Umhverfisráðuneyti

447/1994

Reglugerð um kaffi, kaffikjarna og kaffibæti og kaffibæti. - Brottfallin

I. KAFLI

Almenn ákvæði og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um kaffi, kaffikjarna og kaffibæti, sbr. skilgreiningar á þessum vörum í 2. gr. og í viðauka. Hún gildir ekki um slíkar vörur sem ætlaðar eru til útflutnings til ríkja utan Evrópsks efnahagssvæðis.

2. gr.

1. Kaffi er fræ (baunir) kaffitrésins (Coffea arabica), óbrennd eða brennd, heil eða möluð, sem engin mikilvæg innihaldsefni, eiginleg kaffi, hafa verið fjarlægð úr. Aldinhýði skal algerlega hreinsa af fræjum og fræhýði (silfurhýði) eins vel og unnt er. Hráefni í kaffi má ekki innihalda meira en 7 g/ 100 g af öðrum efnum kaffitrésins en fræjum og ekki meira en 3 g af öðrum innihaldsefnum.

2. Kaffikjarni er vara, að mismunandi styrkleika, sem eingöngu er fengin með útdrætti, eða vatni úr brenndu kaffi. Varan inniheldur leysanleg efni og ilmefni úr kaffinu. Einnig kunna að vera til staðar óleysanlegar olíur úr kaffinu, snefill af öðrum óleysanlegum efnum úr kaffi eða óleysanleg efni sem eru hvorki úr kaffi né vatni, sem notað var við útdráttinn. Við útdráttinn er ekki heimilt að nota aðferðir sem krefjast viðbættrar sýru eða basa.

3. Kaffibætir er vara, að mismunandi styrkleika, sem eingöngu er fengin með útdrætti með vatni úr brenndum kaffifífli og er þá óheimilt að nota aðferðir sem krefjast viðbættrar sýru eða basa.

4. Kaffifífill er afurð, á kyrna- eða duftformi, sem unnin er úr hreinsuðum, þurrkuðum og brenndum rólum Cichorium intybus L., hugsanlega með viðbættri olíu eða fitu og/eða sykri og/eða melassa, sem kunna að innihalda snefil af óleysanlegum efnum sem ekki eru úr kaffifífli.

II. KAFLI

Notkun og samsetning.

3. gr.

Blöndum af kaffikjarna og kaffibæti og kjarna úr blöndu af brenndu kaffi og brenndum kaffifífil er einungis heimilt að dreifa á föstu formi eða á formi massa og að öðru leyti í samræmi við ákvæði 4. greinar.

4. gr.

Þegar vörum á föstu formi eða á formi massa er pakkað í stakar umbúðaeiningar á bilinu 25 g til 10 kg, skulu þær eingöngu hafðar í smásölu í umbúðum með eftirfarandi þyngd: 50 g, 100 g, 200 g, 250 g (blöndur úr kaffikjarna og kaffibæti, svo og kaffikjarni sem aðeins er ætlaður til notkunar í sjálfsölum), 300 g (eingöngu fyrir kaffikjarna), 500 g, 750 g, 1 kg, 1.5 kg, 2 kg, 2.5 kg, 3 kg og í heilum kílógrömmum.

Akvæði 1. mgr. eiga ekki við um kaffi.

5. gr.

Það hráefni sem notað er við framleiðslu á þeim vörum sem um getur í 2. gr. og í viðauka þessarar reglugerðar skal vera gallalaust, ósvikið og söluhæft.

6. gr.

Aðferðir til greiningar á kaffikjarna og kaffibæti skulu vera í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins nr. 79/1066/EBE frá 13. nóvember 1979.

7. gr.

Heiti í viðauka skal eingöngu nota um þær vörur sem þar er getið og er skylt að nota þau í viðskiptum til að lýsa þeim.

III. KAFLI

Merking umbúða.

8. gr.

Auk ákvæða reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla, skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðum vöru sem dreift er til neytenda:

a) heiti vörunnar samanber viðauka;

b) við heiti er heimilt að bæta hugtakinu "þykkt" þegar um er að ræða:

- kaffikjarnalausn, að því tilskildu að innihald þurrefnis úr kaffi sé meira en 25% miðað við þyngd;

- kaffibætislausn, að því tilskildu að innihald þurrefnis úr kaffifífli sé meira en 45% miðað við þyngd;

c) hugtakið "kaffínlaust" fyrir kaffikjarna er heimilt að merkja, að því tilskildu að innihald kaffíns fari ekki yfir 0,3% miðað við þyngd þurrefnis í kjarnanum;

d) hugtakið "kaffínlaust" fyrir kaffi er heimilt að merkja, að því tilskildu að innihald kaffíns fari ekki yfir 0,1% miðað við þyngd;

e) hugtakið "sykurbrennt" ef kjarninn er unninn úr sykurbrenndu hráefni og hugtökin "með sykri", "varið skemmdum með sykri" eða "með viðbættum sykri" er heimilt að merkja á umbúðir ef sykri hefur verið bætt í hráefnið eftir brennslu, þegar um kaffikjarnalausn og lausn af kaffibæti er að ræða. Þegar aðrar sykurtegundir en súkrósi eru notaðar skal þess getið í staðinn fyrir "sykur";

f) fyrir "kaffikjarnamassa" og "kaffikjarnalausn" skal lágmarksinnihald kaffiþurrefnis gefið upp sem hundraðshluti af þyngd fullunninnar vöru. Hið sama gildir um "kaffibætismassa" og "kaffibætislausn".

Upplýsingar samkvæmt liðum a-f skal merkja á sama sjónsviði og merking nettóþyngdar og geymsluþols.

9. gr.

Vörur, aðrar en þær sem ætlaðar eru til sölu til neytenda, nægir að merkja með eftirfarandi upplýsingum á umbúðum eða áföstum merkimiða:

a) heiti vörunnar samanber viðauka;

b) nettóþyngd í þyngdar- eða rúmtakseiningum, nema þegar um er að ræða vöru sem er seld í lausavigt;

c) merkingu sem auðkennir framleiðslulotu;

d) heiti eða fyrirtækjaheiti og heimilisfang framleiðanda, pökkunaraðila eða seljanda.

IV. KAFLI

Ýmis ákvæði og gildistaka.

10. gr.

Innlendur framleiðandi eða innflytjandi er ábyrgur fyrir því að þær vörur sem um getur í 2. gr. og í viðauka séu í samræmi við ákvæði þessarar reglugerðar.

11. gr.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hver á sínum stað, eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt.

12. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, rneð síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

13. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 35. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og 6. gr. laga nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, með síðari breytingum. Einnig var höfð hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í II. viðauka XII. kafla, 14. tölul., tilskipun 77/436/EBE um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi kaffikjarna og síkóríukjarna, með síðari breytingu, og 22. tölul., tilskipun 79/1066/EBE um greiningaraðferðir til prófunar á kaffikjarna og síkóríukjarna. Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Við gildistöku reglugerðar þessarar fellur úr gildi reglugerð nr. 53/ 1936 um kaffi og nr. 52/1936 um kaffibæti og kaffilíki.

Umhverfisráðuneytið, 26. júlí 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Ingimar Sigurðsson.

 

VIÐAUKI

Skilgreining á framleiðsluvörum.

1. Kaffikjarni:

a) "þurrkaður kaffikjarni", "leysanlegt kaffi", "auðleyst (instant) kaffiduft": merkir kaffikjarna í dufti, kyrni, flögum, molum eða öðru föstu formi sem inniheldur ekki minna en 95% af kaffiþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar.

b) "kaffikjarnamassi ":

merkir kaffikjarna á formi massa, sem inniheldur minnst 70% og ekki meira en 85% af kaffiþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar.

c) "kaffikjarnalausn ":

merkir kaffikjarna í vökvaformi sem inniheldur minnst 15% og ekki meira en 55% af kaffiþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar. Þó má hún innihalda sykur, brenndan eða óbrenndan, hámark 12% miðað við þyngd.

2. Kaffibætir:

a) "þurrkaður kaffibætir", "leysanlegur kaffibætir", "auðleysanlegt (instant) kaffibætisduft ":

merkir kaffifífilskjarna í dufti, kyrni, flögum, molum eða öðru föstu formi sem inniheldur ekki minna en 95% af kaffifífilsþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar. Efni sem ekki eru unnin úr kaffifífli mega ekki fara yfir 1%.

b) "kaffibætismassi ":

merkir kaffifífilskjarna í massaformi, sem inniheldur minnst 70% og ekki meira en 85% af kaffifífilsþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar. Efni sem ekki eru unnin úr kaffifífli mega ekki fara yfir 1 %.

c) "kaffibætislausn ":

merkir kaffifífilskjarna í vökvaformi sem inniheldur meira en 25% og minna en 55% af kaffifífilsþurrefni miðað við þyngd.

Þessi vara má ekki innihalda önnur efni en þau sem fengin eru með útdrætti hennar. Þó má hún innihalda sykur, brenndan eða óbrenndan, hámark 35% miðað við þyngd.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica