Umhverfisráðuneyti

279/2002

Reglugerð um dýratilraunir. - Brottfallin

I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Tilgangur.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja velferð dýra sem notuð eru í tilrauna- eða vísindaskyni eða alin í þeim tilgangi.


2. gr.
Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um allar dýratilraunir, undaneldi, uppeldi og umönnun tilraunadýra. Reglugerðin gildir þrátt fyrir notkun róandi, deyfandi eða verkjastillandi lyfja við tilraunina, þ.m.t. tilraunir sem gerðar eru með dýr undir svæfingu og sem eiga að deyðast undir svefni.

Reglugerð þessi gildir ekki um:

Meðferðir og aðgerðir sem framkvæmdar eru við dýralækningar eftir viðurkenndum aðferðum.
Einfaldar einstaklingsmerkingar á dýrum (s.s. fuglum og fiskum), söfnun sýna af líkamsvessum og blóðsýnatökur þar sem ekki er ástæða til að ætla að tilraunin hafi áhrif á eðlilegt atferli dýrsins heldur einungis örstutt óþægindi.
Tilraunir sem tengjast kynbótum/uppeldi, fóðrun og umhverfisþáttum (búfé og fiskar) ef ekki er ástæða til að ætla að tilraunin feli í sér röskun á lífeðlisfræðilegum þáttum dýrsins.

Í vafatilfellum sker tilraunadýranefnd úr um hvort tilraun falli undir reglugerð þessa.


3. gr.
Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
Álag eða þjáning: Dýratilraun telst valda álagi eða þjáningu ef hún raskar líffræðilegum, sálrænum, atferlisfræðilegum eða eðlis- og efnafræðilegum þáttum hjá dýrinu. Dæmi um slík áhrif eru sársauki, ótti, líkamleg áreynsla, hita- og rakastigsbreytingar ásamt svelti sem getur talist óeðlilegt fyrir viðkomandi dýrategund.

Birgðastöð: Stöð, þó ekki undaneldisstöð, þar sem dýr eru látin af hendi til nota við tilraunir.

Dýr: Öll lifandi hryggdýr önnur en menn, þar með talin öll lirfustig sem lifa sjálfstætt og/eða geta fjölgað sér, að fóstrum undanskildum.

Mannúðleg aðferð við aflífun: Dýrið er aflífað, með hliðsjón af tegund þess, á þann hátt að valdi sem minnstum líkamlegum og andlegum þjáningum.

Nægilega deyfð: Sviptur skynhrifum með svæfingu eða staðbundinni deyfingu sem er jafn áhrifarík og það sem tíðkast samkvæmt góðum starfsvenjum við dýralækningar.

Tilraun: Öll notkun á dýri í kennslu-, tilrauna- eða vísindaskyni sem getur valdið því sársauka, þjáningu, ótta eða varanlegu meini, þar með talin öll meðhöndlun sem hefur að markmiði eða gæti leitt til þess að dýr fæðist í slíku ástandi, að undanskildum viðurkenndum nútímaaðferðum við að aflífa eða merkja dýr með mannúðlegum aðferðum. Tilraun hefst þegar dýrið er fyrst búið undir notkun og lýkur þegar ekki eru gerðar fleiri athuganir í tengslum við tilraunina.

Tilraunadýr: Öll dýr sem notuð eru eða nota á við tilraunir og kennslu.

Tilraunadýranefnd: Opinber nefnd skipuð af umhverfisráðherra, sbr. 16. gr. laga nr. 15/1994 um dýravernd.

Tilraunastöð: Stöð þar sem dýr eru notuð við tilraunir.

Undaneldisdýr: Dýr sem eru ræktuð sérstaklega til að geta af sér tilraunadýr.

Umsjónardýralæknir: Dýralæknir sá er leyfishafi leitar til ef meta þarf heilbrigðisástand tilraunadýra og til að deyfa og deyða tilraunadýr ef þörf krefur.

Undaneldisstöð: Stöð þar sem dýr eru ræktuð til nota við tilraunir.


II. KAFLI
Dýratilraunir.
4. gr.
Takmarkanir og kröfur til dýratilrauna.

Óheimilt er að nota lifandi dýr við kennslu, tilraunir, rannsóknir, framleiðslu eða prófun efna eða lyfja og við sjúkdómsgreiningu nema með sérstöku leyfi tilraunadýranefndar ef slíkri notkun fylgir álag eða þjáning fyrir dýrið. Leiki vafi á hvort tilraun fylgi álag eða þjáning fyrir dýr skal tilraunadýranefnd skera úr um það.

Dýratilraunir skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Einungis má nota lifandi dýr í tilraunum ef ekki eru þekktar aðrar hagkvæmar og hentugar leiðir, sem fullnægja vísindalegum kröfum, til að ná tilætluðum árangri.
2. Aðeins skal nota hvert dýr í eina tilraun ef henni fylgir mikið álag eða þjáning að mati tilraunadýranefndar.
3. Að raunhæfur möguleiki sé á að tilgangi tilraunarinnar verði náð.
4. Að ekki séu notuð fleiri dýr en nauðsyn krefur.
5. Að ekki séu notuð dýr sem fönguð eru í náttúrunni nema notkun annarra dýra fullnægi ekki markmiðum tilraunarinnar. Villt dýr sem erfitt er að temja skal ekki haldið lengur undir manna höndum en brýn nauðsyn krefur og skal þeim gefið frelsi aftur ef aðstæður leyfa.
6. Að ekki séu notuð dýr í útrýmingarhættu, nema að tilraunin stuðli að varðveislu viðkomandi tegundar.
7. Að tilraunir baki dýrum ekki meiri þjáningu en óhjákvæmilegt er.

Við dýratilraunir skal hafa eftirfarandi markmið í huga:

1. Þróun, framleiðslu og prófanir á gæðum, skilvirkni og öryggi lyfja, matvæla og annarra efna eða vara:
a) Til að fyrirbyggja, greina eða lækna sjúkdóma, vanheilsu eða önnur frábrigði eða áhrif þeirra á fólk, dýr eða jurtir.
b) Til að meta, greina, lagfæra eða breyta lífeðlisfræðilegu ástandi manna, dýra eða jurta.
2. Verndun eðlilegs umhverfis til góða fyrir heilbrigði og vellíðan manna og dýra.


5. gr.
Krafa til tilraunastöðva.

Dýratilraunir, að undanskyldum tilraunum samkvæmt 2. mgr. skulu einungis fara fram í tilraunastöð sem er viðurkennd af tilraunadýranefnd. Tilraunastöð skal einungis hljóta viðurkenningu ef hún uppfyllir öll skilyrði um húsnæði, aðbúnað, umsjónarmann og vinnureglur sem tryggja velferð tilraunadýranna. Allar tilraunastöðvar sem ekki hafa dýralækni sem ábyrgðarmann skulu tilnefna umsjónardýralækni, sem gefur ráð og metur heilbrigðisástand, meðhöndlar, deyfir og deyðir tilraunadýrin ef þörf krefur.

Heimilt er að gera tilraunir utan tilraunastöðva með leyfi tilraunadýranefndar.


6. gr.
Krafa um uppruna tilraunadýra.

Í tilraunastöð skal aðeins nota dýr frá viðurkenndri undaneldis- eða birgðastöð nema fengist hafi almenn eða sérstök undanþága samkvæmt ákvæðum sem tilraunadýranefnd setur. Nota skal ræktuð dýr þegar því verður við komið. Ekki skal nota villt húsdýr við tilraunir. Almenn undanþága samkvæmt ákvæðum þessarar greinar má ekki ná til flækingshunda eða katta.


7. gr.
Deyfing og deyðing tilraunadýra.

