelda o.þ.h., sbr. 1. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Jarðsprengja gegn liðsafla: merkir jarðsprengju sem er ætlað að springa sakir nærveru manns, nálægðar hans eða snertingar og gerir einn mann eða fleiri hjálparlausa, særir þá eða drepur. Jarðsprengjur, sem er ætlað að springa sakir nærveru ökutækis, nálægðar eða snertingar þess, en ekki manns, og hafa meðhöndlunarvarnarbúnað, teljast ekki jarðsprengjur gegn liðsafla af þeirri ástæðu að þær eru með þeim búnaði.

Klasasprengja: merkir hefðbundið hertól sem er hannað til að dreifa eða sleppa sprengifimum dreifisprengjum og er hvert um sig undir 20 kg að þyngd ásamt þeim sprengifimu dreifisprengjum sem það inniheldur. Það á ekki við um eftirfarandi:

  1. hertól eða dreifisprengju sem er hönnuð til að gefa frá sér blossa, reyk, flugelda eða ratsjárendurvarpsefni, eða hertól sem er hannað einvörðungu til loftvarna,
  2. hertól eða dreifisprengju sem er gerð til að framkalla rafmagns- eða rafeindaáhrif,
  3. hertól sem, til að forðast áhrif á óafmörkuðum svæðum og þá hættu sem stafar af ósprungnum dreifisprengjum, hefur öll eftirtalin einkenni:

    1. hvert hertól inniheldur færri en tíu sprengifimar dreifisprengjur,
    2. hver sprengifim dreifisprengja vegur minna en fjögur kíló,
    3. hver sprengifim dreifisprengja er hönnuð í þeim tilgangi að finna og hæfa eitt ákveðið skotmark,
    4. hver sprengifim dreifisprengja er búin rafeindabúnaði til sjálfseyðingar,
    5. hver sprengifim dreifisprengja er búin sjálfsónýtandi rafeindabúnaði.

3. gr. Bann við flutning hergagna.

Flutningur hergagna með loftförum sem falla undir gildissvið reglugerðar þessarar er óheimill nema með leyfi útgefnu af utanríkisráðuneytinu.

Bann þetta nær til hverskyns umferðar loftfara með hergögn um íslenskt yfirráðasvæði hvort sem er til flugtaks, lendingar eða yfirflugs um íslenskt yfirráðasvæði sem og flutnings. Þá nær bannið ennfremur til flutninga hergagna með íslenskum loftförum hvar sem þau eru stödd.

Ekki skal veita leyfi til flutnings hergagna skv. 1. mgr. í eftirfarandi tilvikum:

  1. Ef vísbending er um að viðkomandi hergögn kunni að vera notuð til að fremja þjóðarmorð, glæpi gegn mannkyni, alvarleg brot á Genfarsamningnum frá 1949, árásir sem beinast gegn borgaralegum skotmörkum eða borgurum sem njóta verndar sem slíkir eða verði notuð til að fremja aðra stríðsglæpi eins og þeir eru skilgreindir í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
  2. Ef flutningur viðkomandi hergagna stríðir gegn ráðstöfunum sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt í samræmi við VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna eða öðrum þvingunaðaraðgerðum alþjóðastofnana sem íslensk stjórnvöld taka þátt í, sbr. 3. gr. laga nr. 93/2008.
  3. Ef umrædd hergögn teljast til jarðsprengna gegn liðsafla, sbr. samning um bann við notkun, birgðasöfnun, framleiðslu og flutning jarðsprengja gegn liðsafla og um eyðingu þeirra sem gerður var í Osló 18. september 1997. Þó má veita heimild til að flytja jarðsprengjur gegn liðsafla í þeim tilgangi að eyða þeim og ennfremur skal heimilt að flytja jarðsprengjur gegn liðsafla til að þróa tækni og veita þjálfun í jarðsprengjuleit, jarðsprengjuhreinsun eða aðferðum til að eyða þeim, enda sé fjöldi slíkra jarðsprengja takmarkaður við það lágmark sem er algjörlega nauðsynlegt til að þjóna framangreindum markmiðum, sbr. 3. gr. áðurnefnds samnings.
  4. Ef umrædd hergögn teljast til klasasprengna, sbr. ákvæði laga nr. 83/2015 og samnings um klasasprengjur frá 30. maí 2008.
  5. Ef flutningur slíkra hergagna stríðir gegn ákvæðum vopnaviðskiptasamnings Sameinuðu þjóðanna frá 2. apríl 2013.
  6. Ef flutningur slíkra hergagna stríðir gegn ákvæðum samnings um bann við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um eyðingu þeirra frá 13. janúar 1993.
  7. Ef flutningur slíkra hergagna stríðir gegn ákvæðum samnings um bann við þróun, framleiðslu og geymslu lífefnavopna frá 10. apríl 1972.
  8. Ef flutningar eða notkun slíkra hergagna stríðir gegn öðrum alþjóðlegum skuldbindingum sem Ísland hefur gengist undir.

Leyfi til flutnings hergagna í öðrum tilvikum en þeim sem talin eru upp í 3. mgr. má veita á grundvelli umsóknar skv. 5. gr. þessarar reglugerðar.

4. gr. Umsókn um leyfi.

Umsókn um leyfi fyrir flutningi skv. 3. gr. skal senda til Samgöngustofu eigi síðar en 14 dögum áður en flug er fyrirhugað nema sérstakar aðstæður komi upp þar sem flutningur hergagna er nauðsynlegur með styttri fyrirvara. Í umsókn skal koma fram:

  1. Nafn flugrekanda, heimilisfang, sími og tölvupóstfang.
  2. Þjóðerni, skrásetningarmerki og tegund loftfars.
  3. Staðfesting á vátryggingum.
  4. Fyrirhuguð flugleið, þ.m.t. upprunastaður, ákvörðunarstaður, fyrirhugaðar millilendingar og hvar og hvenær skuli flogið inn í íslenska lofthelgi.
  5. Áætlaður komu- og brottfarartími frá íslenskum flugvelli eða flugvöllum.
  6. Markmið flugsins, áhöfn og farþegar.
  7. Upplýsingar um hvaða hergögn er um að ræða og magn þeirra.
  8. Tilskilin leyfi stjórnvalda upprunalands og viðtökulands fyrir inn- og útflutningi viðkomandi hergagna, þ.m.t. vottorð um lokanotanda, í þeim tilvikum sem slíkra leyfa er krafist af hálfu viðkomandi stjórnvalda.

Umsækjendum um leyfi skv. 3. gr. ber að ábyrgjast áreiðanleika þeirra upplýsinga sem fram koma í umsókn þeirra. Hafi umsækjandi vitneskju um önnur atriði sem geta haft áhrif á mat á því hvort veita skuli leyfi, m.a. um það hvort þau tilvik sem rakin eru í a-f-liðum 3. mgr. 3. gr. eigi við um viðkomandi hergögn, ber umsækjanda að upplýsa um slíkt í umsókn sinni.

5. gr. Málsmeðferð.

Þegar Samgöngustofu hefur borist umsókn um leyfi skv. 3 gr. skal umsóknin send utanríkisráðuneytinu til ákvörðunar. Utanríkisráðuneytið getur óskað eftir umsögnum annarra stjórnvalda um umsóknina. Telji utanríkisráðuneytið að fallast megi á umsókn gefur ráðuneytið út leyfi fyrir flutningi viðkomandi hergagna. Samgöngustofa skal upplýsa umsækjanda um afgreiðslu utanríkisráðuneytisins á umsókn viðkomandi.

Heimilt er að afturkalla leyfi sem veitt hefur verið skv. reglugerð þessari komi í ljós að upplýsingar sem fylgt hafa umsókn skv. 6. gr. hafa verið ófullnægjandi eða rangar. Þá er heimilt að afturkalla leyfi hafi forsendur leyfisins breyst, þ.m.t. varðandi mat á því hvort a-f-liðir 3. mgr. 3. gr. eigi við um flutning viðkomandi hergagna.

6. gr. Viðurlög.

Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varðar refsingu samkvæmt 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Þá er Samgöngustofu heimilt að svipta flugrekanda flugrekstrarleyfi sem brýtur gegn ákvæðum þessarar reglugerðar, sbr. 84. gr. sömu laga.

7. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 1. og 5. mgr. 78. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998, sbr. 9. gr. laga nr. 75/2005, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 937/2005 um flutning hergagna með loftförum.

Utanríkisráðuneytinu, 30. apríl 2019.

Guðlaugur Þór Þórðarson.

Sturla Sigurjónsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.