Umhverfisráðuneyti

457/1998

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

                Reglugerð þessi gildir um búnað, hreinlæti og þrif á sund- og baðstöðum og í nánasta umhverfi þeirra, hreinsun og sótthreinsun baðvatns, aðbúnað gesta og mengunarvarnir.

                Ákvæði reglugerðar þessarar gilda um alla sund- og baðstaði, þ.e.a.s. hvers konar sundlaugar úti sem inni, setlaugar, iðulaugar, kennslulaugar, endurhæfingarlaugar, barnalaugar, busllaugar, laugar á hótelum og sumardvalarstöðum og baðstofur. Reglugerðin gildir einnig um baðstofur og setlaugar sem reknar eru í tengslum við annan eftirlitsskyldan rekstur.

                Undanskilin ákvæðum reglugerðarinnar eru sundlaugar og setlaugar við eða í heimahúsum, sem eingöngu eru ætlaðar til einkanota. Reglugerðin gildir ekki um sjóböð og náttúrulaugar.

2. gr.

                Merking orða og orðasambanda í reglugerð þessari.

Álagsþol: Afkastageta mannvirkis.

Baðstofa: Klefi eða aflokað rými þar sem hitað er upp með vatnsgufu, svo kölluð eimböð, eða sánaböð þar sem oftast er hitað upp með rafmagni.

Baðvatn: Vatn sem notað er í laugar.

Bakskolun: Ferli við hreinsun sandsíu.

Bundinn klór: Klór sem bundist hefur lífrænum efnum og hefur því takmarkaða virkni til sótthreinsunar.

Endurnýjunarhraði: Hraði endurnýjunar á fersku vatni.

Frír klór: Sá klór sem er virkastur og helst nýtist til sótthreinsunar.

Heildarklór: Allur klór sem er til staðar, frír og bundinn.

Hleypiefni: Efni sem binda óhreinindi við hreinsun laugarvatns.

Hringrásartími: Sá tími sem það tekur allt laugarvatnið að fara í gegnum hreinsitækin.

Iðulaug: Laug þar sem lofti er dælt í laugarvatnið.

Innra eftirlit: Eftirlit á vegum sund- og baðstaða til að tryggja öryggi þeirra og heilnæmi vatnsins.

Laug: Samheiti yfir hvers konar laugar, stórar sem smáar.

Náttúrulaug: Laug gerð af náttúrunnar hendi.

Setlaug: Laug eða ker, hitastig vatnsins er á bilinu 34°C - 44°C.

Síunarhraði: Hraði vatnsins yfir flatarmáli síu.

Sundlaug: Laug þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 27°C - 30°C.

Sýrustig: pH- gildi.

Varmalaug: Laug þar sem hitastig vatnsins er á bilinu 30°C - 34°C.

Viðurkennd aðferð til sótthreinsunar: Sú aðferð sem Hollustuvernd ríkisins viðurkennir.

Viðurkenndar klórlausnir: Þær klórlausnir sem Hollustuvernd ríkisins viðurkennir.

Viðurkennd mælitæki: Þau mælitæki sem Hollustuvernd ríkisins viðurkennir.

3. gr.

                Laugum er skipt í þrjár aðalgerðir, sundlaugar, varmalaugar og setlaugar, með tilliti til mismunandi ákvæða um hitastig, sbr. 2. gr. Auk þess eru laugar flokkaðar í þrjá flokka, A, B og C og fer flokkunin eftir gerð hreinsibúnaðar og miðlun á klór, sbr. ákvæði í I. viðauka.

                Allar nýjar laugar og endurbyggðar skulu uppfylla ákvæði um laugar í A flokki. Laugar í flokkum B og C skulu hafa uppfyllt ákvæði um sjálfvirkni, sbr. ákvæði um A flokk lauga, fyrir árið 2010.

                Fyrir laugar í C flokki er ekki þörf á að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar um klórskömmtun og sjálfvirkni enda standist vatnið örverufræðilegar kröfur sem gerðar eru til sundlaugarvatns og heilbrigðisnefnd telur ekki þörf á að uppfylla þessi ákvæði. Um örverurannsókn fer samkvæmt ákvæðum í II. viðauka. Sé náttúrulegt sýrustig baðvatnsins að jafnaði á bilinu 7-8 getur heilbrigðisnefnd heimilað að vikið sé frá ákvæðum um stjórnun sýrustigs.

II. KAFLI

Eftirlit og leyfisveitingar.

4. gr.

                Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með því að farið sé að ákvæðum reglugerðar þessarar. Ef heilbrigðiseftirlit telur sérstaka þörf á sýnatöku eða endurtekinni rannsókn sýna, sem m.a. má rekja til þess að innra eftirliti er ekki sinnt sem skyldi er heimilt að gera kröfu um að sund- eða baðstaður greiði rannsóknarkostnað.

                Sund- og baðstaðir skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis. Sækja skal um starfsleyfi áður en starfsemi hefst, við eigendaskipti og ef umtalsverðar breytingar verða á búnaði, húsnæði eða rekstri.

                Í skilyrðum fyrir starfsleyfi sund- og baðstaðar skal, vegna frárennslis, tryggt að farið sé að viðmiðunarmörkum um hámarksmengun í ám og vötnum í viðauka 1 í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, með síðari breytingum, sbr. einnig ákvæði 14. gr. þessarar reglugerðar.

III. KAFLI

Húsakynni, baðstofur og aðbúnaður.

5. gr.

                Við hönnun mannvirkis skal ákvarða gestafjölda sem mannvirkinu er ætlað að anna á hverri klukkustund. Heilbrigðisnefnd skal einnig meta hámarksfjölda gesta á eldri sundstöðum og skrá hann í starfsleyfi. Við ákvörðun á afkastagetu skal hafa til viðmiðunar stærð fataskiptarýmis, sturtufjölda, fjölda salerna, afkastagetu hreinsibúnaðar, stærð lauga og aðra þá þætti sem takmarkað geta gestafjölda, sbr. ákvæði um álagsþol í III. viðauka.

                Mannvirki og búnaður á sund- og baðstöðum skal þannig gerður og viðhaldið að fyllsta öryggis og þrifnaðar verði komið við. Húsakynni skulu vera rúmgóð, björt, hæfilega hituð og loftræst á fullnægjandi hátt. Umhverfis laug skal vera a.m.k 1,5 m steypt eða hellulagt svæði, eða annað sambærilegt yfirborðsefni sem auðvelt er að ræsta og sótthreinsa. Gönguleiðum við útilaugar skal halda frostfríum og lýsing við laugar skal vera góð.

6. gr.

                Í búningsaðstöðu skal miða við a.m.k. 0,5 m2 fyrir hvern gest. Þar skal vera a.m.k. eitt salerni ásamt handlaug fyrir hvort kyn, þar sem samtímis geta dvalið allt að 50 gestir. Fyrir hverja 100 gesti til viðbótar bætist við eitt salerni fyrir hvort kyn. Í búningsaðstöðu karla geta komið eitt salerni og tvö þvagstæði í stað tveggja salerna. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna og þvagstæða. Við hverja handlaug skal vera tilheyrandi hreinlætisbúnaður.

                Aðgangur skal vera að salerni við sturtur. Fjölda sturta skal miða við það að hver sturta notist fyrir 12 manns á klukkustund. Aldrei skulu þó vera færri en tvær sturtur fyrir hvort kyn og þrjár á þeim stöðum þar sem sundkennsla fer fram. Í baðaðstöðu skulu gestir hafa aðgang að fljótandi sápu og aðstaða skal vera til að sinna ungbörnum á öruggan hátt. Þar skulu einnig vera fyrirmæli um að gestir þvoi sér án sundfata áður en gengið er til laugar.

                Á sund- og baðstöðum skulu vera skriflegar hreingerningaáætlanir sem segja til um framkvæmd og tíðni þrifa. Upplýsingar þessar skulu vera aðgengilegar fyrir eftirlitsaðila.

7. gr.

                Þess skal gætt að baðstofa sé loftræst á viðeigandi hátt og þannig sé gengið frá hurðum að þær opnist auðveldlega út úr klefanum. Lýsing skal vera í klefanum og neyðarhnappur, tengdur neyðarkerfi. Á klefanum skal vera gagnsætt efni, sjónop eða á annan hátt möguleiki til eftirlits vegna öryggis gesta sem í klefanum dvelja.

                Hitagjafar, ofnar og útstreymisop, skulu varðir þannig að ekki sé hætta á að af þeim hljótist slys.

                Í eða við baðstofur skulu vera mælar sem sýna raka- og hitastig í klefanum og skulu þeir vera þannig staðsettir að gestir eigi auðvelt með að fylgjast með þeim.

                Þar sem jarðgufa er notuð beint til upphitunar skal gæta þess að styrkur hættulegra gastegunda verði ekki of hár. Sýnt skal með mælingum að styrkur brennisteinsvetnis fari ekki yfir 10 ppm. Ef að mælingar gefa til kynna að styrkur brennisteinsvetnis sé að jafnaði yfir leyfilegum mörkum skal gera viðeigandi ráðstafanir til úrbóta eða loka jarðgufunni.

                Snyrtingar, búnings- og baðaðstaða skal vera til staðar þar sem eru baðstofur og setlaugar sem ekki eru reknar í tengslum við sund- og baðstaði.

IV. KAFLI

Öryggi á sund- og baðstöðum.

8. gr.

                Eiganda sund- og baðstaðar er skylt að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfsþjálfun, þar með er talin þjálfun í skyndihjálp og fræðsla um hreinlæti og hollustuhætti. Þeir starfsmenn sem vinna við meðferð tækja, þar með talin mælitæki, búnaðar og efna vegna hreinsunar vatnsins skulu reglulega fá viðeigandi þjálfun í meðferð þeirra.

                Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu hafa staðist hæfnispróf samkvæmt IV. viðauka. Aðeins þeir starfsmenn sem standast alla þætti prófsins mega sinna laugargæslu, enda hafa þeir náð 18 ára aldri. Prófskírteini skulu vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengileg.

                Haldin skal skrá yfir slys er verða í eða við laugar og skal hún vera heilbrigðiseftirliti aðgengileg.

9. gr.

                Allir eftirlitsskyldir sund- og baðstaðir skulu hafa laugargæslu. Tryggja skal að starfsmenn sem sinna laugargæslu fylgist stöðugt með gestum í laugum og á laugarsvæði. Aðstaða starfsmanns sem sinnir laugargæslu skal tryggð með yfirsýn, myndavélum, speglum eða á annan fullnægjandi hátt. Á sund- og baðstöðum skal vera öryggiskerfi og áætlun þar sem m.a. kemur fram hvernig bregðast skal við í neyðartilvikum. Þar skal jafnframt vera tiltækur viðurkenndur búnaður til skyndihjálpar. Skal búnaður þessi yfirfarinn reglulega og starfsmenn þjálfaðir í notkun hans ásamt viðbrögðum við neyðartilvikum a.m.k. einu sinni á ári. Á sundstað skal vera til láns eða leigu flotbúnaður fyrir börn (armkútar eða sundjakkar) og skal hann vera af viðurkenndri gerð.

                Merkja skal greinilega hitastig í setlaugum og aðra þætti varðandi öryggi og slysahættu, s.s. dýpi lauga, hættu við dýfingar, hálku á laugarbökkum og annað það sem nauðsynlegt þykir vegna öryggis sundgesta. Merkingar skulu vera greinilegar. Innstreymi í laugar og vatn í sturtum skal ekki vera heitara en 55°C þegar það er tekið til blöndunar með köldu vatni og skal það tryggt með segulrofa eða öðrum viðurkenndum búnaði.

10. gr.

                Börnum yngri en 8 ára er óheimill aðgangur að sundstað nema í fylgd með syndum einstaklingi, 14 ára eða eldri. Ekki skal leyfa viðkomandi að hafa fleiri en tvö börn með sér nema um sé að ræða foreldri eða forráðamann barna. Um sundkennslu fer samkvæmt gildandi reglugerð um sundnám í grunnskóla. Þar sem hópar barna undir 8 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers leiðbeinanda, sem er ábyrgur fyrir hópnum, ásamt gæslumönnum lauga.

                Fái gestir aðgang að laug utan venjulegs afgreiðslutíma ber eiganda eða eftir atvikum rekstraraðila að setja um það skýrar reglur. Ekki skulu færri en 2 syndir einstaklingar fara saman í laugina. Ekki má veita börnum og ósyndum einstaklingum aðgang að laug án fylgdar ábyrgðarmanns. Við þessar aðstæður skal vera til staðar búnaður til skyndihjálpar, sími eða neyðarrofi, tengdur lögreglu eða annarri neyðarþjónustu ef óhapp eða slys verður.

                Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sundstöðum.

V. KAFLI

Heilnæmi vatnsins.

11. gr.

                Vatn í laugum skal hreinsa og sótthreinsa. Til sótthreinsunar baðvatns skal nota natríumhýpóklóríð eða aðra viðurkennda klórgjafa. Magn klórs ákvarðast af gerð laugar, sbr. flokkun í I. viðauka. Nota skal klórmæla og sýrustigsmæla sem eru viðurkenndir til þeirra mælinga.

                Heilbrigðisnefnd getur veitt leyfi til að reyna önnur efni en klór til sótthreinsunar á baðvatni. Nefndinni ber að leita umsagnar Hollustuverndar ríkisins áður en leyfi er veitt. Með umsókn um slík leyfi skulu fylgja ítarlegar upplýsingar um samsetningu og virkni þess efnis sem sótt er um leyfi fyrir ásamt öðrum eiginleikum þess.

                Styrkur klórs, sýrustig, endurnýjunarhraði og síunarhraði vatns í laugum, skal vera í samræmi við III. viðauka og önnur ákvæði reglugerðarinnar, sbr. og ákvæði 3. gr.

12. gr.

                Vatn sem notað er í laugar skal uppfylla örverufræðilegar kröfur neysluvatns. Vatnið skal vera tært og án sýnilegra óhreininda svo sem froðu og agna. Örveruinnihald baðvatns skal standast ákvæði í V. viðauka.

                Þær rannsóknastofur sem annast örverurannsóknir á vatni samkvæmt reglugerð þessari skulu standast almennar kröfur um starfsemi prófunarstofa og hafa fengið faggildingu.

13. gr.

                Í innra eftirliti skal skrá, þar sem við á, frían klór og bundinn klór, sýrustig, niðurstöður gerla- og efnamælinga og hitastig vatns í laugum. Einnig skal skrá efnanotkun, tíðni endurstillinga og aðrar viðhaldsaðgerðir. Gestafjölda skal skrá daglega. Búnaður og tæki til vatnshreinsunar skal yfirfarinn að minnsta kosti árlega. Skráningar skulu vera aðgengilegar fyrir eftirlitsaðila.

                Frían og bundinn klór ásamt sýrustigi skal mæla a.m.k. fjórum sinnum á dag þar sem klórnotkun er mikil og a.m.k. tvisvar á dag þar sem notkun er lítil. Í þeim tilvikum, þar sem heilbrigðisnefnd telur ekki þörf á að uppfylla ákvæði um stjórnun sýrustigs, sbr. 3. mgr. 3. gr., skal það mælt reglulega.

14. gr.

                Við losun og hreinsun lauga skal gera ráðstafanir sem tryggja að umhverfi og lífríki mengist ekki. Þetta á sérstaklega við þar sem þannig háttar til að frárennsli frá laug er ekki tengt fullkomnu fráveitukerfi.

                Ekki er heimilt að hleypa klórmenguðu vatni út í ár og vötn eða svæði þar sem það getur spillt drykkjarvatni eða lífríki.

VI. KAFLI

Viðurlög, málsmeðferð og gildistaka.

15. gr.

                Eigandi sund- og baðstaðar ber ábyrgð á því að farið sé eftir ákvæðum þessarar reglugerðar. Sé rekstraraðili annar en eigandi skulu aðilar gera með sér samning um að hann framfylgi ákvæðum reglugerðarinnar í heild eða að hluta og skal þess þá gætt að skýrt sé hver sé ábyrgð aðila.

                Um valdsvið, þvingunarúrræði, málsmeðferð, úrskurði og viðurlög fer samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

16. gr.

                Reglugerð þessi er sett með stoð í 4. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.

                Reglugerðin öðlast gildi við birtingu. Frá sama tíma falla úr gildi 106. og 107. gr. heilbrigðisreglugerðar nr. 149/1990, með síðari breytingum, og 16. og 17. gr. reglugerðar nr. 137/1987 um notkun og bann við notkun tiltekinna eiturefna og hættulegra efna.

Ákvæði til bráðabirgða.

                Þrátt fyrir ákvæði 16. gr. skulu ákvæði 2. mgr. 12. gr. ekki taka gildi fyrr en 1. janúar árið 2000.

Umhverfisráðuneytinu, 17. júlí 1998.

Guðmundur Bjarnason.

Sigurbjörg Sæmundsdóttir.

 

I. viðauki

Flokkun og mismunandi gerðir lauga.

Sundlaugar, varmalaugar og setlaugar eru flokkaðar í eftirtalda flokka:

A flokkur lauga er með lokað hringrásarkerfi, fullkominn hreinsibúnað og sjálfvirka stjórnun á notkun hleypiefna, klórskömmtun og sýrustigi. Laugarvatn er forhitað og endurnýjun vatns er ákvörðuð fyrir fram og fer endurnýjunarhraðinn eftir rúmmáli laugar.

B flokkur lauga er með opið hringrásarkerfi þar sem vatni er dælt í gegnum hreinsibúnað en hitastigi vatnsins er haldið við með því að bæta stöðugt við heitu vatni beint frá veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C. Umframvatni sem við það skapast er hleypt beint í útrennsli. Stýring á klórmagni í B flokki lauga er ekki eins nákvæm og í laugum í flokki A og klórnotkun meiri þar sem vatnsnotkun er meiri.

C flokkur lauga er án hreinsibúnaðar, vatn er tekið beint úr veitu eftir kælingu niður í a.m.k. 55°C og leitt í laug og þaðan í útrennsli. Stýring á klórmagni og sýrustigi er ónákvæm.

II. viðauki.

Örverurannsóknir vegna ákvæðis 3. mgr. 3. gr. fyrir C flokk lauga.

Laugar í C flokki geta sótt um leyfi til heilbrigðisnefndar um að nota ekki sótthreinsiefni. Leyfi má veita að undangenginni rannsókn á örveruinnihaldi baðvatnsins og greiði umsækjandi kostnað við rannsóknina.

Rannsókn skal felast í eftirfarandi: Tekin eru 10 sýni úr hverri laug meðan þær eru í rekstri, tvö sýni í senn á mismunandi stöðum úr laug. Sýnin eru rannsökuð hvert um sig og skulu standast gæðakröfur, sbr. ákvæði í V. viðauka. Í sýnunum má ekki mælast klór. Ef 90% sýna reynast nothæf skal veita undaþágu. Ef < 90% sýna reynast nothæf skal fara fram á viðeigandi úrbætur eða aukin vatnsskipti og endurtekna rannsókn. Ef hvorugt er gert og ekki er hægt að sýna fram á að gerlainnihald baðvatns standist ákvæði V. viðauka, skal ekki veita leyfi, sbr. 1. mgr.

 

 

III. viðauki.

Kröfur um afkastagetu og hreinsun lauga.

Skýringar á skammstöfunum

L = Lágmark

V = Viðmiðunargildi

H = Hámark

 

Gerð

Hiti
°C

Stærð

Hringrásar-
tími/24 klst.

Frír klór (mg/l)

pH-gildi

100%
endur-
nýjun á

Bakskolun
lágmarks
tíðni (L)Álagsþol

m3

 

L

V

H

L

V

H

 

sundl. A

27-
29

>210

4 klst.
24:6=4

0,5

0,7

2,0

7,0

7,4

7,8

30 dögum

7. hvern
dag

2 m3/gest/klst.

 

sundl. B

1,0

1,5

2,5

7,0

 

9,9

20 dögum

 

sundl. A

27-
29

<210

3 klst.
24:8=3

0,5

0,7

2,0

7,0

7,4

7,8

20 dögum

5. hvern
dag

2 m3/gest/klst.

 

sundl. B

1,0

1,5

2,5

7,0

 

9,9

10 dögum

 

varmal. A

30-
34

>100

2 klst.
24:12=2

0,8

1,2

3,0

7,0

7,4

7,8

10 dögum

3. hvern
dag

2 m3/gest/klst.

 

varmal. B

1,5

2,0

3,5

7,0

 

9,9

5 dögum

 

varmal. A

30-
34

<100

1 klst.
24:24=1

0,8

1,2

3,0

7,0

7,4

7,8

5 dögum

2. hvern
dag

2 m3/gest/klst.

 

varmal. B

1,5

2,0

3,5

7,0

 

9,9

3 dögum

 

setlaug A

34-
44

>30

30 mín,
24:48=1/2

1,0

1,5

4,0

7,0

7,4

7,8

2 dögum

daglega

2 m3/gest/klst.

 

setlaug B

2,0

2,5

5,0

7,0

 

9,9

1 dag

 

setlaug A

34-
44

<30

20 mín,
24:72=1/3

1,0

1,5

4,0

7,0

7,4

7,8

1 dag

daglega

2 m3/gest/klst.

 

setlaug B

2,0

2,5

5,0

7,0

9,9

1/2 dag

 

 

Í öllum laugum skal síunarhraði vera mest 35 m/klst, miðað við að notuð sé lokuð sandsía óháð gerð laugar.

Síunarhraði (m/klst) =

Endurnýjun (m3/klst.)

 

Flatarmál síu (m2)

Styrkur á fríum klór skal vera í samræmi við gildi í töflunni. Bundinn klór skal að jafnaði ekki fara yfir 0,5 mg/l og aldrei yfir

1,0 mg/l. Hækkuðu sýrustigi skal fylgja eftir með hækkuðum klórstyrk. Í iðulaugum skal miða við hámarksstyrk klórs.

 

 

 

IV. viðauki.

Hæfnispróf starfsmanna er sinna laugargæslu.

Starfsmenn sundstaða er sinna laugargæslu skulu árlega gangast undir próf, svonefnt hæfnispróf sundstaða, sem viðurkennt er af Kennaraháskóla Íslands, íþróttaskor. Prófatriði eru:

1.             Þolsund, 600 m á innan við 21 mínútu (frjáls aðferð).

2.             Hraðsund, 25 m á 30 sek.

3.             Björgunarsund í fötum, 25 m með jafningja.

4.             Kafsund, 15 m.

5.             Sækja „björgunardúkku“ í dýpsta hluta laugar eftir stungu og köfun, hvíld milli kafana 10 sekúndur.

6.             Sækja 3 hluti í dýpsta hluta laugar (á allt að 3,5 m dýpi) eftir sund og köfun, hvíld milli kafana 10 sekúndur.

7.             Ljúka árlegu námskeiði í skyndihjálp sem sérstaklega er ætlað sundstöðum.

8.             Fara yfir öryggisatriði og útbúnað viðkomandi sundstaðar.

 

V. viðauki.

Gæðakröfur um örveruinnihald í laugavatni.

Mælingar

Eining

Viðmiðunargildi

Hámark

Til athugunar

Gerlafjöldi
v/37°C

pr. 100 ml

0 - 500

1000

Reglubundin rannsókn

Kólígerlar

pr. 100 ml

0

< 1

Nýtt sýni skal rannsakað
m.t.t. gerlafj. við 37°C,
kólígerla og
Paeruginosa, hafi niður-
stöður sýnt gerlafjölda yfir 1000 pr. 100 ml.

Pseudomonas
aeruginosa

pr. 100 ml

0

< 1

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica