Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

294/1995

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa. - Brottfallin

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur heilbrigðisfulltrúa.

1. gr.

Rétt til þess að starfa sem heilbrigðisfulltrúi hér á landi og kalla sig heilbrigðisfulltrúa hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi umhverfisráðherra.

2. gr.

Leyfi samkvæmt 1. gr. má aðeins veita þeim sem hefur menntun á sviði heilbrigðis- og umhverfiseftirlits, sem umhverfisráðuneytið metur gilda. Áður en leyfi er veitt skal leita álits Hollustuverndar ríkisins um hæfni umsækjenda.

3. gr.

Menntun heilbrigðisfulltrúa skal vera:

a) Háskólapróf í heilbrigðis- og umhverfiseftirliti.

b) Háskólapróf í skyldum greinum, auk sérnáms og/eða starfsreynslu.
Starfsreynsla skal vera 12 mánuðir. Heimilt er að skipta starfsþjálfunartímabili þannig að hluti þess sé unninn hjá Hollustuvernd ríkisins. Að öðru leyti fer starfsþjálfun fram hjá heilbrigðiseftirliti á svæði þar sem starfa a.m.k. tveir heilbrigðisfulltrúar í fullu starfi.
Heimilt er að viðurkenna skipulegt sérnám (bóklegt og/eða verklegt) við erlendar stofnanir. Hið sama gildir um innlend námskeið tengd heilbrigðiseftirliti. Skal hver mánuður í slíku sérnámi jafngilda tveggja mánaða starfsreynslu hjá heilbrigðiseftirliti hérlendis.

c) Önnur sambærileg menntun.

4. gr.

Heilbrigðisfulltrúi starfar að heilbrigðis- og umhverfiseftirliti í umboði heilbrigðisnefnda samkvæmt ákvæðum laga og reglna, sem nefndunum hefur verið falið að annast framkvæmd á. Heilbrigðisfulltrúi starfar ennfremur fyrir svæðisnefnd í samræmi við 26. gr. laga nr. 81/1988 með síðari breytingum.

Heilbrigðisfulltrúi er háður faglegu eftirliti landlæknis í starfi sínu.

5. gr.

Óheimilt er að ráða til starfa sem heilbrigðisfulltrúa aðra en þá sem hafa leyfi samkvæmt reglugerð þessari.

6. gr.

Heilbrigðisfulltrúa ber að viðhalda þekkingu sinni og tileinka sér nýjungar varðandi starfið.

7.gr.

Heilbrigðisfulltrúa er skylt að gæta þagmælsku um atriði sem hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskylda heilbrigðisfulltrúa helst þótt hann láti af störfum.

8. gr.

Um refsingu vegna brota heilbrigðisfulltrúa í starfi, sviftingu starfsleyfis og endurveitingu gilda ákvæði læknalaga nr. 53/1988. Með mál út af brotum gegn reglugerð þessari fer að hætti opinberra mála.

9. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 26. gr. 4. tl. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sbr. breytingu nr. 54/1994, og að höfðu samráði við heilbrigðis- og tryggingarnálaráðuneytið hvað snertir hlutverk landlæknis, öðlast gildi þegar við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 150/1983, með breytingu nr. 765/1983.

Umhverfisráðuneytið, 15. maí 1995.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica