Umhverfisráðuneyti

485/2002

Reglugerð um skiptingu arðs af hreindýraveiðum. - Brottfallin

485/2002

REGLUGERÐ
um skiptingu arðs af hreindýraveiðum.

1. gr.

Hreindýraráð ráðstafar arði af hreindýraveiðum. Skulu eingöngu þeir sem fyrir ágangi hreindýra verða á lönd sín njóta arðsins. Við úthlutun veiðileyfa er leyfum skipt niður á ágangssvæði. Með ágangssvæði er átt við nánar skilgreint svæði, þar sem ágangur hreindýra er svipaður á öllu svæðinu.

Úthluta skal arði á einstök ágangssvæði í samræmi við úthlutuð veiðileyfi. Hreindýraráð gerir ár hvert tillögu til umhverfisráðuneytisins um fjölda og mörk ágangssvæða að fengnum tillögum Náttúrustofu Austurlands. Skal þar tekið mið af dreifingu hreindýra á síðustu 10 árum, en tillit skal taka til breytinga á ágangi og dreifingu hreindýra á undangengnu ári séu umtalsverð frávik milli ára.

Af hverju felldu dýri fara kr. 5.000 til ábúenda eða umráðenda, eftir atvikum, þeirrar jarðar sem dýr er fellt á. Eftirstöðvar skiptast sem hér segir:

1. Á allar jarðir innan hvers ágangssvæðis sem verða fyrir ágangi (30%):
a. Samkvæmt fasteignamati lands, þriðjungur.
b. Samkvæmt landstærð (mæld eða flokkuð), tveir þriðju hlutar.
2. Samkvæmt mati á ágangi (70%):
a. Lítill ágangur, 5%.
b. Nokkur ágangur 15%.
c. Töluverður ágangur 30%.
d. Mikill ágangur 50%.

Heimilt er að hnika frá ágangi í a-d lið um allt að 5% ef veigamiklar ástæður mæla með.

Hreindýraráð metur ágang á einstakar jarðir með hliðsjón af ofangreindu að fenginni umsögn Náttúrustofu Austurlands. Óheimilt er að láta arð af hreindýraveiðum ganga til þeirra sem ekki heimila hreindýraveiðar á landi sínu.


2. gr.

Hreindýraráð skal leggja fram drög að úthlutunargerð til kynningar í viðkomandi sveitarfélögum. Innan tveggja vikna geta landeigendur eða ábúendur gert skriflegar athugasemdir við skiptingu arðs. Að þeim tíma liðnum metur hreindýraráð þær athugasemdir sem borist hafa og úthlutar síðan arði til þeirra ábúenda eða landeigenda þeirra jarða sem arðs njóta. Úthluta skal hreindýraarði til ábúanda viðkomandi jarðar nema samkomulag sé um annað við landeigendur eða ef ábúð er ekki á jörðinni.

Arður skal greiddur út fyrir áramót vegna síðasta veiðitímabils. Heimilt er að vísa mati hreindýraráðs til umhverfisráðherra til úrskurðar.


3. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með síðari breytingum, öðlast gildi þegar í stað og gildir fyrir ráðstöfun arðs sem fellur til frá og með árinu 2002 að telja. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð með sama heiti nr. 454/2000.


Umhverfisráðuneytinu, 12. júlí 2002.

Siv Friðleifsdóttir.
Sigrún Ágústsdóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica