Umhverfisráðuneyti

389/1995

Reglugerð um nítrósamín í gúmmítúttum og snuðum.

I. KAFLI - Gildissvið og almenn ákvæði.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um nítrósamín og önnur efni sem geta umbreyst í nítrósamín og hugsanlegt flæði þeirra úr gúmmítúttum og snuðum, sbr. einnig III. kafla reglugerðar nr. 537/1993 um efni og hluti sem ætlað er að snerta matvæli.

2. gr.

Gúmmítúttur og snuð skulu ekki gefa frá sér nítrósamín eða efni sem geta umbreyst í nítrósamín í meira magni en hægt er að greina samkvæmt þeirri aðferð sem lýst er í viðauka. Greiningarmörk aðferðarinnar eru eftirfarandi:

- 0,01 mg nítrósamín/kg þess hluta gúmmítúttu eða snuðs sem er úr gúmmíi;

- 0,1 mg efni sem geta umbreyst í nítrósamín/kg þess hluta gúmmítúttu eða snuðs sem er úr gúmmíi.

II. KAFLI - Eftirlit og gildistaka.

3. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

4.gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli, sbr. lög nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum og öðlast gildi við birtingu. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 48. tölul., tilskipun 89/109/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi efni og hluti sem ætlað er að komast í snertingu við matvæli, og þeim breytingum og viðbótum sem leiða af II. viðauka bókun 1 við samninginn, tilskipun 93/11/EBE um losun N-nítrósamína og N-nítrósamínmyndandi efna úr túttum og snuðum úr elastómer eða gúmmíi.

Umhverfisráðuneytið, 6. júlí 1995.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Viðauki:

Sjá B-deild Stjórnartíðinda.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica