Umhverfisráðuneyti

424/2007

Reglugerð um þalöt í leikföngum og öðrum vörum fyrir börn. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir að börn verði fyrir heilsuskaða af völdum þalata.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um leikföng, umönnunarvörur fyrir börn og aðra hluti úr mjúku plasti, svo sem föt, sem ætlaðir eru fyrir börn yngri en 14 ára. Reglugerðin gildir ennfremur um aðra hluti úr mjúku plasti sem ætla má að börn noti eða geti stungið í munninn.

3. gr.

Skilgreiningar.

Þalöt: Esterar af o-þalsýru. Þalöt eru meðal annars notuð sem mýkingarefni í plastvörur.

Umönnunarvörur fyrir börn: Hlutir fyrir börn sem ætlaðir eru til þess að auðvelda svefn, slökun, hreinlæti eða mötun þ.m.t. naghringir, snuð, túttur, smekkir, baðáhöld og mataráhöld.

4. gr.

Takmarkanir.

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa eða selja leikföng, umönnunarvörur fyrir börn eða aðrar vörur úr plasti, sem ætla má að börn noti, ef þau innihalda eftirtalin efni í hærri styrk en 0,1% miðað við þyngd vörunnar eða einstakra hluta hennar:

a.

bis(2-etýlhexýl)þalat (DEHP)

CAS nr. 117-81-7

b.

díbútýlþalat (DBP)

CAS nr. 84-74-2

c.

bensýlbútýlþalat (BBP)

CAS nr. 85-68-7

Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa eða selja leikföng, umönnunarvörur fyrir börn eða aðrar vörur úr plasti, sem ætla má að börn geti stungið í munninn, ef þau innihalda eftirtalin efni í hærri styrk en 0,1% miðað við þyngd vörunnar eða einstakra hluta hennar:

a.

díísónónýlþalat (DINP)

CAS nr. 28553-12-0 og 68515-48-0

b.

díísódekýlþalat (DIDP)

CAS nr. 26761-40-0 og 68515-49-1

c.

dí-n-oktýlþalat (DNOP)

CAS nr. 117-84-0

Heimilt er að flytja inn, dreifa og selja vörur sem ekki uppfylla 1. og 2. mgr. ef þær hafa verið afhentar frá framleiðanda og markaðssettar á EES-svæðinu fyrir gildistöku reglugerðar þessarar, enda hafi varan uppfyllt ákvæði eldri reglugerðar nr. 196/2000.

5. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Framleiðandi, innflytjandi, seljandi og dreifingaraðili eru ábyrgir fyrir því að vara uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar og ber að framvísa gögnum þar að lútandi til eftirlitsaðila sé þess óskað.

6. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2005/84/EB um 22. breytingu á tilskipun 76/769/EBE varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efna­blandna (þalöt í leikföngum og umönnunarvörum barna), sem vísað er til í 4. tl., XV. kafla, II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 196/2000, um takmörkun á framleiðslu, innflutningi og dreifingu leikfanga og hluta sem í eru þalöt.

Umhverfisráðuneytinu, 25. apríl 2007.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Ingibjörg Halldórsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica