Fara beint í efnið

Prentað þann 19. apríl 2024

Breytingareglugerð

354/2004

Reglugerð um breytingu á reglugerð um störf prófnefndar mannvirkjahönnuða, nr. 747/1997.

1. gr.

5. gr. orðast svo:
Prófnefnd mannvirkjahönnuða skal halda námskeið og próf að því loknu, hið minnsta árlega og oftar ef nægur þátttakendafjöldi fæst. Prófnefnd skal auglýsa námskeið og próf a.m.k. tvisvar á ári, en til að hægt sé að halda námskeið og próf oftar en einu sinni árlega skulu skráðir þátttakendur vera að lágmarki fimmtán á þeim námskeiðum.

Auglýsa skal fyrirhuguð námskeið í a.m.k. einu dagblaði sem gefið er út á landsvísu. Í auglýsingu prófnefndar um námskeið og próf skal gera grein fyrir námsefni í meginatriðum.

Próf skulu haldin innan mánaðar eftir að námskeiði lauk og skal prófnefnd ákveða prófdag í upphafi námskeiðs.
Námskeið prófnefndar skiptist í fimm þætti:

1. Skipulags- og byggingarlög, S-hluti. Skipulagsáætlanir og mannvirki, samræmi við skipulag.
2. Skipulags- og byggingarlög, B-hluti. Almenn umfjöllun um byggingar reglugerð, höfundarétt og endurgervingu gamalla húsa.
3. Fjöleignarhúsalög og skráning mannvirkja.
4. Staðlar og vottun og RB-tækniblöð.
5. Brunavarnir skv. byggingarreglugerð, mengunarvarnarreglugerð og lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 28/1980.

Prófnefnd er heimilt að flytja námsefni á milli þátta eða bæta við námsgreinum og skal það þá koma fram í upphafi námskeiðs.

2. gr.

8. gr. orðast svo:
Geti þátttakandi ekki sótt próf vegna veikinda skal prófnefnd gangast fyrir sjúkraprófi gegn framvísun læknisvottorðs vegna veikindanna. Sjúkrapróf skal haldið tveimur vikum eftir próf, komi ekki fram óskir um annað. Þó skal ekki líða lengri tími en mánuður frá prófi.

Standist nemandi ekki próf skv. 7. gr. er prófnefnd heimilt að halda upptökupróf án námskeiðs. Heimilt er prófnefnd að ákveða að einungis sé prófað úr þeim þætti/þáttum prófsins þar sem nemandi náði ekki lágmarkaeinkuninni 5,0, að því tilskildu að samanlagðri meðaleinkunn 6,0 hafi verið náð.

Prófnefnd ákveður hvaða dag upptökupróf skuli haldið en það skal að jafnaði gert innan mánaðar frá prófinu. Prófnefnd getur og ákveðið að upptökupróf skuli haldið í lok næsta skipulagða námskeiðs og gilda þá ákvæði 7. gr. um framkvæmd þess.

Þátttakanda sem ekki nær lágmarkseinkunn á upptökuprófi er heimilt að gangast undir próf að nýju að því tilskildu að hann sæki námskeið og greiði námskeiðsgjöld sbr. 9. gr.

3. gr.

9. gr. orðist svo:
Umhverfisráðherra ákveður að fenginni tillögu prófnefndar námskeiðagjöld. Þau skiptast í staðfestingargjald, kennslugjald og prófgjald. Við ákvörðun námskeiðagjalda skal miða við að nemendur greiði allan kostnað af námskeiði og prófi.

Staðfestingargjald sem skal nema einum fimmta af námskeiðsgjöldum greiðir þátttakandi er hann skráir sig á námskeiðið og er það óafturkræft þótt hann hætti við þátttöku.

Kennslugjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum eftir að kennsla hefst. Kennslugjald endurgreiðist vegna brottfalls úr námskeiði ef sérstakar ástæður mæla með.

Prófgjald greiðir þátttakandi eigi síðar en 7 virkum dögum fyrir próf. Skal þátttaka óheimil í prófi nema hann hafi staðið skil á prófgjaldi. Er það óafturkræft þótt þátttakandi þreyti ekki prófið.

Óski þátttakandi eftir því að sækja einungis námskeið án þess að þreyta próf skal hann greiða sem svarar tveimur þriðju af námskeiðsgjöldum. Þeir er fengið hafa undanþágu frá prófi í einstökum þáttum námsefnisins skulu greiða hlutfallslegt prófgjald. Fyrir upptökupróf skal þátttakandi greiða sem svarar þriðjungi af námskeiðsgjöldum.

4. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 48. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 15. apríl 2004.

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.