Fara beint í efnið
Fyrri útgáfa

Prentað þann 16. apríl 2024

Reglugerð með breytingum síðast breytt 11. mars 2002

806/1999

Reglugerð um spilliefni

I. KAFLI Markmið, gildissvið o.fl.

1. gr. Markmið.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja rétta meðhöndlun spilliefna þannig að þau valdi ekki mengun.

2. gr. Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi gildir um meðhöndlun spilliefna og skráningu. Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni. Ákvæði reglugerðarinnar gilda um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.

3. gr. Skilgreiningar.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Eftirlit er athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

3.3 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.4 Endurnýtingarstöð er atvinnurekstur þar sem endurnýting fer fram.

3.5 Meðhöndlun spilliefna er söfnun, geymsla, flokkun, flutningur, endurnotkun, endurnýting, pökkun og förgun þeirra, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.

Flokkun er aðgreining úrgangstegunda til þess að hægt sé að endurnýta úrgangsefni og koma þeim úrgangi sem ekki nýtist til viðeigandi förgunar.

Flutningur er það ferli þegar úrgangur frá einstaklingum og lögaðilum er fluttur í atvinnuskyni til flokkunar, endurnotkunar, endurnýtingar eða förgunar.

Endurnotkun er notkun úrgangs sem ekki hefur verið beittur aðferðum sem fram koma í V. viðauka í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Endurnýting er hvers konar nýting úrgangs, önnur en endurnotkun, sjá nánar V. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Varðandi flokka H3 til H8, H10 og H11 í ofangreindum viðauka skal miða við mörk sem tilgreind eru í viðauka VI með tilvitnaðri reglugerð.

Förgun er aðgerð eða ferli þegar úrgangi er umbreytt og komið fyrir varanlega, sjá nánar aðferðir í IV. viðauka reglugerðar um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Pökkun er þegar úrgangur er settur í umbúðir til að gera hann flutningshæfan og/eða til að geyma í lengri eða skemmri tíma.

3.6 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.7 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.8 Móttökustöð er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi til lengri eða skemmri geymslu, umhleðslu, flokkunar eða annarrar meðhöndlunar. Þaðan fer úrgangur til förgunar eða nýtingar, eða honum er fargað á staðnum.

Undir móttökustöð falla:

Flokkunarmiðstöðvar sem eru staðir þar sem tekið er við úrgangi sem er safnað saman kerfisbundið til flokkunar til endurnýtingar og/eða til förgunar. Staðurinn þjónar að jafnaði fleiri en einu sveitarfélagi.

Urðunarstaðir eru þrenns konar:

a. urðun úrgangs án spilliefna, þ.e. fyrir neyslu- og framleiðsluúrgang og úrgang sem hefur svipaða eiginleika,

b. urðun spilliefna,

c. urðun óvirks úrgangs.

Brennslustöðvar fyrir úrgang í samræmi við reglugerðir þar að lútandi.

3.9 Spilliefni er úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og einnig annar úrgangur sem hefur einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð.

3.10 Söfnunarstöð (gámastöð) er staður og aðstaða þar sem tekið er við úrgangi frá almenningi og/eða smærri fyrirtækjum. Þaðan fer hann til endurnotkunar, endurnýtingar eða er fluttur til móttökustöðva.

3.11 Úrgangur er hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.

Tegundir úrgangs flokkaðar eftir eiginleikum eru t.d.:

Úrgangur án spilliefna sem er úrgangur frá heimilum og atvinnurekstri sem hefur svipaða eiginleika og gerð og heimilisúrgangur, t.d. matarleifar og umbúðir, og úrgangur sem fellur til við framleiðslu, verslun og þjónustu, t.d. pappír, timbur o.þ.h.,

Spilliefni, sbr. skilgreiningu í 9. mgr.,

Óvirkur úrgangur er úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.

II. KAFLI Umsjón.

4. gr. Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

III. KAFLI Meginreglur.

5. gr. Meðhöndlun spilliefna.

5.1 Draga skal eins og unnt er úr myndun spilliefna. Stuðla ber að endurnotkun og endurnýtingu.

5.2 Viðkomandi sveitarstjórnir leggja til og sjá um að rekin sé söfnunarstöð og/eða móttökustöð fyrir spilliefni eða tryggja á annan hátt greiðan aðgang fyrir skilum spilliefna.

5.3 Spilliefni skal flytja til söfnunar- og móttökustöðva sem hafa fengið starfsleyfi til að meðhöndla spilliefni.

5.4 Viðkomandi sveitarstjórnir bera ábyrgð á því að spilliefnum sem þær taka á móti sé komið í endurnýtingu eða þeim fargað í samræmi við reglur þar að lútandi.

5.5 Viðkomandi heilbrigðisnefnd er heimilt að samþykkja takmörkun á meðhöndlun spilliefna til að tryggja framkvæmd reglugerðar þessarar, t.a.m. á vatnsverndarsvæðum.

6. gr. Spilliefni og annar úrgangur.

6.1 Spilliefnum má ekki blanda saman við annan úrgang. Einstökum tegundum spilliefna skal auk þess halda aðgreindum. Aðgreina skal spilliefnablöndur þar sem kostur er og þar sem slíkt hefur ekki í för með sér óhóflegan kostnað.

6.2 Hollustuvernd ríkisins er heimilt að leyfa að spilliefnum sé blandað saman við annan úrgang eða efni, einkum ef það er gert til að auka öryggi við förgun eða endurnýtingu og á þann hátt að það samrýmist kröfum um mengunarvarnir. Hollustuvernd ríkisins skal upplýsa hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd um veitta heimild.

7. gr. Flokkun og mat á eiginleikum úrgangs.

7.1 Hollustuvernd ríkisins getur ákveðið, ef hagsmunir vegna hollustu eða umhverfis krefjast þess, að annar úrgangur en tilgreindur er í I. viðauka með reglugerð, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, flokkist sem spilliefni, enda hafi úrgangurinn einn eða fleiri eiginleika sem gera hann hættulegan, sbr. III. viðauka í tilvitnaðri reglugerð. Stofnunin skal upplýsa heilbrigðisnefndir um ákvarðanir sínar.

7.2 Hollustuvernd ríkisins er heimilt að ákveða að ákveðinn úrgangur flokkist ekki sem spilliefni enda hafi úrgangshafi sýnt fram á að hann hafi ekki hættulega eiginleika, sbr. III. viðauka í reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang. Stofnunin skal upplýsa hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd um málið.

7.3 Við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. ber að styðjast við mörk í VI. viðauka með reglugerð, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og þegar við á reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda sem innihalda slík efni.

8. gr. Umbúðir og merking þeirra.

8.1 Umbúðir spilliefna skal merkja á viðeigandi hátt. Á umbúðunum skulu a.m.k. koma fram upplýsingar um hættulega eiginleika, efnaflokka og magn úrgangsins. Eingöngu skal nota traustar umbúðir sem henta viðkomandi efnum. Spilliefni skulu geymd þannig að ekki sé hætta á mengun umhverfisins eða skaðlegum áhrifum á fólk eða dýr. Gæta skal að ákvæðum laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

9. gr. Afhending spilliefna til móttökustöðva eða söfnunarstöðva.

9.1 Þeir sem bera ábyrgð á atvinnurekstri sem ekki er starfsleyfisskyldur þar sem spilliefni verða til eða hafa undir höndum spilliefni skulu eins fljótt og unnt er koma þeim til viðurkenndrar söfnunar- eða móttökustöðvar.

10. gr. Starfsleyfisskylda.

10.1 Atvinnurekstur sem sér um einstaka þætti meðhöndlunar spilliefna skal hafa starfsleyfi.

10.2 Atvinnurekstri þar sem spilliefni falla til í minna magni árlega en að neðan greinir er sjálfum heimilt að flytja spilliefnin, án starfsleyfis, til söfnunar- eða móttökustöðva:

a. 400 l af olíuúrgangi eða

b. 100 l af leysiefnaúrgangi eða

c. 100 l af málningar- og lakkúrgangi eða

d. samtals 50 kg af öðrum spilliefnum (að undanteknum PCB, PCT og sýaníð úrgangi).

11. gr. Skrásetning og flutningur.

11.1 Aðili með starfsleyfisskyldan atvinnurekstur, sem stundar starfsemi þar sem spilliefni myndast, skal halda skrár um magn og gerð efnanna og tilgreina til hvaða söfnunar- og/eða móttökustöðvar þau eru flutt og af hverjum. Fargi eða endurnýti aðili með starfsleyfisskyldan atvinnurekstur spilliefni sem myndast hjá honum skal hann halda skrá yfir það.

11.2 Þeim sem láta flytja spilliefni innanlands er skylt að láta fylgja með farminum, eftir því sem við á, upplýsingar um hættulega eiginleika, efnaflokka og magn úrgangsins ásamt upplýsingum um sendingar- og móttökuaðila, sbr. einnig reglugerð um flutning á hættulegum farmi.

11.3 Þeir sem flytja spilliefni innanlands eða sjá einungis um söfnun og geymslu skulu halda skrár um uppruna þeirra, gerð og áfangastað ásamt upplýsingum um magn og dagsetningu.

11.4 Móttöku- og endurnýtingarstöðvar skulu halda skrár um uppruna spilliefna og áfangastað ásamt upplýsingum um magn, gerð, vinnsluaðferðir og dagsetningu.

11.5 Allar færslur skulu varðveittar í a.m.k. 5 ár og skulu eftirlitsaðilar hafa aðgang að þeim.

11.6 Þeir sem sjá um endurnýtingu eða förgun spilliefna eða senda spilliefni til annarra landa skulu eigi síðar en 1. mars ár hvert senda Hollustuvernd ríkisins skrá yfir móttöku, meðferð, förgun og útflutning spilliefna almanaksárið á undan, sbr. reglugerð um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út af EES-svæðinu og tilkynningarskyldu þessara aðila.

12. gr. Neyðartilvik - yfirvofandi hætta.

12.1 Í neyðartilvikum eða vegna yfirvofandi hættu getur Hollustuvernd ríkisins heimilað meðhöndlun spilliefna með öðrum hætti en greinir í reglugerð þessari til að afstýra hugsanlegri hættu á skaðlegum áhrifum á umhverfi eða heilsu manna.

12.2 Í neyðartilvikum hafa fyrirtæki sem sjá um meðhöndlun spilliefna einnig heimild til þess að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að afstýra hættu. Viðkomandi eftirlitsaðila skal tafarlaust tilkynnt um slíkar ráðstafanir.

IV. KAFLI Ýmis ákvæði.

13. gr.

13.1 Um áætlanir og skýrslugerð er fjallað í reglugerð um úrgang.

V. KAFLI Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

14. gr. Aðgangur að upplýsingum.

14.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

15. gr. Þagnarskylda eftirlitsaðila.

15.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

15.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

16. gr. Valdsvið og þvingunarúrræði.

16.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á. Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

17. gr. Viðurlög.

17.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

17.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

VI. KAFLI Lagastoð, gildistaka o.fl.

18. gr.

18.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna

18.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 32a, 32aa og 32ab, XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 91/689/EBE, sbr. tilskipun 94/31/EB, og ákvörðun 94/904/EB).

18.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.