Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfisráðuneyti

90/1990

Reglugerð um fólksflutninga með langferðabifreiðum - Brottfallin

REGLUGERÐ

um fólksflutninga með langferðabifreiðum.

I. KAFLI

Gildissvið.

1. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 53/1987 um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum og gildir um reglubundna og óreglubundna fólksflutninga í atvinnuskyni með bifreiðum, sem rúma níu farþega eða fleiri og um reglubundna fólksflutninga með bifreiðum, sem rúma þrjá til átta farþega. Reglugerðin gildir ekki um ferðir starfsfólks að og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda með eigin bifreiðum hans og akstur skólabarna úr og í skóla.

Reglubundnir fólksflutningar eru fastar ferðir á ákveðinni leið samkvæmt fyrirfram birtri áætlun einu sinni eða oftar í viku allt árið eða hluta þess. Óreglubundnir fólksflutningar eru aðrir fólksflutningar en reglubundnir.

Leyfi ráðuneytis þarf til að hafa með höndum fólksflutninga í atvinnuskyni, sem reglugerð þessi nær til. Slík leyfi eru sérleyfi, leyfi til hópferða og leyfi til sætaferða.

 

II. KAFLI

Skipulagsnefnd fólksflutninga.

2. gr.

Skipulagsnefnd fólksflutninga er samgönguráðherra til ráðuneytis um leyfisveitingar og önnur þau mál sem þessum flutningum tilheyra. Áður en ráðuneytið veitir leyfi til fólksflutn­inga í atvinnuskyni skal það leita umsagnar hennar.

Skipulagsnefnd er skipuð sjö mönnum. Á nefndarfundum skal halda gerðabók þar sem ákvarðanir og samþykktir skulu skilmerkilega færðar til bókar. Allir nefndarmenn undirrita fundargerð. Hún setur sér starfsreglur, sem taka gildi þegar ráðuneytið staðfestir þær.

Skipulagsnefnd hefur með höndum umsjón og eftirlit með framkvæmd laga og reglugerð­ar um fólksflutninga með langferðabifreiðum og fylgist með því að leyfishafar fari eftir þeim. Hún skal láta safna saman upplýsingum frá sérleyfis- og hópferðaleyfishöfum um tölu farþega, ferðafjölda, rekstrarreikninga og annað, er máli skiptir varðandi leyfisskyldan akstur. Jafnframt skal hún beita sér fyrir bættu skipulagi, starfsháttum og aukinni hagkvæmni í fólksflutningum með langferðabifreiðum. Telji hún nauðsynlegt að ráða starfsmann og sérstakan eftirlitsmann eða trúnaðarmenn á nokkrum stöðum á landinu er slíkt heimilt með samþykki samgönguráðherra.

 

III. KAFLI

Sérleyfi.

3. gr.

Sérleyfi. Sérleyfi er leyfi til reglubundinna fólksflutninga og er veitt samkvæmt 5. gr. laga 53/1987. Umsækjandi um sérleyfi skal útfylla þar til gert umsóknareyðublað og skal í umsókn sinni skýra frá bifreiðakosti sínum, er kann ætlar að nota til flutninganna, ástæðu fyrir leyfisumsókn ásamt öðrum þeim upplýsingum er skipulagsnefnd óskar eftir.

 

4. gr.

Ferðaáætlun.

Ferðaáætlanir sérleyfishafa skulu háðar samþykki skipulagsnefndar. Við umfjöllun ferðaáætlana skal hafa hliðsjón af upplýsingum og tillögum frá viðkomandi sveitarstjórn, hafi þær borist nefndinni.

Sérleyfishafa er óheimilt að leggja niður ferðir á sérleyfisleið eða fækka þeim nema með samþykki skipulagsnefndar. Óski sérleyfishafi eftir breytingu á ferðaáætlun skal hann senda skipulagsnefnd skriflega beiðni um það og getur hún breytt ferðaáætlun, ef sérstök ástæða er til. Seinki sérleyfisferðum eða falli þær niður af óviðráðanlegum ástæðum, skal sérleyfishafi þegar tilkynna það skipulagsnefnd og tilgreina ástæður.

 

5. gr.

Skyldur sérleyfishafa.

Á sérleyfisleið eða hluta hennar er sérleyfishafa einum heimilt og skylt að halda uppi fólksflutningum eftir föstum áætlunum.

Sérleyfishafa er skylt að fullnægja flutningaþörf á þeirri leið, sem sérleyfi hans tekur til, eftir því sem fram er tekið í sérleyfi hans. Þar sem fleirum en einum er veitt sérleyfi til fólksflutninga á sömu leið má ákveða, að einn þeirra eða fleiri sé aðalsérleyfishafi og ber hann eða þeir ábyrgð á að flutningsþörfinni sé fullnægt, en hinir hafa aðeins þann takmarkaða rétt til ferða, sem ákveðinn er í sérleyfinu.

Farþega er heimilt að hafa með sér án sérstakrar greiðslu farangur allt að 20 kg. að þyngd. Sérleyfishafa er skylt að láta afhenda farþegum kvittun með réttu verði fyrir farinu, sé þess óskað.

 

6. gr.

Sérleyfisbifreiðar.

Við sérleyfisakstur ber leyfishafa að nota bifreið, sem fullnægir gæða- og tæknikröfum skipulagsnefndar og er samþykkt af trúnaðarmönnum hennar.

Sérleyfishafa er skylt, ef bifreið hans bilar, að útvega aðra í hennar stað, eftir því sem við verður komið hverju sinni, en er ekki skylt að leggja til aukabifreið fyrir færri farþega en fimm nema farþegi hafi pantað far minnst einni klukkustund áður en áætlunarferðin hefst.

Sérleyfishafa ber að hafa framan á bifreiðum sínum, í föstum áætlunarferðum, greinilega merkt nafn leiðar sem bifreiðin ekur.

 

IV. KAFLI

Leyfi til hópferða.

7. gr.

Leyfi.

Leyfi til hópferða er leyfi til óreglubundinna fólksflutninga þegar greitt er ákveðið heildargjald fyrir þjónustu ökutækisins án tillits til nýtingar þess og er veitt samkvæmt 6. gr. laga nr. 53/1987. Samningsbundinn flutningur starfsfólks á vinnustað fyrirtækis eða með farþega að og frá flugvelli með bifreiðum, sem viðkomandi fyrirtæki á ekki sjálft, skal talinn hópferðaakstur.

Umsækjandi um leyfi til hópferða skal útfylla þar til gert umsóknareyðublað og skal í umsókn sinni skýra frá bifreiðakosti sínum er kann ætlar að nota til flutninganna, ástæðu fyrir leyfisumsókn ásamt öðrum þeim upplýsingum er skipulagsnefnd óskar eftir.

 

8. gr.

Hópferðabifreiðar.

Við hópferðaakstur ber leyfishafa að nota bifreið, sem fullnægir gæða- og tæknikröfum skipulagsnefndar og er samþykkt af trúnaðarmönnum hennar og kann er skráður eigandi að eða hefur umráð yfir samkvæmt kaupleigusamningi við eignarleigufyrirtæki samkvæmt lögum um eignarleigustarfsemi. Við framsal eða riftun á kaupleigusamningi fellur hópferðaleyfi niður.


 

9. gr.

Hópferðaafgreiðslur. Samgönguráðuneytið getur að beiðni Félags hópferðaleyfishafa og Félags sérleyfishafa viðurkennt hópferðaafgreiðslu að fenginni umsögn skipulagsnefndar. Samgönguráðuneytið getur bundið veitingu hópferðaleyfis því skilyrði, að leyfishafi sé skráður í afgreiðslu á viðurkennda hópferðaafgreiðslu. Ráðuneytið heldur skrá yfir viðurkenndar hópferðaaf­greiðslur.

Forstöðumaður hópferðaafgreiðsla skal fylgjast með því að leyfishafar, sem þar hafa afgreiðslu, fari eftir ákvæðum laga og reglugerðar um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum og eftir atvikum gera skipulagsnefnd viðvart, ef út af er brugðið.

 

10. gr.

Fjöldi leyfa.

Við veitingu leyfa til hópferða í fyrsta sinn samkvæmt reglugerð þessari skal miða við að fjöldi þeirra verði ekki meiri en er við gildistöku hennar. Við síðan veitingar leyfa til hópferða skal skipulagsnefnd endurskoða heildarfjölda þeirra með hliðsjón af flutningaþörf.

 

11. gr.

Veiting leyfa.

Veiting leyfa til hópferða skal fara fram þegar hennar er þörf að mati skipulagsnefndar, þó eigi sjaldnar en einu sinni á hverju almanaksári. Við veitingu leyfa til hópferða skal að jafnaði fylgja þeirri reglu að þeir sitji fyrir réttindum, sem hafa hópferðaakstur að aðalat­vinnu.

 

V. KAFLI

Leyfi til sætaferða.

12. gr.

Leyfi til sætaferða er leyfi til óreglubundinna fólksflutninga á ákveðinni leið þegar seld eru einstök sæti og er veitt samkvæmt 7. gr. laga nr. 53/1987.

Gildistími slíkra leyfa skal eigi vera lengri en eitt ár í senn.

Auk leyfa til sætaferða er heimilt að veita leyfi til einstakra ferða og gilda sömu reglur um slíkar leyfisveitingar, eftir því sem við á.

 

VI. KAFLI

Ýmis ákvæði.

13. gr.

Sérleyfis- og hópferðaleyfishöfum er skylt að láta skipulagsnefnd í té upplýsingar um tölu farþega,.ferðafjölda, rekstrarreikninga og annað, er máli skiptir varðandi leyfisskyldan akstur, eftir óskum nefndarinnar á hverjum tíma.

 

14. gr.

Skipulagsnefnd skal veita viðtöku rökstuddum kvörtunum frá leyfishöfum, farþegum þeirra og öðrum hagsmunaaðilum, enda séu þær skriflegar. Sé um að ræða meint brot á lögum um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum eða reglugerðum, sendir skipulagsnefnd málið til viðkomandi yfirvalda.

Nú treystir leyfishafi sér ekki lengur að hlíta skilmálum laga og reglugerðar um skipulag fólksflutninga með langferðabifreiðum og ber honum þá að tilkynna það þegar í stað skriflega til ráðuneytis, en brjóti leyfishafar ákvæði laga nr. 53/1987 eða þessarar reglugerðar, er ráðherra heimilt samkvæmt tillögum skipulagsnefndar að svipta þá viðkomandi réttindum þegar í stað.


 

15. gr.

Leyfishafar, bifreiðastjórar þeirra og afgreiðslumenn skulu gæta þess að sýna farþegum lipurð og kurteisi í afgreiðslu og allri umgengni og sjá til þess eins og kostur er að ferðin verði sem þægilegust fyrir farþega og gæta þess að óþarfa hávaði angri ekki farþega. Þeir skulu halda bifreiðum sínum þrifalegum að utan og innan eftir því sem við verður komið. Einnig skal hafa áletrun á skráningarmerki bifreiða ætíð vel læsileg, þegar aðstæður leyfa. Um reykingar í langferðabifreiðum fer eftir lögum um tóbaksvarnir.

Skipulagsnefnd skal láta útbúa rúðumerki fyrir sérleyfis- og hópferðabifreiðar og ber leyfishöfum að setja rúðumerki þessi á bifreiðar sínar, er sýni að bifreiðin hafi tilskilin leyfi til fólksflutninga. Leyfishafa er óheimilt að nota aðrar bifreiðar til sérleyfis- og hópferðaaksturs, en þær sem leyfi hljóðar á.

 

16. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal farið með slík mál að hætti opinberra mála.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi og staðfestist hér með til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 641 frá 31. ágúst 1983 um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum.

 

Samgönguráðuneytið, 12. febrúar 1990.

 

Steingrímur J. Sigfússon.

Helgi Jóhannesson.

 
Þetta vefsvæði byggir á Eplica