Í tilraunum sem telja má að valdi sársauka skal ætíð nota deyfingu eða svæfingu á meðan á henni stendur. Í tilraunum sem telja má að valdi sársauka, en tilgangur tilraunar leyfir ekki að notuð sé deyfing eða svæfing, skulu gerðar strangar kröfur um vísindalegt og raunhæft notagildi niðurstaðna. Í lok allra tilrauna skal tekin ákvörðun um hvort halda skuli lífi í dýri eða það aflífað á mannúðlegan hátt, með þeim fyrirvara að dýrið verði ekki látið lifa ef ætla má að það haldi áfram að finna til sársauka og ótta þrátt fyrir að það hafi náð eðlilegri heilsu að öðru leyti. Ef tilraunin krefst þess að tilraunadýr vakni eftir svæfingu, skal dregið úr þrautum þess eins og föng eru á með verkjastillandi meðhöndlun, góðum búnaði og aðhlynningu og það síðan læknað eða deytt strax að tilraun lokinni á mannúðlegan hátt. Blóðsýnatöku úr hjarta, ásamt inndælingu í hjarta, skal gera undir svæfingu og svefni haldið þar til dýrið hefur verið aflífað á mannúðlegan hátt, nema tilraunadýranefnd hafi gefið sérstakt leyfi til að endurvekja dýrið.

Deyðing og deyfing tilraunadýra skal framkvæmd af umsjónardýralækni eða leyfishafa sem hefur til þess bæra þekkingu og réttindi, sbr. 8. gr. og vinnur í samráði við umsjónardýralækni.


III. KAFLI
Leyfisveitingar.
8. gr.
Leyfi til dýratilrauna.

Allir sem íhuga að framkvæma tilraunir sem þessi reglugerð gildir um skulu sækja til þess leyfi frá tilraunadýranefnd. Þeir sem framkvæma tilraunir eða hafa umsjón með þeim skulu hafa hlotið menntun í vísindagrein sem tengist þeirri tilraunastarfsemi sem fram fer og skal leyfishafi tilraunar hafa sótt réttindanámskeið í meðferð tilraunadýra, sem eru sambærileg við námskeið FELASA (Federation for European Laboratory Animal Science Associations). Tilraunadýranefnd getur sett almenn og/eða sértæk skilyrði fyrir tilraunaleyfi. Tilraunaleyfi má gefa út til allt að fjögurra ára í senn, en skal umsvifalaust dregið til baka ef skilyrðum þessarar reglugerðar er ekki fylgt að mati tilraunadýranefndar.

Umsókn um leyfi til að nota dýr í tilraunir skal send tilraunadýranefnd á eyðublaði sem fram kemur í viðauka 1.

Feli eldi og/eða tilraun í sér notkun á erfðabreyttum dýrum eða erfðabreytingu á dýrum, skal umsækjandi sýna fram á að ákvæði laga um erfðabreyttar lífverur hafi verið uppfyllt.


9. gr.
Umönnun tilraunadýra í birgðastöð.

Þeir einir sem hafa aflað sér nauðsynlegrar þekkingar á tilraunadýrahaldi að mati tilraunadýranefndar geta fengið leyfi til að annast tilraunadýr. Sækja þarf fyrirfram um samþykki á staðsetningu og aðstöðu birgðastöðvar til tilraunadýranefndar.

Umsókn um leyfi fyrir birgðastöð fyrir tilraunadýr skal send tilraunadýranefnd á eyðublaði sem fram kemur í viðauka 2.


10. gr.
Umönnun tilraunadýra í undaneldisstöð.

Þeir einir sem hafa aflað sér nauðsynlegrar þekkingar á tilraunadýrahaldi að mati tilraunadýranefndar geta fengið leyfi til tilraunadýraeldis. Sækja þarf fyrirfram um samþykki fyrir staðsetningu og aðstöðu undaneldisstöðvar til tilraunadýranefndar.

Umsókn um leyfi fyrir aðstöðu fyrir undaneldisdýr skal send tilraunadýranefnd á eyðublaði sem fram kemur í viðauka 3.


IV. KAFLI
Viðmiðunarreglur um aðbúnað og umhirðu tilraunadýra.
11. gr.
Almenn skilyrði um húsnæði, innréttingar, umhverfi og aðbúnað.

Öll tilraunadýr, þ.m.t. undaneldisdýr, skulu höfð í húsnæði og umhverfi þar sem þau geta hreyft sig í einhverjum mæli að minnsta kosti og fá fóður, vatn og umhirðu sem tryggir heilsu þeirra og vellíðan. Tilraunadýr skulu ekki of aðþrengd til að geta svalað lífeðlis- og atferlisfræðilegum frumþörfum sínum. Í viðauka 4, töflum 3-13, eru settar fram viðmiðunarreglur um búr, stíur, girðingar og bása sem henta í þessum vistarverum. Í sama viðauka eru leiðbeiningar um lágmarksstærð búra á myndum 1-7 og samsvarandi leiðbeiningar á myndum 8-12 um það hversu rúmt skuli vera um dýrin.

Taka skal mið af reglugerðum um aðbúnað alifugla, hrossa, loðdýra, nautgripa, sauðfjár og svína þegar þau eru notuð sem tilraunadýr og skulu þær gilda við eldi og geymslu þessara dýrategunda. Í frávikstilvikum skal leita leyfa hjá tilraunadýranefnd.

Við tilraunir á fiskum skal taka tillit til eftirfarandi takmarkana:

Þéttleiki skal ekki vera umfram 30 kg/m³
Endurnýjun vatns skal að lágmarki vera 1 lítri/kg/mínútu.
Innihald súrefnis skal vera yfir 75% mettingu.
Hitastig skal ekki fara niður fyrir 1°C og ekki upp fyrir 20°C.
Fiskur skal aldrei vera lengur á þurru en 30 sekúndur.

Mælt er með því að dýr sem koma í tilraunastöð séu sett í sóttkví um tíma nema heilsa þeirra sé fullnægjandi. Í töflu 2, viðauka 4, eru settar fram viðmiðunarreglur um lengd sóttkvíar algengra tilraunadýra.


12. gr.
Húsnæði.

Gólf, veggir og þak eiga að vera úr hentugu efni, sem auðvelt er að þrífa. Gólf eiga að vera vatnsheld. Innréttingar eiga að vera úr þannig efni og þannig gerðar að enginn hluti þeirra geti skaðað dýrin eða verið hættulegur heilsu þeirra. Innréttingar og allan búnað á að vera auðvelt að þrífa og sótthreinsa. Gólf, veggi og innréttingar má ekki meðhöndla með málningu, litum, olíuefnum eða sótthreinsiefnum á þann hátt að geti valdið tjóni á heilsu dýranna. Ef krafist er niðurfalla í gólfum skal tryggilega gengið frá þeim.

Mælt er með því að fyrir hendi sé aðstaða þar sem hægt er að einangra dýr sem sýna merki um veikindi eða grunur leikur á að séu veik og geti stofnað heilsu manna eða annarra dýra í hættu.

Í undaneldis- og birgðastöðvum eiga að vera geymslur fyrir hrein búr, verkfæri og annan búnað. Þá skal sjá fyrir viðeigandi aðstöðu til að búa dýr til sendingar.

13. gr.


Móttaka dýra.

Taka ber á móti sendingu á dýrum og hleypa þeim út án tafar. Þegar dýrin hafa verið skoðuð ætti að flytja þau í hrein búr eða stíur og gefa þeim og brynna eftir því sem við á. Öll dýr sem tekið er á móti skal skrá og merkja. Flutningskassa ætti að eyðileggja tafarlaust ef ekki er hægt að hreinsa þá af allri mengun.

Hver hundur, köttur og prímati (annar en maður) í undaneldis-, birgða-, eða tilraunastöð skal einstaklingsmerktur og á sem sársaukaminnstan hátt. Merking skal vera endingargóð og skal framkvæmast strax eftir að dýrið er vanið undan eða þegar það kemur í fyrsta sinn inn á birgða- eða tilraunastöð. Halda skal skrá um auðkenni og uppruna hvers einstaks hunds, kattar eða prímata (annars en manns). Ef ómerktur hundur, köttur eða prímati (annar en maður) er fluttur á milli stöðva skal honum fylgja upprunavottorð.


14. gr.
Búr og stíur.

Búr, þ.m.t. sérútbúnir skápar sem rúma mörg búr fyrir tilraunadýr (mýs og rottur) og stíur ættu ekki að vera úr efni sem gæti reynst hættulegt heilsu dýranna. Þau skulu gerð úr sterku efni sem auðvelt er að þrífa og hreinsa af allri mengun. Einkum ber að gefa gaum hönnun gólfa í búrum og stíum þar eð þau ættu að vera breytileg eftir tegund og aldri dýranna og hönnuð þannig að auðvelt sé að fjarlægja saur. Stíur ætti að hanna með vellíðan dýrategundarinnar í huga. Í þeim ættu dýrin að geta fullnægt ákveðnum atferlisþörfum (t.d. þörfinni á að klifra, fela sig eða leita skjóls um tíma) og þær ættu að vera þannig útbúnar að auðvelt sé að hreinsa vel og koma í veg fyrir snertingu við önnur dýr.


15. gr.
Loftræsting og hitastig.

Dýrahús skulu vera búin viðhlítandi loftræstikerfi sem ætti að fullnægja þörfum þeirra dýrategunda sem þar eru hýst. Markmiðið með loftræstikerfi er að sjá fyrir fersku lofti, viðhalda réttu hita- og rakastigi og draga úr óþef, eitruðum lofttegundum, ryki og hvers kyns sýkingarvöldum. Gluggar í dýraherbergjum skulu þannig gerðir og staðsettir að hvorki hitastig né rakastig raskist í búrunum. Loftræsting í öllum búrum skal vera nægileg en þó þannig að ekki skapist óeðlilegur trekkur hjá dýrunum. Útsog skal vera nóg svo að magn skaðlegra lofttegunda fari ekki yfir gildandi mörk fyrir fólk. Fjöldi loftskipta í rýminu er háð stærð rýmis og fjölda dýra. Viðmiðunarmörk eru 8-20 loftskipti á klst. í rými með vélknúinni loftræstingu. Hitastig skal stilla við hæfi hverrar dýrategundar og aldur dýranna samkvæmt viðmiðunarreglum í viðauka 4, töflu 1. Viðmiðunarmörkin eiga aðeins við um fullorðin, eðlileg dýr, en nýfædd dýr og ungviði þurfa oft miklu hærra hitastig. Hlutfallslegt rakastig skal vera milli 40% og 70%. Hita- og rakamælar skulu vera í öllum herbergjum fyrir tilraunadýr. Banna skal reykingar í húsnæði þar sem dýr eru.


16. gr.
Viðvörunarkerfi.

Viðvörunarkerfi í tengslum við hita- og loftræstikerfi skal þannig tengt að fari það í gang geri það ábyrgum aðilum, sem vita hvaða ráðstafanir eru nauðsynlegar, viðvart. Mælt er með viðvörunarkerfi fyrir fiskabúr ef vatn skyldi fara af. Rétt er að gæta þess að dýrin verði fyrir sem minnstum truflunum þegar viðvörunarkerfi fara í gang.


17. gr.
Lýsing.

Lýsing skal vera nægileg til að ávallt sé hægt að fylgjast með og sinna dýrunum. Ljósum skal komið fyrir og styrkur þeirra stilltur þannig að ekki orsaki óþægindi eða skaða hjá dýrunum. Í gluggalausum rýmum skal lýsing vera á í skemmst átta klst. og myrkur lengst tólf klst. á sólarhring.


18. gr.
Hávaði.

Hávaði má ekki vera af þeim styrk eða tíðni að hafi skaðleg áhrif á heilsu dýranna.


19. gr.
Fóður, vatn og undirburður.

Öll dýr skulu hafa daglega aðgang að nægilegu, góðu og næringarríku fóðri. Þurrfóður skal geyma á þurrum og köldum stað og ferskvörur kældar (4-8°C) eða frystar (undir 18°C). Sérstakt rými fyrir fóðurtilbúning skal vera til staðar. Við sjálfstýrða fóðrun skal fylgjast með útbúnaði daglega.

Hvert dýr skal hafa frjálsan aðgang að nægu heilnæmu vatni. Þar sem brynning er skal fylgst daglega með drykkjarbúnaði. Hafi dýr ekki frjálsan aðgang að vatni skal brynna því minnst tvisvar á dag. Dýrum sem haldið er utanhúss þegar hitastig er undir 0°C skal brynnt a.m.k. tvisvar á dag ef þau hafa ekki aðgang að upphituðum vatnsskálum. Vatnsþörf verður ekki fullnægt með snjó.

Undirburður skal vera þurr, rakadrægur, ryklaus, ekki eitraður og laus við efni sem valda sýkingu eða meindýr eða mengun í annarri mynd. Þess ætti að gæta sérstaklega að nota ekki sag eða annað undirburðarefni úr við sem hefur fengið efnafræðilega meðhöndlun. Nota má ýmsa aukaframleiðslu eða úrgang frá iðnaði, svo sem tættan pappír.


20. gr.
Hreinlæti.

Rými, innréttingum og öllum búnaði ásamt útisvæðum skal haldið hreinum. Skipta skal um undirburð svo oft sem þurfa þykir til að koma í veg fyrir óþægindi hjá dýrunum. Á stærri undaneldis- og birgðastöðvum skal vera sérstakt þvottaherbergi fyrir áhöld og búnað. Hræ af tilraunadýrum og hættulegur úrgangur skal brenndur eða urðaður á viðurkenndum urðunarstað. Um losun annars úrgangs skal hafa samráð við viðkomandi heilbrigðiseftirlit um hvernig honum skal ráðstafað.


21. gr.
Umhirða.

Hirðing dýranna skal vera auðveld. Eftirlit skal hafa daglega með dýrunum. Vöktun getur farið fram í sjónvarpi eða öðru viðurkenndu aðvörunarkerfi. Sjúk dýr eða meidd skulu strax fá aðhlynningu og þau einangruð eða, ef nauðsyn krefur, aflífuð þegar í stað á mannúðlegan hátt, sbr. 5. gr.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
22. gr.
Eftirlit.

Eftirlit með reglugerð þessari skal vera í höndum viðkomandi héraðsdýralæknis. Tilraunadýranefnd skal tilkynna viðkomandi héraðsdýralækni um þær tilraunir sem leyfi hafa í hans umdæmi. Eftirlit skal framkvæmt a.m.k. árlega og skal skýrslu skilað til tilraunadýranefndar fyrir 1. febrúar ár hvert vegna eftirlits næstliðins almanaksárs.

Leyfishafar bera kostnað af eftirlitinu í samræmi við gildandi gjaldskrá landbúnaðarráðuneytisins fyrir eftirlit og þjónustuverkefni dýralækna sem annast opinber eftirlitsstörf.


23. gr.
Upplýsingaskylda.

Allir sem fengið hafa leyfi til að framkvæma tilraunir á dýrum skulu fyrir 1. febrúar ár hvert skila skýrslu til tilraunadýranefndar, með afriti til viðkomandi héraðsdýralæknis, um þær tilraunir sem þeir hafa framkvæmt á næstliðnu almanaksári. Leyfishafar skulu halda dagbók um dýratilraunirnar sem skulu ávallt vera aðgengilegar eftirlitsaðilum. Skrár þessar skulu einkum sýna fjölda og tegundir allra dýra sem tilraunastöðin hefur fengið, komudag og hvaðan þau eru fengin, hvaða notkun hefur farið fram á einstaka dýri og afdrif þess. Skrár þessar skal geyma í þrjú ár hið minnsta frá þeim degi að telja er síðasta færsla var skráð og ber héraðsdýralækni að skoða þær reglulega. Allar upplýsingar er snerta viðskiptahagsmuni og veittar eru samkvæmt reglugerð þessari skal fara með sem trúnaðarmál.

Tilraunadýranefnd skal skila til umhverfisráðuneytisins fyrir 1. júní ár hvert skýrslu um starfsemi sína og þær upplýsingar er henni hafa borist um dýratilraunir fyrir árið á undan.

Undaneldis- og birgðastöðvar skulu skrá fjölda og tegundir dýra sem eru seld eða afhent, sölu- eða afhendingardag, nafn og póstfang viðtakanda og fjölda og tegundir dýra sem deyja í viðkomandi stöðvum.


24. gr.
Refsiákvæði.

Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 15/1994 um dýravernd. Um rannsókn og meðferð mála út af brotum á reglugerðinni fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.


25. gr.
Lagaheimild.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 16. gr. laga um dýravernd nr. 15/1994, með hliðsjón af 11. gr. laga um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr nr. 66/1998. Reglugerðin er ennfremur sett með hliðsjón af tilskipun 86/609/EBE um samræmingu á ákvæðum í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um verndun dýra sem notuð eru í tilrauna- og vísindaskyni. Reglugerðin er sett að höfðu samráði við landbúnaðarráðuneytið hvað þátt héraðsdýralækna varðar.


26. gr.
Gildistaka.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 77/1973 um notkun dýra í vísindalegum tilgangi.


Umhverfisráðuneytinu, 5. apríl 2002.

F. h. r.
Magnús Jóhannesson.
Sigurbjörg Sæmundsdóttir.VIÐAUKI 1
Umsókn um leyfi til dýratilrauna.
1. Umsækjandi og ábyrgðarmaður.
2. Hæfni umsækjanda og ábyrgðarmanns.
3. Samstarfsaðilar.
4. Umsjónarmaður tilraunadýra.
5. Umsjónardýralæknir.
6. Heiti verkefnis.
7. Tilgangur og lýsing verkefnisins í hnotskurn.
8. Ítarleg lýsing á verkefninu og tímaáætlun.
9. Tilraunadýr; tegund og fjöldi.
10. Áhrif tilraunarinnar á dýrin.
11. Rökstuðningur fyrir notkun tilraunadýra.
12. Vísindalegt gildi verkefnisins.
13. Fræðilegur bakgrunnur.
14. Birting niðurstaðna.

Vísa má í umsókn til RANNÍS vegna liða 2, 7, 11, 12 og 13 og skal hún þá fylgja með.


VIÐAUKI 2
Umsókn um leyfi til að halda tilraunadýr (birgðastöð).
1. Umsækjandi og ábyrgðarmaður.
2. Hæfni umsækjanda og ábyrgðarmanns.
3. Samstarfsaðilar.
4. Umsjónarmaður tilraunadýra.
5. Umsjónardýralæknir.
6. Tilraunadýr; tegund og fjöldi.
7. Lýsing á aðstöðu.
8. Samþykki heilbrigðisnefndar.

Aðstöðu fyrir tilraunadýr má ekki taka í notkun fyrr en lokið er frágangi við innréttingar og útbúnað og hann samþykktur. Kostnaður við skoðun og úttekt greiðist af umsækjanda.


VIÐAUKI 3
Umsókn um leyfi til ræktunar tilraunadýra (undaneldisstöð).
1. Umsækjandi og ábyrgðarmaður.
2. Hæfni umsækjanda og ábyrgðarmanns.
3. Samstarfsaðilar.
4. Umsjónarmaður tilraunadýra.
5. Umsjónardýralæknir.
6. Upplýsingar um dýrategundir og fjölda undaneldisdýra.
7. Teikning og lýsing á byggingunni.
8. Uppdráttur af legu staðarins og samþykki byggingarnefndar (ef um nýbyggingu er að ræða).
9. Samþykki heilbrigðisnefndar.

Ekki má hefja rekstur fyrr en samþykkt tilraunadýranefndar liggur fyrir.

Kostnaður við skoðun og úttekt greiðist af umsækjanda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica