Iðnaðarráðuneyti

185/1984

Reglugerð um breyting á reglugerð um raforkuvirki nr. 264 31. desember 1971 með síðari breytingum. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

EFNISYFIRLIT

1.Kafli.

Verksvið og tilhögun rafmagnseftirlits

1.      Almenn ákvæði

1.1.1 Lagaheimild, tilgangur

1.1.2 Heiti starfseminnar og framkvæmdastjóra og rekstrarfyrirkomulag

1.1.3 Um varnir gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum

1.1.4 Réttindi til eftirlits og rannsókna

1.1.5 Fagleg gerð, viðhald, útlit, náttúruvernd

1.1.6 Upplýsingaskylda

1.1.7 Umbætur á raforkuvirkjum

1.1.8 Kostnaður af öryggisráðstöfunum vegna nýrra virkja

1.1.9 Ítarlegri reglur, undanþágur frá reglum

1.1.10 Ágreiningur, úrskurður

1.1.11 Beiting ákvæða á ný og eldri virki 1.1.12 Sektir

1.2 Umsóknir og tilkynningar um raforkuvirki

1.2.1 Umsóknar- og tilkynningarskylda

1.2.2 Hvenær og hvað ber að rækja um og tilkynna

1.2.3 Umsóknir, tilkynningar og fylgigögn

1.2.4 Leyfi til að hefja setningu virkja, leyfi til að taka þau í notkun

1.2.5 Ábyrgð á raforkuvirkjum

1.3 Um eftirlit með raforkuvirkjum

1.3.1 Almennt

1.3.2 Eftirlit almenningsrafveitna og annarra rafveitna

1.3.3 Tenging neysluveitu við dreifikerfi

1.3.4 Reglubundið eftirlit með neysluveitum

1.3.5 Um skaðabótaskyldu

1.4 Eftirlit með rafföngum

1.4.1 Kröfur um gerð og frágang

1.4.2 Prófunarskylda

1.4.3 Markaðseftirlit

1.4.4 Trúnaðarmál

1.4.5 Ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og seljanda

1.5 Löggilding til rafvirkjunarstarfa

1.5.1 Hæfniskilyrði

1.5.2 Löggildingarflokkar

1.5.3 Skilyrði til A- löggildingar

1.5.4 Skilyrði til B-löggildingar

1.5.5 Heimild Rafmagnseftirlits ríkisins til þess að veita C-löggildingu

1.5.6 Skilyrði til C- löggildingar

1.5.7 Skilyrði til D-löggildingar

1.5.8 Umsókn um löggildingu

1.5.9 Leyfisbréf

1.5.10 Réttindi þess, er hlotið hefur löggildingu til rafvirkjunarstarfa

1.5.11 Ábyrgð

1.5.12 Svipting og ógilding löggildingar

1.5.13 Menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum

1.5.14 Erindisbréf eftirlitsmanna með raforkuvirkjum

1.6 Eftirlitsgjöld

1. KAFLI

Verksvið og tilhögun rafmagnseftirlits.

1.1 Almenn ákvæði

1.1.1 Lagaheimild, tilgangur

Reglugerð þessi um raforkuvirki er sett samkvæmt lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins nr. 60, 1979. Ákvæði hennar eru til varnar gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum og til varnar gegn truflunum á starfrækslu virkja sem fyrir eru eða síðar kunna að koma.

Reglugerðin nær ekki til eigin raflagna eða eigin búnaðar farartækja svo sem skipa, flugvéla og bifreiða, enda falli þau undir aðrar eftirlitsstofnanir.

Skýring:

Til eigin lagna eða búnaðar farartækja telst sá búnaður sem venjulega fær orku frá rafgeymum eða rafala farartækisins, en ekki búnaður sem tengdur er almennu dreifikerfi eða sérstökum rafala í stað hins almenna dreifikerfis.

Til dæmis um búnað sem samkvæmt ofangreindu skal fullnægja kröfum þessarar reglugerðar má nefna hreyfilhitara og hitara fyrir farrými bifreiða sem tengjast veitukerfinu, búnað á farartækjum sem ýmist má tengja veitukerfi eða sérstökum rafala svo sem jarðbora eða verkstæðisbúnað. Sama gildir um rafstöð sem er á farartækinu. Ennfremur má nefna raflagnir í hjólhýsum, bílhýsum og vinnuskýli á bíl.

1.1.2 Heiti starfseminnar og framkvæmdastjóra og rekstrarfyrirkomulag

Eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum laga nr. 60, 1979 og þessarar reglugerðar hefur stofnun sem nefnist Rafmagnseftirlit ríkisins, hér eftir líka nefnt Rafmagnseftirlitið, skammstafað RER. Ráðherra skipar framkvæmdastjóra þess og nefnist hann rafmagnseftirlitsstjóri ríkisins.

Rafmagnseftirlit ríkisins skal rekið sem sjálfstæð stofnun með sérstöku reikningshaldi.

1.1.3 Um varnir gegn hættu og tjóni af raforkuvirkjum

Raforkuvirki til vinnslu, umbreytingar; flutnings eða nýtingar raforku, með svo hárri spennu, þeim straumstyrk eða þeirri tíðni að valdið geti lífshættu, heilsu- eða eignatjóni, skulu vera þannig gerð, notuð, haldið við og eftir þeim litið að hætta eða truflanir af þeim verði svo litlar sem við verður komið.

1.1.4 Réttindi til eftirlits og rannsókna

Rafmagnseftirlit ríkisins skal ætíð hafa óhindraðan aðgang að þeim raforkuvirkjum sem það hefur eftirlit með og rétt til að gera þær athuganir og rannsóknir er það telur nauðsynlegar. Eigendum og umráðamönnum raforkuvirkja er skylt að veita rafmagnseftirlitinu til þess þá aðstoð er þörf krefur og það kann að óska eftir.

Rafmagnseftirlitinu er heimilt að kanna rafföng eða hvers konar hluta raforkuvirkja hjá verslunum, framleiðendum og öðrum er hafa þau til sölu eða undir höndum.

Rafmagnseftirlitið getur hvenær sem er tekið í sína vörslu eða innsiglað prófunarskyld rafföng eða hvers konar hluta raforkuvirkja sem ekki eru færðir til prófunar í tæka tíð eða synjað er viðurkenningar.

Rafmagnseftirlitið getur hvenær sem er krafist þess af innflytjenda eða framleiðanda að hann annist innköllun tækja eða búnaðar sem seldur hefur verið eða afhentur án heimildar Rafmagnseftirlitsins, sbr. ákvæði reglugerðarinnar um raffangaprófun.

Með dómi er heimilt að gera upptæk þau rafföng, sem framleidd eru, seld, afhent eða notuð andstætt öryggisfyrirmælum Rafmagnseftirlits ríkisins.

1.1.5 Fagleg gerð, viðhald, útlit, náttúruvernd

Sérhvert raforkuvirki skal vera faglega gert og þannig frá því gengið að það verði ekki að þarflausu til lýta í umhverfi sínu.

Setning, breytingar og viðgerðir tilkynningarskyldra raforkuvirkja skulu framkvæmdar af sérhæfðum mönnum er hafa þá kunnáttu til að bera sem krafist er með lögum og í þessari reglugerð.

Eigendum og umráðamönnum raforkuvirkja er skylt að sjá um að raforkuvirkjum sé vel við haldið og eftirlit með þeim sé þannig að þau séu ávallt í samræmi við þær öryggiskröfur gegn hættum og tjóni sem reglugerðin mælir fyrir um.

Framkvæmdum við raforkuvirki skal haga þannig að sem minnst mengun, tjón eða röskun á náttúru og umhverfi eða lýti hljótist af.

Ef deilumál rísa um mat á mengunarhættu, náttúruspjöllum eða lýtum skal haft samráð við náttúruverndaraðila eða skipulagsyfirvöld.

1.1.6 Upplýsingaskylda

Eigendum og umráðamönnum raforkuvirkja er ávallt skylt að láta Rafmagnseftirlitinu í té allar upplýsingar er það kann að óska eftir um gerð, tilhögun og rekstur raforkuvirkja þeirra, einnig þær upplýsingar sem óskað er vegna almennrar skýrslugerðar um raforkuvirki.

Eigendum og umráðamönnum raforkuvirkja er skylt að tilkynna Rafmagnseftirlitinu tafarlaust um hvert það slys eða tjón (svo sem bruna) er kann að verða af völdum raforkuvirkjanna eða raflagna og tækja sem notuð eru í sambandi við þau, og gera fulla grein fyrir öllum atriðum sem þeim eru kunnug og geta skýrt orsök og upptök slyss eða tjóns.

1.1.7 Umbætur á raforkuvirkjum

Rafmagnseftirlitið getur ef það telur nauðsyn til þess, fyrirskipað umbætur og breytingar á raforkuvirkjum til öryggis gegn hættu, tjóni og truflunum skv. 1.1.3. Slíkar umbætur eða breytingar ber að framkvæma tafarlaust að fyrirsögn þess. Það getur bannað notkun virkjanna og aftengt þau ef þörf krefur þar til fullnægjandi umbótum er lokið.

1.1.8 Kostnaður af öryggisráðstöfunum vegna nýrra virkja

Raforkuvirki mega ekki hafa í för með sér hættu á tjóni á lífi, heilsu eða eignum manna eða hættu á truflunum á starfrækslu virkja sem fyrir eru. Sé unnt að afstýra því með öryggisráðstöfunum, skulu þær gerðar á kostnað eiganda hinna nýju virkja. Þó má skylda eiganda hinna eldri virkja að bera nokkurn hluta kostnaðarins, ef framkvæmd öryggisráðstafana er til verulegra hagsbóta fyrir starfrækslu þeirra framvegis. Svo má og ákveða að eigandi hinna eldri virkja skuli kosta að nokkru eða öllu leyti þær öryggisráðstafanir sem framvegis verða hluti af hans virkjum og hans eign, ef þær eru nauðsynlegar sökum þess, að hin eldri virki hafa verið ófullkomnari eða miður trygg en venja er til eða krafist er um ný virki á þeim tíma þegar ráðstafanirnar koma til framkvæmda.

1.1.9 Ítarlegri reglur, undanþágur frá reglum

(1) Rafmagnseftirliti ríkisins er heimilt að setja reglur um gerð, tilhögun og starfrækslu raforkuvirkja ef ákvæði um þau eru ekki að finna í þessari reglugerð, eða til nánari skilgreiningar á ákvæðum reglugerðarinnar.

(2) Rafmagnseftirliti ríkisins er heimilt að veita leyfi til að víkja frá reglum um gerð, tilhögun og starfrækslu, þá er sérstakar ástæður eru fyrir hendi og á annan fullnægjandi hátt er tryggt öryggi gegn hættu og tjóni að dómi þess.

1.1.10 Ágreiningur, úrskurður

(1) Reglum þeim er Rafmagnseftirlitið setur samkvæmt 1.1.9 og fyrirmælum þess samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar er öllum hlutaðeigandi skylt að hlíta og liggur sama refsing við, ef út af er brugðið, sem við broti gegn ákvæðum reglugerðarinnar.

(2) Rafmagneftirlitsstjóri sker úr ágreiningi um:

a) hvort raforkuvirki hafi í för með sér hættu á tjóni á lífi, heilsu og eignum manna, eða hættu á truflunum við starfrækslu eldri virkja,

b) hvaða öryggisráðstafanir skuli framkvæma til að afstýra hættum og truflunum,

c) hver eigi að koma þeim ráðstöfunum í verk,

d) hvort og að hve miklu leyti eigandi hinna eldri virkja skuli taka þátt í kostnaðinum við þær.

(3) Fyrirmælum Rafmagnseftirlits ríkisins getur hlutaðeigandi innan þriggja mánaða skotið undir úrskurð ráðherra. Þó er honum skylt að hlíta fyrirmælum Rafmagnseftirlitsins til bráðabirgða þar til úrskurður ráðherra er fallinn.

1.1.11 Beiting ákvæða á ný og eldri virki

Ný raforkuvirki skulu gerð, þeim haldið við og þau rekin samkvæmt þessari reglugerð. Ákvæðum þessarar reglugerðar skal einnig fylgt við stækkanir og breytingar á eldri raforkuvirkjum, sbr. ákvæði um gildistöku.

Reglur um rekstur raforkuvirkja skulu þó gilda um gömul og ný virki.

Auk þess, sem að framan greinir, getur Rafmagnseftirlit ríkisins ákveðið að sérstök ákvæði reglugerðarinnar taki einnig til raforkuvirkja sem tekin voru í notkun fyrir gildistöku þessarar reglugerðar, sé það talið nauðsynlegt af öryggisástæðum.

1.1.12 Sektir

Brot gegn ákvæðum þessarar reglugerðar, reglum og fyrirmælum sem settar eru með stoð í henni, varða sektum nema þyngri refsing liggi við að lögum.

Með mál út af brotum á reglugerð þessari og reglum og fyrirmælum sem sett eru með stoð í henni, skal fara að hætti opinberra mála.

1.2 Umsóknir og tilkynningar um raforkuvirki

1.2.1 Umsóknar- og tilkynningarskylda

Skylt er eiganda eða umráðamanni raforkuvirkja ásamt þeim löggiltum aðila, sem sér um setningu eða breytingu virkja, að sækja um leyfi til framkvæmda og tilkynna verkin til Rafmagnseftirlit ríkisins, sbr. 1.2.2-1.2.4. Um leið og verk er tilkynnt skal einnig tilkynna um ábyrgðarmenn, samanber 1.2.5.

Annist aðrir aðilar eftirlit virkja sbr. 1.2.2.2 (3) og 1.3.2. skal þó einungis sá sem stendur fyrir setningu þeirra sækja um og tilkynna það hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsóknir um leyfi til þess að hefja setningu raforkuvirkis ásamt fylgigögnum skulu berast eftirlitsaðila nægilega tímanlega til þess að hann geti kynnt sér þær áður en áætlað er að hefja framkvæmdir.

Tilkynningar um raforkuvirki skulu berast eftirlitsaðila nægilega tímanlega til þess að hann geti skoðað virkin áður en þau eru tekin í notkun.

Verði gerð eða tilhögun virkja breytt frá því er tilkynnt hafði verið í umsókn til eftirlitsaðila meðan á setningu þeirra stendur, skal í tæka tíð senda honum til samþykktar teikningar og lýsingu þeirra breytinga er fyrirhugaðar eru.

1.2.2 Hvenær og hvað ber að sækja um og tilkynna

1.2.2.1 Sækja ber um leyfi til setningar eftirtalinna raforkuvirkja áður en setning þeirra hefst:

(1) Öll háspennuvirki, svo sem raforkuver, flutnings-, tengi-, spenna-, véla-, þéttavirki og riðilstöðvar.

(2) Lágspenntar staðbundnar rafstöðvar, lágspenntar spenni- og riðilstöðvar o. þ. h.

1.2.2.2 Eftirtalin raforkuvirki ber að tilkynna þegar þau eru fullgerð:

(1) Raforkuvirki sem talin eru í 1.2.2.1, ber að tilkynna áður en þau eru tekin í notkun. Sjá jafnframt 1.2.4.

(2) Lágspennudreifikerfi og hluta þeirra þegar þau eru fullgerð.

(3) Neysluveitur, viðbætur við þær og breytingar ber að tilkynna þegar þær eru fullgerðar, svo sem hér segir:

- Neysluveitur á svæðum almenningsrafveitna skal tilkynna til eftirlits hlutaðeigandi rafveitu.

- Neysluveitur innan iðnaðarveitna sem hafa eftirlit með eigin virkjum skv. 1.3.2, skulu útteknar og skráðar eins og um getur í 1.2.3 eftir því sem við á.

- Aðrar neysluveitur, t. d. neysluveitur tengdar einkarafstöðvum, ber að tilkynna Rafmagnseftirliti ríkisins.

Ofannefndir aðilar geta sett fyrirmæli um að sækja beri um lagningarleyfi og leggja fram teikningar áður en setning er hafin.

1.2.3 Umsóknir, tilkynningar og fylgigögn.

Fylgigögn með umsóknum og tilkynningum skulu vera nægilega ítarleg til þess að unnt sé að ganga úr skugga um að virkin fullnægi reglum um raforkuvirki.

Rafmagnseftirlitið gefur út nánari fyrirmæli um tilhögun umsókna og tilkynninga og um fylgigögn.

1.2.4 Leyfi til að hefja setningu virkja, leyfi til að taka þau í notkun.

(1) Setningu þeirra raforkuvirkja, er sækja ber um leyfi til samkvæmt 1.2.2.1, má ekki hefja fyrr en að fengnu leyfi Rafmagnseftirlitsins.

(2) Ekki má taka í notkun virki sem talin eru í 1.2.2.1 fyrr en að fengnu leyfi Rafmagnseftirlitsins.

Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má þó leyfa tengingu virkja áður en þau hafa verið skoðuð.

Umsóknir og leyfi til slíkra tenginga skulu vera skrifleg eða staðfest á annan hátt, t. d. með símskeyti.

1.2.5 Ábyrgð á raforkuvirkjum

(1) Eigandi eða umráðamaður rafveitu skal tilnefna ábyrgðarmann fyrir setningu og/eða rekstri raforkuvirkja rafveitunnar.

Hann skal gefa ábyrgðarmanni framkvæmdavald og fjárforræði til þess að hann geti fullnægt ábyrgð sinni samkvæmt þessum reglum.

Ábyrgðarmaður skal hafa löggildingu Rafmagnseftirlitsins.

(2) Ábyrgðarmanni er heimilt, ef þörf krefur að framselja öðrum umboð sitt. Þetta skal gert skriflega. Ábyrgðarmaður ber ábyrgð á og fylgist með því að sá sem hann gerir að fulltrúa sínum gegni starfi sínu í samræmi við þessa reglugerð. Rafmagnseftirlitið setur nánari ákvæði í reglur um rekstur raforkuvirkja.

(3) Ábyrgðarmaður skal vera þannig búsettur að hann geti haft stöðuga umsjón með ástandi og viðhaldi þeirra raforkuvirkja sem hann ber ábyrgð á. Hann skal ekki vera svo bundinn af annarri starfsemi að það hindri störf hans sem ábyrgðarmanns. Rafmagnseftirlitið sker úr um vafaatriði varðandi þetta.

(4) Þegar um er að ræða stóra neysluveitu eða margar neysluveitur í eigu eins aðila getur hlutaðeigandi eftirlitsaðili og/eða eigandi í samráði við eftirlitsaðila ákveðið að tilnefndur skuli ábyrgðarmaður fyrir rekstri virkjanna. Ábyrgðarmaður skal hafa hlotið löggildingu Rafmagnseftirlitsins.

(5) Þó að Rafmagnseftirlitið hafi skoðað raforkuvirki og leyft þau eða viðurkennt, ber það enga ábyrgð á virkjunum, en eigendur þeirra og umráðamenn og hlutaðeigandi rafverktakar bera alla sömu ábyrgð á þeim sem áður.

1.3 Um eftirlit með raforkuvirkjum

1.3.1 Almennt

Rafmagnseftirlit ríkisins hefur yfireftirlit með öllum raforkuvirkjum sem reglugerð þessi nær til. Það lítur eftir því að við gerð, frágang og meðferð raforkuvirkja sé í öllu fylgt gildandi lögum og reglum, og að fullnægjandi öryggi sé gegn hættu og tjóni af þeirra völdum.

Eftirlit Rafmagnseftirlits ríkisins skiptist í eftirfarandi meginþætti:

Að fylgjast með að hvers konar rafföng, innflutt eða smíðuð innanlands, fullnægi lágmarkskröfum um öruggan umbúnað samkvæmt þessari reglugerð og öðrum þeim reglugerðum, reglum og stöðlum sem Rafmagnseftirlitið ákveður.

Að fylgjast með því að hönnun og gerð raforkuvirkja uppfylli kröfur þessarar reglugerðar og annarra þeirra reglugerða og staðla sem Rafmagnseftirlitið ákveður. -

Að hafa eftirlit með því að af starfrækslu raforkuvirkja, viðhaldi þeirra, gæslu og

meðferð stafi ekki hætta fyrir líf, heilsu eða eignir manna.

Að annast rannsóknir, skýrslugerðir og upplýsingasöfnun um truflanir, tjón og slys af völdum eftirlitsskyldra raforkuvirkja.

1.3.2 Eftirlit almenningsrafveitna og annarra rafveitna.

(1) Almenningsrafveitur skulu annast skoðun nýrra neysluveitna á orkuveitusvæði sínu og tengingu þeirra við dreifikerfi rafveitunnar, sjá 1.3.3. Á sama hátt skulu þær annast reglubundið eftirlit með neysluveitum, sjá 1.3.4. Þær skulu einnig annast eftirlit með vararafstöðvum sem ætlaðar eru til þess að sjá neysluveitum fyrir rafmagni ef straumur fer af veitunni.

Rafmagnseftirlitið getur skyldað eigendur annarra rafveitna, t. d. iðnaðarveitna, til að annast eftirlit með virkjum hlutaðeigandi veitu.

(2) Framkvæmd þessa eftirlits skal háð yfirumsjón Rafmagnseftirlits ríkisins, samanber 1.3.1. Rafmagnseftirlitið getur kveðið nánar á um framkvæmd eftirlitsins, skýrslugerð, spjaldskrá o. þ. h.

(3) Forstöðumönnum rafveitna er skylt að ráða nægjanlegan fjölda eftirlitsmanna til þessara starfa og skulu þeir vera viðurkenndir af Rafmagnseftirlitinu.

(4) Sinni eftirlitsaðili ekki eftirlitsskyldu sinni samkvæmt framansögðu, er Rafmagnseftirlitinu heimilt að láta framkvæma eftirlitið á hans kostnað.

1.3.3 Tenging neysluveitu við dreifikerfi.

Um skoðun nýrra neysluveitna og tengingu þeirra við dreifikerfi rafveitu gilda eftirfarandi reglur:

(1) Nýja neysluveitu og viðbót við eldri neysluveitu hvort heldur innan húss eða utan má ekki tengja við dreifikerfi, nema veitan sé reglum samkvæmt. Ekki mega aðrir en eftirlitsmenn tengja neysluveitu við veitukerfið.

Sé um verulega breytingu á eldri neysluveitu að ræða, skal fara með hana sem nýja veitu samkvæmt framansögðu.

(2) Tengja má sjálfstæðan hluta úr veitu ef hann er fullgerður. Um tengingu þess hluta veitunnar sem síðar er lokið, fer þá eins og um tengingu nýrrar veitu samkvæmt þessum reglum.

(3) Þegar lokið er setningu samkvæmt framansögðu, skal hinn löggilti aðili sem annaðist setninguna, tilkynna það viðkomandi rafveitu og sækja um að veitan verði skoðuð og viðurkennd.

(4) Ef tengja á neysluveitu við rafveitu sem ekki hefur sjálf með höndum eftirlit neysluveitna samkvæmt 1.3.2 (1), skal senda tilkynningu ásamt teikningum og lýsingum til Rafmagnseftirlits ríkisins.

1.3.4 Reglubundið eftirlit með neysluveitum.

(1) Eftirlitsaðili skal líta eftir neysluveitum með því millibili og svo nákvæmlega sem Rafmagnseftirlitið ákveður á hverjum tíma. Rafmagnseftirlitið gefur út fyrirmæli varðandi eftirlit með neysluveitum til ákvörðunar ofangreindu.

(2) Eftirlitsaðila skal skylt að skoða veitu ef eigandi eða umráðamaður óskar eða ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

(3) Eftirlitsaðili tilkynnir eigendum eða umráðamönnum neysluveitna um bilanir þær eða ágalla sem kunna að koma fram við eftirlit hans, og setur þeim hæfilegan frest til lagfæringar eftir því sem við á hverju sinni.

Fyrirmælum eftirlitsaðila um endurbætur er skylt að hlýða tafarlaust og án undandráttar. Hann getur lokað virkjum ef endurbótum samkvæmt fyrirmælum hans er ekki lokið innan tiltekins tíma. Hann getur einnig lokað virkjunum fyrirvaralaust, ef göllum á þeim er þannig háttað að hann telur stafa af þeim hættu, eða við skoðun hefur komið í ljós mjög verulegt brot gegn ákvæðum Reglugerðar um raforkuvirki.

(4) Eftirlitsskylda rafveitna leysir ekki eigendur eða umráðamenn neysluveitna undan þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir sbr. 1.1.5, 1.2.1 og 1.3.3 (3).

1.3.5 Um skaðabótaskyldu

Þótt eftirlitsaðili hafi látið skoða raforkuvirki sem eru ekki þeirra eign, og leyft þau eða viðurkennt, eru þessir aðilar ekki skaðabótaskyldir vegna skemmda er kunna að verða á raforkuvirkjunum eða tjóns er þau kunna að valda beint eða óbeint.

1.4 Eftirlit með rafföngum

1.4.1 Kröfur um gerð og frágang

Rafföng skulu vera þannig gerð og þannig skal frá þeim gengið, að engum stafi hætta af, hvorki mönnum, dýrum né eignum manna, ef notkun raffanganna er eðlileg og viðhald þeirra. Ekki má nota innanlands önnur rafföng en þau, sem fullnægja skilyrðum Reglugerðar um raforkuvirki og annarra reglna, sem Rafmagnseftirlitið viðurkennir og varða öryggi raffanganna. Sjá einnig 1.4.2.4.

Öll rafföng sem notuð eru innanlands eru eftirlitsskyld (sjá 1.3.1 - 1.3.4). Tiltekin rafföng er skylt að senda Rafmagnseftirlitinu til prófunar og viðurkenningar áður en sala eða afhending þeirra hefst (sjá 1.4.2). Þau rafföng eru hér nefnd "prófunarskyld rafföng" Viðurkenning Rafmagnseftirlitsins felur í sér lögleyfi til sölu og afhendingar raffanga.

1.4.2 Prófunarskylda

1.4.2.1 Skylt er að senda Rafmagnseftirlitinu til prófunar og viðurkenningar þær tegundir raffanga sem Rafmagnseftirlitið ákveður og má ekki selja þau rafföng eða afhenda til notkunar fyrr en viðurkenning Rafmagnseftirlitsins er fengin, nema sérstakt leyfi komi til í hvert sinn.

Rafmagnseftirlitið gefur úr "Skrá yfir prófunarskyld rafföng" þar sem talin eru þau rafföng sem senda ber til prófunar skv. ofansögðu. Rafmagnseftirlitið getur auk þess kallað inn til prófunar sýnishorn annarra raffanga, ef ástæður þykja til.

1.4.2.2 Rafmagnseftirlitið getur veitt undanþágu frá prófunarskyldu á rafföngum sem sérstaklega eru ætluð til notkunar í virkjum sem eru í vörslu kunnáttumanna. Dæmi um slík virki eru aflstöðvar, spennistöðvar, dreifikerfi rafveitna og fjarskiptavirki.

Undanþegin prófunarskyldu eru einnig sérsmíðuð tæki eða stök eintök prófunarskylds búnaðar eða tækja, ætluð til eigin nota. Eftirlitsmenn Rafmagnseftirlitsins eða rafveitu geta þó krafist prófunar. Þessi undanþága á ekki við um tæki, notuð til lækninga eða í læknisfræðilegu skyni, eða tæki sem notuð eru í beinni snertingu við húð.

Undanþegin prófunarskyldu eru enn fremur búnaður og tæki, innbyggð í tæki eða vélar sem ekki eru prófunarskyld, nema eftirlitsmenn Rafmagnseftirlitsins eða rafveitu hafi farið fram á prófun.

1.4.2.3 Um prófanir gilda þessar reglur:

(1) Umsókn og prófunargögn

Leggja skal inn skriflega umsókn um viðurkenningu raffangs.

Umsókn skal fylgja sýnishorn raffangsins, eitt eða fleiri, og lýsingar og gögn eftir því sem þörf krefur vegna prófunarinnar.

Umsækjandi skal vera íslenskur lögaðili.

Sé um hluti að ræða, sem erfitt er eða kostnaðarsamt að senda Rafmagnseftirlitinu til prófunar, getur Rafmagnseftirlitið heimilað prófun annars staðar. Ber umsækjanda að greiða þann aukakostnað er slík prófun hefur í för með sér.

(2) Úrskurður, dómnefnd

Rafmagnseftirlit ríkisins gerir þá prófun og rannsókn á sýnishornum sem það telur þurfa. Að því loknu er skorið úr því hvort raffangið er viðurkenningarhæft. Til þess að fella slíkan úrskurð getur rafmagnseftirlitsstjóri kvatt sér til ráðgjafar sérfróða fulltrúa frá samtökum á raftæknisviði og samtökum neytenda.

Rafmagnseftirlitið tilkynnir umsækjanda úrskurðinn skriflega.

(3) Meðferð sýnishorna

Rafmagnseftirlit ríkisins heldur eftir einu sýnishorni af hverri gerð, nema um verðmikla hluti sé að ræða. Þau sýnishorn sem Rafmagnseftirlitið heldur ekki eftir, verða afhent aftur í því ástandi sem þau eru í eftir prófun eða rannsókn. Skulu þau sótt áður en tveir mánuðir eru liðnir, frá því að úrskurður um þau hefur verið tilkynntur umsækjanda. Rafmagnseftirlitið ber ekki ábyrgð á sýnishornunum, svo sem skemmdum er kunna að verða á þeim við prófanir. Verði sýnishorn ekki sótt fyrir tilskilinn tíma, getur Rafmagnseftirlitið losað sig við þau á þann hátt sem henta þykir.

(4) Afturköllun viðurkenningar

Viðurkenning Rafmagnseftirlitsins á tilteknu raffangi er bundin við það raffang eða nákvæma eftirmynd þess. Ef verksmiðja gerir einhverjar breytingar á þeirri gerð, hvort heldur er að efni, útliti eða frágangi, verður að leita viðurkenningar að nýju.

Rafmagnseftirlitið getur afturkallað viðurkenningu ef síðar kemur í ljós, að raffang fullnægir ekki öryggiskröfum.

(5) Gildistími viðurkenningarViðurkenning fellur sjálfkrafa úr gildi, þegar liðin eru 10 ár frá því ári, er hlutaðeigandi raffang var viðurkennt af Rafmagnseftirlitinu.

(6) Heimild til endurprófunar

Rafmagnseftirliti ríkisins er heimilt að taka síðar án endurgjalds hjá verksmiðjum, umboðsmönnum, verslunum, rafvirkjum eða öðrum ný sýnishorn viðurkenndra raffanga til þess að rannsaka hvort þau eru eins og sýnishorn þau eru viðurkennd voru. Um meðferð þeirra sýnishorna gilda ákvæði í lið (3).

1.4.2.4 Prófunarreglur

Við prófanir raffanga fer Rafmagnseftirlitið eftir ákvæðum reglugerðar þessarar. Ef þau nægja ekki, er farið eftir erlendum prófunarreglum og öryggisstöðlum sem Rafmagnseftirlitið ákveður.

1.4.2.5 Erlendar prófanir

Rafmagnseftirlitið getur viðurkennt öryggisprófanir sem gerðar hafa verið í öðrum prófunarstofnunum, að fullnægðum skilyrðum sem Rafmagnseftirlitið kveður nánar á um.

1.4.2.6 Viðurkenningarmerki Rafmagnseftirlits ríkisins

Heimilt er, með sérstöku leyfi, að nota viðurkenningarmerki Rafmagnseftirlits ríkisins, ÍS, til að auðkenna rafföng sem viðurkennd hafa verið af Rafmagnseftirlitinu, hvort sem um er að ræða innlenda framleiðslu eða innflutt rafföng.

Rafmagnseftirlitið getur bundið viðurkenningu því skilyrði að rafföngin séu auðkennd með viðurkenningarmerkinu.

Um notkun viðurkenningarmerkisins skal fylgja fyrirmælum Rafmagnseftirlitsins þar að lútandi.

1.4.2.7 Skrár yfir viðurkennd rafföng

Rafmagnseftirlit ríkisins birtir svo oft sem þurfa þykir, skrár yfir viðurkennd rafföng.

1.4.3 Markaðseftirlit

Rafmagnseftirlitinu er heimilt að kanna rafföng hjá verslunum, framleiðendum og öðrum sem hafa þau til sölu eða undir höndum, og getur hvenær sem er tekið í sína vörslu eða innsiglað prófunarskyld rafföng sem hafa ekki verið færð til prófunar í tæka tíð, eða synjað hefur verið um viðurkenningu. Sjá

1.1.4.

1.4.4 Trúnaðarmál

Rafmagnseftirlit ríkisins fer með upplýsingar, svo og aðra vitneskju, um rekstur, framleiðsluaðferðir, og þess háttar sem trúnaðarmál og skuldbindur starfsmenn sína til að halda leynd um þær.

1.4.5 Ábyrgð framleiðenda, innflytjenda og seljanda

Sá sem framleiðir, flytur inn eða selur raftæki eða búnað er ábyrgur fyrir því að tækin eða búnaðurinn fullnægi skilyrðum Reglugerðar um raforkuvirki og þeim reglum sem Rafmagnseftirlitið setur. Sjá einnig 1.4.2.4. Ábyrgðaraðilar samkvæmt framansögðu bera ábyrgð á að rafföng sem seld eru eða afhent, séu nákvæm eftirmynd þess eintaks sem Rafmagnseftirlitið viðurkenndi. Ábyrgðaraðili skal sífellt fylgjast með því að raðframleiddur búnaður og tæki sé í samræmi við samþykktir.

1.5 Löggilding til rafvirkjunarstarfa.

1.5.1 Hæfniskilyrði.

Ekki mega aðrir takast á hendur rafvirkjunarstörf á eigin ábyrgð en þeir, er hafa þá kunnáttu og verklega reynslu, sem til þess er krafist, og hafa hlotið löggildingu Rafmagnseftirlits ríkisins.

1.5.2 Löggildingarflokkar.

Löggilding til rafvirkjunarstarfa er fernskonar:

1.      A-löggilding, löggilding til rafvirkjunar við háspennu- og lágspennuvirki,

  1. B-löggilding, löggilding til rafvirkjunar við lágspennuvirki,
  2. C-löggilding, takmörkuð löggilding til rafvirkjunar við háspennu- eða lágspennuvirki,
  3. D-löggilding, löggilding til rafvirkjunar við sérstæð raforkuvirki.

1.5.3 Skilyrði til A-löggildingar.

Sá er öðlast vill A-löggildingu verður að:

1. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild verkfræðiháskóla (sterkstraumsdeild) og hafa að auki a. m. k. eins og hálfs árs reynslu sem rafmagnsverkfræðingur við störf sem að rafvirkjun lúta, þar af a. m. k. 6 mánaða reynslu við háspennuvirki, eða

2. hafa lokið fullnaðarprófi frá rafmagnsdeild viðurkennds tæknifræðiskóla (sterkstraumsdeild), og hafa a. m. k. eins og hálfs árs reynslu sem tæknifræðingur við störf sem að rafvirkjun lúta, hafi hann sveinspróf í rafvirkjun eða rafvélavirkjun, annars a. m. k. tveggja ára starfsreynslu, þar af í báðum tilvikum a. m. k. 6 mánaða reynslu við háspennuvirki, eða

3. hafa sveinsbréf í rafvirkjun eða rafvélavirkjun og hafa lokið prófi frá raftæknadeild Tækniskóla Íslands, þegar sú deild tekur að útskrifa nemendur, eða frá öðrum skóla, er Rafmagnseftirlit ríkisins tekur gildan, og eigi krefst minni kunnáttu né verklegrar reynslu í rafvirkjun. Ennfremur hafa a. m. k. tveggja ára reynslu að loknu námi við störf sem að rafvirkjun lúta, þar af a. m. k. eins árs reynslu við háspennuvirki, eða

4. leggja fram prófskírteini eða kunnáttuvottorð, sem að dómi Rafmagnseftirlits ríkisins jafngilda a. m. k. prófskírteinum og öðrum kunnáttuvottorðum, sem gerð er krafa um í 1., 2. eða 3. lið þessarar greinar.

1.5.4 Skilyrði til B-löggildingar.

Sá er öðlast vill B-löggildingu verður að:

1. fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í 1.5.3 þó þannig, að ekki er krafist starfsreynslu við háspennuvirki, og lækkar þá krafan um starfsreynslu sem því nemur, eða

2. meðan raftæknadeild Tækniskólans er ekki komin á það stig að útskrifa nemendur, hafa sveinspróf í rafvirkjun eða rafvélavirkjun og auk þess í fjögur ár að minnsta kosti unnið við rafvirkjun eða rafvélavirkjun hjá aðila, löggiltum til rafvirkjunarstarfa, við góðan orðstír, enda gangi hann undir próf, sem Rafmagnseftirlit ríkisins lætur halda um kunnáttu hans, hafi hann ekki önnur kunnáttuvottorð, sem það tekur gild.

Sveinspróf í rafvélavirkjun er því aðeins tekið gilt til löggildingar við rafvirkjun, að umsækjandi hafi að auki unnið við rafvirkjun í tvö ár.

1.5.5 Heimild Rafmagnseftirlits ríkisins til þess að veita C-löggildingu.

Rafmagnseftirliti ríkisins er heimilt að gera eftirfarandi ráðstafanir, ef sérstök ástæða er til, enda sé fullnægt skilyrðum í 1.5.6

1. að leyfa, að sá eða þeir, er ekki fullnægja skilyrðum til A-löggildingar, sbr. 1.5.3 megi annast viðhald, viðgerðir og minniháttar breytingar á háspennuvirkjum við tiltekna orkuveitu, og

2. að leyfa, að sá eða þeir, er ekki fullnægja skilyrðum til B-löggildingar, sbr. 1.5.4 megi annast rafvirkjun við lágspennu við tiltekna orkuveitu eða á tilteknu svæði, eða hjá tilteknu fyrirtæki eða stofnun, en í síðastnefndu tilviki miðast réttindin aðeins við að mega annast viðhald, viðgerðir og minniháttar breytingar, en ekki nýlagnir.

C-löggilding veitir bráðabirgða réttindi á stöðum þar sem ekki er unnt að fá menn með fullgilda löggildingu til starfa eða þar sem fjarlægð frá aðsetri rafverktaka er of mikil og rafmagnsvirki eru ekki flóknari eða umfangsmeiri en svo að nauðsynlegu öryggi telst fullnægt á þennan hátt.

Með minniháttar breytingu er átt við aðgerð, sem ekki hefur í för með sér neina grundvallarbreytingu á virkjunum, svo sem á afli tækja, yfirstraumsvörnum, varnarráðstöfunum eða þess háttar.

1.5.6 Skilyrði til C-löggildingar.

Lágmarksskilyrði til veitingar C-löggildingar,

samkvæmt 1. lið 1.5.5

umsækjandi hafi sveinsbréf í rafvirkjun eða rafvélavirkjun, og hafi að auki fjögurra ára starfsreynslu við rafvirkjunarstörf, þar af unnið tvö ár við háspennuvirki,

samkvæmt 2. lið 1.5.5

umsækjandi hafi sveinsbréf í rafvirkjun eða rafvélavirkjun, og hafi að auki fjögurra ára starfsreynslu við rafvirkjunarstörf.

Rafmagnseftirlit ríkisins metur það í hverju tilviki, hvort þessi skilyrði teljast nægja til C-löggildingar, eða hvers krefjast skuli umfram þessi skilyrði.

Ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, getur Rafmagnseftirlit ríkisins leyft þau frávik frá þessum kröfum, sem það telur ástæðu til.

1.5.7 Skilyrði til D-löggildingar.

Sá er öðlast vill D-löggildingu verður að fullnægja þeim skilyrðum, sem Rafmagnseftirlit ríkisins krefst við hverja þá tegund raforkuvirkja, sem D-löggildingin á við, samkvæmt nánari reglum er það setur.

1.5.8 Umsókn um löggildingu.

Umsókn um löggildingu skal send Rafmagnseftirliti ríkisins. Skal í umsókninni getið:

a) Nafns og heimilis umsækjanda.

b) Hvort umsækjandi óski A-löggildingar, B-löggildingar, C-löggildingar eða D-löggildingar. Fylgja skal:

c) Skírteini fyrir því, að umsækjandi fullnægi skilyrðum 1.5.3 til 1.5.7, eftir því sem við á. Vottorð um starfsreynslu og hegðun skal vera undirritað af hlutaðeigandi aðila, löggiltum til rafvirkjunarstarfa.

1.5.9 Leyfisbréf.

Öðlist umsækjandi löggildingu, veitir Rafmagnseftirlit ríkisins honum,

A-leyfisbréf, og veitir það honum rétt til að takast á hendur rafvirkjun á eigin ábyrgð hvort heldur er við háspennu- eða lágspennuvirki, eða

B-leyfisbréf, og veitir það honum aðeins rétt til að taka að sér rafvirkjun við lágspennuvirki, eða

C-leyfisbréf, og veitir það honum rétt til að takast á hendur á eigin ábyrgð þau störf sem leyfisbréfið segir til um, en C-leyfisbréf, er látið gilda um tiltekinn tíma í senn, allt að tveimur árum, eða.

D-leyfisbréf, og veitir það honum rétt til að takast á hendur rafvirkjun á eigin ábyrgð við þau virki, er tilgreind eru í leyfisbréfinu.

1.5.10 Réttindi þess, er hlotið hefur löggildingu til rafvirkjunarstarfa.

a) Löggildingin veitir þeim er hana hlýtur rétt til að takast á hendur á eigin ábyrgð rafvirkjunarstörf við þau virki, sem tilgreind eru í leyfisbréfinu, hvar sem er á landinu, sjá þó 1.5.5, enda uppfylli hann jafnframt þau skilyrði, sem sett eru eða sett kunna að verða með ákvæðum laga um iðju og iðnað. Löggildingin veitir þó ekki rétt til að taka að sér rafvirkjunarstörf á þeim stöðum, þar sem héraðsstjórn eða rafveitustjórn setur sérstök löggildingarskilyrði í reglugerð, er ráðherra staðfestir, nema þeim skilyrðum sé jafnframt fullnægt, og löggilding á þeim stað komi til.

b) Ekki mega héraðsstjórn eða rafveitustjórn leyfa öðrum að annast rafvirkjunarstörf innan takmarka orkuveitunnar en þeim, sem hafa löggildingu Rafmagnseftirlits ríkisins.

1.5.11 Ábyrgð.

Sá er hlotið hefur löggildingu til rafvirkjunarstarfa ber ábyrgð á að þau verk, er hann tekst á hendur, séu vel af hendi leyst og fullnægi í öllu þeim kröfum, sem gerðar eru í gildandi lögum, reglugerðum og reglum um raforkuvirki á hverjum tíma. Honum er skylt að þekkja þau lög og reglugerðir og fylgja þeim í hvívetna, svo og að hlíta öðrum fyrirmælum Rafmagnseftirlits ríkisins um gerð, uppsetningu og starfrækslu raforkuvirkja. Hann ber ábyrgð á hæfni og vandvirkni aðstoðarmanna sinna.

Þessi grein felur í sér, m. a., að hverjum þeim, er tekið hefur að sér ákveðið rafvirkjunarstarf (raflögn), ber skylda til þess að framkvæma á raflögninni, áður en hún er tilkynnt hlutaðeigandi rafveitu til úttektar, prófanir á þeim ráðstöfunum, sem samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar skulu gerðar til öryggis gegn hættu og tjóni, sbr. einnig 1.3.3, 203c og 251.

1.5.12 Svipting og ógilding löggildingar.

Rafmagnseftirlit ríkisins er ávallt heimilt að rannsaka, hvernig löggildingarhafi leysir af hendi þau verk, er hann hefur fengið í hendur. Ef svo reynist, að hann leysi eigi verk sín svo vel af hendi, að viðunandi sé, getur Rafmagnseftirlitið kært hann til sekta og svipt hann löggildingu um lengri eða skemmri tíma. Gerist hann hvað eftir annað sekur um vanrækslu á þeim skyldum sínum, er hann hefur undirgengist við löggildingu eða ef um verulega vanrækslu er að ræða, getur Rafmagnseftirlitið ógilt löggildingu hans fyrir fullt og allt.

Nú hefur löggildingarhafi sannanlega tekið upp önnur störf, óskyld rafvirkjunarstarfi, um eins árs skeið eða lengur, og getur Rafmagnseftirlit ríkisins þá ógilt löggildingu hans.

1.5.13 Menntun og hæfni eftirlitsmanna með raforkuvirkjum.

Menn, sem ráðnir eru til þess að hafa eftirlit með raforkuvirkjum (venjulegum raflögnum og öðrum lágspennuvirkjum), skulu að minnsta kosti fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til B-löggildingar, sjá 1.5.4. Menn, sem ráðnir eru til þess að hafa eftirlit með háspennuvirkjum, skulu að minnsta kosti fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til A-löggildingar, sjá 1.5.3.

Rafmagnseftirlitið getur gert að skilyrði að manni, sem ráðinn er til eftirlitsstarfa, skuli veitt starfsþjálfun á vegum Rafmagnseftirlitsins um allt að 3 mánaða skeið, á kostnað hlutaðeigandi rafveitu, áður en hann hefur starfið.

1.5.14 Erindisbréf eftirlitsmanna með raforkuvirkjum.

Rafmagnseftirlitið gefur út erindisbréf til handa þeim sem hlotið hafa viðurkenningu til starfsins.

1.6 Eftirlitsgjöld.

1.6.1 Eigendur raforkuvera og rafveitna skulu greiða Rafmagnseftirliti ríkisins rafveitueftirlitsgjald, allt að 1,2% af heildarandvirði raforkusölu þeirra og heildarendurgjaldi fyrir leigu mælitækja að frádregnu andvirði aðkeyptrar raforku, söluskatti og verðjöfnunargjaldi svo og öðrum sambærilegum gjöldum sem á kynnu að verða lögð.

Orkustofnun annast innheimtu rafveitueftirlitsgjalds fyrir hönd Rafmagnseftirlits ríkisins. Sérhver gjaldskyldur aðili skal ótilkvaddur skila skýrslu til Orkustofnunar mánaðarlega ásamt greiðslu. Í skýrslunni komi fram fjárhæð raforkusölu til kaupenda í síðasta almanaksmánuði, mælaleiga, aðkeypt raforka, söluskattur, verðjöfnunargjald, endurgreiðsla fyrir ofgreidda raforku eftir atvikum, önnur gjöld skv. ofansögðu, svo og rafveitueftirlitsgjald það sem inna ber af hendi. Skýrslan skal undirrituð af þeim aðila, manni eða mönnum, sem heimild hafa til að skuldbinda gjaldskylda aðila, eða öðrum þeim sem til þess hafa sérstakt umboð eða umboð samkvæmt stöðu sinni. Skýrslunni skal skilað í fjórriti og áritar Orkustofnun eitt afritið um móttöku skýrslunnar og dagsetningu móttöku. Skili gjaldskyldur aðili ekki skýrslu á réttum tíma skal Orkustofnun áætla orkusölu þess aðila á grundvelli raforkusölu síðustu 12 mánaða og annarra atriða er máli skipta.

Nú notar eigandi raforkuvers sjálfur alla þá orku sem þar er unnin eða verulegan hluta hennar og hún er ekki mæld eða verðlögð eða ekki er vitað um tekjur af raforkusölu og má þá miða gjaldið við áætlaða orkunotkun, málafl rafala í raforkuveri eða við kostnað af eftirlitinu og greiðist Rafmagnseftirliti ríkisins samkvæmt reikningi þess.

1.6.2 Greiða skal Rafmagnseftirliti ríkisins gjald fyrir eftirlit þess með uppsetningu nýrra raforkuvirkja og raforkuvirkja á byggingarsvæðum. Skal miða gjaldið við kostnað af eftirlitinu og greiðast Rafmagnseftirlitinu samkvæmt reikningi þess.

1.6.3 Þeir sem flytja inn til landsins eftirlitsskyld rafföng og hluta þeirra eða framleiða þau innanlands, greiði til Rafmagnseftirlitsins gjald sem af innfluttum rafföngum og hlutum greiðist af tollverði viðkomandi raffangs, en af innlendri framleiðslu af verksmiðjuverði raffangsins. Má gjald þetta nema allt að 3/4% af viðkomandi verði.

1.6.4 Þeir sem flytja inn til landsins eftirlitsskyld rafföng og hluta þeirra eða framleiða þau innanlands, greiði til Rafmagnseftirlitsins gjöld fyrir prófun, viðurkenningu og skrásetningu viðkomandi raffanga samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem Rafmagnseftirlitið gefur út hér að lútandi.

1.6.5 Gjalddagi rafveitueftirlitsgjalds er 15. dagur næsta mánaðar eftir sölumánuð. Gjalddagi reikninga fyrir eftirlitsgjöld skv. þessari grein er 2 vikur eftir póstlagningu þeirra með ábyrgðarbréfi. Eindagi er 10 dögum síðar. Beri eindaga upp á helgidag eða almennan frídag færist eindagi á næsta virkan dag á eftir.

Séu eftirlitsgjöld skv. þessari grein eigi greidd á eindaga falla á hæstu leyfilegir dráttarvextir á hverjum tíma fyrir hvern byrjaðan mánuð, talið frá gjalddaga. Eftirlitsgjöld og dráttarvexti má taka lögtaki skv. 1. nr. 29/1985.

Ágreining um gjaldskyldu eða gjaldstofn skv. þessari grein má bera undir ráðherra orkumála.

Reglugerðarbreyting þessi, sem sett er samkvæmt 7. og 9. gr. laga nr. 60/1979, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt falla úr gildi eftirtalin ákvæði reglugerðar nr. 264 31. desember 1971:

1. kafli. Verksvið og tilhögun rafmagnseftirlits.

4. kafli. Um innflutning, prófun, sölu og afhendingu rafbúnaðar og raftækja.

5. kafli. Um löggildingu til rafvirkjunarstarfa.

6. kafli. Um sektir, undanþágur o. fl.

Iðnaðarráðuneytið, 4. apríl 1984.

Sverrir Hermannsson.

Páll Flygenring.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica