Umhverfisráðuneyti

384/1994

Reglugerð um skipulag og starfsemi Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað.

1. gr.

Starfrækt skal Náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað. Neskaupstaður og önnur sveitarfélög í Austurlandskjördæmi sem gerast kunna aðilar eiga og reka stofuna með stuðningi ríkissjóðs.

Ríkissjóður greiðir laun forstöðumanns í fullu starfi. Framlag ríkissjóðs til stofnkostnaðar vegna húsnæðis eða leigukostnaðar eigi það við, innréttinga og bóka- og tækjakaupa getur numið allt að helmingi kostnaðar og fer eftir því sem ákveðið er á fjárlögum hverju sinni, enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag á heimaaðilum. Ríkissjóður er eigandi þess framlags sem hann leggur til stofnkostnaðar.

2. gr.

Auk framlags skv. 1. gr. hefur stofan tekjur af útseldri vinnu og annarri gjaldhæfri þjónustu. Renna þær óskiptar til stofunnar og hafa ekki áhrif á framlög ríkissjóðs og heimaaðila skv. 1. gr.

3. gr.

Þær eignir sem til stofnkostnaðar teljast skulu aðeins nýttar í þágu stofunnar nema fyrir liggi samþykki ráðuneytisins um annað.

4. gr.

Hlutverk Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað er:

a) að stunda vísindalegar rannsóknir á náttúru Austurlands,

b) að safna gögnum og varðveita heimildir um náttúrufar og stuðla að almennum náttúrurannsóknum og skal einkum lögð áhersla á Austurland og sérstöðu náttúrufars á þeim slóðum,

c) að stuðla að æskilegri landnýtingu, náttúruvernd og fræðslu um umhverfismál bæði fyrir almenning og í skólum á Austurlandi,

d) að veita fræðslu um náttúrufræði og aðstoða við gerð náttúrusýninga á Austurlandi,

e) að veita Neskaupstað og öðrum sveitarfélögum á Austurlandi umbeðna aðstoð og ráðgjöf á verksviði stofnunarinnar m.a. vegna nýtingar náttúrulegra auðlinda, skipulagsmála og mats á umhverfisáhrifum framkvæmda enda komi greiðsla fyrir.

5. gr.

Heimilt er Náttúrustofu Austurlands í Neskaupstað með sérstökum samningi að gerast aðili að sýningarsafni en fjárhagur hennar og safnsins skal vera aðskilinn.

6. gr.

Yfir Náttúrustofu í Neskaupstað skal starfa sérstök stjórn, skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Eigendur í héraði tilnefna tvo en ráðherra einn og skal hann vera formaður. Sömu reglur gilda um varamenn. Skipunartíma stjórna er milli reglulegra sveitarstjórnarkosninga. Hlutverk stjórnar er að annast rekstur stofunnar, gera fjárhagsáætlanir og fylgjast með fjárhag hennar og starfsemi.

Launa- og ferðakostnaður stjórnarmanna greiðist af tilnefningaraðilum. Annar kostnaður vegna starfa stjórnarinnar greiðist af stofunni.

7. gr.

Stjórn stofunnar ræður forstöðumann í fullt starf. Hann skal hafa háskólapróf í náttúrufræði eða sambærilega þekkingu. Hann stjórnar daglegum rekstri stofunnar, ræður að henni starfslið með samþykki stjórnar og er í fyrirsvari fyrir stofuna.

Forstöðumaður skal sækja lögbundna fundi Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa til að samræma starfsemina og greina frá niðurstöðum rannsókna sem unnar hafa verið á stofunni.

8. gr.

Til að sinna hlutverk stofunnar skal sérfræðingum og aðstoðarmönnum þeirra á stofunni sem stunda almennar náttúrurannsóknir eða söfnun náttúrugripa og annarra heimilda um náttúruna frjáls för um lönd manna en forðast skulu þeir óþarfa átroðning og skylt er að greiða fullar bætur fyrir tjón sem þeir kunna að valda.

Sömu aðilum er í þessu skyni heimilt að safna náttúrugripum hvar sem er án þess að endurgjald komi fyrir. Þetta gildir þó ekki ef um er að ræða náttúrugripi sem fémætir eru fyrir landeiganda eða aðra rétthafa lands.

Komi í ljós að rannsókn verðmæti sem áður voru ókunn ber rannsakanda að tilkynna rétthafa þess lands þar sem verðmætin eru.

9. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 2. mgr. 12. og 16. gr. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytið, 23. júní 1994.

Össur Skarphéðinsson.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica