Umhverfisráðuneyti

84/1996

Reglugerð um innflutning, notkun og förgun PCB efna, PCT efna og umhverfisskaðlegra staðgengilefna. - Brottfallin

Reglugerð um innflutning, notkun og förgun PCB efna, PCT efna og umhverfisskaðlegra staðgengilefna.

1. gr.

Reglugerð þessi er sett til að takmarka notkun tiltekinna efnasambanda sem eru hættuleg heilsu manna og skaðleg umhverfinu.

2. gr.

Óheimilt er að flytja inn og nota PCB og PCT efni eða efnablöndur. Óheimilt er að flytja inn og nota varning eða tæki sem inniheldur PCB og PCT efni. Ákvæði þessarar reglugerðar eiga ekki við ef styrkur PCB eða PCT efna í efnablöndum, varningi eða tækjum er lægri en 0,005%.

Óheimilt er að flytja inn og nota staðgengilefnin Ugilec 141, Ugilec 121 (21) og DBBT. Ákvæði reglugerðarinnar taka einnig til efnablandna, véla og tækja sem innihalda þessi efni.

3. gr.

Með PCB efnum er átt við fjölklóruð bífenýlsambönd (polychlorinated biphenyls), önnur en ein- og díklóruð bífenýl.

Með PCT efnum er átt við fjölklóruð terfenýlsambönd (polychlorinated terphenyls).

Ugilec 141 er viðskiptaheitið fyrir mónómetýltetraklórdífenýlmetan, 1CAS nr. 76253-60-6.

Ugilec 121 eða Ugilec 21 eru viðskiptaheitin fyrir mónómetýldíklórdífenýmetan.

DBBT er viðskiptaheitið fyrir mónómetýldíbrómdífenýlmetan, CAS nr. 99688-47-8.

4. gr.

Vinnueftirlit ríkisins getur, að höfðu samráði við eiturefnaeftirlit Hollustuverndar ríkisins, veitt undanþágur frá ákvæðum 2. gr. um bann við innflutningi og notkun PCB og PCT efna og efnablandna, sem innihalda þessi efni. Slíkan innflutning og notkun skal takmarka við það notagildi eitt, að önnur efni geti ekki komið í stað þeirra. Skal í hverju veittu leyfi til innflutnings samkvæmt 2. gr. taka fram til hverra nota efnin, eða varningur eða tæki sem hafa þau að geyma, eru ætluð.

Rísi upp ágreiningur milli Vinnueftirlits ríkisins og Hollustuverndar ríkisins um veitingu undanþágu samkvæmt 2. gr., sker umhverfisráðherra úr.

Um notkun og alla meðhöndlun PCB og PCT efna á vinnustöðum fer samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Vinnueftirlit ríkisins tilkynnir umhverfisráðuneytinu um þær undanþágur, sem veittar eru samkvæmt ákvæðum 2. gr.

5. gr.

Á vélum og búnaði sem inniheldur PCB eða PCT efni skulu vera merkingar með upplýsingum um það hvernig farga skal búnaðinum þegar að því kemur og hvernig standa skal að viðhaldi og notkun búnaðarins. Merkingin skal vera á íslensku, með greinilegu auðlæsilegu letri, sem sker sig greinilega frá grunninum.

6. gr.

Efni, efnablöndur, varningur og tæki sem reglugerðin nær til flokkast sem spilliefni. Þegar notkun þeirra er hætt skulu þau flutt til móttökustöðva, sem hafa fengið starfsleyfi til að taka á móti slíkum úrgangi, sbr. ákvæði gildandi mengunarvarnareglugerðar.

7. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni nema að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

Með mál sem kunna að rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

8. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni og 3. gr. laga nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað snertir afskipti Vinnueftirlits ríkisins.

Einnig var höfð hliðsjón af þeim ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í II. viðauka, XV. kafla, 4. tl., tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna ásamt breytingum í tilskipunum 85/467/

EBE, 89/677 og 91/339/EBE. Jafnframt er tekið mið af ákvæðum samningsins í XX. viðauka, V. kafla, 26. tl., tilskipun 75/439/EBE um förgun olíuúrgangs ásamt breytingum í tilskipun 87/101/EBE.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 489/1988 um innflutning, notkun og förgun PCB efna.

Umhverfisráðuneytinu, 25. janúar 1996.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica