Umhverfisráðuneyti

792/2001

Reglugerð um Brunamálaskólann og réttindi og skyldur slökkviliðsmanna. - Brottfallin

I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

Reglugerð þessi tekur til starfsemi Brunamálaskólans, menntunar, löggildingar svo og réttinda og skyldna slökkviliðsmanna.2. gr.

Slökkviliðsmenn samkvæmt reglugerð þessari eru:

1. Þeir sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir í aðalstarfi hjá slökkviliðum.
2. Þeir sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir í hlutastarfi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 75/2000, um brunavarnir.
II. KAFLI
Stjórn og skipulag Brunamálaskólans.
3. gr.

Innan Brunamálastofnunar skal starfrækja Brunamálaskólann sem ætlaður er slökkviliðsmönnum, þ.m.t. slökkviliðsstjórum og eldvarnaeftirlitsmönnum. Starfsemi Brunamálaskólans fer m.a. fram á grundvelli þjónustusamninga, sbr. 1. tölul. 5. gr.

Brunamálaskólinn skal veita slökkviliðsmönnum að lágmarki þá menntun og starfsþjálfun sem krafa er gerð um í reglugerð þessari og lýtur m.a. að skyldubundnu námi þeirra og endurmenntun.

Brunamálaskólanum er heimilt að standa fyrir annarri fræðslu. Slík fræðslustarfsemi má ekki koma niður á meginstarfsemi skólans. Brunamálaskólinn hefur heimild til að innheimta sérstakt gjald til að standa m.a. straum af þeim kostnaði sem hlýst þar af.

Brunamálaskólinn skal starfrækja fjar- og farkennslu Markmiðið með farkennslu er að þjálfa slökkviliðsmenn í starfi með því að heimsækja slökkvilið landsins reglulega.


4. gr.

Við Brunamálaskólann skal starfa skólaráð sem er Brunamálastofnun til ráðgjafar um fagleg og rekstrarleg málefni skólans og ber það ábyrgð gagnvart brunamálastjóra á framkvæmd og starfsemi Brunamálaskólans. Skólaráð skal í upphafi árs leggja fyrir brunamálastjóra til samþykktar starfsáætlun fyrir skólann.5. gr.

Verkefni skólaráðs eru að:

1. leggja fram tillögu um fyrirkomulag Brunamálaskólans, farkennslunnar og þjónustusamninga,
2. semja starfs- og fjárhagsáætlun skólans og leggja fyrir brunamálastjóra til samþykktar,
3. gefa út námsvísi og kennsluefni fyrir nemendur og kennara og gera þegar við á tillögu um fjölda kennslustunda í hverju námskeiði umfram lágmarksfjölda sem tilgreindur er í 10.-12. gr.,
4. setja reglur um námsárangur, framkvæmd prófa og viðurkenna og meta hæfni kennara til að starfa við skólann,
5. gefa út prófskírteini og skilríki um námsferil,
6. úrskurða í ágreiningsmálum varðandi skólanámið og próf,
7. veita umsagnir til brunamálastjóra vegna mála er varða verkefni og starfsemi Brunamálaskólans,
8. hafa umsjón með öllu námi sem og framhaldsnámi á vegum skólans,
9. skipuleggja framhaldsnám og vekja athygli slökkviliða á áhugaverðum námskeiðum og fræðslufundum innanlands sem og erlendis,
10. veita brunamálastjóra umsögn vegna ráðningar skólastjóra Brunamálaskólans.


6. gr.

Brunamálastjóri ræður skólastjóra Brunamálaskólans til fjögurra ára í senn. Við ráðningu skólastjóra skal brunamálastjóri leita umsagnar skólaráðs. Skólastjóri skal hafa víðtæka menntun og þekkingu á sviði brunamála svo og starfsreynslu sem nýst getur í starfi skólastjóra. Skólaráð skal leita eftir því að sveitarfélög gefi þeim sem ráðnir eru til skólans launalaust leyfi til allt að fjögurra ára í senn á grundvelli sérstaks samkomulags ef við á.

Skólastjóri fer með daglegan rekstur skólans í umboði skólaráðs og annast nauðsynlega kynningarstarfsemi vegna skólans. Skólastjóri gerir tillögur að námsvísi og stundaskrá til skólaráðs, vinnur að samningu og endurskoðun á námsefni, hefur kennsluskyldu við skólann og vinnur að gerð þjónustusamninga og starfsáætlunar. Skólastjóri situr fundi skólaráðs með málfrelsi og tillögurétt, undirritar fyrir þess hönd gögn sem um getur í 5. tölul. 5. gr. og sér að öðru leyti um að framkvæma ákvarðanir skólaráðs.

7. gr.

Kostnaður við rekstur Brunamálaskólans greiðist af tekjum Brunamálastofnunar samkvæmt fjárveitingum sem skólanum eru ákveðnar í fjárlögum hverju sinni. Fjárveitingar til skólans skulu m.a. standa undir kostnaði við skólastjórn, kennara, farkennslu, námskeiðahald, útgáfu námsefnis, efniskostnað við kennsluna og rekstur og viðhald kennslutækja skólans. Viðkomandi sveitarfélag greiðir launa-, ferða- og uppihaldskostnað þeirra sem sækja skólann frá því sveitarfélagi. Jafnframt skal sveitarfélag standa straum af kostnaði vegna fornáms nema þeim er lýtur að námsgögnum.

Heimilt er að að nota tæki og búnað slökkviliða sveitarfélaganna við skólastarfið með samþykki viðkomandi slökkviliðsstjóra án sérstakrar greiðslu.


III. KAFLI
Nám slökkviliðsmanna.
8. gr.

Þeir sem ráðnir eru til starfa sem slökkviliðsmenn skulu fullnægja eftirtöldum skilyrðum:

1. Hafa góða líkamsburði, vera andlega og líkamlega heilbrigðir, reglusamir og háttvísir, hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vera ekki haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.
2. Hafa að lokinni reynsluráðningu aukin ökuréttindi til að stjórna: a) vörubifreið og b) leigubifreið.
3. Hafa iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða sambærilega menntun og reynslu.

Víkja má tímabundið frá einu eða fleiri skilyrðum í 1. mgr. vegna þeirra sem gegna slökkvistarfi eða starfa við brunavarnir samkvæmt 2. tölul. 2. gr. reynist ekki unnt að fá menn til starfa sem uppfylla framangreind skilyrði.

Endurráðning í starf slökkviliðsmanna miðast við það að þeir standist þær kröfur sem fram koma í þessum kafla.

9. gr.

Menntun slökkviliðsmanna samkvæmt reglugerð þessari er fólgin í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun.

Nám slökkviliðsmanna skiptist í eftirfarandi þætti:

1. Nám atvinnuslökkviliðsmanna.
2. Nám hlutastarfandi slökkviliðsmanna.
3. Nám eldvarnaeftirlitsmanna.
4. Endurmenntun.

Námið mælist í kennslustundum og er hver kennslustund 40 mínútur. Sá fjöldi kennslustunda sem tilgreindur er í 10.-12. gr. er lágmarksfjöldi kennslustunda.10. gr.

Nám fyrir slökkviliðsmenn að aðalstarfi, sbr. 1. tölul. 2. gr., skiptist í eftirfarandi þrjá hluta auk endurmenntunar. Skulu þeir a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. og 2. tölul. þessarar greinar.

1. Fornám: Nýliði skal ljúka 80 kennslustunda fornámi áður en hann hefur störf sem atvinnuslökkviliðsmaður. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í atvinnuslökkviliði.
2. Atvinnuslökkviliðsmaður: Námið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn er 540 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn og miðað skal við að þeir hafi starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Námi skal lokið innan þriggja ára frá upphafi starfs. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til almennra slökkvistarfa, reykköfunar, björgunarstarfa og viðbragða við mengunar- og eiturefnaslysum.
3. Stjórnandi: Nám fyrir stjórnendur innan slökkviliðanna er 120 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið námi sem atvinnuslökkviliðsmenn. Námið er ætlað þeim sem vinna við stjórnun innan atvinnuslökkviliða, svo sem slökkviliðsstjórar og vaktstjórar. Að loknu námi skal nemandi vera hæfur til stjórnunar m.a. á útkallsstað og í starfsstöð, annast skýrslugerð, kennslu og þjálfun og hafa þekkingu á lögum er varða starfssvið hans. Nám fyrir slökkviliðsstjóra skal auk framangreinds fela í sér að lokið hafi verið við nám sem eldvarnaeftirlitsmaður I og II.

Atvinnuslökkviliðsmenn skulu jafnframt sækja a.m.k. eitt endumenntunarnámskeið viðurkennt af skólaráði á þriggja ára tímabili. Hafi slökkviliðsmaður sótt önnur námskeið getur hann sótt um til skólaráðs að fá það metið sem endurmenntunarnámskeið.


11. gr.

Slökkviliðsmenn, sem gegna hlutastarfi, sbr. 2. tölul. 2. gr., skulu hljóta menntun í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skulu veita samkvæmt brunavarnaráætlun viðkomandi sveitarfélags. Námið skiptist í eftirfarandi fjóra hluta auk endurmenntunar. Slökkviliðsmenn, sem gegna hlutastarfi, skulu a.m.k. hafa lokið námi skv. 1. tölul. og námskeiði 1 og 2 skv. 2. tölul. þessarar greinar.

1. Fornám: Nýliðar skulu ljúka að lágmarki 20 kennslustunda fornámi áður en þeir hefja störf sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms, svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í hlutastarfandi slökkviliði.
2. Hlutastarfandi slökkviliðsmaður: Brunamálaskólinn veitir kennslu í fjórum hlutanámskeiðum og skulu hlutastarfandi slökkviliðsmenn sækja þau námskeið sem falla að því þjónustustigi sem sveitarfélagið hefur ákveðið að veita samkvæmt brunavarnaráætlun.
Námskeið 1: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til slökkvistarfa utanhúss, til að annast vatnsöflun, reyklosun og dælingu.
Námskeið 2: Námskeiðið er tvö 30 kennslustunda námskeið og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til reykköfunar, hafa þekkingu á þróun innanhússbruna og yfirtendrun.
Námskeið 3: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til björgunar fólks úr bílflökum, klippuvinnu og skyndihjálpar við slasaða.
Námskeið 4: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til að beita réttum viðbrögðum við mengunarslysum og eiturefnaslysum. Áður en nám er hafið skal viðkomandi hafa lokið námskeiði 2.
Séu fleiri en eitt námskeið haldin samfleytt þá styttist heildartími námskeiðsins um 5 kennslustundir fyrir hvert hlutanámskeið.
3. Stjórnandi hlutastarfs: Námið er fyrir stjórnendur innan hlutastarfandi slökkviliða. Námið er 30 kennslustundir. Stjórnendur hjá hlutastarfandi liðum geta sótt nám sem stjórnendur fyrir atvinnumenn, enda hafi þeir lokið fullu námi sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn.
4. Slökkviliðsstjóri: Nám fyrir slökkviliðsstjóra hlutastarfandi slökkviliða. Námið er 30 kennslustundir.

Hlutastarfandi slökkviliðsmenn skulu jafnframt sækja a.m.k. eitt viðurkennt endurmenntunarnámskeið viðurkennt af skólaráði, á hverju sex ára tímabili. Hafi slökkviliðsmaður sótt önnur námskeið getur hann sótt um til skólaráðs að fá það metið sem endurmenntunarnámskeið. Sæki hlutastarfandi slökkviliðsmaður nám fyrir atvinnuslökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 10. gr. telst hann hafa lokið námi fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn sbr. 2. tölulið 11. gr.


12. gr.

Allir þeir slökkviliðsmenn sem sinna eldvarnaeftirliti skulu hafa lokið námi sem eldvarnaeftirlitsmaður I eða lokið sambærilegu námi. Menntun starfsmanna eldvarnaeftirlits skal vera í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skal veita samkvæmt brunavarnaráætlun viðkomandi sveitarfélags.

Námið skiptist í eftirfarandi þrjá hluta:

1. Eldvarnaeftirlitsmaður I: Grunnnám fyrir eldvarnaeftirlitsmenn þannig að þeir geti unnið við almennt eldvarnareftirlit. Námið er 70 kennslustundir.
2. Eldvarnaeftirlitsmaður II: Framhaldsnám fyrir eldvarnaeftirlitsmenn þannig að þeir geti starfað sjálfstætt að sérhæfðu eldvarnareftirliti svo sem að annast lokaúttektir. Námið er 30 kennslustundir .
3. Eldvarnaeftirlitsmaður III: Framhaldsnám fyrir þá sem stjórna og bera ábyrgð á eldvarnareftirliti sveitarfélaganna. Námið er 30 kennslustundir.

Eldvarnaeftirlitsmenn skulu sækja a.m.k. eitt viðurkennt endurmenntunarnámskeið á hverju fimm ára tímabili. Hafi slökkviliðsmaður sótt önnur námskeið getur hann sótt um til skólaráðs að fá það metið sem endurmenntun.


IV. KAFLI.
Löggilding.
13. gr.

Slökkviliðsmenn, sem sækja um löggildingu til að starfa sem slökkviliðsmenn, skulu hafa lokið lágmarksnámi fyrir slökkviliðsmenn við Brunamálaskólann eða hlotið sambærilega menntun sem skólaráð Brunamálaskólans metur jafngilda. Jafnframt skulu þeir hafa gegnt slökkvistarfi eða starfað við brunavarnir að aðalstarfi a.m.k. í eitt ár samfellt eða starfað í hlutastarfi a.m.k. í fjögur ár.

Slökkviliðsstjóri skal hafa hlotið löggildingu sem slökkviliðsmaður, sbr. 1. mgr. og starfað að lágmarki í eitt ár í slökkviliði sem löggiltur slökkviliðsmaður, eða hafa háskólamenntun með sérmenntun í brunamálum.


14. gr.

Umsókn um löggildingu sem slökkviliðsmaður skal send til umhverfisráðherra. Með umsókn skal fylgja skírteini frá Brunamálaskólanum því til staðfestingar að umsækjandi hafi lokið tilskyldu námi. Einnig skal fylgja með yfirlýsing slökkviliðsstjóra eða annars yfirmanns, eftir því sem við á, um að umsækjandinn uppfylli skilyrði um lágmarksstarfstíma. Telji umsækjandi að hann hafi lokið öðru námi sem teljist sambærilegt námi úr Brunamálaskólanum, skal hann leggja fram vottorð eða prófskírteini um að hann hafi lokið því námi. Auk þess skal fylgja lýsing á náminu.


Þegar við á skal leita umsagnar skólaráðs Brunamálaskólans um hvort menntun umsækjanda geti talist sambærileg námi í Brunamálaskólanum.


V. KAFLI
Réttindi og skyldur.
15. gr.

Slökkviliðsmönnum ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið, m.a. með námskeiðum og verklegri þjálfun þar sem henni verður við komið.


16. gr.

Slökkviliðsmenn skulu að jafnaði ganga í einkennisfatnaði við störf sín. Einnig skulu þeir fá nauðsynlegan hlífðarfatnað. Brunamálastofnun setur nánari reglur um hlífðarbúnað.


17. gr.

Slökkviliðsmenn og aðrir sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra skulu vera tryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna eða vegna mengunaróhappa á landi í samræmi við áhættu starfsins. Lágmarkstrygging skal vera í samræmi við skilmála slysatryggingar starfsmanna sveitarfélaga samkvæmt kjarasamningum.


18. gr.

Við lífshættuleg skilyrði skal slökkviliðsmaður ávallt gæta þess að stofna hvorki eigin lífi né annarra í tvísýnu.

Ekki má á nokkurn hátt tálma því að slökkviliðsmenn geti sinnt starfi sínu.


19. gr.

Slökkviliðsmönnum er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum og eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt þeir láti af störfum.


20. gr.

Um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna fer að öðru leyti eftir IV. og V. kafla laga nr. 75/2000, um brunavarnir, og samþykktum um slökkvilið á hverjum stað, eftir því sem við á. Leita skal umsagnar hagsmunasamtaka slökkviliðsmanna um samþykktir er varðað geta hagsmuni slökkviliðsmanna.


21. gr.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum.


22. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 9. og 17. gr. laga um brunavarnir, nr. 75/2000, og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 195/1994, um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna.

Ákvæði til bráðabirgða.

Slökkviliðsmenn sem hlotið hafa réttindi og viðurkenningar samkvæmt eldri reglugerð nr. 195/1994 um réttindi og skyldur slökkviliðsmanna halda þeim.

Umhverfisráðuneytinu, 9. október 2001.

Siv Friðleifsdóttir.
Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica