Umhverfisráðuneyti

788/1999

Reglugerð um varnir gegn loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

Markmið.

1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna, einkum af völdum vélknúinna ökutækja.

 

Gildissvið.

2. gr.

2.1 Reglugerð þessi gildir um losunarmörk fyrir mengunarefni í útblásturslofti bifreiða og prófanir á þeim m.t.t. mengunarefna.  Reglugerðin gildir um viðkomandi atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni eins og við getur átt. Reglugerðin gildir um athafnir einstaklinga eins og við getur átt.  Reglugerðin gildir ekki um flugvélar og skip.

2.2 Um loftmengun á vinnustöðum gilda ákvæði laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

 

Skilgreiningar.

3. gr.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.3 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

3.4 Vélknúið ökutæki er ökutæki búið aflvél til að knýja það áfram.

3.5 Ökutæki er tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru, sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori.

 

II. KAFLI

Umsjón.

Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4. gr.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins, ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

4.2 Um eftirlit með búnaði ökutækja fer samkvæmt umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim.

 

III. KAFLI

Varnir gegn loftmengun.

Meginreglur.

5. gr.

5.1 Halda skal loftmengun af völdum hreyfanlegra uppsprettna í lágmarki og viðhalda þeim gæðum sem felast í hreinu og ómenguðu lofti.

 

Vélknúin ökutæki.

6. gr.

6.1 Eigendur eða umráðamenn vélknúinna ökutækja skulu sjá til þess að vélbúnaði sé haldið við og hann stilltur á þann hátt að ekki valdi óþarfa reyk- eða sótmyndun.

6.2 Óheimilt er að skilja ökutæki eftir í gangi þegar þau eru yfirgefin. Jafnframt er óheimilt að láta vélar kyrrstæðra ökutækja ganga lengur en í örstutta stund nema sérstaklega standi á. Regla þessi á ekki við um ökutæki lögreglu, slökkviliðs o.þ.h.

6.3 Viðkomandi heilbrigðisnefnd getur krafist þess að eigandi eða umráðamaður vélknúinna ökutækja færi bifreið sína til bifreiðaskoðunar og sýni fram á að magn mengunarefna séu innan losunarmarka samkvæmt reglum þar að lútandi.

 

Losunarmörk.

7. gr.

7.1 Mengun frá bifreiðum sem fluttar eru til landsins skal vera innan losunarmarka samkvæmt viðauka með reglugerðinni.

 

Prófanir á vélknúnum ökutækjum.

8. gr.

8.1 Þegar vélknúin ökutæki eru prófuð, af faggiltri skoðunarstofu fyrir ökutæki, m.t.t. mengunarefna skal fara eftir reglum í viðauka með reglugerðinni.

 

Loftmengun frá öðrum hreyfanlegum uppsprettum.

9. gr.

9.1 Eigendur eða umráðamenn annarra tækja en getið er í 6. gr. skulu sjá til þess að vélbúnaði sé haldið við og hann stilltur á þann hátt að ekki valdi óþarfa reyk- eða sótmyndun.

 

IV. KAFLI

Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

Aðgangur að upplýsingum.

10. gr.

10.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þagnarskylda eftirlitsaðila.

11. gr.

11.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

11.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

 

Valdsvið og þvingunarúrræði.

12. gr.

12.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á.  Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

 

Viðurlög.

13. gr.

13.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

13.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

 

V. KAFLI

Lagastoð, gildistaka o.fl.

14. gr.

14.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, einkum 5. gr. laganna.

14.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af II. viðauka EES-samningsins (tilskipun 70/220/EBE, sbr. 83/351/EBE, 91/441/EBE, 93/59/EBE, 94/12/EB og 96/69/EB, og tilskipun 88/77/EBE, sbr. 91/542/EBE og 96/1/EB.

14.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi 145. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, með síðari breytingum.

 

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

 

Siv Friðleifsdóttir.Magnús Jóhannesson.

VIÐAUKI

Losunarmörk mengunarefna í útblásturslofti bifreiða.

 

Um hámark mengandi efna í útblæstri bifreiða sem eru fluttar til landsins frá og með gildistöku þessarar reglugerðar skulu gilda eftirfarandi losunarmörk. Miðað er við prófanir samkvæmt US-87/88 reglum eða tilskipun nr. 70/220/EBE með breytingum 83/351/EBE, 91/441/EBE, 93/59/EBE, 94/12/EB og 96/69/EB eða tilskipun nr. 88/77/EBE með breytingum 91/542/EBE og 96/1/EB, og að mengunarvarnabúnaður bifreiða sé samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja.  Fyrir bifreiðar sem hafa áður verið gerðarprófaðar og skráðar innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf ekki að leggja fram vottorð til staðfestingar á að mengunarefni séu undir eftirfarandi mörkum.

 

A.  Losunarmörk, í gr/km, þegar prófað er samkvæmt bandarískum reglum US-87/88:

                                                            fólksbílar                 hvþ > 1700                 hvþ > 2600

Kolmónoxíð                       CO          2,11 (2,55)                 2,73 (3,99)                    3,10 (4,54)

Kolvetni                             CH          0,15 (0,19)                 0,19 (0,25)                    0,24 (0,35)

Köfnunarefnisoxíð           NOx        0,25 (0,37)                 0,43 (0,60)1)                  0,68 (0,95)1)

Ryk                                     0,05 (0,06)                                 0,05 (0,06)                    0,07

1) Gildir ekki um díselknúin ökutæki.

 

B.  Losunarmörk, í gr/km, þegar prófað er eftir tilskipun nr. 70/220/EBE með breytingum 83/351/EBE, 91/441/EBE, 93/59/EBE, 94/12/EB og 96/69/EB:

Viðmiðunarþyngd                   Kolmónoxíð (CO)                   Summa kolvetna og                      Ryk

         Kg                                                                                       köfnunarefnisoxíða                       dísel

         vþ ≤ 1250                                    2,72                                              0,97                                     0,14

1250 < vþ  ≤ 1700                             5,17                                              1,4                                       0,19

1700 < vþ  6,9                                   1,7                                                0,25

eða

fólksbifreiðar fyrir                 Kolmónoxíð(CO)                    Summa kolvetna og                      Ryk

6 eða færri farþega                                                                   köfnunarefnisoxíða                      

og vþ < 2500                             bensín    dísel                          bensín    dísel                                 díesel

                                                  2,2           1,0                              0,5           0,7(1)                               0,08(1)

 

C.        Þegar prófað er samkvæmt tilskipun nr. 88/77/EBE með breytingum 91/452/EBE og
96/1/EB:

         Kolmónoxíð                         CO                           4,0  gr/kwh

         Kolvetni                               HC                           1,1  gr/kwh

         Köfnunarefnisoxíð               NOx                         7,0  gr/kwh

         Efnisagnir                                                              0,15  gr/kwh*

* Sé um að ræða minni hreyfil en 85 kW skal margfalda markgildið með 1,7.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica