Umhverfisráðuneyti

391/1995

Reglugerð um hunang - Brottfallin

Felld brott með:

I. KAFLI - Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um hunang samkvæmt skilgreiningu í 2. grein. Hún gildir þó ekki um hunang sem ætlað er til útflutnings til ríkja utan Evrópsks efnahagssvæðis.

2. gr.

Hunang er vara sem hunangsflugur framleiða úr hunangslegi blóma eða seytu jurta og sem þær safna, umbreyta, binda sérstökum efnum, geyma og láta þroskast í vaxkökum. Afurðirnar eru ýmist fljótandi, í föstu formi eða kristallaðar.

Blómahunang er hunang sem er aðallega fengið úr hunangslegi blóma.

Daggarhunang er hunang sem er aðallega fengið úr seytu jurta.

Vaxkökuhunang er hunang sem býflugur safna í hólf nýbyggðra lirfulausra vaxkaka og selt er í lokuðum vaxkökum, heilum eða í hlutum.

Hunang sem fengið er með dreypni er unnið með því að láta drjúpa af opnum lirfulausum vaxkökum.

Hunang sem fengið er með skiljun er hunang sem skilið er frá opnum lirfulausum vaxkökum í skilvindu.

Pressað hunang fæst með því að pressa lirfulausar vaxkökur við vægan eða engan hita.

Iðnaðarhunang er hunang sem telst hæft til manneldis, en hefur framandi lykt eða bragð, er byrjað að gerjast eða freyða eða hefur hlotið hitameðhöndlun. Virkni "díastasa" eða magn "hýdroxímetýlfurfurals" getur einnig verið umfram það sem tilgreint er í viðauka.

II. KAFLI - Samsetning og merking.

3. gr.

Ekki er heimilt að bæta efnum í hunang eða breyta efnasamsetningu þess með öðrum hætti. Við markaðssetningu skal samsetning hunangs vera í samræmi við það sem fram kemur í viðauka.

Hunang skal, að því marki sem slíkt er framkvæmanlegt, vera laust við aðskotaefni og aðskotahluti og að öðru leyti í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 518/1993 um aðskotaefni í matvælum.

4. gr.

Hunang, annað en iðnaðarhunang, má ekki hafa framandi bragð eða lykt, vera byrjað að gerjast eða freyða, eða sýrustig þess hafa tekið óeðlilegum breytingum. Óheimilt er að hita hunang að því marki að náttúrulegir lífhvatar þess hafi verið eyðilagðir eða gerðir óvirkir.

5. gr.

Auk þess að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, skal orðið "hunang" eða eitt þeirra heita sem talin eru upp í 2. gr. koma fram á umbúðum hunangs. Ef um iðnaðarhunang er að ræða skal það merkt sem slíkt.

6. gr.

Að iðnaðarhunangi undanskildu er heimilt að eftirfarandi komi fram á umbúðum hunangs:

  1. upplýsingar um blóma- eða jurtauppruna, að því tilskildu að afurðin sé nánast eingöngu af þeim uppruna sem um er getið og hafi eiginleika slíks hunangs, svo sem lykt og bragð;
  2. upplýsingar um landfræðilegan uppruna, ef unnt er að staðfesta að varan komi eingöngu frá tilteknu svæði;
  3. eiginleikar eða gæði, sem gera hunangið frábrugðið öðru sambærilegu hunangi.

III. KAFLI - Ýmis ákvæði og gildistaka.

7. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem um getur í viðauka séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

8. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

9. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

10. gr.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum öðlast gildi við birtingu. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 9. tölul., tilskipun 74/409/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi hunang.

Umhverfisráðuneytið, 6. júlí 1995.


Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.

Viðauki:

Sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica