Umhverfisráðuneyti

676/1994

Reglugerð um gjald af nýreistum húsum til greiðslu skipulagsgjalds. - Brottfallin

REGLUGERÐ

um gjald af nýreistum húsum til greiðslu skipulagsgjalds.

1. gr.

Greiða skal skipulagsgjald 3‰ af brunabótamati í eitt sinn af hvern nýbyggingu sem reist er.

Nýbygging skv. 1. mgr. telst hver nýreist húseign sem virt er til brunabóta, viðbyggingar við eldri hús og endurbætur eða breytingar á húsum, ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar, eða hækkun virðingar húseignar vegna endurbótanna nemur 1/5 verðs eldra hússins.

Undanþegnar greiðslu skipulagsgjalds eru húseignir sem byggðar eru á lögbýlum í tengslum við landbúnað, sem stundaður er í atvinnuskyni utan skipulagðra þéttbýlisstaða og er aðalstarf ábúanda viðkomandi lögbýlis. Með landbúnaði er skv. reglugerð þessari átt við búvöruframleiðslu, garðrækt, loðdýrarækt, fiskeldi og skógrækt.

2. gr.

Sýslumenn lögsagnarumdæmis sem húseign er í, annast innheimtu skipulagsgjalds, en í Reykjavík tollstjóri. Þinglýstur eigandi húseignar þegar bnrnabótavirðing fer fram er greiðandi skipulagsgjalds, sem fellur í gjalddaga á virðingardegi. Gjaldið fellur í eindaga mánuði síðar. Gera má lögtak fyrir skipulagsgjaldi, sbr. lög nr. 90/1989.

Gera skal skil fyrir gjaldinu til ríkisféhirðis með skilagrein sem öðrum ríkissjóðstekjum.

3. gr.

Fasteignamat ríkisins skal tilkynna innheimtumanni fjárhæð brunabótavirðingar húseignar, þegar eftir að virðing hefur farið fram, og geta þess sérstaklega hvort um er að ræða fasteign sem greiða ber skipulagsgjald af. Fasteignamat ríkisins veitir innheimtumönnum þær upplýsingar um brunabótamat fasteigna, sem nauðsynlegar eru vegna innheimtu skipulagsgjalda.

4. gr.

Umhverfisráðherra sker úr ágreiningi sem upp kann að koma vegna álagningar og innheimtu skipulagsgjalda.

5. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 35. gr. skipulagslaga, nr. 19 21. maí 1964, með síðari breytingum, og að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið hvað snertir hlutverk Fasteignamats ríkisins, og öðlast gildi frá og með 1. janúar 1995. Frá þeim tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 167/1980.

Umhverfisráðuneytið, 22. desember 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica