Iðnaðarráðuneyti

131/1991

Reglugerð um breyting á reglugerð um raforkuvirki nr. 264/1971. - Brottfallin

Stofnreglugerð:

Felld brott með:

Við reglugerðina bætist ný grein, 325. gr., sem hljóði svo:

§ 325. gr. Lagning háspennusæstrengja.

a) Háspennustrengir sem lagðir eru í sjó, vötn eða ár, skulu vera sjálfvarðir gegn hnjaski og raka, þannig að öruggt megi teljast, að þeir þoli eðlilega notkun við þær aðstæður, sem búast má við á hverjum stað. Slíkir háspennurafstrengir verða hér á eftir nefndir háspennusæstrengir eða sæstrengir.

b) Eigi má leggja háspennusæstrengi né tengja þá við aðra hluta rafkerfis, nema áður hafi verið fengið samþykki Rafmagnseftirlits ríkisins til verksins. Ef um er að ræða lagningu slíkra strengja í sjó, þarf einnig samþykki Vitastofnunar Íslands til framkvæmdanna.

c) Þar sem háspennusæstrengir koma á land skal sérstaklega um þá búið til að verja þá hnjaski.

Liggi háspennusæstrengir á siglingaleið eða veiðisvæði skipa, skulu upplýsingar um legu þeirra sendar ofangreindum stofnunum. Auk þess skulu upplýsingarnar sendar Sjómælingum Íslands sem sjá um að þær verði færðar inn á sjókort, íslensk og erlend.

Sett skulu upp leiðarmerki, er sýni sem næst legu strengjanna á siglingaleiðinni. Gerð og uppsetning merkjanna skal ákveðin í samráði við Vitastofnun og má ekki taka merkin í notkun fyrr en úttekt hefur farið fram af hálfu Vitastofnunar, sem sér um að merkin verði auglýst eins og önnur leiðarmerki.

Leiðarmerki þessi, eða sæstrengsmerki, eru venjulega tvö við hvort landtak strengsins, og skal fjarlægð milli þeirra vera 50-100 m. Leiðarmerkin nefnast formerki og bakmerki. Formerkið er hringlaga spjald. Bakmerkið eru tvö spjöld, hið neðra er ferningur og snýr eitt hornið niður. Efra spjaldið er hringlaga, sömu gerðar og formerkið, en fest á hærri staur en það. Bæði merkin eru hvít og rauð að lit (sjá skýringarmynd). Merki þessi skulu þannig sett, að þau beri hvort í annað, þegar skipið er sem næst því að vera yfir sæstrengnum.

Lega háspennustrengja yfir vötn og ár skal einnig merkt á öruggan hátt og bannsvæði tilgreind á hverjum stað.

d) Öllum skipum er bannað að veiða með veiðarfærum, sem fest eru í botni, eða eru dregin eftir honum, svo sem netum, botnvörpum o.þ.h. á svæðum þar sem sæstrengir liggja. Svæði þetta er að jafnaði 400 m breitt, eða 200 m belti hvoru megin sæstrengs.

Á sama svæði er bönnuð sandtaka, grjótnám og hvers konar rót annað á fjörunum við landtök og á botninum, þar sem sæstrengir liggja.

Þá er skipum einnig bannað að leggjast við akkeri á svæðum þessum.

e) Birta skal auglýsingu í Lögbirtingablaðinu um lögn háspennusæstrengja ásamt yfirlitsmynd, er sýni legu þeirra.

f) Ef skip í nauð þarf að leggjast við akkeri á bannsvæði, sbr. staflið d), eða rekur inn á bannsvæði með akkeri eða veiðarfæri úti, skal sýna sérstaka varúð, þegar akkeri er létt eða veiðarfæri dregið inn. Verði þess vart, að akkerið eða veiðarfærið hefur fest á sæstreng, ber að slaka varlega út aftur, setja við dufl og losa akkeri eða veiðarfæri frá skipinu.

Tilkynnt skal um þetta til eiganda strengsins eða fulltrúa hans eða næsta lögreglustjóra og gefa glögga skýrslu um öll málsatvik.

Aldrei má höggva í háspennustreng, þar sem það er lífshættulegt þeim, er slíkt gerir.

g) Hver, sem brýtur ákvæði þessarar reglugerðar, skal sæta sektum, enda liggi ekki þyngri refsing við samkvæmt öðrum lögum. Hver sá sem skemmir eða skaddar háspennusæstreng ber fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst, eftir almennum reglum.

h) Rafmagnseftirlit ríkisins getur sett nánari reglur um búnað háspennusæstrengja og öryggisráðstafanir í sambandi við þá.

Reglugerð þessi, um breyting á reglugerð um raforkuvirki nr. 264, 31. desember 1971, er sett skv. lögum um Rafmagnseftirlit ríkisins, nr. 60, 31. maí 1979, til að taka þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Iðnaðarráðuneytið, 11. febrúar 1991.

F. h. r.

Björn Friðfinnsson.

Guðrún Skúladóttir.

Fylgiskjal.

Fylgiskjal - Bakmerki - Formerki - Leiðarmerki


Þetta vefsvæði byggir á Eplica