Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

1062/2018

Reglugerð um (3.) breytingu á reglugerð nr. 737/2003, um meðhöndlun úrgangs.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað skilgreiningar á heilbrigðisstofnunum kemur svohljóðandi skilgreining: Heilbrigðis­þjónusta og stofur sem stunda húðrof: stofnanir og starfsaðstaða sem læknar, tannlæknar, dýralæknar eða aðrir sem hafa sambærileg réttindi til að koma í veg fyrir og greina sjúk­dóma í mönnum eða dýrum, gera að sárum og/eða hafa eftirlit með sjúkdómum. Hér er einnig átt við læknis- og líffræðilegar rannsóknastofur, hjúkrunar- og dvalarheimili og aðra umönn­unar­staði fyrir fólk, fótaaðgerðarstofur og stofur sem stunda húðrof eins og nálar­stungur, húð­gatanir og húðflúr.
  2. Í stað skilgreiningar á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum kemur svohljóðandi skil­greining: Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof: Úrgangur sem hefur í för með sér meiri sýkingarhættu og skaðlegri áhrif á fólk og umhverfi en annar úrgangur. Til þessa flokks heyrir smitandi úrgangur (sóttmengaður úrgangur), lík­ams­hlutar og vefir, hvassir hlutir, lyfjaúrgangur, geislavirk efni og spilliefni.
  3. Í stað skilgreiningar á smitandi kemur svohljóðandi skilgreining: Smitandi úrgangur (sótt­meng­aður úrgangur): Úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof sem inni­heldur lífvænlegar örverur eða eiturhrif þeirra sem vitað er eða má ætla að geti valdið sjúk­dómum í mönnum eða öðrum lífverum.
  4. Skilgreiningin sóttmengaður úrgangur fellur brott.

2. gr.

Ákvæði 15. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.

Tryggja skal að allur sérstakur úrgangur sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu eða vegna húðrofa sé meðhöndlaður á viðunandi hátt og að hann blandist ekki við heimilisúrgang og annan úrgang. Til að koma í veg fyrir smit, eitranir, ofnæmi, óþol, eld, íkveikju- og sprengihættu, jónandi geislun og mengun umhverfis skal gæta ítrustu varkárni og nákvæmni við meðhöndlun á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof.

Þeir sem hafa undir höndum sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu eða stofum sem stunda húðrof eða sjá um geymslu hans, pökkun og undirbúning á flutningi skulu tryggja að meðhöndlun hans sé eins og kveðið er á um í viðauka. Stjórnendum heilbrigðisstofnana og framangreindra stofa ber að tryggja að starfsfólk þeirra sem meðhöndlar sérstakan úrgang frá heilbrigðisþjónustu og stofum sem stunda húðrof og/eða efni og hluti sem verða að slíkum úrgangi fái fræðslu um með­höndlun hans og upplýsingar um þá ábyrgð sem það ber varðandi hann. Skrá skal þjálfun og fræðslu starfsfólks.

3. gr.

Ákvæði 16. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Smitandi úrgangur o.fl.

Meðferð á sýktu heyi, dýrahræjum, smitandi sláturúrgangi og öðrum smitandi úrgangi en fjallað er um í 15. gr. skal vera á viðunandi hátt og þess gætt að hann blandist ekki við annan úrgang og valdi ekki smiti. Um meðferð á þessum úrgangi skal hafa samráð við hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd og viðkomandi héraðsdýralækni eftir því sem við á. Að öðru leyti er vísað til reglugerðar um heil­brigðis­reglur að því er varðar aukaafurðir úr dýrum og afleiddar afurðir sem ekki eru ætlaðar til mann­eldis.

4. gr.

Nýr viðauki I sem birtur er með reglugerð þessari kemur í stað núgildandi viðauka I.

5. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í a-d-lið 43. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og hlutaðeigandi haghafa, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 15. nóvember 2018.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica