Umhverfisráðuneyti

252/1999

Reglugerð um varnir við losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC), við geymslu á bensíni og dreifingu þess frá birgðastöðvum til bensínstöðva.

I. KAFLI

Markmið og gildissvið o.fl.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC) við geymslu á bensíni og dreifingu þess frá birgðastöðvum til bensínstöðva.

Reglugerðin gildir um vinnutilhögun, búnað, mannvirki og farartæki, önnur en skip, sem eru notuð við áfyllingu, geymslu og flutning á bensíni frá einni birgðastöð til annarrar eða frá birgðastöð til bensínstöðvar.

2. gr.

Orð og orðasambönd.

Í reglugerðinni merkja orð og orðasambönd eftirfarandi:

Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

Áfyllingarbúnaður er aðstaða og búnaður á birgðastöð til að fylla bensín á flutningsgeyma. Í áfyllingarbúnaði fyrir tankbifreiðar geta verið eitt eða fleiri áfyllingarplön.

Áfyllingarplan er aðstaða og búnaður á birgðastöð þar sem lestun eða losun bensínflutningatækis fer fram.

Bensín er jarðolíuafleiður, með eða án aukefna og með 27,6 kílópaskala gufuþrýsting eða meira (samkvæmt Reid-aðferðinni), sem eru notaðar sem eldsneyti í vélknúin ökutæki, að bútan- og própangasi (LPG) undanskildu.

Bensínstöð er dreifingarstöð þar sem bensín er selt til notenda. Á bensínstöð skal að lágmarki vera: niðurgrafnir geymar með tilheyrandi búnaði, afgreiðslulagnir, dælur og afgreiðslutæki, afgreiðsluplan, olíuskilja og afgreiðsluhús.

Birgðastöð er birgða- og dreifingarstöð sem hefur geymarými fyrir 50 m3 af bensíni eða meira. Á bensínbirgðastöð skal að lágmarki vera: geymir eða geymar með varnarþró, löndunar-, áfyllingar- og afgreiðslulagnir, dæluhús, áfyllingarplan, olíuskilja og afgreiðsluhús.

Flutningsgeymar eru geymar sem eru notaðir til að flytja bensín frá einni birgðastöð til annarrar eða frá birgðastöð til bensínstöðvar, t.d. geymar á tankbifreiðum.

Fyrirliggjandi búnaður er búnaður, t.d. geymar og tankbifreiðar, sem er í notkun við gildistöku reglugerðar þessarar.

Gegnumstreymi er mesta árlega heildarmagn bensíns sem hefur verið tekið úr geymum á birgðastöð eða bensínstöð í flutningsgeyma þrjú undanfarandi ár.

Geymar eru fastir geymar sem eru notaðir til geymslu á bensíni.

Gufuendurnýtingarbúnaður er búnaður til að endurnýta bensín úr gufum, þ.m.t. hugsanleg þrýstijöfnunarkerfi birgðastöðva.

Gufur eru loftkennd efnasambönd sem gufa upp úr bensíni.

Nýr búnaður er búnaður sem ekki er fyrirliggjandi búnaður.

Rekstraraðili er sá sem ábyrgð ber á viðkomandi atvinnurekstri. Hann getur ýmist verið eigandi eða leigutaki.

Tímabundin gufugeymsla er geymsla til bráðabirgða á gufum í geymum með föstu þaki á birgðastöðvum. Tilfærsla á gufum frá einum geymi til annars á sömu birgðastöð telst ekki tímabundin gufugeymsla í skilningi þessarar reglugerðar.

Viðmiðunargildi eru gildi til leiðbeiningar fyrir heildarmat á því hvort tækniráðstafanirnar í viðaukunum dugi en eru ekki losunarmörk fyrir einstakan búnað, birgðastöðvar og bensínstöðvar.

II. KAFLI

Almenn ákvæði.

3. gr.

Geymar á birgðastöðvum.

Til að minn1ka árlegt heildartap á bensíni við áfyllingu og geymslu þess í geymum á birgðastöðvum skal miða við að það fari niður fyrir viðmiðunargildi sem er 0,01 þyngdarprósenta af gegnumstreymi.

Geymar skulu hannaðir og notaðir í samræmi við ákvæði I. viðauka. Hollustuvernd ríkisins getur samþykkt aðrar ráðstafanir sem minnka bensíntap en þær sem mælt er fyrir um í I. viðauka ef sannað þykir að þær séu að minnsta kosti jafn árangursríkar.

Ákvæði 2. mgr. gilda um nýjan búnað frá gildistöku reglugerðarinnar. Frá sama tíma gilda ákvæði 2. mgr. um fyrirliggjandi búnað ef gegnumstreymi við áfyllingu á birgðastöð er meira en 50.000 tonn á ári. Frá 1. janúar 2002 gildir 2. mgr. um fyrirliggjandi búnað ef gegnumstreymi við áfyllingu á birgðastöð er meira en 25.000 tonn á ári og frá 1. janúar 2005 gildir 2. mgr. um aðra fyrirliggjandi geyma á birgðastöðvum.

Fyrirliggjandi geymar með föstu þaki sem eru á birgðastöðvum þar sem gegnumstreymi er minna en 5.000 tonn á ári eru undanþegnir 4. tl. I. viðauka.

4. gr.

Áfylling og losun flutningsgeyma á birgðastöðvum.

Til að minnka árlegt heildartap á bensíni við áfyllingu og losun flutningsgeyma á birgðastöðvum skal miða við að það fari niður fyrir viðmiðunargildi sem er 0,005 þyngdarprósentur af gegnumstreymi.

Áfyllingar- og losunartæki skal hanna og nota í samræmi við ákvæði II. viðauka. Hollustuvernd ríkisins getur samþykkt aðrar ráðstafanir sem minnka bensíntap en þær sem mælt er fyrir um í II. viðauka ef sannað þykir að þær séu að minnsta kosti jafn árangursríkar.

Ákvæði 2. mgr. um nýjar birgðastöðvar gilda frá gildistöku reglugerðarinnar fyrir áfyllingu tankbifreiða. Frá sama tíma gilda ákvæði 2. mgr. um fyrirliggjandi birgðastöðvar fyrir áfyllingu tankbifreiða ef gegnumstreymi er meira en 150.000 tonn á ári. Frá 1. janúar 2002 gildir 2. mgr. um fyrirliggjandi birgðastöðvar fyrir áfyllingu tankbifreiða ef gegnumstreymi er meira en 25.000 tonn á ári og frá 1. janúar 2005 gildir 2. mgr. um aðrar fyrirliggjandi birgðastöðvar fyrir áfyllingu tankbifreiða.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá 2. mgr., að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefndar, og ákveðið að hún gildi hvorki um fyrirliggjandi birgðastöðvar með minna gegnumstreymi en 10.000 tonn á ári né nýjar birgðastöðvar með minna gegnumstreymi en 5.000 tonn á ári ef þær eru á litlum afskekktum eyjum.

5. gr.

Flutningsgeymar.

Flutningsgeymar skulu hannaðir og notaðir í samræmi við eftirfarandi kröfur:

1. Við losun bensíns skal gufum sem verða eftir haldið inni í geyminum;

2. Flutningsgeymar sem bensín er flutt í til bensínstöðva og birgðastöðva skulu hannaðir og notaðir þannig að þeir haldi eftir gufum úr geymunum á bensín- eða birgðastöðvum;

3. Að undanskilinni losun um þrýstiöryggisloka skal gufunum sem um getur í 1. og 2. lið haldið eftir í flutningsgeyminum til næstu áfyllingar á birgðastöð.

Ef ekki er unnt að endurnýta eða geyma gufur tímabundið og nauðsynlegt reynist að nota flutningsgeymi undir aðrar vörur en bensín er viðkomandi heilbrigðisnefnd heimilt að leyfa loftræstingu. Slík loftræsting er einungis heimil á landsvæði þar sem losun veldur ekki verulegum umhverfis- eða heilbrigðisvandamálum.

Rekstraraðili ber ábyrgð á því að prófa a.m.k. árlega hvort flutningsgeymar haldi gufu og skal kanna reglulega hvort sog- og þrýstilokar á flutningsgeymum vinni rétt. Niðurstöður slíkra prófana skulu vera aðgengilegar fyrir viðkomandi heilbrigðiseftirlit og Hollustuvernd ríkisins.

Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. gilda einungis um nýja flutningsgeyma.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá 1. og 2. tl. 1. mgr., að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins, þannig að þeir gildi hvorki um gufutap sem stafar af mælingum með dýptarstikum í fyrirliggjandi flutningsgeymum né um flutningsgeyma sem teknir verða í notkun fyrir 1. janúar 2000.

6. gr.

Áfylling geyma á bensínstöðvum.

Til að minnka árlegt heildartap bensíns við fyllingu á geyma á bensínstöðvum skal miða við að það fari niður fyrir viðmiðunargildi sem er 0,01 þyngdarprósenta af gegnumstreymi.

Áfyllingar- og geymslubúnað skal hanna og nota í samræmi við ákvæði III. viðauka. Hollustuvernd ríkisins getur samþykkt aðrar ráðstafanir sem minnka bensíntap en þær sem mælt er fyrir um í III. viðauka ef sannað þykir að þær séu að minnsta kosti jafn árangursríkar.

Ákvæði 2. mgr. um nýjar bensínstöðvar gilda frá gildistöku reglugerðarinnar. Frá sama tíma gildir 2. mgr. um fyrirliggjandi bensínstöðvar ef gegnumstreymi þeirra er meira en 1000 m3 á ári og einnig um fyrirliggjandi bensínstöðvar sem eru staðsettar undir föstum vistarverum eða vinnusvæðum án tillits til gegnumstreymis. Frá 1. janúar 2002 gildir 2. mgr. um fyrirliggjandi bensínstöðvar ef gegnumstreymi þeirra er meira en 500 m3 á ári og frá 1. janúar 2005 gildir 2. mgr. um allar fyrirliggjandi bensínstöðvar.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá 2. og 3. mgr., að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins eða heilbrigðisnefndar, ef gegnumstreymi bensínstöðvar er minna en 100 m3 á ári.

Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá ákvæði 2. mgr., að fenginni umsögn Hollustuverndar ríkisins eða viðkomandi heilbrigðisnefndar, ef gegnumstreymi bensínstöðva er minna en 500 m3 á ári enda sé bensínstöðin á stað þar sem ólíklegt er að losun valdi verulegum umhverfis- eða heilbrigðisvandamálum.

7. gr.

Innra eftirlit.

Í rekstrarhandbók bensínstöðva og birgðastöðva, sbr. reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, skal skrá kröfur um tengingar og prófanir samkvæmt reglugerð þessari. Þar sem stöðvar hafa undanþágu frá einhverri kröfu skal skrá það í rekstrarhandbók.

Prófa skal þrýsti- og lekabúnað sem krafist er í þessari reglugerð á sama tíma og annar búnaður stöðvar er prófaður nema annað sé sérstaklega tiltekið. Niðurstöður þeirra prófana, annarra prófana samkvæmt þessari reglugerð og mælingar samkvæmt II. viðauka skal færa í rekstrarhandbók.

III. KAFLI

Ýmis ákvæði.

8. gr.

Mengunarvarnaeftirlit.

Mengunarvarnaeftirlit og verkaskipting skal vera í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar og reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, að því leyti sem ekki er kveðið á um mengunarvarnaeftirlit í þessari reglugerð.

Hollustuvernd ríkisins skráir aðrar samþykktar ráðstafanir samkvæmt 3., 4. og 6. gr. og undanþágur og leyfi sem veitt eru samkvæmt reglugerð þessari í samræmi við upplýsingar frá viðkomandi heilbrigðisnefndum.

9. gr.

Aðgangur að upplýsingum, aðrar reglugerðir o.fl.

Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996, lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og einstökum reglugerðum sem við eiga hverju sinni. Um ágreining vegna framkvæmdar reglugerðarinnar fer samkvæmt lögum nr. 7/1998. Að öðru leyti gilda ákvæði laga nr. 7/1998, um þagnarskyldu, valdsvið og þvingunarúrræði og viðurlög við brotum á reglugerðinni.

Auk þessarar reglugerðar ber m.a. að gæta ákvæða reglugerðar um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, reglugerðar um starfsþjálfun stjórnenda ökutækja sem flytja tiltekinn hættulegan farm, og reglugerðar um flutning á hættulegum farmi, svo og ákvæði skipulagsreglugerðar og byggingarreglugerðar eins og við á hverju sinni.

10. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, einkum 5. gr. laganna og samkvæmt lögum nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar. Einnig var höfð hliðsjón af þeim ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í II. viðauka, 8. tölul. XVII. kafla (tilskipun 94/63/EB um varnir vegna losunar rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC)) við geymslu á bensíni og dreifingu þess frá birgðastöðvum til bensínstöðva).

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Ráðstafanir sem kveðið er á um í 2. ml. 3. mgr. 3. gr., 2. ml. 3. mgr. 4. gr. og 2. ml. 3. mgr. 6. gr., sem samkvæmt reglugerðinni eiga að gilda frá gildistöku hennar skulu framkvæmdar í samráði við eftirlitsaðila og vera samkvæmt tiltekinni framkvæmdaáætlun sem eftirlitsaðili samþykkir.

II.

Miða skal aðgerðir á fyrirliggjandi birgðastöðvum við stærð þeirra 31. desember 1994.

Umhverfisráðuneytinu, 9. apríl 1999.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

I. viðauki

Kröfur um geyma á birgðastöðvum.

1. Ytri veggi og þök geyma sem eru ofanjarðar skal mála í lit með geislahitaendurvarpsstuðli sem er samanlagt ekki lægri en 70%. Þetta verk má skipuleggja á þann veg að það verði hluti af reglubundnu viðhaldi geymanna á þriggja ára tímabili. Ráðherra getur, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar eða Hollustuverndar ríkisins, veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef þörf krefur til að vernda svæði með sérstöku landslagi. Þetta gildir þó ekki um geyma sem eru tengdir gufuendurnýtingarbúnaði sem uppfyllir kröfurnar í 2. lið II. viðauka.

2. Geymar með fljótandi ytra þaki skulu vera búnir aðalþéttingu sem hylur hringlaga rými milli veggjar geymisins og ytri marka hins fljótandi þaks og aukaþéttingu fyrir ofan hana. Þéttingarnar skulu þannig gerðar að þær haldi að minnsta kosti 95% af gufunum inni samanborið við samsvarandi geyma með föstu þaki sem eru ekki með búnað til að halda gufum inni (þ.e. geymar með föstu þaki sem eru einungis með sog-/þrýstiloka).

3. Allir nýir geymar á birgðastöðvum þar sem krafist er endurnýtingar gufu í samræmi við 4. gr. þessarar reglugerðar (sjá II. viðauka) verða annað hvort að vera:

a) geymar með föstu þaki sem eru tengdir gufuendurnýtingarbúnaði í samræmi við kröfur II. viðauka; eða

b) geymar með fljótandi ytra eða innra þaki og aðal- og aukaþéttingu í samræmi við kröfur 2. liðar.

4. Fyrirliggjandi geymar með föstu þaki verða annað hvort:

a) að vera tengdir gufuendurnýtingarbúnaði í samræmi við kröfur II. viðauka; eða

b) vera búnir fljótandi innra þaki með aðalþéttingu sem skal þannig gerð að hún haldi að minnsta kosti 90% af gufunum inni samanborið við samsvarandi geyma með föstu þaki sem eru ekki með búnað til að halda gufum inni.

5. Kröfur um búnað til að halda gufum inni, sbr. 3. og 4. lið, gilda ekki um geyma með föstu þaki á birgðastöðvum þar sem tímabundin gufugeymsla er leyfð í samræmi við 1. lið II. viðauka.

II. viðauki

Kröfur um áfyllingar- og losunarbúnað á birgðastöðvum.

1. Gufum sem er hleypt út úr flutningsgeymum við áfyllingu skal safna aftur um gufuþétta tengileiðslu inn í gufuendurnýtingarbúnað og endurvinna á birgðastöð.

Þetta gildir þó ekki um geyma sem eru fylltir ofan frá meðan sú áfyllingaraðferð er leyfð.

Á birgðastöðvum með minna gegnumstreymi en 25.000 tonn á ári má nota tímabundna gufugeymslu í stað tafarlausrar gufuendurnýtingar á birgðastöð.

2. Meðalstyrkur gufu í útblæstri frá gufuendurnýtingarbúnaði, leiðrétting vegna þynningar við meðhöndlun meðtalin, má ekki fara yfir 35 g/Nm3 á klukkustund.

Að minnsta kosti árlega skal rekstraraðili birgðastöðva mæla virkni gufuendurnýtingarbúnaðar. Hollustuvernd ríkisins skal samþykkja mæli- og greiningaraðferðir og tíðni mælinga og greininga.

Mælingarnar skulu ná yfir einn heilan vinnudag (minnst sjö tíma) með venjulegu gegnumstreymi.

Mælingarnar geta verið samfelldar eða stakar. Þegar um stakar mælingar er að ræða skal mæla minnst fjórum sinnum á klukkustund. Heildarmæliskekkja mælibúnaðar, kvörðunarlofttegundar og mæliaðferðar sem notuð er má ekki vera meiri en 10% af því gildi sem mælist. Mælibúnaður verður að geta mælt styrk allt niður í 3 g/Nm3.

Samkvæmnin verður að vera að minnsta kosti 95% af mældu gildi.

3. Að minnsta kosti árlega skal rekstraraðili birgðastöðva kanna hvort tengileiðslur og
-rör leki og senda Hollustuvernd ríkisins afrit skoðunarskýrslu.

4. Áfylling skal stöðvuð við áfyllingarplan ef gufa sleppur út.

Stöðvunarbúnaðinum skal komið fyrir á áfyllingarplaninu. Halda skal skrá yfir gufuleka og ber rekstraraðila að framvísa skránni óski viðkomandi eftirlitsaðili eftir upplýsingum um leka.

5. Þegar leyft er að fylla flutningsgeyma ofan frá skal opi áfyllingararmsins haldið eins nálægt botni geymisins og unnt er til að koma í veg fyrir skvettur.

 

III. viðauki

Kröfur sem gilda um áfyllingarbúnað og geyma á bensínstöðvum

og birgðastöðvum með tímabundinni gufugeymslu.

Gufum sem hleypt er út við áfyllingu bensíns á geyma bensínstöðva og á geyma með föstu þaki sem eru notaðir til tímabundinnar gufugeymslu verður að skila aftur um gufuþétta tengileiðslu í flutningsgeyminn sem bensínið er tappað af. Áfylling má ekki fara fram nema þetta kerfi sé til staðar og starfi rétt.

 

 

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica