Iðnaðarráðuneyti

621/1980

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, sbr. breytingar nr. 177/1978, 178/1978 og 462/1979. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

1.gr.

c. liður 127. gr. hljóði svo:

Eigendur raforkuvera og rafveitna skulu greiða Rafmagnseftirliti ríkisins rafveitueftirlitsgjald sem nemur 1.2% af heildarandvirði raforkusölu þeirra og heildarendurgjaldi fyrir leigu mælitækja að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, söluskatti, orkujöfnunargjaldi og verðjöfnunargjaldi.

Orkustofnun annast innheimtu rafveitueftirlitsgjalds fyrir hönd Rafmagnseftirlits ríkisins. Sérhver gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur skila skýrslu til Orkustofnunar mánaðarlega ásamt greiðslu þar sem greint er frá fjárhæð raforkusölu til kaupenda í síðasta almanaksmánuði, mælaleigu, aðkeyptri raforku, söluskatti, orkujöfnunargjaldi, verðjöfnunargjaldi og endurgreiðslu fyrir ofgreidda raforku eftir atvikum, svo og fjárhæð rafveitueftirlitsgjalds sem inna ber af hendi. Skýrslan skal undirrituð af þeim aðila, manni eða mönnum, sem heimild hafa til að skuldbinda gjaldskylda aðila, eða öðrum þeim, sem til þess hafa sérstakt umboð eða umboð samkvæmt stöðu sinni. Skýrslunni skal skilað í fjórriti og áritar Orkustofnun eitt afritið um móttöku skýrslunnar og dagsetningu móttöku. Skili gjaldskyldur aðili ekki skýrslu á réttum tíma skal Orkustofnun áætla orkusölu þess aðila á grundvelli raforkusölu síðustu 12 mánaða og annarra atriða er máli skipta.

Nú notar eigandi raforkuvers sjálfur alla þá orku sem þar er unnin eða verulegan hluta hennar og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu og má þá miða gjaldið við áætlaða orkunotkun, málafl rafala í raforkuveri eða við kostnað af eftirlitinu og greiðist Rafmagnseftirliti ríkisins samkvæmt reikningi þess.

d. liður 127. gr. hljóði svo:

Greiða skal Rafmagnseftirliti ríkisins gjald fyrir eftirlit þess með uppsetningu nýrra raforkuvirkja og raforkuvirkja á byggingarsvæðum. Skal miða gjaldið við kostnað af eftirlitinu og greiðast Rafmagnseftirlitinu samkvæmt reikningi þess.

e. liður 127. gr, hljóði svo:

Gjalddagi rafveitueftirlitsgjalds er 15. dagur næsta mánaðar eftir sölumánuð. Gjalddagi reikninga fyrir eftirlitsgjöld skv. þessari grein er 2 vikur eftir póstlagningu þeirra með ábyrgðarbréfi. Eindagi er 10 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir.

Séu eftirlitsgjöld skv. þessari grein eigi greidd á eindaga falla á hæstu leyfilegir dráttarvextir á hverjum tíma fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá gjalddaga. Eftirlitsgjöld og dráttarvexti má taka lögtaki skv. 1. nr. 29/1885.

Ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn skv. þessari grein má bera undir ráðherra orkumála.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 9. gr. laga nr. 60/1979 og öðlast gildi 1. janúar 1981.

Iðnaðarráðuneytið, 18. desember 1980.

Hjörleifur Guttormsson.

Páll Flygenring.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica