Umhverfisráðuneyti

609/1996

Reglugerð um meðferð umbúða og umbúðaúrgangs.

I. KAFLI

Tilgangur, gildissvið o.fl.

1. gr.

Markmið.

Markmið þessarar reglugerðar er að tryggja að umbúðaúrgangur hafi sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Jafnframt er það markmið reglugerðarinnar að draga úr því magni umbúða sem er fargað, að minnka heildarrúmmál umbúða, að koma í veg fyrir myndun umbúðaúrgangs og að stuðla að endurnotkun umbúða og endurnýtingu umbúðaúrgangs.

 

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til allra umbúða sem settar hafa verið á markað og alls umbúðaúrgangs, hvort sem hann er notaður í eða kemur frá iðnaði og annarri vöruframleiðslu, skrifstofum, verslunum, þjónustufyrirtækjum, heimilum eða annars staðar frá, án tillits til þess úr hvaða efni umbúðirnar eru, nema sérlög eigi við.

Reglugerð þessi er sett með fyrirvara um gildandi gæðakröfur fyrir umbúðir, svo sem þær sem varða öryggi, hollustu og heilnæmi vöru í umbúðum, með fyrirvara um gildandi flutningskröfur og með fyrirvara um kröfur vegna spilliefnaförgunar.

 

3. gr.

Skilgreiningar.

Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

Umbúðir: allar vörur sem framleiddar eru, úr hvaða efni sem er og af hvaða gerð sem er, til að halda utan um vöru, vernda hana, meðhöndla, flytja, afhenda og kynna hana, hvort sem um er að ræða hráefni eða fullunna vöru, á öllum stigum frá framleiðanda til endanlegs notanda. Einnota hlutir sem eru notaðir í sama tilgangi skulu einnig teljast til umbúða. Undir umbúðir falla aðeins:

a)             söluumbúðir eða grunnumbúðir (fyrsta stigs umbúðir), þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær sölueiningu fyrir endanlegan notanda eða neytanda;

b)            safnumbúðir (annars stigs umbúðir), þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að á sölustað mynda þær safn tiltekins fjölda sölueininga, hvort sem þær eru seldar sem slíkar til endanlegs notanda eða neytanda eða aðeins notaðar við geymslu í hillum á sölustað. Hægt er að fjarlægja vöruna úr þeim án þess að það hafi áhrif á eiginleika hennar;

c)             flutningsumbúðir (þriðja stigs umbúðir), þ.e. umbúðir sem eru þannig gerðar að þær auðvelda meðferð og flutning tiltekins fjölda sölueininga eða safnumbúða til að koma í veg fyrir tjón á vörunni við meðferð hennar og flutning. Gámar til vöruflutninga á landleiðum, með skipum og flugvélum eru ekki taldir til flutningsumbúða.

Umbúðaúrgangur: allar umbúðir eða umbúðahráefni sem fjallað er um í viðauka 18 í mengunarvarnareglugerð, að undanskildum framleiðsluleifum.

Meðhöndlun umbúðaúrgangs: meðhöndlun úrgangs eins og hún er skilgreind í mengunarvarnareglugerð.

Að koma í veg fyrir: að minnka magn og draga úr skaðlegum umhverfisáhrifum af völdum efna sem finnast í umbúðunum sjálfum og umbúðaúrgangi á framleiðslustigi og á meðan umbúðir eru markaðssettar, þeim er dreift, þær notaðar og þeim síðan fargað, sérstaklega með því að þróa _hreinni" tækni og _hreinar" vörur.

Endurnotkun: allar aðgerðir þar sem umbúðir, sem eru hannaðar þannig að unnt sé að nota þær að minnsta kosti nokkrum sinnum á endingarferli þeirra, eru enduráfylltar eða notaðar í sama tilgangi og áður, með eða án aukaafurða sem til eru á markaðinum og gera það kleift að enduráfylla umbúðirnar. Slíkar umbúðir verða að umbúðaúrgangi þegar ekki er lengur hægt að endurnota þær.

Endurnýting: allar aðgerðir sem leitt gætu til nýtingar, sbr. viðauka II-B, í 18. viðauka í mengunarvarnareglugerð.

Endurvinnsla: endurframleiðsla úrgangsefna til upprunalegra eða annarra nota, þar með talin lífræn endurvinnsla en ekki orkuvinnsla.

Orkuvinnsla: notkun brennanlegs umbúðaúrgangs til að framleiða orku beint við brennslu með eða án annars úrgangs en með nýtingu varmans.

Lífræn endurvinnsla: loftháð meðferð (mylting) eða loftfirrt meðferð (gasmyndun) samkvæmt tiltekinni áætlun og með aðstoð örvera á þeim hluta umbúðaúrgangs sem brotnar niður í stöðug lífræn efni eða metan. Urðun úrgangs telst ekki lífræn endurvinnsla.

Förgun: allar aðgerðir sem kveðið er á um í viðauka II-A, í 18. viðauka í mengunarvarnareglugerð.

Upplýsingaskyldir aðilar: í tengslum við umbúðir er um að ræða birgja umbúðaefna, þá sem framleiða umbúðir eða vinna úr þeim, þá sem fylla á umbúðir og nota þær, þá sem flytja þær inn, versla með þær eða dreifa þeim, opinberar stofnanir og ýmis samtök er málið varðar.

 

II. KAFLI

Um umbúðir.

4. gr.

Grunnkröfur.

Eftir 1. júlí 1999 má aðeins setja á markað umbúðir sem eru í samræmi við allar kröfur sem kveðið er á um í reglugerð þessari, þ.m.t. grunnkröfur í I. viðauka þessarar reglugerðar um samsetningu umbúða og möguleika á endurnotkun og endurnýtingu þeirra.

 

5. gr.

Auðkenningarkerfi.

Til að greiða fyrir söfnun, endurnotkun og endurnýtingu, þar með talinni endurvinnslu, skal tilgreina úr hverju umbúðaefnið/efnin eru gerð til að hægt sé að bera kennsl á þau og flokka.

Auðkenningarkerfi verður gefið út eigi síðar en 1. júlí 1997 sem viðauki við reglugerð þessa.

Umbúðirnar skulu merktar á viðeigandi hátt, annaðhvort á umbúðirnar sjálfar eða á merkimiða sem á þær er festur. Merkingar skulu vera augsýnilegar og auðlæsilegar. Merkingar skulu halda sér og endast eins og við á, einnig þegar umbúðirnar eru opnaðar.

 

III. KAFLI

Markmið.

6. gr.

Styrkur þungmálma í umbúðum.

Heildarstyrkur blýs, kadmíums, kvikasilfurs og sexgilds króms í umbúðum skal ekki fara yfir:

600 ppm miðað við þyngd, eftir 1. júlí 1998.

250 ppm miðað við þyngd, eftir 1. júlí 1999.

100 ppm miðað við þyngd, eftir 1. júlí 2001.

Styrkur sem um getur í 1. mgr. skal ekki gilda um umbúðir sem eru eingöngu úr blýkristallsgleri eins og það er skilgreint í tilskipun 69/493/EB.

 

7. gr.

Minnkun umbúðaúrgangs og endurnotkun umbúða.

Setja skal upp áætlun um hvernig komið verður í veg fyrir myndun umbúðarúrgangs og hvernig umbúðir verði endurnotaðar. Við gerð þessarar áætlunar skal meðal annars taka mið af kröfum um verndun umhverfis og um hreinlæti, um heilbrigði og öryggi neytenda, um verndun gæða, ósvikni og tæknilega eiginleika þeirra pökkuðu vara og hráefna sem notuð eru, svo og verndun hugverkaréttar á sviði iðnaðar og viðskipta.

 

8. gr.

Endurnýting og endurvinnsla umbúðaúrgangs.

Eftir 1. júlí 2001 skal í minnst 50% og mest 65% af þyngd umbúðaúrgangs endurnýtt.

Innan þeirra marka og á sama tíma, og um getur í 1. mgr., skal minnst 25% og mest 45% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi endurunnið, þar af minnst 15% af þyngd allra umbúðaefna í umbúðaúrgangi fyrir hverja tegund umbúðaefnis.

Orkuvinnsla úr umbúðaúrgangi og lífræn endurvinnsla umbúðaúrgangs eru aðferðir til endurnýtingar.

 

9. gr.

Áætlun að markmiðunum.

Til að ná markmiðum samkvæmt 6. - 8. gr. reglugerðar þessarar og til að setja upp áætlun þar að lútandi, skipar umhverfisráðherra umsjónarnefnd samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila: Hollustuverndar ríkisins, Vinnuveitendasambands Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Umsjónarnefndin skal hafa lokið við gerð áætlunarinnar eigi síðar en ári eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

 

IV. KAFLI

Um upplýsingar.

10. gr.

Upplýsingakerfi.

Hollustuvernd ríkisins, eða aðili sem stofnunin semur við, skal koma upp og varðveita gagnagrunn um umbúðir og umbúðaúrgang. Allir upplýsingaskyldir aðilar sem málið varðar skulu veita Hollustuvernd ríkisins, eða aðila sem stofnunin hefur samið við, áreiðanleg gögn um atvinnugrein sína.

Tillit skal taka til þeirra sérvandamála sem fylgja því fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki að útvega ítarleg gögn.

 

11. gr.

Upplýsingar fyrir notendur umbúða.

Eigi síðar en 1. júlí 1998 skal Hollustuvernd ríkisins veita notendum umbúða, en þar er einkum átt við neytendur, nauðsynlegar upplýsingar um þau skilagjalds-, söfnunar- og endurnýtingarkerfi sem þeir hafa aðgang að, um hvaða þátt þeir geti átt í því að stuðla að endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu umbúða og umbúðaúrgangs, um hvað felst í þeim umbúðamerkingum sem eru á markaðinum og loks um þá þætti í áætlunum um meðhöndlun umbúða og umbúðaúrgangs sem koma neytendum við.

V. KAFLI

Eftirlit og brot.

12. gr.

Eftirlit.

Hollustuvernd ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar.

 

13. gr.

Viðurlög.

Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum.

 

VI. KAFLI

Gildistaka o.fl.

14. gr.

Undanþágur.

Kröfur varðandi framleiðslu umbúða skulu ekki í neinu tilfelli gilda um umbúðir sem notaðar eru fyrir tiltekna vöru fyrir 1. janúar 1995.

Til 31. desember 1999 skal leyfa notkun umbúða sem eru framleiddar fyrir 1. janúar 1995 og eru í samræmi við önnur lög og reglugerðir varðandi umbúðir.

 

15. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, ásamt síðari breytingum og 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og í samræmi við 7. tölulið XVII. kafla í II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (tilskipun 94/62/EB, um umbúðir og umbúðaúrgang).

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

 

Umhverfisráðuneytinu, 19. nóvember 1996.

 

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

 

 

 

I. VIÐAUKI

Grunnkröfur um samsetningu umbúða og möguleika á endurnotkun og endurnýtingu þeirra þar með talinni endurvinnslu.

 

1. Sérstakar kröfur varðandi framleiðslu og samsetningu umbúða.

Umbúðir skal framleiða þannig að rúmmáli og þyngd umbúðanna sé haldið í því lágmarki sem nægir til að viðhalda því öryggis-, hollustu- og viðurkenningarstigi sem er nauðsynlegt fyrir umbúðavöruna og gagnvart neytendum.

Umbúðir skal hanna, framleiða og markaðssetja þannig að unnt sé að endurnota þær og endurnýta, þar með talið endurvinna, og halda áhrifum þeirra á umhverfið í lágmarki þegar umbúðaúrgangi eða leifum frá meðhöndlun umbúðaúrgangs er fargað.

Umbúðir skal framleiða þannig að skaðleg efni og önnur hættuleg efni og grunnefni í umbúðunum eða efnisþáttum þeirra séu í lágmarki í útgeislun, ösku eða sigvatni þegar brenna eða urða á umbúðir eða leifar eftir meðhöndlun umbúðaúrgangs.

 

2. Sérstakar kröfur varðandi möguleika á endurnotkun umbúða.

Eftirfarandi kröfum skal fullnægt samtímis:

efnislegir eiginleikar umbúðanna skulu vera þannig að unnt sé að endurnota umbúðirnar nokkrum sinnum við eðlilegar, fyrirsjáanlegar aðstæður,

mögulegt skal vera að meðhöndla notaðar umbúðir þannig að kröfum um heilsu og öryggi vinnuafls sé fullnægt,

umbúðir skulu fullnægja kröfum um möguleika á endurnýtingu þegar umbúðirnar eru ekki lengur endurnotaðar og teljast því úrgangur.

 

3. Sérstakar kröfur varðandi möguleika á endurnýtingu umbúða.

a)             Endurnýting með endurvinnslu efna.

                Umbúðir skal framleiða þannig að unnt sé að endurvinna ákveðið hlutfall af þyngd efnanna sem eru notuð og gera úr þeim markaðshæfa vöru í samræmi við gildandi staðla bandalagsins. Hlutfallið getur verið mismunandi eftir því úr hvaða efni umbúðirnar eru.

b)            Endurnýting með orkuvinnslu.

                Umbúðaúrgangur sem er unninn til orkuvinnslu skal hafa lágmarksbrennsluvarma til að ná hámarkshagkvæmni í vinnslu orkunnar.

c)             Endurnýting með myltingu.

                Umbúðaúrgangur sem er unninn í því skyni að mylta hann skal geta brotnað niður lífrænt að því marki að það hindri ekki sérstaka söfnun og myltingarvinnslu úrgangsins eða moltnun hans.

d)            Umbúðir sem geta brotnað lífrænt niður.

Umbúðaúrgang sem getur brotnað lífrænt niður skal vera unnt að mylta með eðlisfræðilegum, efnafræðilegum eða lífrænum aðferðum þannig að stærstur hluti moltunnar brotni að lokum niður í koldíoxíð, lífmassa og vatn.

 

II. VIÐAUKI.

Auðkenningarkerfi

Nota skal tölurnar 1 til 19 fyrir plast, 20 til 39 fyrir pappír og pappa, 40 til 49 fyrir málma, 50 til 59 fyrir við, 60 til 69 fyrir textílefni og 70 til 79 fyrir gler.

 

Í auðkenningarkerfinu má einnig nota skammstafanir fyrir viðeigandi efni (t.d. HDPE: High Density Polyethylene (þétt pólýetýlen)). Hægt er að auðkenna efni með talna- og/eða skammstöfunarkerfi. Auðkennin skulu birtast fyrir miðju eða fyrir neðan myndtákn um möguleika á endurnotkun eða endurnýtingu umbúðanna.

III. VIÐAUKI

Gagnagrunnur fyrir umbúðir og umbúðaúrgang.

 

Í gagnagrunnum um umbúðir og umbúðaúrgang skulu vera eftirfarandi gögn í samræmi við töflur 1 til 4.

1.             Að því er varðar grunnumbúðir, annars stigs umbúðir og þriðja stigs umbúðir:

                a)             magn umbúða sem er notað í landinu, flokkað eftir helstu efnum (framleiðsla + innflutningur - útflutningur) (tafla 1);

                b)            endurnotað magn (tafla 2).

2.             Að því er varðar umbúðaúrgang frá heimilum og öðrum:

                a)             magn umbúða sem er endurnýtt og fargað í landinu, flokkað eftir helstu efnum (framleiðsla + innflutningur - útflutningur) (tafla 3);

                b)            magn endurunnins og magn endurnýtts úrgangs, flokkað eftir helstu efnum           (tafla 4).

 

TAFLA 1

Magn umbúða (grunn-, annars stigs og þriðja stigs umbúða) sem notað er.

 

 

               

Framleitt magn í tonnum

- Útflutt magn í tonnum

+ Innflutt magn í tonnum

=

Samtals

Gler

Plast

Pappír/pappi (þ.m.t. samsetningar)

Málmur

Viður

Annað

Samtals

 

 

 

TAFLA 2

Magn umbúða (grunn-, annars stigs og þriðja stigs umbúða) sem notað er.

 

 

Magn notaðra

Endurnotaðar umbúðir

umbúða í tonnum

Tonn      Hlutfall

Gler

Plast

Pappír/pappi (þ.m.t. samsetningar)

Málmur

Viður

Annað

Samtals

 

TAFLA 3

Magn umbúðaúrgangs sem er endurnýtt eða fargað.

 

 

 

                Framleitt magn úrgangs í tonnum                

- Útflutt magn úrgangs í tonnum                

+ Innflutt magn úrgangs í tonnum

= Samtals

 Úrgangur frá heimilum

 Glerumbúðir

 Plastumbúðir

 Pappírs-/pappaumbúðir

 Samsettar pappaumbúðir

 Málmumbúðir

 Viðarumbúðir

 Heildarúrgangurfrá heimilum

 Úrgangur frá öðrum en heimilum

 Glerumbúðir

 Plastumbúðir

 Pappírs-/pappaumbúðir

 Samsettar pappaumbúðir

 Málmumbúðir

 Viðarumbúðir

 Heildarúrgangur frá öðrum en heimilum

 

 

TAFLA 4

Magn umbúðaúrgangs sem er endurunnið eða endurnýtt.

 

 

 

Heildarmagn sem er endurnýtt eða fargað í tonnum

Endurunnið magn

Tonn Hlutfall

Endurnýtt magn

Tonn Hlutfall

 

Úrgangur frá heimilum

Glerumbúðir

Plastumbúðir

Pappírs-/pappaumbúðir

Samsettar pappaumbúðir

Málmumbúðir

Viðarumbúðir

Heildarúrgangurfrá heimilum

 Úrgangur frá öðrum en heimilum

 Glerumbúðir

 Plastumbúðir

 Pappírs-/pappaumbúðir

 Samsettar pappaumbúðir

 Málmumbúðir

 Viðarumbúðir

 Heildarúrgangur frá öðrum en heimilum

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica