Umhverfisráðuneyti

319/1995

Reglugerð um neysluvatn. - Brottfallin

 Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um vatn sem ætlað er til neyslu. Hún gildir um átappað vatn, sem sérreglur ná ekki til.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda ekki um neysluvatn úr vatnsbólum í einkaeign og sem eingöngu er til eigin heimilisnota eða um vatn sem notað er til lækninga og er viðurkennt sem slíkt.

Gæði neysluvatns og eftirlit með því skal jafnframt uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og annarra sértækari reglna sem til þess ná.

2. gr.

Í reglugerð þessari merkir:

Grunnvatn: rennandi vatn neðanjarðar í samfelldu lagi, sem fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í jörðinni með rennslisstefnu nærri láréttu.

Neysluvatn: vatn, í upphaflegu ástandi eða eftir meðhöndlun, sem notað er til drykkjar, við matargerð og í matvælafyrirtækjum. Hitaveituvatn telst ekki neysluvatn.

Vatnasvið: aðrennslissvæði straumvatns, stöðuvatna, grunnvatnsstrauma eða vatnsbóla.

Vatnsból: náttúrulega uppsprettu eða mannvirki, þar sem vatn er tekið.

Vatnsveita: mannvirki til að veita vatni frá vatnsbóli til notenda.

Vatnsverndarsvæði: afmarkað svæði á vatnasviði vatnsbóla þar sem vatnsvernd hefur verið komið á.

Vatnsverndun: ákvörðun um varðveislu vatnsgæða og viðhald þeirra, svo og aðgerðir sem hindra spillingu vatns.

Yfirborðsvatn: vatn af yfirborði jarðar, sem nota má til neyslu ef það uppfyllir ákveðnar gæðakröfur.

II. KAFLI 

 Leyfisveitingar og almenn ákvæði.

3. gr.

Afla skal starfsleyfis opinbers eftirlitsaðila áður en vatnsból eða vatnsveitur og tilheyrandi búnaður er tekinn í notkun og við eigendaskipti, samanber einnig 3. gr. reglugerðar nr. 522/1994. Skal það gert að undangenginni ákvörðun um vatnsvernd í samræmi við III. kafla og rannsókn á gæðum vatnsins í samræmi við ákvæði 16. greinar. Kostnaður við rannsóknir greiðist af þeim aðila sem sækir um starfsleyfi. Samráð skal haft við eftirlitsaðila um breytingar á eldri vatnsbólum eða vatnsveitum, eða ef breytingar verða á starfsemi þeirra, sem gætu haft áhrif á gæði neysluvatnsins.

4. gr.

Enginn, sem ætla má að haldinn sé sjúkdómi sem borist getur með vatni, má gegna störfum við vatnsveitu ef varasamt getur talist með tilliti til sýkingarhættu. Ef ástæða er til að ætla að um slíka sýkingarhættu geti verið að ræða skal viðkomandi starfsmaður gangast undir læknisrannsókn á kostnað vatnsveitunnar og eigi annast slík störf á meðan rannsókn fer fram.

5. gr.

Gæði neysluvatns skulu vera í samræmi við þær kröfur sem getið er um í viðauka 1 þessarar reglugerðar. Fyrir þá efnisþætti, sem ekki er fjallað um þar, skal stuðst við leiðbeiningar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um gæði neysluvatns.

Þegar nýta á yfirborðsvatn til neyslu, skal það uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð þessari og leiðbeiningum um gæði yfirborðsvatns, sem Hollustuvernd ríkisins gefur út. Leiðbeiningar stofnunarinnar ná einnig til mæliaðferða og tíðni sýnatöku og greininga á yfirborðsvatni og skulu vera í samræmi við ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði.

6. gr.

Neysluvatn, sem ætlað er til sölu í neytendaumbúðum, skal leitt í leiðslu frá vatnsbóli til átöppunarhúsnæðis eða tekið til átöppunar úr veitukerfi.

7. gr.

Í sérstökum tilvikum og þegar alvarlegt ástand getur skapast, er Hollustuvernd ríkisins heimilt, án fyrirvara, að setja tímabundið strangari ákvæði en þau sem birt eru í viðaukum þessarar reglugerðar og leiðbeiningum um yfirborðsvatn.

III. KAFLI 

 Vatnsvernd.

8. gr.

Gera skal ráðstafanir til að koma í veg fyrir að vatnsból, vötn og grunnvatn spillist. Sama gildir um aðra staði, s.s. ár eða læki, þar sem vatn er tekið til neyslu.

Skylt er að tilkynna eftirlitsaðila tafarlaust ef vitað er um mengun á vatni í vatnsbólum eða dreifikerfi.

9. gr.

Umhverfis hvert vatnsból skal ákvarða verndarsvæði, sbr. viðauka 4, þar sem ríkja skulu takmarkanir viðvíkjandi umferð, landnýtingu og meðferð og geymslu hættulegra efna, sem spillt geta neysluvatni. Hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd ákvarðar stærð, lögun og fjölda verndarsvæða með tilliti til land- og jarðfræðilegra aðstæðna á vatnasviði vatnsbólsins.

10. gr.

Til að fyrirbyggja mengun neysluvatns skal við staðarval og byggingu geyma fyrir eldsneyti og aðrar olíur og vegna spilliefna meðal annars fara að reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi, samanber einnig mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum. Eldri geyma skal fjarlægja eða endurnýja í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 35/1994.

Heimilt er að banna olíu- og efnaflutninga í nágrenni vatnsbóla þar sem hætta er á að slíkt geti spillt vatninu. Verði ekki hjá slíkum flutningum komist skulu þeir fara fram á þeim tíma sólarhrings þegar umferð er minnst og þá með fullu samþykki eftirlitsaðila. Í slíkum tilvikum skal liggja fyrir björgunaráætlun við mengunaróhöppum.

11. gr.

Vatnsból skulu vera í öruggri fjarlægð frá mannvirkjum eða hverskonar starfsemi sem ætla má að geti spillt vatninu. Þess skal gætt að slík mannvirki eða starfsemi séu þannig staðsett að grunnvatnsborð halli ætíð frá vatnsbóli. Sama gildir um straumstefnu yfirborðsvatns, sem skal renna frá vatnsbóli.

Vatnsból skulu yfirbyggð, afgirt og þannig frá þeim gengið að yfirborðsvatn og önnur óhreinindi berist ekki í þau. Gripahús, þar með talin loðdýrabú, alifuglabú, svínabú og áburðargeymslur, mega aldrei standa nær vatnsbóli en 100 metra og ætíð svo að land halli frá vatnsbóli og að ekki sé hætta á mengun grunnvatns. Heimilt er að banna eða takmarka umferð húsdýra á verndarsvæðum vatnsbóla og krefjast gripheldra girðinga ef nauðsyn krefur.

12. gr.

Leiðslur, dælur, geymar og annað sem notað er við vatnsveitu skal þannig gert og viðhaldið að vatn spillist ekki. Eftirlitsaðila er heimilt að banna notkun slíks búnaðar ef ætla má að notkun hans geti valdið heilsutjóni.

13. gr.

Heilbrigðisnefndum sveitarfélaga er heimilt að gera tillögur að reglum til verndar ónýttum vatnsbólum og grunnvatnssvæðum ef brýna nauðsyn ber til og að undangenginni rannsókn á viðkomandi vatnasvæði. Slíkar reglur skal setja sem heilbrigðissamþykktir, sbr. 22. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

IV. KAFLI

Eftirlit og rannsóknir.

14. gr.

Eftirlit með ákvæðum þessarar reglugerðar skal vera í samræmi við 4. gr. og IV. kafla reglugerðar nr. 522/1994 um matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla. Eftirlitsaðili getur gert kröfur um allar ráðstafanir, sem nauðsynlegar eru til að tryggja að neysluvatn uppfylli skilyrði sem tilgreind eru í viðauka 1. Ef þörf krefur getur eftirlitsaðili látið framkvæma tíðari rannsóknir en kveðið er á um í reglugerð þessari.

Leyfi eftirlitsaðila þarf fyrir efnum sem ætluð eru til íblöndunar í neysluvatn.

15. gr.

Eftirlit skal haft með gæðum neysluvatns, þ.m.t. vatnsbólum og verndarsvæðum þeirra, vatnsveitum, hreinsi- og dælustöðvum, dreifikerfum og öðru sem áhrif kann að hafa á gæði neysluvatns.

Við greiningu sýna skal hafa greiningaraðferðir í viðauka 3 til hliðsjónar. Ef aðrar aðferðir eru notaðar skal leita samþykkis Hollustuverndar ríkisins.

16. gr.

Sýni til rannsókna skulu tekin úr vatnsbólum og einnig dreifikerfum, þar sem það er tiltækt notendum, og skal tíðni og greining fara eftir ákvæðum viðauka 2. Áður en nýtt vatnsból er tekið í notkun skal fara fram reglubundið eftirlit (C3) og greining samkvæmt því eins og fram kemur í viðauka 2, töflu 1.

17. gr.

Meðferð vatnssýna skal vera þannig að ekki verði marktæk breyting á niðurstöðum mælinga og gefur Hollustuvernd ríkisins út leiðbeiningar um þetta.

V. KAFLI 

 Undanþágur.

18. gr.

Eftirlitsaðila er heimilt, með samþykki Hollustuverndar ríkisins, að veita tímabundnar undanþágur frá ákvæðum þessarar reglugerðar vegna aðstæðna sem skapast vegna jarðmyndana á vatnasviði vatnsins, óvenjulegs veðurfars eða annarra aðstæðna. Slíkar undanþágur skulu þó aldrei eiga við um eiturefna- eða örverufræðilega þætti né aðra þætti sem á einhvern hátt gætu valdið hættu á heilsutjóni.

19. gr.

Í neyðartilvikum er heimilt að veita tímabundið leyfi til þess að rannsóknaþættir fari að einhverju leyti yfir þau hámarksgildi sem kveðið er á um í viðauka 1. Skilyrði fyrir slíkum leyfum er að ekki sé talin hætta á heilsutjóni og ekki sé unnt að viðhalda neysluvatnsbirgðum með öðrum hætti. Það sama gildir ef þær aðstæður skapast að nota þarf yfirborðsvatn sem ekki uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til þess samkvæmt 2. mgr. 5. greinar.

VI. KAFLI

Gildistaka og viðurlög.

20. gr.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit og lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

>Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.

21. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 24/1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lögum nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum, sbr. og ákvæði samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem vísað er til í XX. viðauka II. kafla, 3. tl., tilskipun 75/440/EBE um kröfur varðandi gæði yfirborðsvatns í aðildarríkjunum sem nýtt er til drykkjar, með síðari breytingum, 5. tl., tilskipun 79/869/EBE um mælingaraðferðir og tíðni sýnatöku og greiningar á yfirborðsvatni í aðildarríkjunum sem nýtt er til drykkjar, með síðari breytingum og 7. tl., tilskipun 80/778/EBE um gæði neysluvatns, með síðari breytingum. Einnig með þeim breytingum og viðbótum sem leiða af XX. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma fellur úr gildi grein 137.2 og III. kafli heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, að undanskildum ákvæðum 2. gr. reglugerðar nr. 194/1993 um breytingu á heilbrigðisreglugerð nr. 149/1990.

Ákvæði til bráðabirgða

Við gildistöku reglugerðar þessarar skal endurskoða starfsleyfi sem veitt hafa verið á grundvelli ákvæða 29. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990. Endurskoðun starfsleyfa skal byggð á ákvæðum 3. gr. þessarar reglugerðar og skulu þau aðeins veitt að undangenginni rannsókn á gæðum vatnsins.

Umhverfisráðuneytið, 30. maí 1995.

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica