Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

367/1996

Reglugerð um starfsemi Veðurstofu Íslands

1. gr. Hlutverk.

Veðurstofa Íslands annast veðurþjónustu fyrir Ísland og umhverfi þess og vinnur að rannsóknum á sviði veðurfræði og annarra þeirra fræðigreina er tengjast starfssviði hennar. Starfsemi tekur til vöktunar, rannsókna, þjónustu og ráðgjafar við stjórnvöld og almenning. Stofnunin gegnir viðvörunarþjónustu vegna veðurs, snjóflóða, jarðskjálfta, sjávarflóða og hafíss, auk annarrar þjónustu sem tengist náttúruvá í samræmi við fyrirmæli umhverfisráðherra. Þá skal Veðurstofan sinna öðrum verkefnum sem tengjast framkvæmd umhverfismála og umhverfisráðherra felur stofnuninni.

Þjónustusvæði Veðurstofu Íslands er Ísland, efnahagslögsagan og lofthjúpurinn yfir. Stofnunin annast enn fremur þjónustu utan þessa svæðis samkvæmt alþjóðasamningum, þ.á m. varðandi alþjóðaflug, eða eftir nánari fyrirmælum umhverfisráðherra.

2. gr. Þjónusta og vöktun.

Veðurstofa Íslands gerir veðurspár fyrir Ísland og skilgreind hafsvæði umhverfis landið og sendir út sérstakar viðvaranir um yfirvofandi óveður. Einnig sér stofnunin um flugveðurþjónustu á flugvöllum og á flugleiðum í samræmi við óskir flugmálayfirvalda og samkvæmt alþjóðlegum reglum og samþykktum. Stofnunin vaktar hættu á snjóflóðum, aurskriðum, jarðskjálftum, eldgosum, sjávarflóðum og ísingu svo og hafísútbreiðslu og sendir út viðvaranir og upplýsingar til að draga úr hættu á manntjóni og öðrum skaða. Stofnunin veitir almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum ráðgjöf og þjónustu þar sem sérþekking hennar kemur að notum s.s. vegna skipulagsmála, mannvirkjagerðar, ofanflóðavarna og áætlanagerðar.

Stofnunin miðlar rauntímaveðurupplýsingum til innlendra notenda og dreifir slíkum upplýsingum til alþjóðanota í samræmi við skuldbindingar gagnvart Alþjóðaveðurfræðistofnuninni.

3. gr. Mælingar, gagnaöflun og þjálfun.

Veðurstofa Íslands aflar veðurfræðilegra gagna með rekstri veðurstöðvakerfis á landi og sjó. Þá annast stofnunin mælingar á ýmsum efnum í andrúmslofti og úrkomu, m.a. vegna alþjóðlegra skuldbindinga og vegna rannsókna á veðurfarsbreytingum, ósoneyðingar og dreifingar þrávirkra lífrænna efna, þungmálma og annarra skaðlegra efna í andrúmslofti.

Stofnunin skal með rekstri stöðvakerfis mæla jarðhræringar og afla gagna um jarðskjálfta, eldgos og öskufall og sér um sértækar mælingar vegna ofanflóðahættu og söfnun gagna um snjóflóð og skriðuföll.

Stofnunin annast þjálfun athugunarmanna á landi og sjó og snjóflóðaeftirlitsmanna með sérstakri kennslu og endurmenntun.

4. gr. Rannsóknir og úrvinnsla.

Veðurstofa Íslands stundar rannsóknir á veðurfari landsins, ofanflóðum, hegðun hafíss og í veðurfræði almennt, á sviði jarðeðlisfræði og annarra fræðigreina sem eru á starfssviði stofnunarinnar.

Stofnunin annast gerð hættumats vegna snjóflóðahættu og hættu á jarðskjálftum auk hættumats á hverri þeirri náttúruvá sem stofnuninni er ætlað að vakta.

Stofnunin vinnur að úrvinnslu- og rannsóknaverkefnum fyrir stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga auk annarra verkefna sem umhverfisráðherra ákveður að fengnum tillögum eða að höfðu samráði við veðurstofustjóra.

Stofnunin tekur þátt í alþjóðlegri rannsóknastarfsemi með sérstakri áherslu á veðurþjónustu, hnattræn loftslagsvandamál og eflingu þekkingar innan þeirra greina sem tengjast starfssviði hennar.

5. gr. Alþjóðasamstarf.

Veðurstofa Íslands annast fyrir hönd Íslands samskipti við Alþjóðaveðurfræðistofnunina og er veðurstofustjóri fastafulltrúi Íslands hjá stofnuninni. Þá fer stofnunin með önnur alþjóðasamskipti á starfssviði sínu m.a. samstarf við evrópsku veðurspámiðstöðina í Reading.

6. gr. Verkefnasamningar.

Veðurstofa Íslands getur falið aðilum utan stofnunarinnar að annast fyrir stofnunina ákveðna verkþætti sem eru á starfssviði hennar og ábyrgð. Skal í slíkum tilvikum gerður sérstakur samningur þar um.

7. gr. Skipulag, stjórn og starfsmenn.

Veðurstofa Íslands skiptist í svið og deildir í samræmi við meginverkefni stofnunarinnar. Veðurstofustjóri gerir tillögur um skipulag stofnunarinnar, sem umhverfisráðherra staðfestir. Veðurstofustjóri, sem ráðherra skipar til fimm ára í senn, stjórnar og ber ábyrgð á faglegri og fjárhagslegri starfsemi stofnunarinnar.

Veðurstofustjóri ræður forstöðumenn sviða, deildarstjóra og annað starfsfólk.

Forstöðumenn skulu hafa lokið háskólaprófi á sínu sérsviði. Forstöðumenn stjórna daglegum rekstri sviða og deilda og skulu í samvinnu við veðurstofustjóra gera rekstrar- og starfsáætlanir og framfylgja þeim. Þeir bera ábyrgð á störfum sínum gagnvart veðurstofustjóra í samræmi við verklýsingu, þar sem starfssvið þeirra og ábyrgð er tilgreind.

Deildarstjórar og aðrir sérfræðingar skulu hafa háskólapróf eða hliðstæða menntun á fagsviði.

8. gr. Fjármál.

Rekstur Veðurstofu Íslands er fjármagnaður með framlögum á fjárlögum þ.m.t. framlag vegna samnings Íslands við Alþjóðaflugmálastofnunina, framlögum úr Ofanflóðasjóði, rannsóknarstyrkjum og sölu þjónustu.

Undir rekstur sem fjármagnaður er með framlagi af fjárlögum fellur:

  1. Rekstur athuganastöðvakerfis vegna veðurs, jarðskjálfta og snjóflóða, söfnun gagna m.a. vegna ofanflóða, jarðskjálfta, hafíss og loftmengunar.
  2. Veðurspár fyrir landið og miðin, miðlað af Ríkisútvarpinu, viðvaranir vegna veðurs, ofanflóða, jarðskjálfta, sjávarflóða og hafíss.
  3. Flugveðurþjónusta við innanlandsflug og við alþjóðaflug í samræmi við samning Íslands og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
  4. Almennar rannsóknir í veðurfræði og jarðeðlisfræði, á snjóflóðum, skriðuföllum og hafísútbreiðslu.
  5. Mengunarrannsóknir í andrúmslofti og úrkomu og vöktun eftir því sem ákveðið er af umhverfisráðherra.
  6. Erlend samskipti vegna almennrar starfsemi.

Ofanflóðasjóður fjármagnar rekstur snjóeftirlits í byggðarlögum þar sem snjóflóðahætta er fyrir hendi. Hættumat vegna snjóflóða og skriðufalla skal einnig kostað af ofanflóðasjóði, en önnur hættumatsgerð skal greidd úr ríkissjóði. Þá skal kostnaður vegna ráðgjafar stofnunarinnar um snjóflóðavarnarvirki greiddur úr Ofanflóðasjóði. Stofnunin skal gera tillögur til umhverfisráðherra um greiðslur úr sjóðnum vegna snjóflóðaeftirlits og hættumatsgerðar á hennar vegum.

Stofnunin tekur þátt í innlendum eða alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem kostuð eru af opinberum vísinda- og rannsóknarsjóðum eða öðrum aðilum.

Stofnunin selur fjölmiðlum, fyrirtækjum, stofnunum, einstaklingum o.fl. þjónustu, sem m.a. varðar öflun gagna, úrvinnslu og miðlun upplýsinga. Gjald fyrir þessa þjónustu er ákveðið í gjaldskrá sbr. 9. gr. eða í samningum aðila, sem ráðuneytið staðfestir.

9. gr. Gjaldskrá.

Ráðherra ákveður í gjaldskrá að fengnum tillögum veðurstofustjóra greiðslur fyrir selda þjónustu Veðurstofunnar sbr. 5. mgr. 8. gr. Gjaldskráin tekur mið af þeim kostnaði sem fellur til vegna veittrar þjónustu, þróunar hennar, framleiðslu og miðlunar. Tekið skal tillit til stofnkostnaðar og viðhalds tækja og búnaðar og gæta samræmis við þær reglur sem gilda í verðlagningu þjónustu veðurstofa á hinu evrópska efnahagssvæði. Verðskrána skal birta í Lögbirtingablaðinu.

10. gr. Höfundaréttur og afnot gagna.

Veðurstofa Íslands er fyrir hönd ríkisins eigandi að öllum réttindum sem stofnunin hefur öðlast. Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda-, afnota- og útgáfuréttar á öllu því efni og búnaði sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög nr. 73/1972, með síðari breytingum.

Stofnuninni er heimilt að veita öðrum rétt til afnota og útgáfu af grunnupplýsingum í vörslu stofnunarinnar að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga sé ekki stefnt í tvísýnu. Um gjald fyrir slíka þjónustu fer samkvæmt gjaldskrá skv. 9. gr. eða í samningum aðila.

11. gr. Birting veðurupplýsinga.

Veðurstofa Íslands setur í samráði við umhverfisráðherra reglur um birtingu upplýsinga sem hún miðlar. Sérstaklega skal þess gætt að viðvaranir í fjölmiðlum séu settar þannig fram að ekki valdi misskilningi eða óþægindum, enda séu þær gefnar út í nafni stofnunarinnar.

12. gr. Áætlanir og upplýsingaskylda.

Veðurstofa Íslands gefur út yfirlitsskýrslur um veðurfar, jarðhræringar, snjóflóð, hafís o.fl. og í samræmi við alþjóðlegar venjur og staðla.

Stofnunin gerir til þriggja ára í senn áætlun um starfsemi sína. Við gerð áætlunarinnar skal tekið tillit til fjárhagsforsendna og verkefnum raðað í forgangsröð. Áætlun þessi skal endurskoðuð árlega og lögð fram fyrir 31. mars ár hvert.

Stofnunin skilar árlega skýrslu til umhverfisráðherra um meginþætti starfsemi hennar. Þar skal m.a. koma fram yfirlit um rekstur, helstu verkefni, þjónustu og rannsóknarverkefni.

13. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 5. gr. sbr. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1985, um Veðurstofu Íslands og lög nr. 28/1985 um snjóflóð og skriðuföll með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Áætlun skv. 2. mgr. 12. gr. skal lögð fram fyrir 31. mars 1998.

Umhverfisráðuneytinu, 21. júní 1996.

Guðmundur Bjarnason.

Ingimar Sigurðsson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.