Umhverfisráðuneyti

562/2005

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 609/1996 með síðari breytingum, um meðferð umbúða og umbúðaúrgang.

1. gr.

Við 3. gr. bætist ný mgr. sem orðast svo:
Notkun af ásettu ráði: þegar efni er notað af ásettu ráði í umbúðir eða hluta umbúða í því skyni að búa til lokaafurð með tiltekna eiginleika, útlit eða af tilteknum gæðum. Það telst ekki notkun af ásettu ráði þegar endurunnin efni, sem innihalda ef til vill að hluta þá málma sem tilgreindir eru í 6. gr. reglugerðar þessarar, eru hráefni í framleiðslu nýrra umbúða.


2. gr.

6. gr. orðast svo:
Samanlagður heildarstyrkur blýs, kadmíums, kvikasilfurs og sexgilds króms í umbúðum skal ekki fara yfir 100 ppm miðað við þyngd. Einungis er heimilt að fara yfir styrkleikamörkin fyrir umbúðaefni ef endurunnum efnum hafi verið bætt í.

Óheimilt er að nota af ásettu ráði blý, kadmíum, kvikasilfur eða sexgilt króm við framleiðslu umbúða.

Styrkur sem um getur í 1. mgr. skal ekki gilda um umbúðir sem eru eingöngu úr blýkristallsgleri samanber reglur um samsetningu, framleiðslueiginleika og merkingu á kristalsgleri.

Ef meðalstyrkur þungmálma fer tólf mánuði í röð yfir styrkleikamörkin 200 ppm miðað við þyngd þegar tekin eru mánaðarleg sýni úr framleiðslunni úr hverjum glerofni og framleiðslan er dæmigerð fyrir eðlilega og reglulega framleiðslustarfsemi, skal framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans taka sama og senda skýrslu til Umhverfisstofnunar þegar vara er framleidd hér á landi eða markaðssett hér á landi í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu. Í skýrslunni skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi upplýsingar:

a. Mæligildi.
b. Lýsing á mæliaðferðunum sem notaðar voru.
c. Hver sé líklegur uppruni þeirra þungmálma sem mælist í þessum styrk.
d. Lýsing á ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að draga úr styrk þungmálma.

Ef hvorki framleiðandi né viðurkenndur fulltrúi hans hafa fast aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu skal innflytjandi sem markaðssetur vöruna hér á landi sbr. 4. mgr. taka saman og senda skýrslu skv. 4. gr. til Umhverfisstofnunar ef varan er markaðssett hér á landi í fyrsta sinn á Evrópska efnahagssvæðinu.

Umhverfisstofnun er heimilt að óska eftir upplýsingum um mæliniðurstöður frá framleiðslustöðum og um þær mæliaðferðir sem notaðar eru þrátt fyrir ákvæði 4. og 5. mgr.


3. gr.

8. gr. orðast svo:
Frá 1. júlí 2001 skal minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs endurnýtt eða brennt í sorpbrennslustöð með orkuvinnslu.

Innan þeirra marka og á sama tíma, og um getur í 1. mgr., skal minnst 25% og mest 45% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi endurunnið, þar af minnst 15% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi fyrir hverja tegund umbúðaefnis.

Eftir 31. desember 2011 skal minnst 60% af þyngd umbúðaúrgangs endurnýtt eða brennt í sorpbrennslustöð með orkuvinnslu.

Innan þeirra marka og á sama tíma og um getur í 3. mgr., skal að lágmarki ná eftirfarandi markmiðum í endurvinnslu einstakra umbúðaefna í umbúðaúrgangi fyrir hverja tegund umbúðaefnis;

a. 60% af þyngd fyrir gler
b. 60% af þyngd fyrir pappír og pappa
c. 50% af þyngd fyrir málma
d. 22,5% af þyngd fyrir plast, þar sem eingöngu er tekið mið af plasti sem er endurunnið aftur í plast
e. 15% af þyngd fyrir timbur.


4. gr.

9. grein fellur niður.


5. gr.

Í stað orðanna: "Hollustuvernd ríkisins" í 1. mgr. 10. gr. og hvarvetna annars staðar í reglugerðinni kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfisstofnun.


6. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum, 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/171/EB, frá 19. febrúar 2001, um undanþáguskilyrði fyrir glerumbúðir að því er varðar styrk þungmálma sem ákveðinn er í tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang, sem vísað er til í tl. 7d, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2001, þann 29. september 2001. Reglugerðin innleiðir að hluta tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/12/EC, frá 11 febrúar 2004, um breytingu á tilskipun 94/62/EB um umbúðir og umbúðaúrgang, sem vísað er til í tl. 7, XVII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 36/2005, þann 12. mars 2005.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.


Umhverfisráðuneytinu, 6. júní 2005.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigríður Auður Arnardóttir.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica