Utanríkisráðuneyti

801/2011

Reglugerð um þvingunaraðgerðir gagnvart Íran. - Brottfallin

1. gr.

Almenn ákvæði.

Reglugerð þessi er sett til þess að framfylgja ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um þvingunaraðgerðir gagnvart Íran nr. 1737 (2006), 1747 (2007), 1803 (2008) og 1929 (2010) og ákvörðunum framkvæmdanefndarinnar um þvingunaraðgerðir gagnvart Íran, sbr. ályktun nr. 1737 (2006) (www.un.org/sc/committees/1737/index.shtml).

Með reglugerð þessari eru jafnframt sett ákvæði um þvingunaraðgerðir gagnvart Íran sem íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að framfylgja á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórna aðildarríkja Evrópusambandsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu um pólitísk skoðanaskipti, sem er hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993.

Ákvæði reglugerðar nr. 119/2009 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða eiga við um framkvæmd reglugerðar þessarar.

2. gr.

Þvingunaraðgerðir.

Reglugerð ráðsins (ESB) nr. 961/2010 frá 25. október 2010 um þvingunaraðgerðir gegn Íran og um niðurfellingu á reglugerð (ESB) nr. 423/2007, eins og hún var uppfærð með framkvæmdareglugerð ráðsins (ESB) nr. 503/2011 frá 23. maí 2011 um framkvæmd reglugerðar (ESB) nr. 961/2010 um þvingunaraðgerðir gegn Íran, skal öðlast gildi hér á landi með þeirri aðlögun sem getið er um í 3. gr. Reglugerð ráðsins, eins og hún var uppfærð, er birt sem fylgiskjal við reglugerð þessa, ásamt I.-VIII. viðauka (Annex I-VIII):

a)

I. viðauki (Vörur og tækni sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 2. gr., 2. mgr. 2. gr., 4. gr. og b- og d-liðum 1. mgr. 5. gr.);

b)

II. viðauki (Vörur og tækni sem vísað er til í a-lið 1. mgr. 2. gr., 3. mgr. 2. gr., 4. gr. og b- og d-liðum 1. mgr. 5. gr.;

c)

III. viðauki (Listi yfir búnað sem nota mætti til bælingar innanlands, sbr. b-lið 1. mgr. 2. gr., c-lið 1. mgr. 5. gr. og e-lið 1. mgr. 5. gr.);

d)

IV. viðauki (Vörur og tækni sem vísað er til í 3. gr. og 2. mgr. 5. gr.);

e)

V. viðauki (Vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld sem vísað er til í 5. og 6. mgr. 3. gr., 3. mgr. 5. gr., 1. mgr. 7. gr., 10. gr., 2. mgr. 12. gr., 13. gr., 17. gr., 18. gr., 1. og 2. mgr. 19. gr., 1. og 4. mgr. 21. gr., 1. mgr. 22. gr., 1. mgr. 23. gr., 1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 38. gr. og heimilisfang fyrir tilkynningu til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins);

f)

VI. viðauki (Listi yfir lykilbúnað og -tækni sem vísað er til í 8. gr.);

g)

VII. viðauki (Listi yfir aðila, rekstrareiningar og stofnanir sem vísað er til í 1. mgr. 16. gr.);

h)

VIII. viðauki (Listi yfir einstaklinga, rekstrareiningar og stofnanir sem vísað er til í 2. mgr. 16. gr.), eins og hann var uppfærður með framkvæmdareglugerð ráðsins (ESB) nr. 503/2011.3. gr.

Aðlögun.

Gerðir skv. 2. gr. skulu aðlagaðar með eftirfarandi hætti:

a)

ákvæði varðandi ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða aðildarríki Evrópusambandsins ("EB", ,,ESB", "bandalagsins" eða "sameiginlega markaðarins") eiga við um íslenska ríkisborgara, einstaklinga, fyrirtæki, stjórnvöld, opinberar stofnanir, tungumál, yfirráðasvæði eða Ísland, eftir því sem við á;

b)

ákvæði um tilkynningar eða skýrslugerðir til aðildarríkja Evrópusambandsins eða stofnana gilda ekki. Hið sama á við um ákvæði um gildistöku eða hvenær gerðir skuli koma til framkvæmda;

c)

tilvísanir í gerðir, sem eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samningsins), eiga við um þau ákvæði íslensks réttar sem innleiða þær gerðir, eftir því sem við á;

d)

tilvísanir í gerðir, sem eru ekki hluti EES-samningsins, eiga við um hliðstæð ákvæði íslensks réttar, eftir því sem við á, þ.m.t. ákvæði tollalaga nr. 88/2005;

e)

vefsetur með upplýsingum um lögbær stjórnvöld á Íslandi er: www.utn.is/utflutningseftirlit.Lögbær stjórnvöld skv. e-lið eru utanríkisráðuneytið, nema annað sé tekið fram hér að neðan eða á ofangreindri vefsíðu (tilvísanir eru í kafla reglugerðar ráðsins (ESB) nr. 961/2010):

 

i.

V. kafli (Tilkynningarskylda varðandi fjármögnun gereyðingarvopna o.fl.), sbr. 1. mgr. 23. gr. Lögbært stjórnvald: Peningaþvættisskrifstofa.

 

ii.

VI. kafli (Skýrslugerð í tengslum við innflutning og útflutning, bann við vissri þjónustu við írönsk skip o.fl.), sbr. 1. mgr. 27. gr. og 1., 2. og 3. mgr. 28. gr. Lögbært stjórnvald: tollstjóri.Skýrslugerð skv. VI. kafla reglugerðar ráðsins (ESB) nr. 961/2010 skal framkvæmd þannig að innflytjendur og útflytjendur senda aðflutningsskýrslu og útflutningsskýrslu til tollstjóra a.m.k. 24 tímum fyrir hleðslu fars, ef um skip er að ræða, og við upphaf ferðar loftfars. Þó er fullnægjandi að skila farmskrá innan sömu tímamarka.

Lögbær stjórnvöld skv. e-lið skulu upplýsa hvert annað um afgreiðslu samkvæmt reglugerð þessari eftir því sem við á.

4. gr.

Tilkynning.

Birting lista yfir aðila í gerðum skv. 2. gr. skal skoðast sem tilkynning til þeirra um að þær þvingunaraðgerðir, sem kveðið er á um í gerðunum, beinist gegn þeim og er þeim bent á að þeir geti sótt um vissar undanþágur til utanríkisráðuneytisins eða óskað eftir afskráningu af listum, telji þeir sig ranglega skráða.

5. gr.

Viðskiptabann með vopn.

Viðskiptabann með vopn skal gilda gagnvart Íran, sbr. 5. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1747 (2007) og 8. mgr. ályktunar nr. 1929 (2010).

6. gr.

Landgöngubann.

Aðilum, sem öryggisráðið eða framkvæmdanefndin tilgreinir, sbr. VII. viðauka við reglugerð ráðsins (ESB) nr. 961/2010, er óheimilt að koma til landsins eða hafa hér viðkomu, sbr. 10. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1929 (2010).

7. gr.

Skoðunarheimild og upptaka farms.

Sé réttmæt ástæða til að ætla að loftfar eða skip, sem er á leið til eða frá Íran og fer um íslenskt yfirráðasvæði, flytji hluti, sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari, er bærum stjórnvöldum rétt að skoða farminn, sbr. 14. mgr. ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1929 (2010). Bærum stjórnvöldum er enn fremur rétt að skoða slíkan farm á úthöfum, með samþykki fánaríkis, sbr. 15. mgr. ályktunar nr. 1929 (2010).

Farmur, sem bann er lagt við samkvæmt reglugerð þessari og finnst í loftfari eða skipi skv. 1. mgr., skal gerður upptækur og honum eytt eða ráðstafað á annan hátt, í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar, sbr. 16. mgr. ályktunar nr. 1929 (2010).

8. gr.

Bann við þjálfun og kennslu.

Enginn má þjálfa eða kenna írönskum ríkisborgurum fög sem myndu stuðla að þróun tækni, sem myndi styðja við útbreiðslunæma kjarnstarfsemi Írana eða að þróun Írana á burðarkerfum fyrir kjarnavopn. Írönskum ríkisborgurum, sem sækjast eftir slíkri kennslu eða þjálfun hérlendis, er óheimilt að koma til landsins, sbr. 17. mgr. ályktunar nr. 1737 (2006).

9. gr.

Undanþágur frá þvingunaraðgerð.

Ráðherra getur veitt undanþágur frá þvingunaraðgerðum, sem gripið hefur verið til, af mannúðarástæðum eða öðrum ástæðum. Hann getur m.a. heimilað að efndir séu samningar eða að fullnægt sé öðrum réttindum og skyldum, sem fara í bága við reglugerð þessa, en stofnuðust fyrir gildistöku hennar.

10. gr.

Viðurlög.

Hver sá sem brýtur gegn þvingunaraðgerðum skv. lögum nr. 93/2008 um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða skal sæta viðurlögum skv. 10. gr. laganna, nema þyngri viðurlög liggi við samkvæmt öðrum lögum.

11. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi, sem er sett með heimild í 12. gr. laga um framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða nr. 93/2008, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur út gildi reglugerð um alþjóðlegar þvingunaraðgerðir varðandi Íran nr. 146/2009.

Utanríkisráðuneytinu, 25. júlí 2011.

Össur Skarphéðinsson.

Einar Gunnarsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica