Umhverfisráðuneyti

527/1999

Reglugerð um varnir gegn mengun sjávar vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa. - Brottfallin

1. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari merkir:

1.1 Aðskilin kjölfesta: Kjölfesta sem sett er í geymi og er algerlega aðskilin frá farmi og eldsneytisolíukerfum skipsins og er geyminum eingöngu ætlað að flytja kjölfestu eða farm sem ekki inniheldur olíu eða eitruð efni í fljótandi formi eins og þau eru skilgreind í reglugerð nr. 715/1995, í þessari reglugerð og í viðaukum samningsins.

1.2 Alþjóðakóði um efni sem flutt eru í lausu í geymum skips (International Bulk Chemical Code): Alþjóðakóði um smíði og búnað skipa er flytja hættuleg efni í lausu og settur var af Alþjóðasiglingamálastofnuninni með ályktun MEPC.19(22) með áorðnum breytingum, hér eftir nefndur IBC-kóðinn.

1.3 Efnaflutningaskip: Skip sem er smíðað eða er breytt til þess að flytja aðallega farm eitraðra efna í fljótandi formi í farmrýmum skipa, þ.m.t. olíuflutningaskip eins og það er skilgreint í 21. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 715/1995 um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, þegar farmur skips eða hluti farms skips eru eitruð efni í fljótandi formi í geymum.

1.4 Efni í fljótandi formi: Efni sem hafa gufuþrýsting lægri en 2,8 kp/cm2 við 37,8°C.

1.5 Eitruð efni í fljótandi formi: Eitruð efni í fljótandi formi sem flutt eru í lausu í farmrými skipa og falla í flokka A, B, C eða D sbr. fylgiskjal I við reglugerð þessa eða samkvæmt mati sbr. 3. mgr. 3. gr. falla í flokka A, B, C eða D til bráðabirgða.

1.6 Frá næsta landi: Frá grunnlínum landhelgi sem miðað er við þegar lögsaga er afmörkuð í samræmi við alþjóðalög, nema þegar mælt er fyrir um annað í samningnum.

1.7 Geymir: Lokað rými sem er formað af varanlegu smíðafyrirkomulagi skipsins og er hannað til að flytja vökva í lausu.

1.8 Hrein kjölfesta: Kjölfesta í geymi sem hefur verið vandlega hreinsaður eftir að hann var síðast notaður til flutnings á efnum er falla í flokka A, B, C eða D, sbr. 3. gr., leifarnar frá þeirri hreinsun verið losaðar út og geymirinn tæmdur í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

1.9 Kóði um efni sem flutt eru í lausu í geymum skips (Bulk Chemical Code): Alþjóðakóði sá sem gildir um smíði og búnað skipa er flytja hættuleg efni í lausu og settar hafa verið á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar með ályktun MEPC.20(22) með áorðnum breytingum, hér eftir nefndur BCH-kóðinn.

1.10 Olíuflutningaskip: Skip sem er smíðað eða er breytt og aðallega notað til að flytja olíu í lausu í farmrými, þar með talin fjölnotaskip og sérhvert efnaflutningaskip þegar það flytur olíu í lausu í geymum sínum eða í hluta af þeim.

1.11 Samningurinn: Alþjóðasamningur um varnir gegn mengun sjávar frá skipum frá 1973 ásamt bókun frá 1978 (MARPOL 73/78).

1.12 Sérhafsvæði: Hafsvæði þar sem viðurkenndar tæknilegar ástæður um haffræðilegar og vistfræðilegar aðstæður hafsvæðisins og sérstaða svæðisins vegna umferðar um það krefjast beitingar sérstakra lögboðinna aðferða til að koma í veg fyrir mengun hafsins frá eitruðum efnum í fljótandi formi. Eftirtalin hafsvæði eru sérhafsvæði samkvæmt reglugerð þessari:

a) Eystrasaltssvæðið eins og það er skilgreint í 10. reglu í viðauka I við samninginn,

b) Svartahafssvæðið eins og það er skilgreint í 10. reglu í viðauka I við samninginn og

c) hafsvæðið við Suðurheimskautið, þ.e.a.s. hafsvæðið sunnan við 60. breiddargráðu.

1.13 Smíðað skip: Skip þar sem kjölur hefur verið lagður eða er á svipuðu smíðastigi. Farið skal með skip, sem breytt er í efnaflutningaskip án tillits til þess hvenær það var smíðað, sem efnaflutningaskip smíðað á þeim degi er umrædd breyting hófst. Þetta á þó ekki við um breytingu á skipi sé það:

a) Smíðað fyrir 1. júlí 1986, og

b) hafi því verið veitt skírteini samkvæmt BCH-kóðanum er heimilar því einungis að flytja þau efni er samkvæmt kóðanum geta skapað mengunarhættu.

1.14 Stofnunin: Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO).

1.15 Stjórnvöld: Hollustuvernd ríkisins og faggiltir skoðunaraðilar sem Hollustuvernd ríkisins felur að sjá um eftirlit með tilteknum þáttum samkvæmt reglugerð þessari. Siglingastofnun Íslands eða aðili sem starfar í umboði hennar er stjórnvald í þeim málum er varða skip og búnað þeirra sbr. lög nr. 6/1996 með síðari breytingum.

1.16 Svipað smíðastig: Smíðastig þar sem:

a) smíði tiltekins skips er greinilega hafin; og

b) samsetning er hafin og er smíðin orðin að minnsta kosti 50 tonn að þyngd eða 1% af áætluðum heildarþunga smíðaefnis skipsins, eftir því hvort er minna.

2. gr.

Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi gildir um öll skip sem sigla í mengunarlögsögu Íslands og um skip sem sigla undir íslenskum fána utan mengunarlögsögu Íslands og flytja eitruð efni í fljótandi formi, nema annað sé sérstaklega tekið fram.

2.2 Þegar farmur, sem fellur undir ákvæði reglugerðar nr. 715/1995 um varnir gegn mengun sjávar frá skipum, er fluttur í geymum efnaflutningaskips skulu viðeigandi ákvæði þeirra reglugerðar einnig gilda.

2.3 Ákvæði 13. gr. skulu einungis eiga við um skip sem flytja efni sem falla undir flokka A, B eða C, sbr. 3. gr., vegna stjórnunar á losun þeirra.

2.4 Stjórnvöld geta heimilað notkun tengihluta, efna, tækja eða véla í stað þeirra sem reglugerð þessi tekur til ef þeir uppfylla lágmarkskröfur reglugerðar þessarar. Stjórnvöldum er óheimilt er að samþykkja aðrar starfsaðferðir er varða eftirlit með losun eitraðra efna í fljótandi formi en þeirra sem mælt er fyrir um í reglugerð þessari.

2.5 Stjórnvöld sem heimila notkun tengihluta, efna, tækja eða véla, sbr. 4. mgr., ber að tilkynna það stofnuninni svo hún geti tilkynnt það aðilum samningsins þeim til upplýsingar og svo grípa megi til aðgerða ef við á.

2.6 Um tilslökun á gildistöku breytingarákvæða gildir eftirfarandi:

a) Þegar breyting á þessari reglugerð felur í sér kröfur um breytingu á smíði, búnaði eða tengihluta vegna breyttra skilyrða fyrir flutningi ákveðinna efna er ráðherra heimilt að fresta um ákveðinn tíma gildistöku slíkra ákvæða ef um ræðir skip sem smíðuð hafa verið fyrir gildistökudag þessara breytinga ef gildistaka þegar í stað er álitin ósanngjörn eða óhagkvæm. Slík tilslökun skal ákveðin fyrir hvert efni sérstaklega.

b) Þegar ráðherra heimilar tilslökun á gildistöku breytingarákvæða, sbr. a) lið 6. mgr., skulu stjórnvöld greina stofnuninni frá því og gera grein fyrir hvaða skip þetta eigi við um, hvers konar farm þau flytja, hvert sé farsvið þeirra og hvað réttlæti slíka tilslökun svo stofnunin geti tilkynnt það aðilum samningsins þeim til upplýsingar og svo grípa megi til aðgerða ef við á.

3. gr.

Flokkun eitraðra efna í fljótandi formi.

3.1 Í reglugerð þessari eru eitruð efni í fljótandi formi flokkuð í fjóra eftirfarandi flokka:

a) Flokkur A: Eitruð efni í fljótandi formi sem myndu skapa umtalsverða hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna, valda alvarlegu tjóni á tilkomumiklum svæðum eða eru alvarleg hindrun gegn lögmætum notum hafsins og réttlæta því strangar mengunarvarnaaðgerðir ef efnin væru losuð í hafið við hreinsun á geymi eða við losun á kjölfestu.

b) Flokkur B: Eitruð efni í fljótandi formi sem myndu skapa hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna, valda tjóni á tilkomumiklum svæðum eða eru hindrun gegn lögmætum notum hafsins og réttlæta því sérstakar mengunarvarnaaðgerðir ef efnin væru losuð í hafið við hreinsun á geymi eða við losun á kjölfestu.

c) Flokkur C: Eitruð efni í fljótandi formi sem myndu skapa minni háttar hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna, valda litlu tjóni á tilkomumiklum svæðum eða eru lítil hindrun gegn lögmætum notum hafsins, og réttlæta því að ákveðnar kröfur séu gerðar til starfsaðstæðna ef efnin væru losuð í hafið við hreinsun á geymi eða við losun á kjölfestu.

d) Flokkur D: Eitruð efni í fljótandi formi sem myndu skapa greinanlega hættu á tjóni á náttúruauðlindum hafsins eða heilsu manna, valda smávægilegu tjóni á tilkomumiklum svæðum eða eru smávægileg hindrun gegn lögmætum notum hafsins, og réttlæta því að aðgát sé höfð við starfsaðstæður ef efnin væru losuð í hafið við hreinsun á geymi eða við losun á kjölfestu.

3.2 Eitruð efni í fljótandi formi skv. fylgiskjali I sem falla í flokka A, B, C eða D eru háð ákvæðum þessarar reglugerðar.

3.3 Ef til stendur að flytja efni í fljótandi formi og efnið hefur hvorki verið flokkað í samræmi við 1. mgr. né 1. mgr. 4. gr. skal flutningur efnisins fara fram undir ströngustu skilyrðum þar til stjórnvöld hafa ákveðið annað.

4. gr.

Önnur fljótandi efni.

4.1 Reglugerð þessi tekur ekki til fljótandi efna sem flutt eru í geymum skips sem falla ekki í flokka A, B, C eða D, sbr. 3. gr., þar sem þau eru eins og er ekki talin geta valdið tjóni á heilsu manna, náttúruauðlindum hafsins eða tilkomumiklum svæðum eða hindrað lögmæt not hafsins, þegar efnin eru losuð í hafið við hreinsun geymis eða við losun kjölfestu. Í fylgiskjali II er fjallað um fljótandi efni sem falla undir þessa grein.

4.2 Losun austurs eða kjölfestuvatns eða annarra leifa eða efnablandna sem innihalda einungis efni sem lýst er í 1. mgr. er ekki háð neinum skilyrðum samkvæmt þessari reglugerð.

4.3 osun hreinnar eða aðskilinnar kjölfestu í hafið fellur ekki undir ákvæði reglugerðarinnar.

5. gr.

Losun eitraðra efna í fljótandi formi.

5.1 Um losun efna í flokkum A, B eða C utan sérhafsvæða og efna í flokki D á öllum hafsvæðum með fyrirvara um ákvæði 6. gr. og 2. mgr. gildir eftirfarandi:

a) Óheimilt er að losa efni í flokki A í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur er innihalda slík efni. Ef hreinsa á geymi sem inniheldur slík efni eða efnablöndur skulu leifar frá hreinsuninni losaðar til móttökustöðvar uns hlutfall efnisins í afrennslinu er orðið 0,1% eða minna af þyngd þess og geymirinn er tómur. Hlutfall fosfórs, guls eða hvíts, má þó einungis ná 0,01% af þyngdinni. Vatni sem bætt er í geyminn eftir hreinsun má losa í hafið þegar eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) losun á sér stað undir sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

iii) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

b) Óheimilt er að losa efni í flokki B í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur sem innihalda slík efni, nema þegar öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) stjórnvöld hafa samþykkt aðferð og fyrirkomulag við losun en styrkleiki og hraði losunar afrennslisins má aldrei vera slíkur að styrkleiki efnisins í kjölfar stefnis skipsins fari yfir 1 hluta af milljón (1 ppm);

iii) hámarksmagn farms sem losaður er úr hverjum geymi og tengdum lögnum fari ekki yfir 1 m3 eða 1/3000 af geymslurými í m3;

iv) losun á sér stað undir sjólínu að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

v) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

c) Óheimilt er að losa efni í flokki C í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur sem innihalda slík efni, nema þegar öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) stjórnvöld hafa samþykkt aðferð og fyrirkomulag við losun en styrkleiki og hraði losunar afrennslisins skal aldrei verða slíkur að styrkleiki efnisins í kjölfar stefnis skipsins fari yfir 10 hluta í milljón (10 ppm);

iii) hámarksmagn farms sem losað er úr hverjum geymi og tengdum lögnum fari aldrei yfir 3 m3 eða 1/1000 af geymslurými í m3;

iv) losun á sér stað undir sjólínu að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

v) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

d) Óheimilt er að losa efni í flokki D í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar og efnablöndur sem innihalda slík efni, nema þegar öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) styrkur efnisins er ekki meiri en einn hluti þess á móti 10 hlutum af vatni; og

iii) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi.

e) Loftræstiaðferðir sem samþykktar hafa verið af stjórnvöldum má nota til þess að fjarlægja leifar farms úr geymi. Vatn sem sett er í geymi eftir á skal teljast hreint og skal ekki vera háð skilgreiningu a), b), c) eða d) liða 1. mgr.

f) Óheimilt er að losa í hafið efni sem ekki hafa verið flokkuð í samræmi við 3. gr., efni sem metin eru til bráðabirgða eða metin í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Sama gildir um kjölfestuvatn, hreinsunarvatn geyma eða aðrar leifar eða efnablöndur er innihalda slík efni.

5.2 Um losun efna innan sérhafsvæða er falla í flokka A, B og C gildir eftirfarandi:

a) Óheimilt er að losa efni í flokki A í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur er innihalda slík efni. Ef hreinsa á geymi, sem inniheldur slík efni eða efnablöndur skulu leifar þessara efna losaðar til viðeigandi móttökustöðvar, sbr. 7. gr., uns hlutfall efnisins í afrennslinu sem fært er til móttökustöðvarinnar er orðið 0,05% eða minna af þyngd þess og geymirinn tómur. Hlutfall fosfórs, guls eða hvíts, má þó einungis ná 0,005% af þyngdinni. Vatni sem bætt er í geyminn eftir þessa hreinsun má losa í hafið þegar öllum eftirfarandi skilyrðum hefur verið fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) losun á sér stað undir sjólínu að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

iii) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

b) Óheimilt er að losa efni í flokki B í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur sem innihalda slík efni, nema þegar eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Geymirinn hefur verið forhreinsaður í samræmi við kröfur stjórnvalda og hreinsivatn hans hefur verið losað til móttökustöðvar;

ii) skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

iii) stjórnvöld hafi samþykkt aðferð við framkvæmd losunar og styrkleiki og hraði losunar afrennslisins skulu aldrei verða slíkir að styrkur efnisins í kjölfari skipsins fari yfir 1 hluta í milljón (1 ppm);

iv) losun á sér stað undir sjólínu að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

v) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

c) Óheimilt er að losa efni í flokki C í hafið, sbr. 3. gr., og sömuleiðis efni sem hafa verið metin til bráðabirgða sem slík. Sama gildir um kjölfestu, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur sem innihalda slík efni, nema þegar öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

i) Skip sem eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti sjö hnútum og skip sem ekki eru knúin eigin vélarafli skulu vera á hraða sem nemur að minnsta kosti fjórum hnútum;

ii) stjórnvöld hafa samþykkt aðferð við framkvæmd losunar og styrkleiki og hraði losunar afrennslisins skulu aldrei verða slíkir að styrkur efnisins í kjölfari skipsins fari yfir 1 hluta í milljón (1 ppm);

iii) hámarksmagn farms sem losað er úr hverjum geymi og tengdum lögnum fari ekki yfir 1 m3 eða 1/3.000 af geymslurými í m3;

iv) losun á sér stað undir sjólínu, að teknu tilliti til staðsetningar sjóinntaks; og

v) losun á sér stað að minnsta kosti 12 sjómílum frá næsta landi og þar sem dýpt nemur að minnsta kosti 25 metrum.

d) Loftræstiaðferðir sem samþykktar hafa verið af stjórnvöldum má nota til þess að fjarlægja leifar farms úr geymi. Vatn sem sett er í geymi eftir á skal teljast hreint og skal ekki vera háð skilgreiningu a), b) eða c) liða 2. mgr.

e) Óheimilt er að losa í hafið efni sem ekki hafa verið flokkuð í samræmi við 3. gr., efni sem metin eru til bráðabirgða eða metin í samræmi við 1. mgr. 4. gr. Sama gildir um kjölfestuvatn, hreinsunarvatn geymis eða aðrar leifar eða efnablöndur er innihalda slík efni.

f) Ákvæðum þessarar reglugerðar er ekki ætlað að hindra skip frá að geyma um borð leifar af farmi efna er falla í flokka B eða C og losa þau efni í hafið utan sérhafsvæða í samræmi við b) og c) lið 2. mgr. eins og við á.

g) Með öllu er óheimilt að losa eitruð efni í fljótandi formi eða efnablöndur er innihalda slík efni í hafið innan hafsvæðisins við Suðurheimskautið.

5.3 Um dælu- og lagnabúnað gildir eftirfarandi:

a) Sérhvert skip sem er smíðað 1. júlí 1986 eða síðar skal búið dælu- og lagnabúnaði sem tryggi, samkvæmt prófun við hagstæð dæluskilyrði, að hver geymir sem ætlað er að flytja efni er falla í flokk B, sbr. 3. gr., innihaldi ekki leifar umfram 0,1 m3 og magn efnis í flokki C fari ekki umfram 0,3 m3 í lagnakerfi geymisins og við dælubrunn í þeim tanki skipsins.

b) Sérhvert skip sem er smíðað fyrir 1. júlí 1986 skal búið dælu- og lagnabúnaði er tryggi, samkvæmt prófun við hagstæð dæluskilyrði, að hver geymir sem ætlað er að flytja efni er falla í flokk B, sbr. 3. gr., innihaldi ekki leifar umfram 0,3 m3 og magn efnis í flokki C fari ekki umfram 0,9 m3 í lagnakerfi geymisins og við dælubrunn í þeim tanki skipsins.

c) Dæluskilyrði sem vísað er til í a) og b) lið 3. mgr. skulu vera í samræmi við kröfur stjórnvalda, sem settar eru samkvæmt stöðlum frá stofnuninni.1) Þegar kannað er hvort dælukerfi uppfylli kröfur stjórnvalda skal vatni dælt í gegnum kerfið.

5.4 Eftirfarandi gildir um skip sem smíðuð hafa verið fyrir 1. júlí 1986:

a) Með fyrirvara um ákvæði b) liðar 4. mgr. skulu ákvæði a) liðar 3. mgr. ekki gilda um skip sem smíðuð hafa verið fyrir 1. júlí 1986 og sigla einungis eftir leiðum sem ákveðnar hafa verið af stjórnvöldum á milli:

i) hafna eða umskipunarstöðva í ríki sem aðili er að samningnum; eða

ii) hafna eða umskipunarstöðva í ríkjum sem aðilar eru að samningnum.

b) Ákvæði a) liðar skulu þó einungis gilda um skip sem eru smíðuð fyrir 1. júlí 1986, ef:

i) geymir sem inniheldur efni úr flokkum B eða C, sbr. 3. gr., eða efnablöndur er innihalda slík efni, er hreinsaður í hvert sinn eða kjölfesta tekin, en þá aðeins ef slík hreinsun fer fram eftir aðferðum við fyrirfram hreinsun sem samþykktar hafa verið af stjórnvöldum og hreinsunarvatn geymisins er losað til móttökustöðvar;

ii) hreinsivatn geymisins vegna síðari hreinsana og kjölfestuvatn losað til móttökustöðvar eða í hafið í samræmi við önnur ákvæði þessarar reglugerðar;

iii) stjórnvöld hafa metið hvort móttökustöðvar hafna þeirra eða umskipunarstöðva, sbr. a) lið, fullnægi skyldum samkvæmt b) og samþykkt þær;

iv) stjórnvöld tilkynna stofnuninni um skip sem sigla til hafna eða umskipunarstöðva er falla undir lögsögu annarra aðila samningsins svo hún geti tilkynnt undanþáguna aðilum samningsins þeim til upplýsingar og svo grípa megi til aðgerða ef við á;

v) útgáfa skírteinis, sbr. 11. gr., er háð því skilyrði, að skipið sigli einungis þær takmörkuðu leiðir er lýst er í a) lið.

5.5 Ef smíði skips og notkun þess eru þannig að kjölfestu er ekki krafist í farmgeymum og hreinsun farmgeyma er einungis vegna viðgerða eða slipptöku er stjórnvöldum heimilt að veita undanþágur frá a) og b) liðum 4. mgr. ef öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a) Hönnun, smíði og búnaður skipsins hafa verið samþykkt af stjórnvöldum að teknu tilliti til þeirrar notkunar sem skipið er ætlað í;

b) allt afrennsli frá hreinsun geyma í sambandi við viðgerð eða slipptöku er losað til móttökustöðvar sem stjórnvöld hafa samþykkt;

c) í skírteini, sbr. 11. gr., komi fram:

i) að í farmgeymi sé heimilt að flytja eina tegund efnis; og

ii) sérstakar ástæður leyfisins;

iii) um borð í skipinu sé notkunarhandbók er samþykkt hefur verið af stjórnvöldum;

iv) stjórnvöld tilkynni stofnuninni um skip með slíka undanþágu er sigla til hafna eða umskipunarstöðva sem falla undir lögsögu annarra aðila samningsins svo hún geti tilkynnt aðilum samningsins um undanþáguna þeim til upplýsingar og svo grípa megi til aðgerða ef við á.

6. gr.

Undanþágur.

6.1. Ákvæði 5. gr. skulu ekki gilda við eftirfarandi aðstæður:

a) Ef losun eitraðra efna í fljótandi formi eða efnablandna er innihalda slík efni í hafið er nauðsynleg vegna öryggis skips eða til þess að bjarga mannslífum á hafi úti eða;

b) ef losun eitraðra efna í fljótandi formi eða efnablandna er innihalda slík efni í hafið er afleiðing tjóns á skipi eða búnaði þess:

i) að því tilskyldu að gripið hafi verið til réttmætra varúðarráðstafana eftir að tjónið átti sér stað eða að losun uppgötvaðist til þess að koma í veg fyrir eða draga sem mest úr losuninni; og

ii) með þeirri undantekningu að ef eigandi skips eða skipstjóri ollu tjóninu vísvitandi eða af gáleysi þannig að þeim mátti vera ljóst að hegðun þeirra gæti valdið tjóni; eða

c) ef losun eitraðra efna í fljótandi formi, eða efnablandna er innihalda slík efni, í hafið hefur verið samþykkt af stjórnvöldum í þeim tilgangi að berjast gegn tilteknu mengunaróhappi eða draga sem mest úr tjóni vegna þess.

7. gr.

Móttökustöðvar.

7.1 Þeir einstaklingar eða fyrirtæki sem flytja inn efni sem falla undir reglugerð þessa skulu hafa fullnægjandi móttökustöðvar til þess að taka á móti leifum og efnablöndum er innihalda eitruð efni í fljótandi formi, skv. 3. gr. í reglugerð þessari. Aðstöðuna skulu þeir hafa einir eða í samvinnu við einstaklinga eða fyrirtæki er hafa til þess leyfi frá ráðherra og tryggja viðunandi eyðingu.

7.2 Eigendur og umráðamenn hleðslustöðva fyrir efnaflutningaskip og skipaviðgerðarstöðvar skulu sjá um að stöðvarnar hafi fullnægjandi aðstöðu til að taka við leifum og efnablöndum sem innihalda eitruð efni í fljótandi formi skv. 3. gr. reglugerðar þessarar sem er eftir í skipum þegar þau koma í stöðvarnar.

8. gr.

Eftirlit.

8.1 Hollustuvernd ríkisins annast eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.

a) Hollustuvernd ríkisins er heimilt að fela tiltekna þætti framkvæmdar reglugerðarinnar faggiltum skoðunaraðilum. Skal í slíkum tilvikum gera sérstakan samning við hinn faggilta skoðunaraðila, sbr. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins. Um faggildinguna fer samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu.

b) Skipstjóri skips er flytur eitruð efni í fljótandi formi í geymum skips skal tryggja að ákvæðum 5. gr. sé fullnægt og að færslur séu færðar í farmdagbók þegar við á, í samræmi við 9. gr.

c) Undanþágur þær sem vísað er til í b) lið 2. mgr., b) lið 5. mgr. og c) lið 7. mgr. er stjórnvöldum eingöngu heimilt að veita skipum er sigla til hafna eða umskipunarstöðva er tilheyra lögsögu annarra aðila samningsins. Ef slík undanþága er veitt skal hennar getið með viðeigandi hætti í farmdagbók og staðfest af eftirlitsaðilum, sbr. a) lið.

8.2 Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um efni er falla í flokk A, sbr. 3. gr., á öllum hafsvæðum.

a) Geymir sem hefur verið affermdur skal, með fyrirvara þeim sem fram kemur í b) lið, vera hreinsaður í samræmi við 3. og 4. mgr. áður en skipið lætur úr höfn þar sem löndun hefur átt sér stað.

b) Að beiðni skipstjóra, getur ráðherra eða önnur bær yfirvöld veitt skipi undanþágu frá hreinsun samkvæmt a) lið ef:

i) Setja á í geymi þann sem affermdur hefur verið sama efni eða sambærilegt og geymirinn verður ekki hreinsaður eða notaður fyrir kjölfestu fyrir lestun; eða

ii) geymirinn sem affermdur er mun hvorki verða hreinsaður né notaður fyrir kjölfestu á hafi úti og skilyrðum 3. og 4. mgr. verður fullnægt í annarri höfn að því tilskildu að skrifleg staðfesting liggi fyrir um að fullnægjandi móttökustöð sé til staðar í þeirri höfn; eða

iii) leifar úr geyminum verða fjarlægðar með loftræstiaðferð er samþykkt hefur verið af stjórnvöldum.

8.3 Ef hreinsa á geymi í samræmi við a) lið 2. mgr. skal afrennsli frá hreinsuninni vera losað til móttökustöðvar uns hlutfall efnisins í afrennsli eins og það mælist í sýnum teknum af skoðunaraðila er að minnsta kosti orðið jafnlágt og fram kemur í a) lið 1. mgr. og 2. mgr. 5. gr. eins og við á. Þegar ætluðum styrkleika hefur verið náð skal halda áfram að losa afrennslið til móttökustöðvar uns geymirinn er tómur. Viðeigandi færslur um þessar aðgerðir skulu færðar í farmdagbókina og þær staðfestar af skoðunaraðila, sbr. a) lið 1. mgr.

8.4 Ef ráðherra telur ógerlegt að mæla styrkleika efnis í afrennsli án þess að valda skipinu ótilhlýðilegum töfum geta stjórnvöld heimilað aðra aðferð er jafngildir þeirri er lýst er í 3. mgr., að því tilskildu:

a) að geymirinn hafi verið forhreinsaður í samræmi við kröfur stjórnvalda; og

b) að eftirlitsmaður, sbr. a) lið 1. mgr., staðfesti í farmdagbók að:

i) geymirinn og dælu- og lagnakerfi hans hafi verið tæmd;

ii) geymirinn hafi verið forhreinsaður með tilliti til þess efnis sem hann hann var að flytja og í samræmi við kröfur stjórnvalda; og

iii) hreinsivatn geymisins vegna forhreinsunar hafi verið losað til móttökustöðvar og geymirinn er tómur.

8.5 Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um efni er falla í flokka B og C, sbr. 3. gr., utan sérhafsvæða:

a) Geymir sem hefur verið affermdur skal með fyrirvara í b) lið vera forhreinsaður áður en skipið lætur frá höfn þar sem löndun átti sér stað þegar:

i) efni sem affermt er hefur þá eiginleika2) að leiða af sér magn leifa umfram hámarksmagn það sem losa má í hafið skv. b) og c) lið 1. mgr. 5. gr. fyrir efni sem falla í flokka B eða C eins og við á; eða

ii) löndun er ekki framkvæmd í samræmi við dæluskilyrði geymisins, eins og stjórnvöld hafa fallist á þau, sbr. c) lið 3. mgr. 5. gr. nema eftirlitsmaður samþykki aðrar aðferðir við að fjarlægja leifar farms úr skipinu að því marki sem skilgreint er í 3., 4. og 5. mgr. 5. gr.

iii) stjórnvöld skulu hafa samþykkt aðferð þá sem beitt er við forhreinsun.

b) Að beiðni skipstjóra getur ráðherra eða önnur bær yfirvöld veitt skipi undanþágu frá kröfum er fram koma í a) lið 5. mgr., að fullnægðum einhverju eftirfarandi skilyrða:

i) Ferma á geymi þann sem affermdur hefur verið með sama efni eða sambærilegu, og geymirinn verður ekki hreinsaður eða notaður fyrir kjölfestu fyrir lestun; eða

ii) geymirinn sem affermdur er mun hvorki verða hreinsaður eða kjölfesta tekin á hafi úti og tankurinn er forhreinsaður í samræmi við kröfur stjórnvalda og hreinsivatn geymisins mun verða losað í annarri höfn að því tilskildu að skrifleg staðfesting liggi fyrir um að fullnægjandi móttökustöð sé til staðar í þeirri höfn; eða

iii) leifar farmsins verða fjarlægðar með loftræstiaðferð er samþykkt hefur verið af stjórnvöldum.

8.6 Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um efni er falla í flokk B, sbr. 3. gr., innan sérhafsvæða:

a) Geymir sem hefur verið affermdur skal með fyrirvara um b) og c) lið vera forhreinsaður áður en skipið lætur úr höfn þar sem löndun átti sér stað. Forhreinsun skal hafa verið í samræmi við kröfur stjórnvalda og hreinsivatn geymisins skal losað til móttökustöðvar í höfn þar sem löndun átti sér stað.

b) Kröfur þær sem gerðar eru í a) lið skulu ekki eiga við þegar:

i) efni í flokki B sem affermt er hefur þá eiginleika2) að leiða af sér magn leifa umfram hámarksmagn það sem losa má í hafið utan sérhafsvæða skv. 2. mgr. 5. gr. og leifarnar eru geymdar um borð í skipinu til losunar í hafið síðar er skipið verður komið út fyrir sérhafsvæði í samræmi við b) lið 1. mgr. 5. gr.; og

ii) löndun er framkvæmd í samræmi við dæluskilyrði geymis eins og stjórnvöld hafa fallist á, sbr. c) lið 3. mgr. 5. gr., eða ef dæluskilyrðum er ekki fullnægt. Þá skulu leifar farms fjarlægðar að því marki sem skilgreint er í 3., 4. og 5. mgr. 5. gr., eftir öðrum aðferðum sem samþykktar hafa verið af eftirlitsmanni.

c) Að beiðni skipstjóra getur ráðherra eða önnur bær yfirvöld veitt skipi undanþágu frá kröfum er fram koma í a) lið að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:

i) Þegar ferma á geymi þann sem affermdur hefur verið með sama efni eða sambærilegu efni og geymirinn verður ekki hreinsaður eða notaður fyrir kjölfestu fyrir lestun; eða

ii) geymirinn sem affermdur er mun hvorki verða hreinsaður eða kjölfesta tekin á hafi úti og geymirinn er forhreinsaður í samræmi við kröfur stjórnvalda og hreinsivatn geymisins verður losað til móttökustöðvar í annarri höfn að því tilskildu að skrifleg staðfesting liggi fyrir um að fullnægjandi móttökustöð sé til staðar í þeirri höfn; eða

iii) leifar farmsins munu verða fjarlægðar með loftræstiaðferðum er samþykktar hafa verið af stjórnvöldum.

8.7 Eftirfarandi ákvæði skulu gilda um efni er falla í flokk C, sbr. 3. gr., innan sérhafsvæða:

a) Geymir sem hefur verið affermdur skal með fyrirvara um b) og c) lið vera forhreinsaður áður en skipið lætur úr höfn þar sem löndun átti sér stað þegar:

i) efni í flokki C sem affermt er hefur þá eiginleika3) að leiða af sér magn leifa umfram hámarksmagn það sem losa má í hafið skv. c) lið 2. mgr. 5. gr.; eða

ii) löndun er ekki framkvæmd í samræmi við dæluskilyrði geymisins eins og stjórnvöld hafa fallist á þau sbr. c) lið 3. mgr. 5. gr. nema eftirlitsmaður samþykki aðrar aðferðir við að fjarlægja leifar farms úr skipinu að því marki sem skilgreint er í 3., 4. og 5. mgr. 5. gr. Stjórnvöld skulu hafa samþykkt aðferð þá sem beitt er við forhreinsun.

b) Kröfur þær sem gerðar eru í a) lið skulu ekki eiga við þegar:

i) efni í flokki C sem affermt er hefur þá eiginleika3) að leiða af sér magn leifa umfram hámarksmagn það sem losa má í hafið skv. c) lið 1. mgr. 5. gr. og leifarnar eru geymdar um borð í skipinu til losunar í hafið síðar er skipið verður komið út fyrir sérhafsvæði í samræmi við c) lið 1. mgr. 5. gr. og

ii) löndun er framkvæmd í samræmi við dæluskilyrði geymisins eins og stjórnvöld hafa fallist á þau sbr. c) lið 3. mgr. 5. gr. eða, ef dæluskilyrðum er ekki fullnægt, eftir aðferðum við að að fjarlægja leifar farms úr skipinu að því marki sem skilgreint er í 3., 4. og 5. mgr. 5. gr. og samþykktar hafa verið af eftirlitsaðila.

c) Að beiðni skipstjóra getur ráðherra eða önnur bær yfirvöld veitt skipi undanþágu frá kröfum er fram koma í a) lið að fullnægðum eftirfarandi skilyrðum:

i) ferma á geymi þann sem affermdur hefur verið með sama efni eða sambærilegu og geymirinn verður ekki hreinsaður eða notaður fyrir kjölfestu fyrir lestun; eða

ii) geymirinn sem affermdur er mun hvorki verða hreinsaður né kjölfesta tekin á hafi úti og geymirinn er forhreinsaður í samræmi við kröfur stjórnvalda og hreinsivatn geymisins verður losað til móttökustöðvar í annarri höfn að því tilskildu að skrifleg staðfesting liggi fyrir um að fullnægjandi móttökustöð sé til staðar í þeirri höfn; eða

iii) leifar farmsins munu verða fjarlægðar með loftræstiaðferðum er samþykktar hafa verið af stjórnvöldum.

8.8 Þegar efni sem falla í flokk D, sbr. 3. gr., hafa verið affermd úr geymi skal geymirinn annað hvort hreinsaður og hreinsivatnið losað til móttökustöðvar eða leifar efnisins þynntar út og losaðar í hafið í samræmi við d) lið 1. mgr. 5. gr.

8.9 Allar leifar sem geymdar eru um borð í skipi í dregggeymi, þar með talin efni sem upprunnin eru frá austri farmdælurýmis og innihalda efni er falla í flokk A eða undir ákveðnum skilyrðum annað hvort flokk A eða B, skulu losaðar til móttökustöðvar í samræmi við a) lið 1. mgr. 5. gr., 7. gr. eða 8. gr., eins og við á.

9. gr.

Farmdagbók.

9.1 Hvert það skip er fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar skal búið farmdagbók sem uppfyllir skilyrði samningsins.

9.2 Færsla skal gerð í farmdagbók fyrir sérhvern geymi í hvert sinn sem einhver af eftirfarandi aðgerðum er framkvæmd um borð í skipi í tengslum við eitruð efni í fljótandi formi:

a)

lestun farms;

b)

flutning farms innan skips;

c)

löndun farms;

d)

hreinsun farmgeyma;

e)

kjölfesta tekin í farmgeyma;

f)

losun kjölfestu úr farmgeymum;

g)

öndun leifa til móttökustöðva;

h)

losun í hafið eða leifar fjarlægðar með loftræstiaðferð, sbr. 5. gr.

9.3 Ef losun á eitruðu efni í fljótandi formi á sér stað með þeim hætti sem lýst er í 6. gr., hvort sem losunin á sér stað með vísvitandi hætti eða fyrir slysni, skulu upplýsingar um aðstæður við losun og ástæður fyrir henni færðar í farmdagbók.

9.4 Þegar eftirlitsmaður sem veitt hefur verið starfsleyfi ráðherra skv. b) lið 1. mgr. 8. gr., hefur skoðað skip skal hann færa um það viðeigandi færslu í farmdagbók.

9.5 Hver sú aðgerð sem vísað er til í 2. og 3. mgr., skal án tafar skráð í farmdagbók með ítarlegum hætti, þannig að allar færslur í farmdagbókinni um aðgerðina lýsi henni algerlega. Hver færsla skal vera undirrituð af þeim yfirmanni eða yfirmönnum er bera ábyrgð á aðgerðinni og hver blaðsíða skal vera undirrituð af skipstjóra skipsins. Færslur í farmdagbók skulu vera á íslensku fyrir skip sem skráð eru hér á landi en á opinberu máli fánaríkis erlendra skipa. Færslur í farmdagbók skips sem hefur alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini fyrir flutning hættulegra efna í fljótandi formi í geymum skips, sbr. 11. gr., eða skírteini skv. 4. mgr. 12. gr. skulu einnig vera á ensku eða frönsku. Færslur á íslensku skulu vera rétthærri ef ágreiningur eða misræmi kemur upp.

9.6 Farmdagbók skal ávallt geyma á vísum stað um borð í skipi þannig að unnt sé að leggja hana fram til skoðunar þegar þess er óskað. Þetta á þó ekki við um ómönnuð skip sem eru dregin. Farmdagbók skal geymd í þrjú ár eftir dagsetningu síðustu færslu.

9.7 Stjórnvöldum er heimilt að skoða farmdagbók um borð í hverju því skipi er fellur undir gildissvið þessarar reglugerðar þegar skipið liggur í höfn. Jafnframt er þeim heimilt að taka afrit af öllum færslum bókarinnar og geta krafist þess að skipstjóri skipsins staðfesti að afritið sé rétt afrit af viðkomandi færslu. Ef borinn er undir dómstóla ágreiningur um efni færslna í farmdagbók ber stjórnvöldum að heimila aðgang að staðfestum afritum úr bókinni ef þau liggja fyrir. Skoðun farmdagbókar og afritun færslna samkvæmt þessari málsgrein skal gerð með þeim hætti að það valdi skipi ekki ótilhlýðilegum töfum.

10. gr.

Skoðun.

10.1 Skip sem flytja eitruð efni í fljótandi formi í geymum skulu vera háð skoðunum sem eru eftirfarandi:

a) Upphafsskoðun áður en skipið er tekið í notkun eða áður en skírteini, skv. 11. gr., er gefið út í fyrsta sinn. Slík skoðun felur í sér alhliða skoðun á smíðafyrirkomulagi, búnaði, kerfum, tengihlutum, fyrirkomulagi og efni er reglugerð þessi tekur til. Skoðun þessari er ætlað að tryggja að ofangreind atriði séu í samræmi við kröfur þessarar reglugerðar.

b) Reglubundnar aðalskoðanir skulu gerðar á a.m.k. fimm ára fresti og skulu tryggja að smíðafyrirkomulag, búnaður, kerfi, tengihlutir, fyrirkomulag og efni fullnægi kröfum þessarar reglugerðar.

c) Milliskoðun, sem skal vera að minnsta kosti ein á gildistíma skírteinisins, er ætlað að tryggja að búnaður og tengd dælu- og lagnakerfi fullnægi skilyrðum þessarar reglugerðar og séu í góðu ásigkomulagi. Þegar einungis ein slík milliskoðun er framkvæmd á gildistíma skírteinis skal hún ekki gerð fyrr en sex mánuðum fyrir þann dag er gildistími skírteinisins er hálfnaður og ekki síðar en sex mánuðum eftir þann dag. Skírteinið, sbr. 11. gr., skal áritað að lokinni slíkri milliskoðun.

d) Árleg skoðun er fari fram innan þriggja mánaða fyrir eða eftir gildistökudag skírteinis og felur í sér almenna skoðun til þess að tryggja að smíðafyrirkomulag, tengihlutir, fyrirkomulag og efni séu í öllum atriðum fullnægjandi, að teknu tilliti til þess farsviðs sem skipinu er ætlað. Að lokinni árlegri skoðun skal árita skírteinið sbr. 11. gr.

10.2 Siglingastofnun Íslands annast skoðun skipa samkvæmt reglugerð þessari en stofnuninni er heimilt að veita sérstökum skoðunaraðilum umboð til að annast þessar skoðanir í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 153/1994 um viðurkenningu flokkunarfélaga vegna eftirlits með skipum.

10.3 a) Ástandi skips og búnaðar þess skal haldið við í samræmi við kröfur reglugerðar þessarar svo ástand þess sé ávallt þannig að það geti látið úr höfn án verulegrar hættu á tjóni fyrir umhverfi hafsins.

b) Eftir hverja skoðun skv. 1. mgr. er óheimilt að breyta smíðafyrirkomulagi, búnaði, kerfum, tengihlutum, fyrirkomulagi og aðra þætti er falla undir viðkomandi skoðun án samþykkis stjórnvalda nema þegar skipt er út búnaði eða tengihlutum fyrir sams konar búnað eða tengihluti.

c) Þegar tjón eða bilun verður á skipi sem líklegt er talið að geti haft áhrif á ástand skipsins og búnaðar þess er fellur undir þessa reglugerð ber skipstjóra eða eiganda skips að tilkynna það við fyrsta tækifæri til stjórnvalda og þeirra aðila sem gáfu út alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini sem skulu meta hvort nauðsyn beri til skoðunar samkvæmt 1. mgr. Ef skipið er statt í höfn annars aðila að samningnum ber skipstjóra eða eiganda skipsins að senda slíka tilkynningu án tafar til viðeigandi stjórnvalda hafnarríkisins og þeir aðilar sem gáfu út skírteini skulu fullvissa sig um að slík tilkynning hafi verið send.

11. gr.

Útgáfa skírteinis.

11.1 Alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini fyrir flutning eitraðra efna í fljótandi formi skal útgefið eftir skoðun í samræmi við 10. gr. fyrir sérhvert skip er flytur eitruð efni í fljótandi formi og eru í ferðum til hafna eða umskipunarstöðva er falla undir lögsögu annarra aðila samningsins.

11.2 Skírteini samkvæmt 1. mgr. skal gefið út af stjórnvöldum.

11.3 Um skip sem siglir undir fána annars ríkis gildir eftirfarandi:

a) Ráðherra getur að beiðni bærra stjórnvalda annars ríkis sem aðili er að samningnum látið skoða skip er siglir undir fána þess ríkis. Ef ráðherra telur að ákvæðum þessarar reglugerðar sé fullnægt skal hann gefa út eða heimila útgáfu á alþjóðlegu efnamengunarvarnaskírteini fyrir flutning eitraðra efna í fljótandi formi í samræmi við reglugerð þessa.

b) Afrit af skírteini og afrit af skoðunarskýrslu skal senda eins fljótt og unnt er til stjórnvalds þess er óskaði eftir skoðuninni.

c) Skírteini sem gefið er út samkvæmt 2. mgr. skal áritað yfirlýsingu þess efnis að skírteinið hafi verið gefið út samkvæmt beiðni viðkomandi stjórnvalds og að það skuli hafa hafa sama gildi og hljóta sömu viðurkenningu og skírteini gefið út skv. 1. mgr.

d) Óheimilt er að gefa út alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini vegna skips sem siglir undir fána ríkis sem ekki er aðili að samningnum.

11.4 Alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini fyrir flutning eitraðra efna í fljótandi formi skal vera á íslensku en einnig skal fylgja þýðing á ensku. sbr. fylgiskjal III þar sem form slíks skírteinis er sýnt.

12. gr.

Gildistími skírteinis.

12.1 Alþjóðlegt efnamengunarvarnaskírteini fyrir flutning eitraðra efna í fljótandi formi, skal gefið út til tiltekins tíma en þó aldrei lengur en til fimm ára frá útgáfudegi.

12.2 Skírteini fellur úr gildi ef afgerandi breytingar hafa verið gerðar án samþykkis stjórnvalda á smíðafyrirkomulagi, búnaði, kerfum, tengihlutum, fyrirkomulagi eða efni er reglugerð þessi tekur til, nema um sé að ræða endurnýjun á þannig búnaði, eða tengihlutum, eða ef milliskoðanir sem tilgreindar eru af stjórnvöldum samkvæmt c) og d) lið 1. mgr. 10. gr. fara ekki fram.

12.3 Skírteini fellur úr gildi ef skip er flutt undir fána annars ríkis. Nýtt skírteini skal einungis gefið út þegar skipið uppfyllir að mati stjórnvalda kröfur í ákvæðum a) og b) liða 3. mgr. 10. gr. Þegar skip sem skráð hefur verið hér á landi er flutt undir fána annars aðildarríkis, skulu stjórnvöld senda eins fljótt og unnt er, ef beiðni þar að lútandi berst innan þriggja mánaða frá flutningi skipsins, viðeigandi stjórnvaldi hins aðildarríkisins afrit af skírteini skipsins sem gefið var út fyrir flutning þess auk afrits viðeigandi skoðunarskýrslu ef hún er fyrir hendi.

12.4 Þrátt fyrir ákvæði 10. og 11. gr. og 1., 2. og 3. mgr., skulu efnaflutningaskip sem skoðuð hafa verið af aðilum samningsins í samræmi við ákvæði IBC- og BCH-kóðanna eins og við á og talin hafa uppfyllt kröfur nefndra ákvæða, vera viðurkennd með sama hætti og önnur efnaflutningaskip sem hlotið hafa skírteini sem gefið er út samkvæmt þessari reglugerð.

13. gr.

Ráðstafanir til að draga úr mengunaróhöppum.

13.1 Hönnun, smíðafyrirkomulag, búnaður og rekstur skipa, er flytja eitruð efni í fljótandi formi í flokkum A, B eða C, skulu vera þannig að sem mest dragi úr stjórnlausri losun þessara efna í hafið.

13.2 Efnaflutningaskip sem smíðuð eru þann 1. júlí 1986 eða síðar skulu uppfylla skilyrði IBC-kóðans.

13.3 Efnaflutningaskip sem smíðuð eru fyrir 1. júlí 1986 skulu uppfylla eftirfarandi skilyrði:

a) Eftirfarandi efnaflutningaskip skulu uppfylla sömu skilyrði og þau skip sem vísað er til í gr. 1.7.2 í BCH-kóðanum:

i) Skip sem smíðasamningur hefur verið gerður um 2. nóvember 1973 eða síðar og eru í ferðum til hafna og umskipunarstöðva er falla undir lögsögu annarra aðila samningsins; og

ii) skip er smíðuð eru þann 1. júlí 1983 eða síðar og eru eingöngu í ferðum á milli hafna og umskipunarstöðva innan íslenskrar lögsögu.

b) Eftirfarandi efnaflutningaskip skulu uppfylla sömu skilyrði og þau skip sem vísað er til í grein 1.7.3 í BCH-kóðanum:

i) Skip sem smíðasamningur hefur verið gerður um fyrir 2. nóvember 1973 og eru í ferðum til hafna og umskipunarstöðva er falla undir lögsögu annarra aðila samningsins; og

ii) skip er smíðuð eru fyrir 1. júlí 1983 og eru eingöngu í ferðum á milli hafna og umskipunarstöðva innan íslenskrar lögsögu.

13.4 Ef skip önnur en efnaflutningaskip flytja eitruð efni í fljótandi formi er falla í flokka A, B eða C, sbr. 3. gr., skulu þau uppfylla öll viðeigandi skilyrði IBC- og BCH-kóðanna.

14. gr.

Flutningur og losun olíuskyldra efna.

14.1 Þrátt fyrir ákvæði annarra greina þessarar reglugerðar má flytja eitruð efni í fljótandi formi er talin eru falla í flokka C eða D í reglugerð þessari og skilgreind hafa verið af stofnuninni sem olíuskyld efni í olíuflutningaskipum eins og þau eru skilgreind í reglugerð nr. 715/1995 og losa þau í samræmi við ákvæði þeirrar reglugerðar ef öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

a) Skipið fullnægir ákvæðum reglugerðar nr. 715/1995 um þær kröfur er gerðar eru til skipa er flytja slík efni;

b) alþjóðlegt olíumengunarvarnaskírteini hefur verið gefið út fyrir skipið þar sem segir að skipið megi flytja olíuskyld efni í samræmi við ákvæði og einnig er að finna á skírteininu lista yfir olíuskyld efni sem skipinu er heimilt að flytja;

c) ef um er að ræða efni er falla í flokk C, skal skipið uppfylla _kröfur um lekastöðugleika skipa af gerð 3" er fram koma í:

i) IBC-kóðanum þegar um er að ræða skip er smíðuð hafa verið 1. júlí 1986 eða síðar; eða

ii) BCH-kóðanum eins og þær eiga við í 13. gr., þegar um er að ræða skip er smíðað hefur verið fyrir 1. júlí 1986, og

d) stjórnvöld hafa heimilað að olíumælirinn í vöktunar- og eftirlitskerfi skipsins fyrir losun olíu verði notaður til þess að vakta olíuskyldu efnin sem flytja á.

15. gr.

Eftirlit hafnarríkis.

15.1 Stjórnvöldum er heimilt að skoða skip annarra aðila samningsins er liggja í höfn þeirra hvað varðar starfsaðferðir er falla undir þessa reglugerð bendi sterkar líkur til þess að skipstjóra eða áhöfn skipsins sé ekki kunnugt um fyrirbyggjandi aðgerðir sem nauðsynlegt er að viðhafa um borð í skipinu til þess að koma í veg fyrir mengun frá eitruðum efnum í fljótandi formi.

15.2 Undir þeim kringumstæðum sem lýst er í 1. mgr. skulu stjórnvöld grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að tryggja að skipið láti ekki úr höfn fyrr en aðstæður um borð í skipinu fullnægi ákvæðum þessarar reglugerðar.

15.3 Starfshættir er varða hafnarríkiseftirlit og lýst er í 5. gr. samningsins skulu eiga við um þessa grein.

16. gr.

Viðurlög.

16.1 Brot gegn reglugerð þessari varða sektum, fangelsi allt að einu ári, eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar. Dæma má sekt jafnframt refsivist ef skilyrði 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga eru fyrir hendi.

16.2 Tilraun og hlutdeild í brotum gegn reglugerðinni er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.

16.3 Sektir skv. reglugerðinni má gera jafnt lögaðila sem einstaklingi. Lögaðila má ákvarða sekt án tillits til þess hvort sök verður sönnuð á starfsmann lögaðilans, samanber einnig 28. og 29. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar.

16.4 Ef brotið er gegn ákvæðum reglugerðar þessarar um losun efna í sjó og málinu er ekki lokið með greiðslu sektar skv. 3. mgr. skal skip kyrrsett og er eigi heimilt að láta það laust fyrr en málinu er lokið og sekt og málskostnaður greiddur að fullu, sbr. 30. gr. laga um varnir gegn mengun sjávar.

16.5 Sektir samkvæmt lögum þessum renna í sjóð sem verja skal til mengunarvarna á sjó eftir því sem nánar segir í reglugerð nr. 198/1991.

16.6 Mál vegna brota á þessari reglugerð skal fara með sem opinber mál.

17. gr.

Íhlutun.

Hollustuvernd ríkisins getur látið fara fram athugun á skipum án dómsúrskurðar ef hætta er á mengun sjávar eða mengun hefur orðið sem brýtur gegn reglugerð þessari. Hollustuvernd ríkisins leitar aðstoðar Landhelgisgæslu Íslands, hafnaryfirvalda, Siglingastofnunar Íslands, Geislavarna ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og annarra opinberra aðila eftir því sem þörf krefur. Athugunin skal ekki valda ótilhlýðilegri röskun á starfsemi eða ónauðsynlegum útgjöldum fyrir viðkomandi.

18. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 32/1986 um varnir gegn mengun sjávar með síðari breytingum og að höfðu samráði við samgönguráðuneytið um starfsemi Siglingastofnunar Íslands og öðlast þegar gildi

Umhverfisráðuneytinu, 16. júlí 1999.

Siv Friðleifsdóttir.

Ingimar Sigurðsson.

 

 

Fylgiskjal I.

Eitruð efni í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa og hafa verið flokkuð í flokka A, B, C eða D og falla því undir ákvæði þessarar reglugerðar eru talin upp í 17. og 18. kafla IBC-kóðans.

Fylgiskjal II.

Efni í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa og hafa verið skilgreind þannig að þau falli utan flokka A, B, C eða D og því eigi reglugerð þessi ekki við um þau eru merkt með III í 18. kafla IBC-kóðans í þeirri súlu sem skilgreinir mengunarstig efnisins sbr. 3. gr. í reglugerð þessari.

Fylgiskjal III.

 

ALÞJÓÐLEGT

EFNAMENGUNARVARNASKÍRTEINI

FYRIR FLUTNINGA Á EITRUÐUM EFNUM

Í FLJÓTANDI FORMI

INTERNATIONAL POLLUTION PREVENTION

CERTIFICATE FOR THE CARRIAGE OF

NOXIUS LIQUID SUBSTANCES

IN BULK

 

Gefið út samkvæmt ákvæðum alþjóðasamnings um varnir gegn mengun sjávar frá skipum frá 1973, eins og honum hefur verið breytt með viðeigandi bókun frá 1978 (hér eftir nefndur "samningurinn") í umboði ríkisstjórna.

Issued under the provisions of the International Convention for the Prevention of Pollution from Ships, 1973, as modified by the Protocol of 1978 relating thereto, as amended (hereinafter referred to as "the Convention") under the authority of the Government of:

____________________

Fullt nafn á landi

(full designation of the country)

 

af Siglingastofnun Íslands

(by Icelandic Maritime Administration)

Fullt nafn og staða fullgilds aðila eða stofnunar sem fengið hefur umboð skv. ákvæðum samningsins

(full designation of the competent person or organization authorized under the provisions of Convention)

 

Nafn skips

Name of ship

Einkennistölur

eða bókstafir

Dixtinctive number

or letters

Heimahöfn

Port of registry

Brúttórúmlestir

Gross tonnage

 

 

 

 

ÞAÐ VOTTAST HÉR MEÐ:

THIS IS TO CERTIFY:

1. Að skipið hefur verið skoðað samkvæmt ákvæðum reglu 10 í viðauka II við samninginn.

That the ship has been surveyed in accordance with the provisions of regulation 10 of Annex II the Convention.

2. Að skoðunin sýndi að smíði, tæki, búnaður, fyrirkomulag og efni skipsins svo og og ástand þess er á allan hátt fullnægjandi, og að skipið fullnægir viðeigandi ákvæðum í viðauka II við samninginn.

That the survey showed that the structure, equipment, systems, fitting, arrangements and

material of the ship and the condition thereof are in all respects satisfactory and that the ship

complies with the applicable requirements of Annex II of the Convention.

3. Að í skipið hefur verið settur leiðarvísir í samræmi við staðla um starfshætti og fyrirkomulag sem krafist er í reglum 5, 5A og 8 í viðauka II við samninginn, og að fyrirkomulag og búnaður skipsins, sem mælt er fyrir um í leiðarvísinum, eru að öllu leyti fullnægjandi og uppfylla viðeigandi kröfur í fyrrnefndum stöðlum.

That the ship has been provided with a manual in accordance with the Standards for Procedures and Arrangements as called for by regulations 5, 5A and 8 of Annex II of the Convention, and that the arrangements and equipment of the ship prescribed in the manual are in all respects satisfactory and comply with the applicable requirements of the said Standards.

4. Að skipið er hæft til að flytja eftirfarandi eitruð efni í fljótandi formi, að því tilskildu að fylgt sé öllum viðeigandi ákvæðum um starfsaðferðir í viðauka II við samninginn.

That the ship is suitable for the carrige in bulk of the following noxious liquid substances,

provided that all relevant operational provisions of the Convention are observed:

Eitrað efni í fljótandi formi

Noxious liquid substances

Flutningstölur

Conditions of carriage

(tank number etc.)

 

 

 

 

 

Þetta skírteini gildir til:

Háð skoðunum samkvæmt reglu 10 í viðauka II við samninginn.

This Certificate is valid until:

Subject to surveys in accordance with 10 of Annex II of the Convention.

 

(Sjá nánari töflur í Stjórnartíðindum)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica