Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

884/2017

Reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi á landi.

I. KAFLI

Gildissvið, markmið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um starfsemi olíubirgðastöðva, afgreiðslustöðva fyrir eldsneyti og um hvers konar geymslu olíuefna, rekstur olíugeyma og annarra mannvirkja þar sem olía, lýsi og grútur, lífdísel og annað lífeldsneyti, íblöndunarefni eða lífrænir leysar sem hafa svipaða eiginleika og olía og úrgangur þessara efna er meðhöndlaður eða geymdur.

Um geymslu og dreifingu bensíns og annarrar rokgjarnar olíu gilda þær kröfur sem fram koma í reglugerð um varnir við losun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC).

Um efni og efnablöndur fer samkvæmt efnalögum. Um vinnuvernd fer samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Um forvarnir og viðbúnað gegn eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi við meðhöndlun á framangreindum efnum fer samkvæmt lögum um brunavarnir.

Um flutning á olíu sem og öðrum hættulegun efnum á vegum gildir reglugerð um flutning á hættu­legum farmi á vegum, sem innleiðir ADR-reglur Sameinuðu þjóðanna. Í þeim reglum og reglu­gerð­inni eru m.a. ákvæði um:

Gerð og búnað grunnökutækja fyrir olíuflutninga.
Gerð og búnað farmgeyma og búnaðar olíuflutningatækja.
Gerðarprófanir, framleiðslueftirlit og vottanir á olíuflutningatækjum og farmbúnaði.
Merkingar á olíuflutningatækjum.
Fylgiskjöl með olíuflutningum, þ.m.t. farmbréf og flutningsslysablað.
Reglubundið eftirlit og úttektir á olíuflutningatækjum.
Þjálfun olíuflutningabílstjóra.
Öryggisráðgjafa fyrirtækja sem flytja hættulegan farm.

Vinnueftirlit ríkisins hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðarinnar hvað varðar flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófanir og viðurkenningar sem krafist er í ADR-reglunum.

Lögreglan hefur eftirlit með að farið sé eftir reglugerð um flutning á hættulegum farmi á vegum við sjálfan flutninginn á hættulegum farmi eins og hann er skilgreindur í reglugerðinni.

Samgöngustofa hefur eftirlit með að ökutæki sem flytja hættulegan farm séu viðurkennd til slíkra flutninga samkvæmt ADR-reglunum.

Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi í mengunaróhöppum og ber ábyrgð á að heilbrigðiseftirliti sé tilkynnt án tafar um mengunaróhöpp.

Ákvæði laga um byggingarvörur gilda um byggingarvörur sem markaðssettar eru til notkunar í mannvirki, svo sem geyma, olíulagnir, olíuskiljur og afgreiðsludælur.

2. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að tryggja fullnægjandi mengunarvarnir við meðhöndlun á olíu, lýsi og líkum efnum. Sama gildir um alla vinnslu á olíu, lýsi og grúti, íblöndun efna í eldsneyti og eldsneytisgerð. Markmiðið er einnig að skýra ábyrgð dreifingaraðila og eigenda þessara efna þegar mengunaróhöpp verða og tryggja að gripið sé til viðunandi aðgerða.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Afgreiðsluplan: svæði með olíuheldu yfirborði þar sem afgreiðsla olíu fer fram.

Afgreiðslutæki: búnaður á afgreiðsluplani til þess gerður að afgreiða olíu á farartæki.

Afgreiðslustöð: staður þar sem eldsneyti er afgreitt á farartæki og vélar.

Áfyllingarplan: svæði með olíuheldu yfirborði þar sem lestun eða losun flutningatækis fer fram.

Bensín: rokgjarnar olíur sem ætlaðar eru til þess að knýja rafkveikjuhreyfla sem notaðir eru í hvers konar tæki og búnað.

Bensínstöð: afgreiðslustöð þar sem kaupendur koma og fá eldsneyti afgreitt beint á bifreiðar eða önnur farartæki.

Brotloki: búnaður sem staðsettur er við afgreiðslutæki og lokar á sjálfvirkan hátt fyrir rennsli frá olíulögn ef afgreiðslutækið verður fyrir hnjaski eða brunaálagi.

Bryggjugeymir: afgreiðslustöð á bryggju eða hafnarbakka þar sem olía er seld beint á báta.

Dreifingaraðili: söluaðili olíu eða sérhæft fyrirtæki er annast dreifingu eldsneytis fyrir söluaðila.

Eftirlitsaðili: Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd eftir því sem við á eða faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 58. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Eldsneyti: olía og íblöndunarefni sem ætluð eru til að knýja sprengihreyfil eða til orkumyndunar.

Húsageymir: olíugeymir sem er tengdur inn í hús eða verksmiðju og olían er ekki nýtt fyrir farar­tæki.

Íblöndunarefni: etanól, metanól og önnur bæti- og litarefni sem bæta þarf eða bæta má í eldsneyti.

ÍST EN staðall: staðall sem er samþykktur af evrópskum staðlasamtökum (CEN, CENELEC eða ETSI) og staðfestur af Staðlaráði Íslands sem íslenskur staðall.

Köllunarskrá: skrá yfir aðila sem eiga að fá tilkynningu um óhöpp.

Lausageymir: geymir sem ætlaður er til notkunar á tilteknum stað í skamman tíma.

Legufæri: festing sem heldur skipi kyrru á legu.

Lekaeftirlit: reglubundin athugun á því hvort leki hefur átt sér stað, t.d. lekaprófun, könnun á magni olíugufa í jarðvegi, könnun á olíumagni í grunnvatni, athugun í lekavörn, eftirlitsbrunni eða gaumröri, vöktun í millirými tvöfaldra tanka eða birgðauppgjör (handvirk mæling eða sjálfvirk mæling).

Lekaprófun: viðurkennd prófunaraðferð til þess að leiða í ljós olíuleka.

Lekaviðvörunarbúnaður: búnaður sem gefur til kynna leka úr olíugeymi.

Lekavörn: olíuheldar og olíuþolnar þrær, dúkar, hólkar eða ytra byrði geyma sem varna því að olía berist út í umhverfið.

Lífeldsneyti: endurnýjanlegt eldsneyti, t.d. lífdísel, í formi vökva eða gass, sem er unnið úr lífmassa og fljótandi eða loftkennt samgöngueldsneyti sem er framleitt úr lífmassa.

Lífrænir leysar: lífræn kolvetnissambönd sem eru í fljótandi formi við staðalaðstæður og notuð sem leysar.

Lýsi og grútur: allar tegundir feitmetis, sem unnið er eða kemur úr sjávarlífverum, og niður­brots­efni þeirra.

Löndunarlagnir: olíulagnir að geymum sem tengjast olíuflutningaskipum.

Meðhöndlun: móttaka, löndun, útskipun, geymsla, dæling, dreifing, flutningur, íblöndun, afgreiðsla, söfnun og förgun, sem og endurnýting olíu og framleiðsla á lífdísel og öðru lífeldsneyti.

Mengunaróhapp: þegar eiturefni eða önnur efni berast, eða kunna að berast, í umhverfið og upp­hreinsun eða önnur úrræði eru nauðsynleg vegna hættu á tjóni á heilsu manna, umhverfi eða eignum.

Nafnstærð skilju, NS: tala (númer) sem olíuskilju er gefið eftir gerðarprófanir og segir talan til um það hámarksgegnumstreymi (l/sek) sem olíuskiljan ræður við án þess að olíuslepping í afrennsli skiljunnar fari yfir tiltekin mörk.

Neðanjarðargeymir: olíugeymir sem er allur undir yfirborði jarðar.

Neyslugeymir: olíugeymir á athafna- og iðnaðarsvæði sem er ekki í tengslum við olíubirgða- eða bensínstöð en þjónar farartækjum viðkomandi fyrirtækis.

Niðurgrafinn geymir: olíugeymir sem hefur meira en 10% af rúmmáli sínu undir yfirborði jarðar.

Ofanjarðargeymir: olíugeymir sem hefur 10% eða minna af rúmmáli sínu undir yfirborði jarðar.

Olía: vökvakennd olíuefni í hvaða formi sem er, þar með talin hráolía, bensín, lífeldsneyti, steinolía, gasolía, svartolía, smurolía, jarðbik (asfalt), vegolía, jurtaolía önnur en jurtaolía til manneldis, unnin olía svo og úrgangsolía.

Olíubirgðastöð: móttöku- og geymslustaður fyrir olíu sem dælt er í land beint úr skipi. Einnig birgða­stöðvar þaðan sem olíu er dreift til annarra birgðastöðva, afgreiðslustöðva fyrir eldsneyti eða beint til notenda með olíuflutningabifreiðum.

Olíuhelt: þétt yfirborð sem kemur í veg fyrir að olía geti lekið í jarðveg.

Olíulagnir: rör, pípur, lokar og tengistykki.

Olíumannvirki: mannvirki, svo sem olíubirgðastöðvar, bensínstöðvar eða olíugeymar, þar sem olía er geymd eða meðhöndluð í einhverjum mæli.

Olíuskilja: búnaður sem skilur að olíu og vatn og heldur eftir olíunni.

Rekstraraðili: aðili sem er ábyrgur fyrir viðkomandi rekstri, ýmist eigandi eða leigutaki rekstrar eða búnaðar.

Rekstrarhandbók: upplýsingar á útprentuðu eða rafrænu formi, með tæknilegum upplýsingum um mannvirki, búnað og fyrirkomulag mengunarvarna, ásamt niðurstöðum innra eftirlits.

Rýmd: nýtanlegt rúmmál.

Samrunaskilja (coalescing oil-water separator): olíuskilja með plötubúnaði eða öðrum búnaði sem eykur dropasamruna og þar með hreinsivirkni skiljunnar.

Staðlar: íslenskir (ÍST), evrópskir (EN) og alþjóðlegir staðlar (ISO/IEC).

Tæringarvarnir: katóðuvarnir eða húð sem tærist ekki eða leysist upp í olíuefnum til að koma í veg fyrir oxun málms í olíulögnum og olíugeymum.

Umfar: plöturöð á stálgeymi.

Þéttiprófun: viðurkennd aðferð sem leiðir í ljós hvort lekavörn standist það álag sem hún skal upp­fylla.

Þrýstiprófun: viðurkennd aðferð sem leiðir í ljós með þrýstiálagi hvort olíulögn eða olíugeymir stand­ist þrýstiálagið.

Þrýstivaki: búnaður á þrýstilögnum sem skynjar þrýstingsfall sem orsakast af leka og stöðvar eða dregur verulega úr dælingu.

Þvottaplan: staður þar sem ökutæki eru þrifin og ekki er notaður vélrænn búnaður til þvotta.

Þvottastöð: staður þar sem ökutæki eru þrifin með vélbúnaði.

Ökutæki: tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru, sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori.

II. KAFLI

Starfsleyfi og eftirlit.

4. gr.

Starfsleyfi.

Útgáfa starfsleyfis fyrir rekstri olíumannvirkja er í höndum Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun og heilbrigðisnefndir fara einnig með eftirlit í samræmi við ákvæði reglu­gerðar þessarar.

Umsókn um starfsleyfi skulu fylgja uppdrættir af fyrirkomulagi mengunarvarna sem innihalda upp­lýsingar um eftirfarandi þætti eins og við á hverju sinni: staðsetningu og stærð einstakra olíu­geyma, röralagnir, staðsetningu aðalloka, stærð og gerð lekavarnar, nákvæma tilvísun í þá staðla sem farið er eftir, staðsetningu, stærð, gerð og útreiknuð afköst olíuskilju, snið og jarð­vegs­gerð á geymasvæðinu, tegund og samsetningu fylliefnis, svo og hvernig komast á að búnaði til eftirlits og viðgerða. Rekstraraðili olíumannvirkja, m.a. olíugeymis, skal senda afrit af loka­úttekt bygg­ingar­fulltrúa vegna nýsmíði, viðgerðar eða breytingar til starfsleyfisútgefanda.

Um gagnaskil vegna umsóknar um starfsleyfi og skilyrði fyrir útgáfu leyfis fer að öðru leyti samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

5. gr.

Eftirlit.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með olíugeymum tengdum starfsemi sem stofnunin veitir starfsleyfi fyrir, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, m.a. olíubirgðastöðvum.

Heilbrigðisnefndir hafa eftirlit með eftirtalinni starfsemi sem þær veita starfsleyfi fyrir samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og annarri eftir­talinni starfsemi sem fram kemur að ekki er starfsleyfisskyld:

 1. Olíugeymum tengdum starfsemi sem heilbrigðisnefndir veita starfsleyfi fyrir, m.a. bensín­stöðvum,
 2. olíugeymum og afgreiðslustöðum á bryggjum í höfnum og geymslu úrgangsolíu,
 3. olíugeymum sem ekki eru tengdir starfsleyfisskyldri starfsemi,
 4. flutningi á úrgangsolíu, sbr. ákvæði reglugerðar um spilliefni og
 5. dreifingaraðilum olíu (eldsneytis).

Eftirlitsaðili skal með fræðslu, leiðbeiningum og upplýsingum stuðla að aðgerðum sem miða að því að hindra og/eða takmarka mengun.

Um eftirlit með þeirri starfsemi sem tilgreind er í 1. og 2. mgr. fer að öðru leyti samkvæmt reglu­gerð um mengunarvarnaeftirlit.

Heilbrigðisnefndum er heimilt að gera samkomulag um annað fyrirkomulag eftirlits á milli eftirlits­svæða. Í slíkum tilvikum hafa heilbrigðisfulltrúar sama rétt til afskipta þar og á eigin svæði, sbr. ákvæði 4. mgr. 45. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

6. gr.

Staðsetning olíumannvirkja.

Olíumannvirki eru óheimil á brunn- og grannsvæðum vatnsverndarsvæða, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns. Staðsetning og umbúnaður olíumannvirkja á friðlýstum svæðum skulu hafa fengið samþykki Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd. Sama á við um svæði sem eru vernduð samkvæmt lögum nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar, lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Láxár í Suður-Þingeyjarsýslu og lögum nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Tryggt skal að staðsetning og umbúnaður olíumannvirkja á öðrum svæðum er njóta vatnsverndar sé í samræmi við ráðstafanir viðkomandi sveitarstjórna og heilbrigðisnefndar, svo sem í heilbrigðissamþykktum um verndarsvæði vatnsbóla, áður en ákvörðun er tekin um staðsetningu þeirra og umbúnað, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.

Áður en staðsetning olíumannvirkja er ákveðin skal gera greiningu á mengunarhættu í samræmi við upplýsingar um lekt jarðlaga er fylgja greiningu grunnvatnshlota vegna vatnaáætlunar, sem unnin skal samkvæmt ákvæðum laga um stjórn vatnamála. Niðurstaða greiningar, sbr. 1. málsl., skal send til heilbrigðisnefndar til samþykktar eða synjunar. Synji nefndin niðurstöðunni getur hún krafist úrbóta eða frekari rannsókna áður en hún tekur ákvörðun um staðsetninguna.

Um útgáfu byggingarleyfa fyrir olíumannvirki og umbúnað þeirra, olíulagnir, þrær og olíuskiljur sem eru byggðar á staðnum fer samkvæmt lögum um mannvirki og byggingarreglugerð. Um bygg­ingar­eftirlit fer einnig samkvæmt þeirri löggjöf. Staðsetning slíkra byggingarleyfisskyldra mann­virkja skal vera í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga.

Heilbrigðisnefndum er heimilt að takmarka eða banna flutning olíu og olíuúrgangs á vatns­verndar­svæðum, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.

Vegna mengunarhættu skal svæðum þar sem olía er meðhöndluð skipt í tvo flokka:

Flokkur A:

Svæði sem uppfylla a.m.k. einn af eftirfarandi þáttum:

 1. Fjarsvæði vatnsverndarsvæða, sbr. ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns.
 2. Þéttbýli samkvæmt skipulagi sveitarfélaga, nema ef um er að ræða svæði sem skilgreind hafa verið í skipulagi sveitarfélaga sem iðnaðar- eða athafnasvæði eða hafnir.
 3. Hverfisverndarsvæði samkvæmt skipulagi sveitarfélaga, sbr. 6. mgr. 2.7. gr. skipulags­reglugerðar.
 4. Svæði með gljúpum berggrunni, sbr. 2. mgr. um lekt jarðlaga.
 5. Friðlýst svæði, sbr. lög um náttúruvernd og svæði sem njóta verndar með sérlögum, svo sem Þingvellir, Mývatn, Breiðafjörður og Vatnajökulsþjóðgarður.

Flokkur B:

Önnur svæði sem ekki falla undir flokk A og eru á brunn- eða grannsvæðum vatnsverndarsvæða.

Hvað varðar iðnaðar- eða athafnasvæði eða hafnir sem falla undir lið 4 í flokki A þá er heil­brigðis­nefnd heimilt, að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar, að gera kröfur í samræmi við 2. ml. 1. mgr. 26. gr. Hafnir skulu að jafnaði flokkast í flokk B óháð lekt jarðlaga.

III. KAFLI

Olíubirgðastöðvar.

7. gr.

Aðgengi og umgengni.

Olíubirgðastöðvar skulu vera afgirtar með mannheldri girðingu sem hindrar aðgang óviðkomandi. Heimilt er að beita öðrum ráðstöfunum til þess að hindra aðgang óviðkomandi ef þær eru a.m.k. jafn árangursríkar að mati Umhverfisstofnunar.

Olíuflutningabifreiðar sem ekki eru í notkun skulu geymdar á olíuheldu plani innan birgðastöðva þegar eldsneyti er á flutningsgeymum þeirra. Takmarka skal akstur og geymslu annarra bifreiða en olíuflutningabifreiða og bifreiða sem notaðar eru til að þjónusta búnað stöðvarinnar innan olíu­birgða­stöðva. Staðsetja skal bílastæði starfsmanna og gesta fjarri geymum og lögnum í stöðinni og fjarri akstursleiðum olíuflutningabifreiða.

8. gr.

Lekavarnir.

Olíugeymar í olíubirgðastöðvum skulu vera í lekavörn.

 1. Rýmd lekavarnar fyrir geyma í olíubirgðastöð skal vera sem hér segir:
 2. Fyrir einn olíugeymi, að undanskildum olíugeymum fyrir bensín, skal rúmtak lekavarnar vera meira en sem nemur 90% af rýmd olíugeymis.

Ef fleiri en einn olíugeymir er í sömu lekavörn skal rúmtak lekavarnar vera meira en sem nemur 90% af rýmd stærsta olíugeymis í lekavörninni að viðbættri rýmd annarra olíugeyma í hæð leka­varnar.

Um rýmd lekavarna fyrir bensíngeyma gilda strangari ákvæði, sbr. reglugerð um eldfima vökva.

Engir óviðkomandi hlutir skulu vera innan lekavarnar.

Geymar í olíubirgðastöðvum skulu merktir í samræmi við ákvæði í viðauka I.

9. gr.

Gerð lekavarna.

Lekavarnir fyrir olíugeyma skulu vera olíuheldar eða olíuþolnar þrær úr steinsteypu eða viður­kenndum olíuheldum dúk eða þéttum leir, samkvæmt staðli. Ef því verður ekki við komið skulu sam­bæri­legar varnir notaðar. Tvöfaldir olíugeymar með lekaviðvörunarbúnaði teljast geymar í leka­vörn.

Hönnun lekavarnar skal miðuð við að hún þoli að standa full af vatni. Yfirborð jarðvegsgarða skal vera bundið, þannig að hvorki fjúki úr því né að yfirborðið rofni vegna vatns. Akstur yfir garða lekavarnar er óheimill nema þar sem sérstök akstursleið er mörkuð og burðarþol garða tryggt.

Leki lekavarnar skal vera minni en 2 x 10-7 m/s miðað við vökva með ámóta seigju og vatn. Lekt jarðvegsefna sem nota á í þéttilag skal mæld í samræmi við staðla eða með aðferðum sem Umhverfisstofnun hefur viðurkennt.

Prófa skal þjöppun og þéttleika þegar efnið er lagt í botn þróarinnar. Prófunin skal framkvæmd af viðurkenndum aðila.

Lágmarksþykkt jarðvegs til þéttingar í botni þróar skal vera 15 sm. Hlífðarlag skal sett yfir þétti­lagið.

10. gr.

Lagnir.

Olíulagnir í olíubirgðastöðvum skulu merktar í samræmi við ákvæði í viðauka I.

Olíulagnir í olíubirgðastöðvum skulu alla jafna vera ofanjarðar, nema aðstæður eða efnisgerð þeirra krefjist annars. Olíulagnir sem lagðar eru neðanjarðar, t.d. vegna umferðar, skulu vera með þeim hætti að þær þoli það álag sem búast má við. Olíulagnir sem eru neðanjarðar, í jarðvegsgörðum eða neðansjávar, skulu vera tæringarvarðar.

Óheimilt er að reisa byggingar ofan á óvörðum neðanjarðarlögnum.

Allar olíulagnir innan lekavarnar olíugeymis skulu vera ofanjarðar nema efnisgerð þeirra krefjist annars.

Á fremri enda löndunarlagnar við löndunartengingu skal líka vera einstefnuloki. Sé löndunarlögn ofanjarðar í sérstakri hættu, t.d. vegna umferðar, skal vera einstefnuloki við birgðageymi.

Aðstæður til löndunar eldsneytis skulu vera tryggar og fylgja skal skriflegri verklagsreglu sem rekstraraðili olíubirgðastöðvar ber ábyrgð á.

11. gr.

Neðansjávarlagnir.

Þar sem neðansjávarlögn olíubirgðastöðvar kemur í land skal einangra hana frá rafstraumi.

Á nýjum neðansjávarlögnum úr stáli skal röntgenmynda fjórðu hverja suðu hvers suðumanns, áður en olíulagnir eru teknar í notkun. Standist suða ekki kröfur samkvæmt staðli skal mynda þrjár næstu suður viðkomandi suðumanns í hvora átt.

Ef eldri neðansjávarlagnir eru teknar upp og ætlunin er að setja þær aftur niður geta eftirlitsaðilar krafist þess að suður verði röntgenmyndaðar, sbr. 2. mgr., enda sé ástæða til að ætla að olíu­lagnirnar uppfylli ekki ákvæði reglugerðar þessarar.

Neðansjávarlagnir skulu sjónskoðaðar a.m.k. árlega og skal rekstraraðili olíubirgðastöðvar senda Umhverfisstofnun og hafnaryfirvöldum afrit af skoðunarskýrslunni.

12. gr.

Efnisþykkt lagna.

Að frátöldum undantekningum 2. mgr. er óheimilt að nota olíulögn úr stáli í olíubirgðastöð ef efnisþykkt hennar á tilteknum stað er minni en lágmarksþykkt, sbr. eftirfarandi töflu:

Innra þvermál (nafnmál) í mm Lágmarks efnisþykkt í mm
50 2
65 2
80 2,5
100 2,5
150 3
200 3
250 3,5
300 3,5

Við mat á olíulögn sem hefur minni efnisþykkt en tilgreind er sem lágmarks efnisþykkt, vegna tæringar eða skemmda, skal skoða sem svarar 5% af heildarlengd hennar næst því svæði sem fellur undir lágmarksþykkt. Leiði sú skoðun í ljós að efnisþykkt olíulagnar sé yfir lágmarksmörkum er heimilt að nota olíulögn eftir viðgerð eða endurnýjun á þeim hluta sem ekki uppfyllir kröfur um lágmarksþykkt, en ef hún er á einhverjum stað undir lágmarksmörkum skal endurtaka skoðun á sama hátt. Skoðun skal endurtaka á meðan eitthvert svæði fellur undir lágmarksþykkt.

13. gr.

Lokar.

Lokar á löndunarlögnum, undantöppunarlögnum og öðrum olíulögnum sem opnast út í meng­unar­varnir í olíubirgðastöðvum skulu ávallt vera lokaðir og læstir þegar þeir eru ekki í notkun.

14. gr.

Þrýstiprófanir og prófanir.

Þrýstiprófa skal olíulagnir í olíubirgðastöð eftir breytingar og viðgerðir.Niðurstöður prófunar og breyt­inga skal færa í rekstrarhandbók, sbr. 20. gr.

Verði tæringar vart í olíulögnum skal stöðva hana með viðgerð eða endurnýja olíulagnirnar. Þar til viðgerð hefur farið fram skal áframhaldandi notkun vera háð samþykki eftirlitsaðila og tryggt að mengun hljótist ekki af.

 

15. gr.

Búnaður.

Þar sem fyllt er á flutningstæki á olíubirgðastöðvum eða þau tæmd skal vera áfyllingarplan sem tengt er olíuskilju.

Olíuskilja skal vera til staðar við olíubirgðastöðvar og í hana skal leiða yfirborðsvatn úr lekavörn, undantöppunarvatn frá olíubirgðageymum, niðurfallslögn frá áfyllingarplani og ef það á við niður­falls­lögn frá dæluhúsum. Olíuskiljur skulu útbúnar viðvörunarbúnaði og jafnframt skulu nýjar skiljur útbúnar sjálfvirkum lokunarbúnaði ef olíurými í skiljunni, mælt í lítrum, er innan við 150 sinnum nafnstærð skiljunnar. Olíuskilja skal yfirfarin og þjónustuð eftir þörfum. Þá skal skrá upp­lýsingar um bilanir, viðhald og eftirlit með skiljunni.

Olíuskilja skal vera utan lekavarnar. Loki skal vera á olíulögninni á milli lekavarnar og olíuskilju. Sé ekki sjálfvirkur lokunarbúnaður skal lokinn ávallt vera lokaður þegar ekki er verið að tæma leka­vörnina.

Olíuskilja skal vera af þeirri stærð að hún anni því vatnsálagi sem ætla má að borist geti af því svæði sem tengt er í olíuskiljubúnaðinn. Mögulegt skal vera að taka sýni í frárennsli. Á frárennsli frá olíuskilju skal vera einstreymisloki ef hætta er talin á bakrennsli í skilju. Hönnun og notkun skal vera í samræmi við ÍST-EN 858 og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.

16. gr.

Olíugeymar.

Olíugeymar sem teknir eru í notkun á olíubirgðastöðvum skulu hannaðir, smíðaðir og prófaðir í samræmi við staðla. Í viðauka II er yfirlit yfir íslenska staðla sem gilda á þessu sviði.

Rekstraraðili olíugeymis skal halda skrá yfir olíugeyminn þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram: nafn framleiðanda, staðsetning olíugeymis eða rekstraraðila, sé um færanlegan olíu­geymi að ræða, olíutegund, númer, byggingarár, líftíma olíugeymis, sé hann uppgefinn af fram­leið­anda, og stærð. Skráin skal vera aðgengileg eftirlitsaðila. Ennfremur skal skrá tegund yfirfyll­ingar­varnar, tegund lekaviðvörunar, dagsetningu síðustu hreinsunar, niðurstöður þykktar­mælinga, svo og meiriháttar viðhald, endurbætur og feril olíugeymis ef við á. Upplýsingar um nafn framleiðanda, fastanúmer, byggingarár, stærð og smíðastaðal skulu jafnframt koma fram á númeraðri plötu úr varanlegu efni á olíugeyminum sjálfum eða við niðurgrafna olíugeyma.

Olíugeymar sem liggja á jörðinni skulu standa á upphækkun. Inn í upphækkunina skal setja drenlögn sem liggur út í lekavörn og þar sem því verður við komið skal setja drenlögn undir geyma við endurnýjun eldri mannvirkja.

Olíugeymar stærri en 50 m³ skulu hafa búnað sem gefur til kynna vökvahæð. Stálgeymar stærri en 50 m³ skulu vera jarðtengdir.

17. gr.

Úrgangsolía.

Þeir sem annast dreifingu og sölu á olíu skulu geta sýnt fram á að þeir taki við úrgangsolíu og olíumenguðu vatni sjálfir eða geti vísað á aðila sem til þess hafa starfsleyfi í samræmi við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, og tryggja viðunandi eyðingu eða aðra meðhöndlun.

Rekstraraðilar olíubirgðastöðva þar sem lestað er í olíuflutningaskip sem flytja olíu milli hafna innan­lands, sem og rekstraraðilar innflutningsstöðva, skulu sjá svo um að stöðvarnar hafi aðstöðu til að taka við olíublandaðri kjölfestu og annarri úrgangsolíu úr skipunum.

18. gr.

Þjálfun.

Starfsmönnum olíubirgðastöðva og olíubifreiðastjórum skulu settar starfsreglur af rekstraraðila og fá fræðslu um eiginleika þeirra efna sem meðhöndluð eru í stöðinni, svo og reglulega þjálfun á tæki og öryggisbúnað. Starfsmenn olíubirgðastöðva skulu halda utan um skráningar í stöðinni. Þjálfun starfsmanna skal skráð í rekstrarhandbók.

19. gr.

Skráningar.

Rekstraraðili skal halda rekstrarhandbók fyrir starfsemi olíubirgðastöðva á hverri stöð sem skal vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila. Í handbókinni skulu koma fram tæknilegar upplýsingar, afstöðumynd stöðvar og helstu mannvirki, sem og olíugeymar, olíuskiljur, olíulagnir og lagnakerfi, meng­unar­varnir, slökkvibúnaður og dælu- og rafbúnaður.

Í rekstrarhandbókina skal skrá á aðgengilegan hátt innra eftirlit sem skal taka mið af ákvæðum í starfsleyfi viðkomandi starfsemi. Skráningar á innra eftirliti er heimilt að vista miðlægt en helstu niðurstöður þess skulu þá vera aðgengilegar rekstraraðila stöðvarinnar og eftirlitsaðila þegar eftirlit fer fram.

20. gr.

Prófanir og úttektir.

Rekstraraðili olíubirgðastöðvar skal láta fara fram eftirfarandi prófanir og úttektir og skal skrá niður­stöðu í rekstrarhandbók eftir því sem við á:

 1. árlega skal skoða legufæri og þrýstiprófa löndunarlagnir neðansjávar,
 2. á fimm ára fresti skal þrýstiprófa niðurgrafnar olíulagnir á landi og allar löndunarlagnir,
 3. katóðuvarnir skulu prófaðar á 3ja ára fresti og eigi síðar en 6 mánuðum eftir að nýr búnaður hefur verið tekinn í notkun eða eftir viðgerð,
 4. framkvæma skal lekaprófun á lekavörn ef ástæða þykir til að mati eftirlitsaðila,
 5. þykktarmæla botn og neðsta umfar olíubirgðageyma, aðra en jarðbiksgeyma, eigi sjaldnar en á tíu ára fresti og
 6. mæla skal olíu í fráveituvatni að lágmarki þriðja hvert ár en oftar ef vafi leikur á að kröfur séu uppfylltar. Olía í frárennsli má að hámarki vera 15 píp (mg/kg).

Prófanir og úttektir skulu framkvæmdar eftir aðferðum sem Umhverfisstofnun samþykkir.

21. gr.

Viðbrögð við óhöppum.

Í olíubirgðastöðvum skal vera til viðbragðsáætlun um aðgerðir ef til mengunaróhapps á landi kemur. Áætlunin skal a.m.k. innihalda ákvæði um tilkynningarskyldu óhappa, bjargir, viðbrögð og köllunarskrá. Hún skal kynnt eftirlitsaðila og hlutaðeigandi slökkviliði.

Í olíubirgðastöðvum skal einnig vera viðbragðsáætlun vegna bráðamengunar samkvæmt ákvæðum laga um varnir gegn mengun hafs og stranda. Áætlunina skal byggja á áhættumati fyrir olíu­birgða­stöðina. Áætlunin skal kynnt eftirlitsaðila, hafnaryfirvöldun ef um hafnir er að ræða og hlutað­eigandi viðbragðsaðila.

Viðbragðsáætlanir samkvæmt 1. og 2. mgr. skulu liggja frammi á áberandi stað fyrir starfsmenn.

Allir starfsmenn olíubirgðastöðva skulu fá kennslu og þjálfun í viðbrögðum við mengunaróhöppum. Æfingar skulu veita þekkingu á aðgerðum gegn olíumengun og þjálfun í að kalla út hafnaryfirvöld, slökkvilið, Umhverfisstofnun og aðra aðila eins og við á hverju sinni. Markmið æfinga skal m.a. vera að starfsmaður:

 1. þekki viðbragðsáætlun olíubirgðastöðvar þar sem hann vinnur,
 2. kunni að bregðast við bráðamengun og mengunaróhöppum með því að stöðva leka sé það hægt án þess að leggja mannslíf í hættu,
 3. geti kallað út sérþjálfaða viðbragðsaðila,
 4. geti afmarkað og einangrað mengunarstaðinn og
 5. geti fylgt rýmingaráætlun olíubirgðastöðvarinnar.

IV. KAFLI

Afgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti.

A. Almenn ákvæði.

22. gr.

Olíugeymar.

Olíugeymar sem teknir eru í notkun á afgreiðslustöðvum fyrir eldsneyti skulu hannaðir, smíðaðir og prófaðir í samræmi við gildandi staðla um olíugeyma. Í viðauka II er yfirlit yfir íslenska staðla sem gilda á þessu sviði.

23. gr.

Skrá.

Rekstraraðili afgreiðslustöðvar fyrir eldsneyti skal halda skrá yfir olíugeyma þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram: nafn framleiðanda, staðsetning olíugeymis eða rekstraraðila sé um færanlegan olíugeymi að ræða, olíutegund, númer, byggingarár, líftími olíugeymis sé hann upp­gefinn af framleiðenda og stærð. Skráin skal vera aðgengileg eftirlitsaðila. Ennfremur skal skrá tegund yfirfyllingarvarnar, tegund lekaviðvörunar, dagsetningu síðustu hreinsunar, niðurstöður þykktar­mælinga, svo og meiriháttar viðhald, endurbætur og feril olíugeymis ef við á. Upplýsingar um nafn fram­leiðanda, fastanúmer ef til er og byggingarár. Stærð og smíðastaðall skulu jafnframt koma fram á númeraðri plötu úr varanlegu efni á olíugeyminum sjálfum eða við neðanjarðar­olíugeyma.

24. gr.

Eldri geymar.

Neðanjarðar stálgeymar án lekavarna sem eru í notkun á afgreiðslustöðvum fyrir eldsneyti við gildistöku reglugerðar þessarar skulu á tíu ára fresti frá síðustu þykktarmælingu þykktarmældir á þann hátt sem tilgreindur er í 2. mgr. eða samkvæmt öðrum aðferðum sem Umhverfisstofnun metur jafngildar. Að öðrum kosti skulu þeir teknir úr notkun.

Við þykktarmælingu skulu mæld 10 sm breið belti í olíugeyminum, það fyrsta við hvorn enda olíugeymis og svo með jöfnu millibili, þannig að u.þ.b. 3 metrar séu á milli belta. Í olíugeymum sem eru styttri en 3 m að lengd skulu mæld 3 belti. Hverju belti er skipt í reiti, 10 sm á hvern kant. Innan reitsins er mælt þannig að mest 3 sm séu milli mælipunkta. Gildir þynnsta mæling innan hvers reits. Mælist tæringarblettur yfir 2 mm að stærð skal framkvæma frekari mælingar þannig að 1 metri sé að lágmarki á milli mælingarbelta. Heimilt er að nota olíugeymi áfram eftir að viðgerð á tæringu hefur farið fram og skal olíugeymirinn þá skoðaður á fimm ára fresti eftir það, ella tekinn úr notkun. Sé efnisþykkt olíugeymisins innan við helmingur upphaflegrar efnisþykktar eða undir 3 mm skal gert við tæringu og olíugeymir tekinn úr notkun innan fimm ára.

Eftir hverja þykktarmælingu skal rekstraraðili stöðvarinnar útfylla skýrslu um ástandsskoðun á neðanjarðarolíugeymi og senda eftirlitsaðila. Skýrsluform vegna ástandsskoðunar skal vera aðgengi­legt á vef Umhverfisstofnunar.

Neðanjarðarlagnir tengdar neðanjarðarolíugeymum skulu þrýstiprófaðar um leið og olíugeymarnir, sbr. ákvæði 1. mgr.

Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar skulu einfaldir neðanjarðargeymar úr stáli og án lekavarna þykktar­mældir í fyrsta skipti eigi síðar en 1. janúar 2020, samkvæmt áætlun sem eigandi gerir og heil­brigðis­nefnd samþykkir. Að öðrum kosti skulu þeir teknir úr notkun. Eftirlit skal haft með leka úr öllum neðanjarðargeymum á mánaðarfresti. Lekaeftirlit skal að jafnaði vera birgðauppgjör.

25. gr.

Lekavörn.

Utan um olíugeyma ofanjarðar á svæði í flokki A, sbr. 6. gr., á afgreiðslustöðvum fyrir eldsneyti, skal vera lekavörn. Olíueymar ofanjarðar á svæði í flokki B, sbr. 6. gr., skulu vera í lekavörn sé olíu­geymir stærri en 10 m³.

Við staðsetningu og frágang geyma sem ekki eru í lekavörn skal gæta þess að jarðvegur undir olíugeyminum og umhverfis hann sé eins þéttur og völ er á og að ekki halli þannig frá geymisstæði að olíuleki breiðist auðveldlega út. Ofanjarðarolíugeymar skulu staðsettir utan akstursleiða. Ef því er ekki við komið skulu þeir búnir árekstrarvörnum.

Lekavarnir um ofanjarðarolíugeyma skulu vera steypt þró, þró úr olíuheldum dúk eða þéttum leir samkvæmt staðli, sbr. viðauka II. Ef því verður ekki við komið skulu sambærilegar varnir notaðar. Lekavarnir skulu tengdar olíuskilju þar sem því verður við komið. Tvöfaldir olíugeymar með leka­viðvörunarbúnaði teljast olíugeymar í lekavörn. Um stærð lekavarna fer skv. 8. gr.

26. gr.

Gerð olíugeyma.

Með tilliti til flokkunar svæða, sbr. 6. gr., skulu neðanjarðarolíugeymar og búnaður á afgreiðslu­stöðvum fyrir eldsneyti vera sem hér segir:

 1. Svæði í flokki A: Tvöfaldir olíugeymar með lekaeftirliti á rými milli ytra og innra geymis, einfaldir trefjaplastgeymar með lekaviðvörunarbúnaði, stálgeymar í lekavörn með leka­viðvör­unar­búnaði eða með lekaeftirliti.
 2. Svæði í flokki B: Olíugeymar samkvæmt 1. tölul. og einfaldir trefjaplastgeymar með leka­eftirliti, stálgeymar búnir lekaviðvörunarbúnaði eða með lekaeftirliti.

Olíugeymar úr stáli skulu vera tæringarvarðir í samræmi við staðla.

Lekavarnir um neðanjarðargeyma skulu útbúnar með sjálfvirkum skynjara eða að öðrum kosti gaumröri eða eftirlitsbrunni þannig að hægt sé að fylgjast með vökva innan lekavarnar.

27. gr.

Umbúnaður olíugeyma.

Neðanjarðarolíugeymar úr stáli á afgreiðslustöðvum fyrir eldsneyti skulu grafnir niður í þétta fyllingu og þannig gengið frá þeim að þeir hreyfist ekki. Fyllingarefnið skal vera hreinn sandur eða fínkornótt möl, hvort tveggja vel þjappað.

Trefjaplastgeymar skulu hannaðir, settir niður og prófaðir fyrir notkun samkvæmt staðli og leið­beiningum framleiðenda og þannig gengið frá þeim að þeir hreyfist ekki.

28. gr.

Niðurrif og frágangur.

Niðurrif allra byggingarleyfisskyldra mannvirkja, svo sem olíugeyma, olíuskilja og lagna, er bygg­ingar­leyfis­skylt og skal uppfylla ákvæði laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Slíkt niður­rif er háð byggingareftirliti. Niðurrif er einnig háð starfsleyfi heilbrigðisnefndar í samræmi við ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Slíkt niður­rif er háð eftirliti heilbrigðisnefndar.

Þegar olíugeymir er tekinn varanlega úr notkun skal rekstraraðili innan sex mánaða fjarlægja olíu­geyminn, ásamt lögnum honum tengdum, á þann hátt að umhverfinu stafi ekki hætta af og með­höndla hann í samræmi við ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs. Ef ríkar ástæður krefja getur eftirlits­aðili heimilað að gengið sé frá olíugeyminum, ásamt lögnum honum tengdum, á staðnum í sam­ræmi við fyrirmæli eftirlitsaðila. Sé jarðvegur olíumengaður ber að meðhöndla hann á við­unandi hátt að mati heilbrigðisnefndar og á kostnað rekstraraðila.

29. gr.

Lagnir.

Olíulagnir á afgreiðslustöðvum fyrir eldsneyti skulu vera í samræmi við staðla um olíulagnir, sbr. viðauka II, og gengið frá þeim með viðurkenndu verklagi.

Frágangur olíulagna skal ávallt vera með þeim hætti að ekki sé hætta á að þær verði fyrir hnjaski eða álagi.

Olíulagnir og breytingar á þeim geta verið byggingarleyfisskyldar og skulu færðar inn á uppdrætti í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Þar skal koma fram afstaða neðanjarðarlagna til nærliggjandi mannvirkja. Slíkum uppdráttum skal skilað til eftirlitsaðila.

Olíulagnir skal þrýstiprófa áður en þær eru teknar í notkun. Óheimilt er að hylja neðanjarðarlagnir fyrr en eftir áfangaúttekt samkvæmt byggingarreglugerð, nema að um sé að ræða olíulagnir í ídráttarrörum. Framkvæma skal þrýstiprófun samkvæmt stöðlum um þrýstiprófun, sbr. viðauka II. Ef staðlar eru ekki til skal þrýstiprófa með aðferð sem samþykkt er af Umhverfisstofnun. Úttektar­aðili, sem eftirlitsaðili samþykkir, skal staðfesta að þrýstiprófun hafi farið fram samkvæmt stöðlum, eða eftir aðferðum sem Umhverfisstofnun samþykkir. Olíulögnin skal hafa staðist prófun­ina.

30. gr.

Búnaður.

Olíuskiljur þar sem olía er afgreidd á tæki skulu útbúnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði og jafnframt skulu nýjar skiljur útbúnar lokunarbúnaði ef olíurými í skiljunni mælt í lítrum er innan við 150 sinnum nafnstærð skiljunnar.

Á frárennsli frá olíuskilju skal vera aðstaða til sýnatöku og einstreymisloki ef hætta er talin á bak­rennsli í skilju.

Loftun skal vera á olíuskilju.

Afrennsli frá olíuskilju skal leitt í fráveitu sveitarfélags nema um annað sé getið í starfsleyfi eða á samþykktum teikningum. Velja skal olíuskilju sem hæfir aðstæðum og gerð er krafa um í staðli um olíuskiljur, sjá viðauka II. Tryggja skal að afrennsli frá olíuskilju valdi hvorki rekstrartruflunum né skemmdum á fráveitulögnum.

B. Bensínstöðvar.

31. gr.

Lagnir.

Olíulagnir bensínstöðva skulu að jafnaði vera neðanjarðar. Ef nauðsyn ber til má útgefandi starfs­leyfis heimila að olíulagnir séu ofanjarðar að því tilskildu að afrennsli undan þeim sé leitt í olíu­skilju. Gengið skal frá olíulögnum með þeim hætti að þær þoli það álag sem búast má við. Fylgja skal fyrirmælum framleiðanda hvað samsetningu og frágang varðar.

Olíulagnir á bensínstöðvum skulu vera úr stáli, olíuþolnu plasti eða öðrum viðurkenndum olíu­þolnum efnum. Nýjar olíulagnir og endurnýjaðar olíulagnir úr stáli skulu vera ryðfríar eða tær­ingar­varðar. Á olíulagnir sem eru undir þrýstingi skal tengja þrýstivaka og brotloka.

Rekstraraðili bensínstöðvar skal á tíu ára fresti láta lekaprófa olíugeyma og olíulagnir sem ekki eru í lekavörn. Jafnframt skal gera úttekt á búnaðinum og skrá niðurstöður í rekstrarhandbók.

Við staðsetningu loftunarröra frá olíugeymum og olíuskilju skal tryggt að mengað loft valdi ekki nágrönnum eða þeim sem sækja þjónustu á bensínstöðvar óþægindum eða skaða. Hæð loft­unar­röra skal vera a.m.k. 3 m og/eða 0,5 m hærri en olíubifreiðin sem notuð er við áfyllingu.

32. gr.

Búnaður.

Á bensínstöð skal afrennsli frá afgreiðslu- og áfyllingarplönum og umbúnaði í kringum þau leitt í olíuskilju, sem uppfylla skulu staðal um olíuskiljur í viðauka II. Við afrennsli nýrra þvottaplana á bensínstöðvum skal vera sandskilja og afrennsli þess skal leitt í fráveitu sveitarfélagsins, nema að kveðið sé á um annað í starfsleyfi.

Olíuskiljur og sandskiljur skal hreinsa eftir þörfum og skrá niðurstöður á þjónustu við skiljurnar ásamt dagsetningu í rekstrarhandbók. Mælingar á olíumagni í olíuskilju og olíuleifum í fráveituvatni skal ásamt dagsetningum einnig skrá í rekstrarhandbók.

Afgreiðslu- og áfyllingarplön skulu vera úr föstu olíuheldu efni og þannig frá þeim gengið og um hirt að afrennsli eigi greiða leið í olíuskilju, að olíur sem niður fara við mengunaróhöpp flæði ekki út af plönum og að þau taki ekki við afrennsli frá stærra svæði en olíuskiljan er hönnuð til að afkasta.

Áfyllingarplan skal hannað með þeim hætti að auðvelt sé að fylla eldsneyti á olíugeyma, nægjanlegt og öruggt athafnasvæði sé fyrir olíuflutningabifreiðar og að slöngur þeirra og tengingar við olíu­geyma séu innan áfyllingarplansins.

Heimilt er að áfyllingarplan og afgreiðsluplan sé sama planið.

Áfylling bensíns á olíugeyma skal alla jafnan fara fram með sjálfrennsli.

33. gr.

Þjónusta við búnað.

Olíuskilja á bensínstöð skal yfirfarin og þjónustuð eftir þörfum með hliðsjón af leiðbeiningum Umhverfis­stofnunar um þjónustu við olíugildrur. Virkni olíuskilja er prófuð með því að mæla olíu í frárennsli skiljanna. Olía í frárennsli má að hámarki vera 15 ppm (mg/kg). Mæla skal að lágmarki þriðja hvert ár en oftar ef vafi leikur á að kröfur séu uppfylltar.

Alla þjónustu, eftirlit og viðhald á olíuskiljum og sandskiljum skal skrá og dagsetja í rekstrar­handbók stöðvarinnar. Sé ekki sjálfvirk vöktun á olíuskilju skal mæla a.m.k. mánaðarlega vökva í olíuskilju.

Á mönnuðum bensínstöðvum skal vera tiltækur mengunarvarnabúnaður til að bregðast við minni mengunaróhöppum. Rekstraraðili ómannaðrar bensínstöðvar skal tryggja getu til að bregðast við áþekkum mengunaróhöppum.

Birgðauppgjör skal framkvæmt a.m.k. á mánaðarfresti svo og annað lekaeftirlit sem ekki er sjálf­virkt. Sjálfvirkur búnaður, svo sem nemar, lokar o.þ.h., skal prófaður a.m.k. árlega.

34. gr.

Prófanir á olíulögnum.

Þrýstiprófa skal olíulagnir á bensínstöðvum eftir breytingar og viðgerðir.Niðurstöður prófana og breytinga skal færa í rekstrarhandbók.

Verði tæringar vart í lögnum skal stöðva hana með viðgerð eða endurnýja olíulagnirnar. Þar til viðgerð hefur farið fram skal áframhaldandi notkun vera háð samþykki eftirlitsaðila og tryggt að mengun hljótist ekki af.

35. gr.

Umbúnaður.

Við afgreiðslutæki á bensínstöðvum skal koma fyrir vörn sem ver búnað fyrir mögulegri ákeyrslu frá umferð um afgreiðsluplan.

Afgreiðslubyssa á slöngu afgreiðslutækis skal vera þannig útbúin að hún loki fyrir rennsli þegar olíugeymir farartækis fyllist. Á slöngu skal vera slitöryggi sem lokar fyrir flæði eldsneytis.

Frágangur á áfyllitengjum olíugeyma skal vera með þeim hætti að þau verði ekki fyrir hnjaski. Lok á tengingum skulu vera læst eða þannig frá þeim gengið að óviðkomandi komist ekki auðveldlega að þeim.

Í afgreiðslutæki skal vera mælir sem notaður er til að ákvarða afgreitt magn sem lagt skal til grund­vallar við birgðauppgjör.

Afgreiðslutæki skulu vera þannig hönnuð að olíuslöngur liggi ekki á jörðinni.

Þegar bensínstöðvar eru ómannaðar skulu afgreiðslubyssur vera útbúnar þannig að ekki sé hægt að festa þær í opinni stöðu á milli afgreiðslna.

36. gr.

Þjálfun starfsmanna.

Starfsmönnum sem sinna rekstri bensínstöðva og olíubifreiðastjórum sem þjónusta stöðvarnar skulu settar starfsreglur af eiganda eða rekstraraðila eftir því sem við á. Þeir skulu fá reglulega þjálfun á tæki og öryggisbúnað sem gerir þá hæfa til að vinna í stöðinni. Starfsmenn skulu einnig fá kennslu og þjálfun í viðbrögðum við mengunaróhöppum. Markmið æfinga skal m.a. vera að starfs­maður:

 1. þekki viðbragðsáætlun afgreiðslustöðvar þar sem hann vinnur,
 2. kunni að bregðast við bráðamengun og mengunaróhöppum með því að stöðva leka,
 3. geti kallað út sérþjálfaða viðbragðsaðila,
 4. geti afmarkað og einangrað mengunarstaðinn og
 5. geti fylgt rýmingaráætlun stöðvarinnar.

37. gr.

Viðbrögð við óhöppum.

Fyrir sérhverja bensínstöð skal vera til viðbragðsáætlun með fyrirmælum um viðbrögð ef til meng­unar­óhapps kemur. Áætlunin skal einnig uppfylla ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda um viðbrögð við bráðamengun. Áætlunin skal liggja frammi á áberandi stað fyrir starfs­menn.

Allir starfsmenn bensínstöðvar sem sinna bensínafgreiðslu og þeir starfsmenn rekstraraðila sem henni þjóna skulu fá kennslu og þjálfun í viðbrögðum við mengunaróhöppum, hindra íkviknun og draga úr útbreiðslu bruna og myndun mengunarefna. Æfingarnar skulu veita þekkingu á aðgerðum gegn olíumengun og æfingu í að kalla út þá aðila er sjá um aðgerðir gegn mengunaróhöppum. Í áætluninni skulu einnig vera upplýsingar um tilkynningarskyldu við óhöppum og köllunarskrá. Skrá skal þjálfun starfsmanna í rekstrarhandbók bensínstöðvarinnar.

38. gr.

Skráningar.

Rekstraraðili skal halda rekstrarhandbók fyrir starfsemi hverrar bensínstöðvar sem skal vera aðgengi­leg fyrir eftirlitsaðila. Í handbókinni skulu koma fram tæknilegar upplýsingar um helstu mann­virki sem og olíugeyma, olíu- og sandskiljur, olíulagnir og lagnakerfi, þ.m.t. fráveitulagnir, meng­unar­varnir, slökkvibúnað, útsláttarrofa fyrir dælubúnað, dælu- og rafbúnað ásamt afstöðu­mynd stöðvarinnar.

Í rekstrarhandbókina skal skrá innra eftirlit sem skal taka mið af ákvæðum í starfsleyfi viðkomandi starfsemi. Skráningar á innra eftirliti, er heimilt að vista miðlægt, en helstu niðurstöður þess skulu þá vera aðgengilegar rekstraraðila og eftirlitsaðila þegar eftirlit fer fram. Rekstraraðili stöðvarinnar skal ennfremur skrá allt eftirlit, bilanir og meiriháttar viðhald á tækja- og mengunarvarnabúnaði í rekstrarhandbók stöðvarinnar.

39. gr.

Leiðbeiningar.

Við afgreiðslutæki, áfyllingu og útöndun olíugeyma skulu vera skilti sem gefa til kynna að óheimilt sé að reykja, nota farsíma og að hafa vélar farartækja í gangi meðan á afgreiðslu þeirra stendur.

Við afgreiðslutæki skulu vera leiðbeiningar með upplýsingum um neyðarsímanúmer.

C. Neyslugeymar, húsageymar og lausageymar.

40. gr.

Litlar bensínstöðvar og afskekktar byggðir.

Í starfsleyfi rekstraraðila olíugeyma þar sem olía er afgreidd á farartæki annarra lögaðila en rekstrar­aðila olíugeymis skal gera sömu kröfur og gerðar eru í starfsleyfi bensínstöðva. Starfsleyfi skal því aðeins veitt að staðsetning olíugeymis sé í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deili­skipulag, sbr. þó ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun og mannvirki séu í samræmi við útgefin byggingarleyfi.

Heilbrigðisnefnd er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, í starfsleyfi fyrir staka olíugeyma, skv. 1. mgr., að víkja frá einstökum ákvæðum þessarar reglugerðar um bensínstöðvar, öðrum en þeim er varða áfyllingar- og afgreiðsluplön og olíugildru, svo fremi að áætluð umsvif teljist lítil, ríkar samfélagsástæður krefji og öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir séu tryggðar, enda sé hvorki um að ræða svæði samkvæmt 1. eða 5. tölul. 5. mgr. 6. gr., í flokki A. Heilbrigðisnefnd er aðeins heimilt að víkja frá ákvæðum þessarar reglugerðar um bensínstöðvar þegar um er að ræða afskekkta byggð, þar sem íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð eru ekki fleiri en 500 og íbúar á hvern ferkílómetra eru ekki fleiri en fimm og fjarlægð til næsta þéttbýlisstaðar, þar sem íbúar eru minnst 250 íbúar á hvern ferkílómetra, er ekki undir 50 km eða þar sem vegasamgöngur til næsta þéttbýlisstaðar eru torveldar talsverðan hluta ársins sakir erfiðra veðurskilyrða.

41. gr.

Kröfur til neyslugeyma.

Gera skal kröfur í starfsleyfi til umbúnaðar og reksturs neyslugeymis þar sem olíu er dreift á farar­tæki rekstraraðila.

Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur neyslugeyma.

Neyslugeymar sem notaðir eru fyrir áfyllingu á farartæki skulu vera með yfirfyllingarviðvörun eða yfirfyllingarvörn.

Afgreiðsluplan tengt í olíuskilju skal vera við neyslugeyma til afgreiðslu á bifreiðar. Það gildir þó ekki um neyslugeyma á lögbýlum og tímabundnar framkvæmdir, svo sem geymslu og lagningu olíumalarefna utan fastra starfstöðva, efnistöku og veglagningu, nema kveðið sé á um það í starfs­leyfi, enda séu geymarnir hvorki staðsettir á svæði í flokki A samkvæmt 1. eða 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. Gengið skal þannig frá neyslugeymum að ekki geti orðið sjálfrennsli frá þeim þegar þeir eru ekki í notkun.

Neyslugeymir skal útbúinn með afgreiðslubyssu með útsláttarbúnaði sem lokar fyrir rennsli áður en yfirfylling á sér stað. Afgreiðslubyssur skulu vera þannig útbúnar að ekki sé hægt að festa þær í opinni stöðu milli afgreiðslna.

Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun neyslugeymis og geymslu hans ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands olíugeymisins.

42. gr.

Kröfur til húsageyma.

Um húsageyma gilda almenn ákvæði reglugerðarinnar um umbúnað og rekstur neyslugeyma. Um mengunarvarnir vegna umbúnaðar og reksturs húsageymis er tengist rekstri fyrirtækis skal kveðið á um í starfsleyfi þess. Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur hans.

Rekstraraðilar húsageyma bera ábyrgð á rekstri og umhirðu geymanna og á þeirri mengun sem frá þeim getur stafað.

Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun húsageymis og geymslu hans ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands olíugeymis.

43. gr.

Kröfur til lausageyma.

Um lausageyma gilda almenn ákvæði reglugerðarinnar um umbúnað og rekstur neyslugeyma. Nýting lausageyma undir olíur, lýsi og grút, íblöndunarefni eða lífræna leysa, sem hafa svipaða eigin­leika og olía, er eftirlitsskyld. Umráðaaðili lausageyma ber að kanna hjá viðkomandi heil­brigðis­nefnd hvort nýting hans sé starfsleyfisskyld. Óheimilt er að selja olíu úr lausageymi.

Öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir skulu tryggðar við rekstur lausageyma.

Heilbrigðisnefnd getur bannað notkun lausageymis, geymslu hans eða áfyllingu á lausageyminn ef hætta er talin á mengun vegna staðsetningar eða lélegs ástands geymisins.

Geymsla á olíu í lausageymi er óheimil innan brunn- og grannsvæðis vatnsverndarsvæðis nema í skamman tíma og skal sérstaklega getið um slíkt í tímabundnu starfsleyfi heilbrigðisnefndar vegna lausageymis. Sama gildir um olíuáfyllingar á tæki og tanka. Flutningsaðili olíu skal hafa fullnægjandi viðbragðsáætlun og leyfi heilbrigðisnefndar til flutninganna.

D. Eldsneytisafgreiðsla við bryggjur og lagnir vegna afgreiðslu á báta.

44. gr.

Kröfur til bryggjugeyma.

Geymar afgreiðslustöðva til olíuafgreiðslu á báta skulu standa í lekaheldri þró eða vera tvöfaldir geymar og smíðaðir eftir stöðlum sem um þá gilda. Á milli innra og ytra byrðis geymanna skal vera lekaeftirlit tengt viðvörunarbúnaði í samræmi við ÍST EN 13160.

Staðsetning olíugeyma, afgreiðslutækja og geymar fyrir olíuúrgang í höfnum er háð samþykki hafnaryfirvalda. Um fjöldaframleidda geyma gilda ákvæði laga um byggingarvörur.

Byggingarleyfisskyldar framkvæmdir eru háðar byggingareftirliti, sbr. lög um mannvirki, og geta tekið til geyma, lagna, afgreiðslubúnaðar og annarra tengdra mannvirkja.

Rekstur olíugeyma á bryggjum er á ábyrgð eiganda. Heimilt er að víkja frá því ákvæði ef annar aðili er rekstraraðili olíugeymis og er með starfsleyfi.

Hafnayfirvöld skulu bjóða upp á geyma fyrir úrgangsolíu í samræmi við ákvæði reglugerðar um móttöku úrgangs frá skipum og bera ábyrgð á þeim.

45. gr.

Staðsetning og búnaður.

Við staðarval fyrir olíugeyma til olíuafgreiðslu á báta skal sérstaklega gætt að mengunar- og slysa­vörnum. Ofanjarðarolíugeymir á hafnarsvæði skal hafa trygga árekstrarvörn. Olíugeymar er standa á bryggjum og þar sem flóðahætta er talin, skulu tryggilega festir niður.

Olíugeymar á bryggjum skulu vera með yfiráfyllingarvörn sem stöðvar áfyllingu á þá við 95% fyllingu og sem slær út dælingu á olíugeyminn.

Óheimilt er að staðsetja olíugeyma á flotbryggjum.

Olíulagnir að og frá olíugeymum á bryggju skulu tengjast olíugeymi að ofan.

Ákvæði 29. gr. um olíulagnir skulu eiga við um olíulagnir á bryggju auk þess sem viðurkenndur búnaður skal vera á olíulögnum sem getur mætt hreyfingum vegna flóðs og fjöru þar sem það á við, t.d. varðandi afgreiðslu á flotbryggju.

Frágangur olíulagna skal ávallt vera með þeim hætti að ekki sé hætta á að þær verði fyrir hnjaski eða álagi.

Olíugeymir á bryggju skal vera með loka sem kemur í veg fyrir sjálfrennsli úr olíugeymi, t.d. með því að rjúfa lofttæmi eða með segulloka.

Olíugeymir á bryggju skal útbúinn með afgreiðslubyssu með útsláttarbúnaði sem lokar fyrir rennsli áður en yfirfylling á sér stað. Óheimilt er að nota afgreiðslubyssur sem hægt er að læsa í opinni stöðu milli afgreiðslna við afgreiðslu á eldsneyti.

Þar sem því verður við komið skal takmarka aðkomu óviðkomandi að afgreiðsludælu frá landi.

Við afgreiðsludælu skulu vera skilti með merkingum um eldhættu og að reykingar séu bannaðar í nálægð við olíugeymi og afgreiðslutæki, ásamt upplýsingum um neyðarsímanúmer.

46. gr.

Skráningar.

Rekstraraðili skal halda rekstrarhandbók fyrir olíugeyma á bryggju sem skal vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila. Í handbókinni skulu koma fram tæknilegar upplýsingar með hliðsjón af gerð olíu­geymis og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar, m.a. upplýsingar er varða heimilaða stað­setn­ingu olíugeymis, olíulagnir og lagnakerfi, mengunarvarnir, dælu- og rafbúnað, afstöðumynd olíu­geymis, aldur hans og viðhald. Á fimm ára fresti skal þrýstiprófa niðurgrafnar olíulagnir og skrá niður­stöðu í rekstrarhandbók.

E. Eldsneytisafgreiðsla á flugvöllum.

47. gr.

Kröfur til geyma á flugvöllum.

Rekstur eldsneytisgeyma (olíugeyma) og lausageyma þar sem eldsneyti er dælt beint á flugvélar og önnur farartæki fellur undir ákvæði starfsleyfis flugvallar, sbr. lið 7.2 í fylgiskjali 2 við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Heimilt er að færa kröfur sem gerðar eru til olíumannvirkja til annarra aðila, t.d. olíufélaga, ef þeir eru rekstraraðili olíu­mannvirkj­anna og hafa starfsleyfi.

48. gr.

Flughlöð.

Á flugvöllum þar sem eldsneyti er afgreitt á flugvélar skal leiða afrennsli í olíuskilju frá flughlöðum þar sem olíuáfyllingar fara fram. Um olíuskilju og aðrar mengunarvarnir á flughlöðum skal kveðið á um í starfsleyfi. Heimilt er í starfsleyfi að víkja frá kröfu um olíuskilju með vísan til takmarkaðs umfangs flugvallar enda séu öruggar mengunar-, áreksturs-, eld- og slysavarnir tryggðar.

49. gr.

Skráningar.

Rekstraraðili skal halda rekstrarhandbók fyrir olíugeyma á flugvöllum sem skal vera aðgengileg fyrir eftirlitsaðila. Í handbókinni skulu koma fram tæknilegar upplýsingar með hliðsjón af gerð olíu­geymis og öðrum ákvæðum reglugerðar þessarar, m.a. upplýsingar er varða heimilaða stað­setn­ingu olíugeymis, olíulagnir og lagnakerfi, mengunarvarnir, dælu- og rafbúnað, afstöðumynd olíu­geymis, aldur og viðhald. Á fimm ára fresti skal þrýstiprófa niðurgrafnar olíulagnir og skrá niður­stöðu í rekstrarhandbók.

F. Önnur geymsla og meðhöndlun á olíu, lýsi, grút og lífrænum leysum.

50. gr.

Tilkynning og kröfur til geyma.

Rekstraraðili olíugeymis skal tilkynna olíugeyminn til heilbrigðisnefndar ef hann er ekki hluti af starfsleyfi viðkomandi fyrirtækis. Í tilkynningu skulu koma fram upplýsingar um staðsetningu olíugeymis, stærð hans, fastanúmer ef til er, hvaða efni er geymt í honum og eiganda og umráðamann olíugeymisins. Óheimilt er að geyma annað í olíugeymi en það sem hann er hannaður fyrir. Ákvæði reglugerðarinnar um olíugeyma, olíulagnir og staðsetningu gilda um aðra geymslu, meðhöndlun og notkun á olíu, lýsi, grút og lífrænum leysum, að teknu tilliti til umfangs starfsemi. Sama á við um geymslu úrgangs vegna framangreindra efna. Allir olíugeymar skulu staðsettir eða varðir þannig að þeir verði ekki fyrir hnjaski frá farartækjum.

Ofanjarðargeymar fyrir lífræna leysa sem hafa hættulega eiginleika umfram eldfimi, sbr. reglugerð um flokkun, merkingu og meðferð eiturefna, hættulegra efna og vörutegunda, sem innihalda slík efni, skulu standa í lekavörn og uppfylla aðrar kröfur sem gilda þar um. Neðanjarðarolíugeymar fyrir slík efni skulu uppfylla sömu kröfur og geymar á svæði í flokki A, sbr. 6. gr.

51. gr.

Frárennsli.

Olíuskilja skal skoðuð reglulega, en þó eigi sjaldnar en á sex mánaða fresti, og tæmd eftir þörfum. Eftirlitsaðili getur samþykkt aðra tilhögun sem hindrar að olía berist í frárennsli. Afrennsli frá olíuskilju skal leitt um fráveitu sveitarfélags nema um annað sé getið í starfsleyfi.

Frárennsli frá smurstöðvum skal vera tengt olíuskilju.

Frárennsli frá nýjum og endurbættum bílaþvottastöðvum skal vera tengt sandskilju og samruna­olíuskilju.

Tryggt skal að aðstæður á vettvangi séu með þeim hætti að auðvelt sé að fylgjast með frárennsli frá olíuskilju og taka sýni úr frárennslinu ef nauðsyn krefur. Allar nýjar og endurnýjaðar olíuskiljur skulu útbúnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði og jafnframt skulu nýjar skiljur útbúnar lokunarbúnaði ef olíurými í skiljunni er innan við 150 sinnum nafnstærð skiljunnar (mælt í lítrum). Hönnun og notkun olíuskilja skal vera í samræmi við staðla ÍST EN 858 og leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.

Þvottur véla- og vélarhluta skal fara fram á olíuheldu plani með afrennsli um olíuskilju eða í þar til gerðum þvottavélum með lokuðu kerfi.

52. gr.

Lekavarnir.

Lekavarnir geyma undir lýsi og grút, íblöndunarefni og lífræna leysa skulu vera í samræmi við almenn ákvæði um olíugeyma, sbr. III. kafla.

V. KAFLI

Flutningsaðilar.

53. gr.

Dreifing.

Í innra eftirliti dreifingaraðila olíu skal m.a. koma fram skilgreining á umfangi þjónustusvæðis, upplýsingar um mengunarvarnabúnað í olíuflutningabifreiðum, búnað í birgðastöð eða hvaða aðgang dreifingaraðili hafi að búnaði verði mengunaróhapp.

Dreifingaraðili skal hafa neyðarstjórn eða neyðarteymi innan fyrirtækisins, sem sé ávallt unnt að virkja, til að hafa yfirumsjón með viðbrögðum fyrirtækisins verði mengunarslys við dreifingu eða á dreifingarstöðvum fyrir eldsneyti.

54. gr.

Viðbrögð við óhöppum.

Dreifingaraðili skal hafa viðbragðsáætlun um aðgerðir komi til mengunaróhapps. Hún skal a.m.k. innihalda ákvæði um tilkynningarskyldu við óhöppum, bjargir, viðbrögð og köllunarskrá og einnig uppfylla ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda um viðbrögð við bráðamengun. Áætlunin skal kynnt eftirlitsaðila, hlutaðeigandi slökkviliði og þar sem við á hafnaryfirvöldum og vatnsveitu. Áætlunin skal vera aðgengileg og kynnt bílstjórum og öðrum starfsmönnum er starfa við dreifingu eldsneytis.

Dreifingaraðili skal halda skrá yfir olíuflutningabifreiðar sem hann er með ásamt upplýsingum um viðhald, búnað bifreiðar og niðurstöður ástandsskoðana.

55. gr.

Starfsreglur.

Bifreiðastjórum dreifingaraðila skulu settar starfsreglur um akstur, akstursleiðir og annað er varðar framkvæmd olíuáfyllinga. Þeir skulu þekkja viðbragðsáætlanir og fá reglulega fræðslu um viðbrögð við óhöppum eða olíuslysum við flutning á olíu og við áfyllingar geyma svo og reglulega þjálfun í notkun tækja og öryggisbúnaðar.

56. gr.

Skipulag dreifingar.

Dreifingaraðili skal skilgreina akstursleiðir fyrir reglubundna olíuflutninga í þéttbýli og um vegi utan þéttbýlis.

Þá skal dreifingaraðili setja fram skipulag á akstri olíuflutningabifreiða um vatnsverndarsvæði, svo sem um fjölda ferða og magn olíu í hverri ferð, sem hljóta skal samþykki heilbrigðisnefndar og fá fylgd eftir því sem við á frá viðkomandi vatnsveitu. Á vatnsverndarsvæðum skulu dreifingaraðilar gæta þess að hafa ekki meira magn af olíu meðferðis en afhenda má innan svæðisins.

57. gr.

Takmarkanir.

Dreifingaraðila er óheimilt að setja olíu á neyslugeymi eða lausageymi inni á náttúru­verndar­svæðum nema fyrir liggi samþykki Umhverfisstofnunar fyrir olíugeyminum og áfyllingu á hann. Hið sama á við um skilgreint vatnsverndarsvæði nema fyrir liggi samþykki hlutað­eigandi heil­brigðis­nefndar fyrir olíugeyminum og áfyllingu á hann.

Óheimilt er að dæla olíu á olíuflutningstæki utan olíubirgðastöðva nema til staðar séu viðunandi mengunarvarnir, svo sem ísogsefni og olíuhelt plan. Óheimilt er að dæla bensíni á olíuflutningstæki utan olíubirgðastöðva.

Dreifingaraðili er ábyrgur fyrir mengun sem hlýst vegna slysa við áfyllingu á olíugeymi. Rekstrar­aðili geymisins er ábyrgur fyrir mengun sem hlýst af rekstri olíugeymisins eða nýtingu olíunnar.

58. gr.

Dæling á vélar og tæki.

Óheimilt er að afgreiða olíu frá olíuflutningabifreið beint á ökutæki. Heilbrigðisnefnd er heimilt í starfsleyfi að veita undanþágu frá þessu ákvæði vegna tímabundins atvinnurekstrar eða einstakrar framkvæmdar, sbr. ákvæði reglugerðar um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Þó er heimilt að afgreiða olíur beint á vinnuvélar sem ætlaðar eru til sérstakra verka sem ekki eru starfsleyfisskyld.

VI. KAFLI

Viðbrögð við mengunaróhöppum.

59. gr.

Viðbrögð við óhöppum.

Verði mengunaróhapp eða hætta er á slíku óhappi, skulu notendur eða rekstraraðilar viðkomandi starfsemi hefja án tafar viðeigandi aðgerðir sem miða að því að draga úr áhrifum mengunarinnar. Þeir skulu tilkynna slökkviliði um óhappið eða hættuna á því í neyðarsíma 112. Tilkynna skal eftirlitsaðila þegar í stað um mengunaróhapp og yfirvofandi hættu á mengunaróhappi sem rekja má til starfsemi hans, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga um umhverfisábyrgð. Einnig skal tilkynna um óhappið til hafnaryfirvalda og vatnsveitu eftir því sem við á.

Slökkviliðsstjóri hefur stjórn á vettvangi við mengunaróhöpp á landi í samræmi við 2. mgr. 16. gr. laga um brunavarnir.

Sé um að ræða bráðamengun sem fellur undir lög um varnir gegn mengun hafs og stranda bera hafnaryfirvöld ábyrgð á og annast aðgerðir vegna mengunar innan hafnarsvæðisins í samræmi við a-lið 1. mgr. 14. gr. laganna og ber þeim að grípa til hreinsunar og annarra viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara tjón vegna bráðamengunar. Umhverfisstofnun ber ábyrgð á að aðgerðir gegn bráðamengun hefjist í samræmi við b-lið 1. mgr. 14. gr. laganna og annast stjórn á vettvangi sé um að ræða bráðamengun á sjó utan hafnarsvæða. Heimilt er að fela mengunarvaldinum sjálfum framkvæmd hreinsunar. Í slíkum tilvikum verður mengunarvaldurinn að leggja fram áætlun um hvernig hann muni standa að hreinsuninni sem eftirlitsaðili samþykkir og sé um að ræða mengunaróhapp á landi skal áætlunin hljóta samþykki slökkviliðsstjóra.

Berist olía út í umhverfið á vatnsverndarsvæði eða á friðlýstu svæði skal þegar í stað upplýsa hlutaðeigandi eftirlitsaðila um atvikið.

60. gr.

Aðgangur að svæðum og upplýsingum.

Þegar óskað er eftir skal veita eftirlitsaðila, og eftir því sem við á slökkviliðsstjóra og hafnar­yfirvöldum, aðgang að svæðum og mannvirkjum þar sem mengunarhætta er til staðar eða meng­unar­óhöpp hafa orðið, svo og að búnaði og tækjum sem valdið geta mengun. Eftirlitsaðila, og eftir því sem við á slökkviliðsstjóra og hafnaryfirvöldum, skulu veittar allar upplýsingar sem taldar eru nauð­syn­legar vegna eftirlitsins, svo sem vitneskju um öryggisbúnað og viðhald.

61. gr.

Hreinsunaráætlun.

Hafi verulegt magn af olíu miðað við aðstæður, 100 l eða meira, borist út í umhverfið og ekki hefur tekist að ná olíunni upp innan tveggja klukkustunda frá því að óhappið varð, skulu notendur, þegar um neyslugeyma er að ræða, eða rekstraraðilar viðkomandi starfsemi leggja fram skrifleg drög að hreinsunaráætlun til slökkviliðsstjóra og eftirlitsaðila innan fjögurra klukkustunda frá tilkynningu óhappsins. Áætlunin skal uppfylla ákvæði laga um umhverfisábyrgð. Sama á við um lýsi, íblönd­unar­efni eða lífræna leysa, sem hafa svipaða eiginleika og olía.

62. gr.

Viðbragðsáætlun.

Í viðbragðsáætlun dreifingaraðila olíu, skv. 1. mgr. 54. gr., skal a.m.k. felast mat á eðli og umfangi mengunaróhapps, mat á yfirstandandi hættu á mengunaróhappi og áætlun um aðgerðir, þ.m.t. áætlaða mannaflaþörf og tiltækan tækjabúnað. Þá skal einnig gera grein fyrir meðhöndlun úrgangs.

Nú telur eftirlitsaðili að hreinsunaráætlunin, sbr. 61. gr., sé í einhverju ábótavant, t.d. sé eðli og umfang óhapps vanmetið, getur hann þá krafist þess að úr verði bætt.

Fallist eftirlitsaðili ekki á stjórnun aðgerða við hreinsunarstörf skal hann tilkynna skriflega eigendum eða umráðamönnum viðkomandi starfsemi að hann hafi tekið við stjórn aðgerða af viðkomandi. Rekstraraðili hlítir þá fyrirmælum eftirlitsaðila á meðan hættuástand varir.

63. gr.

Lágmarksbúnaður.

Rekstraraðilar olíubirgðastöðva, afgreiðslustöðva fyrir eldsneyti og annarrar starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa skulu hafa tiltækan lágmarksbúnað, t.d. sérstök ídræg efni eða mottur, til að bregðast við mengunaróhöppum. Skrá skal tiltækan búnað í rekstrarhandbækur viðkomandi stöðva.

Notendur neyslugeyma yfir 4 m³ skulu hafa tiltækan lágmarksbúnað eða aðgang að lágmarks­búnaði til að bregðast við mengunaróhöppum.

VII. KAFLI

Ýmis ákvæði.

64. gr.

Gjaldtaka.

Heilbrigðisnefndum sveitarfélaga er heimilt að innheimta gjald fyrir eftirlit með starfsemi sem þeir hafa eftirlit með skv. 5. gr. Um setningu gjaldskrár og birtingu hennar fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og 3. mgr. 21. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

65. gr.

Þvingunarúrræði.

Um íhlutun, valdsvið, sektir, dagsektir og beitingu þvingunarúrræða fer samkvæmt lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eftir því sem við á hverju sinni.

66. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í d-lið, f-lið, u-lið og v-lið 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda og með heimild í 1.-5. tölul., 8.-12. tölul., 14. tölul. og 18. tölul. 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda og að höfðu samráði við þann ráðherra sem fer með sam­göngu­mál, sbr. ákvæði 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Reglugerð þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 35/1994 um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

Þrátt fyrir ákvæði 2. ml. 2. mgr. 15. gr. er heimilt að olíuskiljur í olíubirgðastöð sem eru til staðar við gildistöku reglugerðar þessarar verði ekki útbúnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði fyrr en þremur árum eftir gildistöku reglugerðarinnar.

II.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 30. gr. er heimilt að olíuskiljur sem eru til staðar við gildistöku reglu­gerðar þessarar verði ekki útbúnar sjálfvirkum viðvörunarbúnaði fyrr en fimm árum eftir gildis­töku reglugerðarinnar.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 3. október 2017.

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica