Fara beint í efnið

Prentað þann 16. apríl 2024

Stofnreglugerð

1128/2005

Reglugerð um fjárhagslegan stuðning við sveitarfélög vegna einkaframkvæmda (eignar- og rekstrarleigu) á sviði fráveitumála á árinu 2005.

1. gr.

Heimilt er að veita sveitarfélögum styrki til stofnframkvæmda við fráveitur sem unnar eru á árinu 2005 og fjármagnaðar samkvæmt samningum um einkaframkvæmd, hvort sem er á grundvelli eignarleigu- eða rekstrarleigusamnings.

2. gr.

Fráveitunefnd umhverfisráðuneytisins fjallar um styrkumsóknir og framkvæmda- og kostnaðaráætlanir sveitarfélaga skv. reglugerð þessari og áætlar styrkhæfni hverrar áætlaðrar framkvæmdar. Fráveitunefnd fjallar um upplýsingar sveitarfélaga um raunkostnað við framkvæmdir og metur og staðfestir kostnað við styrkhæfar framkvæmdir í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Á grundvelli þeirrar staðfestingar gerir fráveitunefnd tillögur til umhverfisráðherra um styrkveitingu og getur styrkurinn numið allt að upphæð virðisaukaskatts af heildarkostnaði við styrkhæfar framkvæmdir.

3. gr.

Það er skilyrði fyrir styrk að um stofnframkvæmd við fráveitu sé að ræða. Styrkurinn skal fara til greiðslu kostnaðar við framkvæmdina og skal í samningi við framkvæmdaraðila gengið þannig frá málum að fjárhæðin sé tryggð með ábyrgð svo sem bankaábyrgð eða með forkaupsrétti sveitarfélagsins þar sem um rekstrarleigusamning er að ræða. Skuldbindingar sem sveitarfélögin taka á sig vegna rekstrarleigu skulu koma fram í ársreikningum þeirra.

4. gr.

Um framkvæmd mála fer samkvæmt lögum um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995, með síðari breytingum.

5. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 3. gr. laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, nr. 53/1995, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 12. desember 2005.

Sigríður A. Þórðardóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.