Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfisráðuneyti

163/1998

Reglugerð um meðferð skipulagstillagna og veitingu byggingarleyfa í sveitarfélögum sem búa við snjóflóðahættu.

1. gr.

Gildissvið.

                Reglugerð þessi gildir um meðferð skipulagstillagna, veitingu byggingarleyfa og gerð bráðabirgðahættumats á svæðum innan sveitarfélaga þar sem snjóflóð hafa fallið eða hætta er talin á þeim og staðfest hættumat liggur ekki fyrir skv. 4. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og ákvæði I til bráðabirgða í sömu lögum.

2. gr.

Meðferð skipulagstillagna og byggingarleyfi.

                Þegar sveitarstjórn gerir tillögu að nýju eða breyttu deiliskipulagi í samræmi við gildandi aðalskipulag, gerir breytingar á staðfestu aðalskipulagi eða veitir byggingarleyfi samkvæmt gildandi deiliskipulagi, sbr. 1. gr., skal hún leita álits Skipulagsstofnunar.

                Skylt er að leita álits Skipulagsstofnunar áður en veitt er byggingarleyfi á svæðum þar sem ekki liggur fyrir skipulag né staðfest hættumat en hætta er talin á snjóflóðum.

3. gr.

Bráðabirgðahættumat.

                Þegar Skipulagsstofnun berst erindi sveitarstjórnar, sbr. 2. gr., skal hún án tafar senda það til umsagnar Veðurstofu Íslands sem innan fjögurra vikna gerir bráðabirgðahættumat fyrir viðkomandi svæði, skilgreinir þær ráðstafanir sem gera þarf og setur viðeigandi skilyrði fyrir samþykki erindisins.

4. gr.

Álit Skipulagsstofnunar.

                Skipulagsstofnun skal taka erindi sveitarstjórnar skv. 2. gr. til afgreiðslu og tilkynna henni um álit sitt innan tveggja vikna frá því að stofnuninni barst bráðbirgðahættumat frá Veðurstofu Íslands og innan sex vikna frá því að erindið barst stofnuninni upphaflega.

5. gr.

Gildistaka.

                Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum og skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997, og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 11. mars 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Magnús Jóhannesson.
Þetta vefsvæði byggir á Eplica