Fara beint í efnið

Prentað þann 2. maí 2024

Stofnreglugerð

1580/2023

Reglugerð um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu.

1. gr. Gjaldtaka.

Vatnajökulsþjóðgarður innheimtir gestagjöld eftir því sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Virðisaukaskattur er innifalinn í gjaldi fyrir gistingu á þjónustusvæði, sbr. 2.-4. gr., en til viðbótar leggst gistináttaskattur á hverja gistieiningu.

2. gr. Gisting á tjaldsvæði.

Gjald fyrir einn í gistingu í eina nótt á tjaldsvæði:

1. Almennt gjald 2.500 kr.
2. Eldri borgarar (67 ára og eldri) og öryrkjar 2.100 kr.

Aðgangur barna, 16 ára og yngri, í fylgd með fullorðnum, að tjaldsvæði er gjaldfrjáls.

Aðgengi að sturtum, þvottavél og þurrkara er innifalið í gistigjaldi í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum.

3. gr. Lengri afnot af tjaldsvæðum.

Gjald fyrir lengri afnot af stæðum á þjónustusvæðum:

Sumargjald: Stæði með rafmagni Stæði án rafmagns
Einn mánuður 50.000 kr. 40.000 kr.
Tveir mánuðir 100.000 kr. 80.000 kr.
Þrír mánuðir 150.000 kr. 120.000 kr.

4. gr. Gisting í skála.

Gjaldið miðast við gistingu í skála yfir eina nótt fyrir hvern einstakling.

1. Í Snæfellsskála 6.500 kr.
2. Í Blágiljum 5.500 kr.

Ekki er innheimt gjald fyrir börn 12 ára og yngri, í fylgd með fullorðnum. Veittur er 50% afsláttur af gistigjaldi fyrir börn 13 til 17 ára og 20% afsláttur fyrir eldri borgara og öryrkja.

Í verðskrá skal koma fram hvaða þjónusta er innifalin í gistigjaldi fyrir hvern skála fyrir sig.

5. gr. Svæðisgjald.

Svæðisgjald er lagt á við inngang að þjónustusvæðum sem stjórn þjóðgarðsins hefur ákveðið að skuli vera gjaldskyld og gildir mest í sólarhring (frá kl. 00.00 - 24.00):

Flokkur A - Fólksbifreið, 5 farþega og færri 1.000 kr.
Flokkur B - Fólksbifreið, 6-9 farþega 1.300 kr.
Flokkur C - Rúta, 10-19 farþega 2.500 kr.
Flokkur D - Rúta, 20-23 farþega 4.700 kr.
Flokkur E - Rúta, 33 farþega og fleiri 8.500 kr.
Bifhjól 400 kr.

Veittur er 50% afsláttur af svæðisgjaldi ef annað gjaldskylt þjónustusvæði þjóðgarðsins hefur áður verið heimsótt innan sólarhringsins og fullt gjald greitt þar.

6. gr. Ýmis þjónusta.

Gjald fyrir ýmsa aðra þjónustu:

1. Rafmagn á tjaldsvæði, pr. sólarhring 1.500 kr.
2. Afnot af aðstöðu í skála, einn dagur (án gistingar) 500 kr.
3. Sturta (gashituð) 500 kr.

7. gr. Umsýsla og eftirlit með samningum.

Aðili samnings greiðir 100.000 kr. umsýslugjald vegna móttöku umsóknar, málsmeðferðar og samningsgerðar um atvinnutengda starfsemi.

Um gjöld vegna eftirlits með atvinnutengdri starfsemi fer samkvæmt ákvæðum samnings og útreikningi á grundvelli 9. gr. reglugerðar þessarar.

Um gjöld vegna afnota af landi, aðstöðu og aðra nýtingu innviða fer samkvæmt ákvæðum nýtingarsamnings og eftir atvikum ákvæðum laga nr. 100/2021, um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni, en þau lög gilda einnig um gerð sérleyfis- og rekstrarleyfissamninga innan marka þjóðgarðsins.

8. gr. Gjald vegna leyfa.

Umsækjandi um leyfi greiðir 50.000 kr. gjald vegna veitingar leyfa, umsjón og eftirlits.

Ef leyfisskylt verkefni hefur beina skírskotun til meginmarkmiða þjóðgarðsins er heimilt að ákveða lægra leyfisgjald.

Um gjöld vegna umfangsmeira eftirlits með skipulögðum viðburðum, rannsóknum og verkefnum sem kalla á aðstöðu, mannafla eða meðferð tækja fer samkvæmt skilmálum leyfisveitingar, skilyrðum þjóðgarðsvarðar og útreikningi á grundvelli 9. gr. reglugerðar þessarar.

9. gr. Útseld sérfræðivinna.

Vatnajökulsþjóðgarður innheimtir gjald samkvæmt reglugerð þessari sem nemur 20.800 kr. á hverja klukkustund fyrir sérfræðivinnu við verkefni og þjónustu sem stofnuninni eru falin í lögum og reglugerðum og sem heimilt er að taka gjald fyrir eða samið er um í samningi. Gjaldið er innheimt af þeim aðila sem óskar eftir að vinnan sé framkvæmd eða ákveðið er á grundvelli samnings/leyfisveitingar. Heimilt er að veita afslátt af gjaldinu þegar rökstudd ástæða er til.

10. gr. Ferða- og uppihaldskostnaður.

Vatnajökulsþjóðgarður innheimtir ferða- og uppihaldskostnað sem til fellur við vinnu starfsmanna í samræmi við reglur ferðakostnaðarnefndar fjármálaráðuneytisins eða eftir því sem ákveðið er á grundvelli samnings/leyfisveitingar.

11. gr. Gildistaka, lagastoð og birting.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 21. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð, og öðlast gildi 1. janúar 2024. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 207/2023, um gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarð fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 22. desember 2023.

F. h. r.

Stefán Guðmundsson.

Ólafur Darri Andrason.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.