Samgönguráðuneyti

937/2005

Reglugerð um flutning hergagna með loftförum. - Brottfallin

Felld brott með:

1. gr.
Gildissvið og framkvæmd.

Reglugerð þessi gildir um flutning hergagna með loftförum um íslenskt yfirráðasvæði. Hún gildir þó ekki um ríkisflug né loftför Landhelgisgæslu Íslands og íslenskra lögregluyfirvalda.Um meðferð skotvopna og skotfæra um borð í íslenskum loftförum og loftförum innan íslenskrar lofthelgi, m.a. hverjir mega bera þau og í hvaða tilvikum og hvernig að því skuli staðið gilda reglur sem ríkislögreglustjóri setur.Flugmálastjórn Íslands sér um framkvæmd þessarar reglugerðar þar á meðal veitingu leyfa.

2. gr.

Bann.

Flutningur hergagna með loftförum um íslenskt yfirráðasvæði er óheimill nema með sérstöku leyfi Flugmálastjórnar Íslands sbr. 3. gr.Bann þetta nær til hverskyns umferðar um íslenskt yfirráðasvæði hvort sem er til flugtaks, lendingar eða yfirflugs um íslenskt yfirráðasvæði.

3. gr.

Leyfisveitingar.

Beiðni um leyfi skv. 2. gr. skal berast Flugmálastjórn 7 dögum áður en flug er fyrirhugað nema sérstakar aðstæður komi upp þar sem flutningur hergagna er nauðsynlegur með skömmum fyrirvara, t.d. þegar upp kemur hætta eða átök sem krefjast flutnings hergagna með skemmri fyrirvara. Í beiðni skal greina:
a) Nafn flugrekanda, heimilisfang, síma, tölvupóstfang og faxnúmer.
b) Þjóðerni, skrásetningarmerki og tegund loftfars.
c) Staðfestingu á vátryggingum.
d) Leið þá sem fljúga skal, ákvörðunarstað og upplýsingar um hvar og hvenær skuli flogið inn í íslenska lofthelgi.
e) Dagsetningu og áætlaðan komu- og brottfarartíma frá íslenskum flugvelli eða flugvöllum.
f) Markmið flugsins, áhöfn og farþega, hvaða hergögn er um að ræða og magn þeirra.Ef óskað er leyfis, sem felur í sér mikið magn hergagna, mikla tíðni eða um er að ræða óvenjulega eða sérstaklega viðkvæman flutning eða flutning inn á hættu- eða átakasvæði skal Flugmálastjórn Íslands aðeins veita slíka heimild að höfðu samráði við samgönguráðuneyti.

4. gr.

Orðskýringar.

Með hergögnum er í reglugerð þessari átt við:
a) Skotvopn 5,56 mm að hlaupavídd (22 kaliber) og stærri, eldvörpur, búnað til myrkvunar eða reykmyndunar, hvers konar skotpalla eða losunarbúnað fyrir sprengjur, eldflaugar, flugskeyti, tundurskeyti og tundurdufl.
b) Skotfæri og aðrar hleðslur í þær tegundir vopna og búnaðar er greinir í a-lið, sem og hand- og jarðsprengjur.
c) Sprengi- og tundurefni ásamt púðri og hvellhettum í búnað samkvæmt a- og b-lið.
d) Sérhvert það tæki sem ætlað er til dreifingar efna í kjarnorku-, lífrænum- eða efnahernaði, sem og hleðslu í þau.Við skilgreiningu hergagna samkvæmt reglugerð þessari skiptir eigi máli hvort hergagnið er flutt samansett eða í hlutum.Til hergagna teljast þó ekki venjuleg veiði- og markskotvopn, sem og neyðar- og viðvörunarbúnaður loftfarsins og annað það sem nauðsynlegt má telja vegna öryggis flugsins, áhafnarinnar og farþeganna. Sama gildir um skotelda o. þ. h., sbr. 1. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

5. gr.

Viðurlög.

Brot á 2. gr. reglugerðar þessarar varða viðurlögum skv. 141. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum, auk þess sem heimilt er að svipta flugrekanda flugrekstrarleyfi, sbr. 84. gr. sömu laga.

6. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 78. gr. laga um loftferðir nr. 60/1998 eins og henni var breytt með lögum nr. 75/2005, öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 348/1983 um flutning hergagna með loftförum.

Samgönguráðuneytinu, 18. október 2005.


Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica