Umhverfisráðuneyti

1248/2007

Reglugerð um takmörkun á notkun fjölhringa arómatískra vetniskolefna í mýkingarolíu og hjólbörðum. - Brottfallin

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir heilsu- og umhverfisskaða af völdum fjölhringa arómatískra vetniskolefna (PAH) í mýkingarolíu og hjólbörðum.

2. gr.

Skilgreiningar.

Markaðssetning: Innflutningur, dreifing og sala.

Mýkingarolía: Olía sem notuð er til þess að auka sveigjanleika gúmmís.

Fjölhringa arómatísk vetniskolefni (PAH): Lífræn efnasambönd, sem samanstanda af a.m.k. tveimur tengdum arómatískum hringjum, sem eingöngu eru sett saman úr kolefni og vetni.

Fjölhringa arómatar (PCA): Lífræn efnasambönd sem samanstanda af a.m.k. tveimur tengdum arómatískum hringjum.

3. gr.

Takmarkanir.

Mýkingarolíu má ekki markaðssetja eða nota til framleiðslu á hjólbörðum ef hún inniheldur meira en 1 mg/kg af benzó[a]pýreni eða meira en 10 mg/kg af summu þeirra PAH sem talin eru upp í viðauka I. Miðað skal við að mörkum skv. 1. málslið sé náð ef útdráttur PCA er innan við 3% miðað við massa, mælt með staðli Olíustofnunarinnar (Institute of Petroleum) IP346:1998, sbr. A-lið viðauka II.

Hjólbarða og sóla til sólunar hjólbarða sem framleiddir eru eftir gildistöku reglugerðar þessarar má ekki markaðssetja innihaldi þeir mýkingarolíu yfir hámarksgildum 1. málsl. 1. mgr. Miðað skal við að mörkum skv. 1. málslið sé náð ef skilyrði ISO staðals 21461 eru uppfyllt, sbr. B-lið viðauka II.

4. gr.

Undanþágur.

2. mgr. 3. gr. gildir ekki um sólaða hjólbarða ef magn mýkingarolíu í sólanum er undir hámarksgildum skv. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr.

5. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar, hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

6. gr.

Viðurlög.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt 26. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

7. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. og 29. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun 2005/69/EB um 27. breytingu á tilskipun 76/769/EBE varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna hættulegra efna og efnablanda (fjölhringja arómatísk vetniskolefni í mýkingarolíu og hjólbörðum), sem vísað er til í 4. tl. XV. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 107/2007, þann 29. september 2007.

Reglugerðin öðlast gildi 1. janúar 2010.

Umhverfisráðuneytinu, 13. desember 2007.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Ingibjörg Halldórsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica