Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

403/2025

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 738/2003, um urðun úrgangs.

1. gr.

Í stað "Umhverfisstofnun" hvarvetna í reglugerðinni kemur (í viðeigandi beygingarfalli): Umhverfis- og orkustofnun.

 

2. gr.

Í stað 1. gr. reglugerðarinnar kemur ný grein svohljóðandi: Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr urðun úrgangs, einkum úrgangs sem hentar til undirbúnings fyrir endurnotkun, endur­vinnslu eða annarrar endurnýtingar, og skapa þannig skilyrði fyrir myndun hringrásar­hagkerfis. Jafnframt að stuðla að því að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið og sem minnstri losun gróðurhúsalofttegunda. Í því felst að urðun úrgangs mengi ekki vatn, jarðveg eða andrúmsloft, að dregið verði úr þeirri hættu sem urðun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra og að urðun verði háttað þannig að úrgangur nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma.

 

3. gr.

Við 2. gr. reglugerðarinnar bætist nýr málsliður svohljóðandi: Reglugerðin gildir ekki um námu­úrgangsstaði að því marki sem þeir falla undir reglugerð um námuúrgangsstaði.

 

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. Eftirfarandi skilgreiningar falla brott: "Besta fáanlega tækni", "Böggun", "Flutningur", "Flokk­unarmiðstöðvar", "Landbúnaðarúrgangur", "Meðferð úrgangs", "Móttökustöð", "Pökkun", "Söfnunarstöð", "Úrgangshafi".
  2. Við greinina bætast nýjar skilgreiningar, í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
    1. Framleiðandi úrgangs: hver sá er stundar starfsemi þar sem úrgangur fellur til, þ.e. upphaflegur framleiðandi úrgangs, eða hver sá sem stundar forvinnslu, blöndun eða aðra starfsemi sem veldur breytingum á eðli eða samsetningu þessa úrgangs.
    2. Fylling: sérhver endurnýtingaraðgerð þar sem hentugur úrgangur, sem ekki er spilliefni, er notaður til endurheimtar á graftarsvæðum eða á tæknilegan hátt við landmótun. Úrgangur sem er notaður í fyllingar verður að koma í staðinn fyrir efni sem er ekki úrgangsefni, henta í áðurnefndum tilgangi og takmarkast við það magn sem er nauðsyn­legt til að ná þessum tilgangi.
    3. Handhafi úrgangs: framleiðandi úrgangs eða einstaklingurinn eða lögaðilinn sem hefur hann í vörslu sinni.
    4. Undirbúningur fyrir endurnotkun: hvers kyns aðgerðir, sem felast í skoðun, hreinsun eða viðgerð, þar sem vörur eða íhlutir þeirra, sem eru orðin að úrgangi, eru útbúin þannig að þau megi endurnota án annarrar forvinnslu.
    5. Sérstök söfnun: söfnun þar sem úrgangsflokkum er haldið aðskildum eftir tegund og eðli til að auðvelda tiltekna meðhöndlun, svo sem undirbúning fyrir endurnotkun eða endur­vinnslu.
  3. Skilgreining á endurnotkun orðast svo: Endurnotkun: hvers kyns aðgerð þar sem vörur eða íhlutir, sem ekki eru úrgangur, eru notuð í sama tilgangi og þau voru ætluð til í upphafi.
  4. Skilgreining á endurnýtingu orðast svo: Endurnýting: aðgerð þar sem aðalútkoman er sú að úrgangur verður til gagns þar eð hann kemur í stað annars efniviðar sem hefði annars verið notaður í tilteknum tilgangi, eða hann er útbúinn til þeirrar notkunar, í stöðinni eða úti í hagkerfinu. Endurnýting skiptist annars vegar í efnisendurnýtingu, þar á meðal undirbúning fyrir endurnotkun, endurvinnslu og fyllingu, og hins vegar í orkuendurnýtingu, þar á meðal uppvinnslu sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti.
  5. Skilgreining á endurvinnslu orðast svo: Endurvinnsla: hvers kyns endurnýtingaraðgerð sem felst í því að endurvinna úrgangsefni í vörur, efnivið eða efni, hvort sem er til notkunar í upphaflegum tilgangi eða í öðrum tilgangi. Undir þetta fellur uppvinnsla á lífrænum efni­viði, en ekki orkuvinnsla og uppvinnsla sem skilar efni sem á að nota sem eldsneyti eða til fyllingar.
  6. Skilgreiningin á förgun orðast svo: Förgun: hvers kyns aðgerð sem er ekki endurnýting, jafnvel þótt aðgerðin hafi að auki í för með sér endurheimt efna eða orku.
  7. Skilgreining á grunnvatni orðast svo: Grunnvatn: vatn, kalt eða heitt, sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkom­andi jarðlagi.
  8. Skilgreining á heimilisúrgangi orðast svo: Heimilisúrgangur:úrgangur sem flokkast sem:
    1. blandaður úrgangur frá heimilum og úrgangur frá heimilum sem er sérstaklega safnað, þ.m.t. pappír og pappi, gler, málmar, plast, lífúrgangur, timbur, textíll, umbúðir, raf- og rafeindatækjaúrgangur, notaðar rafhlöður og rafgeymar og rúm­frekur úrgangur, þ.m.t. dýnur og húsgögn,
    2. blandaður úrgangur af öðrum uppruna og úrgangur af öðrum uppruna sem er sérstaklega safnað og er svipaður að eðli og samsetningu úrgangi frá heimilum,
    3. en þó ekki úrgangur frá framleiðslu, landbúnaði, skógrækt, fiskveiðum, rotþróm, fráveitu­kerfum, þ.m.t. seyra, úr sér gengin ökutæki eða byggingar- og niðurrifs­úrgangur.
  9. Skilgreining á lífrænum úrgangi orðast svo: Lífrænn úrgangur: úrgangur sem er niður­brjótan­legur af örverum með eða án tilkomu súrefnis, t.d. lífúrgangur, sláturúrgangur, fisk­úrgangur, ölgerðarhrat, húsdýraúrgangur, timbur, lýsi, garðyrkjuúrgangur, pappír og pappi, og seyra.
  10. Skilgreining á meðhöndlun úrgangs orðast svo: Meðhöndlun úrgangs: söfnun, geymsla, böggun, flokkun, flutningur endurnýting, pökkun og förgun úrgangs, þ.m.t. eftirlit með slíkri starfsemi og umsjón með förgunarstöðvum eftir að þeim hefur verið lokað.
  11. Skilgreining á óvirkum úrgangi orðast svo: Óvirkur úrgangur: úrgangur sem breytist ekki verulega líf-, efna- eða eðlisfræðilega.
  12. Skilgreining á rekstrarúrgangi orðast svo: Rekstrarúrgangur: úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri, annar en heimilisúrgangur.
  13. Skilgreining á spilliefni orðast svo: Spilliefni: úrgangur sem inniheldur efni sem haft geta mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau eru óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafa í snertingu við spilliefni og skráð eru á lista í reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.
  14. Skilgreining á sóttmenguðum úrgangi orðast svo: Sóttmengaður úrgangur: úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof sem er smitandi samkvæmt skilgreiningu í reglugerð um skrá yfir úrgang og mat á hættulegum eiginleikum úrgangs.
  15. Skilgreining á úrgangi orðast svo: Úrgangur: hvers kyns efni eða hlutir sem handhafi úrgangs ákveður að losa sig við, ætlar að losa sig við eða er gert að losa sig við.

 

5. gr.

Í stað "fáanlegri" í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar kemur: aðgengilegri.

 

6. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað 2. málsl. d-liðar kemur nýr málsliður svohljóðandi: Heimilt er þó að nota heila hjól­barða, reiðhjóladekk og hjólbarða með stærra þvermál en 1,4 m sem byggingar- og stoðefni á urðunarstað.
  2. Við greinina bætist nýr stafliður svohljóðandi: úrgang sem hefur verið safnað sérstaklega og bannað er að urða samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs.

 

7. gr.

Í stað "fáanlegu" í f-lið 2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar kemur: aðgengilegu.

 

8. gr.

Innleiðing.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2018/850 frá 30. maí 2018 um breytingu á tilskipun 1999/31/EB um urðun úrgangs.

 

9. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 43. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.

 

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, 10. apríl 2025.

 

Jóhann Páll Jóhannsson.

Stefán Guðmundsson.

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica