Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

982/2015

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun.

1. gr.

Við 3. gr. reglugerðarinnar bætast sex nýjar skilgreiningar í réttri stafrófsröð, svohljóðandi:

Fylki: hólf í vatnaumhverfinu, þ.e. vatn, set eða lífríki.

Flokkunareining lífvera: tiltekin flokkunareining fyrir lagarlífverur innan "undirfylkingar", "flokks" eða samsvarandi flokkunareininga.

Greiningarmörk: lægsta gildi frálagsmerkis eða styrks sem nota má við tilgreind öryggismörk til að staðfesta að tiltekið sýni sé frábrugðið blanksýni sem inniheldur ekki viðkomandi mæliþátt.

Magngreiningarmörk: tilgreint margfeldi greiningarmarka við styrk mæliþáttarins sem sanngjarnt er að ætla að megi ákvarða með viðunandi nákvæmni og samkvæmni. Reikna má magngreiningar­mörkin með því að nota viðeigandi staðal eða sýni og þau má finna út frá lægsta kvörðunarpunkti á kvörðunarferlinum, að undanskildu blanksýninu.

Mælióvissa: breyta, sem er ekki neikvæð og einkennir dreifingu mæligildanna sem eiga við um tiltekinn mæliþátt, byggt á þeim upplýsingum sem stuðst er við.

Umhverfisgæðakrafa: tiltekinn styrkur tiltekins mengunarefnis eða hóps mengunarefna í vatni, seti eða lífríki sem ekki ætti að fara yfir, í því skyni að vernda heilbrigði manna og umhverfið.

2. gr.

Á eftir 8. gr. c reglugerðarinnar bætist við ný grein, 8. gr. d, svohljóðandi:

8. gr. d.

Umhverfisgæðakröfur.

Umhverfisgæðakröfur, sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, gilda fyrir yfirborðsvatnshlot og skal umhverfisgæðakröfunum beitt í samræmi við B-hluta lista III í sama viðauka. Sé ekki mælt fyrir um annað skulu umhverfisgæðakröfur, sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, koma til framkvæmda eins og hér segir:

  1. endurskoðuðu umhverfisgæðakröfurnar fyrir efni nr. 2, 5, 15, 20, 22, 23 og 28 í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem taka gildi 22. desember 2015 og eru settar með það fyrir augum að ná góðu efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns fyrir umrædd efni fyrir 22. desember 2021 með því að beita þeirri aðgerðaáætlun sem er hluti af vatnaáætlun sem gerð er fyrir árið 2024;
  2. umhverfisgæðakröfur fyrir nýtilgreindu efnin nr. 34-45 á A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, sem taka gildi 22. desember 2018 og eru settar með það fyrir augum að ná fram góðu efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatns fyrir umrædd efni fyrir 22. desember 2027 og að koma í veg fyrir hnignun á efnafræðilegu ástandi yfirborðsvatnshlota af völdum þessara efna. Í þeim tilgangi skal Umhverfisstofnun, fyrir 22. desember 2018, gera bæði viðbótarvöktunaráætlun og bráðabirgðaaðgerðaáætlun fyrir umrædd efni. Gerð endanlegrar aðgerðaáætlunar, í samræmi við 21. gr. laga um stjórn vatnamála, skal lokið fyrir 1. janúar 2030 og skal áætlunin koma til framkvæmda eins fljótt og auðið er eftir þá dagsetningu og eigi síðar en 1. janúar 2033.

Ákvæði 15.-18. gr. laga um stjórn vatnamála skulu gilda um efnin sem getið er í i.- og ii.-lið 1. mgr.

Fyrir efnin sem bera númerin 5, 15, 16, 17, 21, 28, 34, 35, 37, 43 og 44 í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns skal beita umhverfisgæðakröfum fyrir lífríki sem mælt er fyrir um í listanum. Hvað varðar önnur efni en þau sem getið er í 1. málsl. skal beita umhverfisgæðakröfum fyrir vatn sem mælt er fyrir um í framangreindum lista III.

Beita má, fyrir einn eða fleiri flokka yfirborðsvatns, umhverfisgæðakröfu fyrir annað fylki en það sem er tilgreint í 2. mgr. eða, ef við á, fyrir aðra flokkunareiningu lífvera en þær sem eru tilgreindar í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns. Ef þessi valkostur er nýttur skal beita viðeigandi umhverfisgæðakröfu, sem mælt er fyrir um í framangreindum lista III, eða, ef engin slík krafa er til fyrir fylkið eða flokkunareiningu lífvera, koma á umhverfisgæðakröfu sem býður upp á a.m.k. sama verndarstig og umhverfisgæðakrafan sem mælt er fyrir um í listanum. Einungis má nota valkostinn, sbr. 1. málsl., ef greiningaraðferðin, sem er notuð fyrir fylkið eða flokkunareiningu lífveru, uppfyllir lágmarksviðmiðanir um nothæfi þ.e. sem grundvallist á mælióvissu, sem er ekki yfir 50% (k = 2), reiknað við gildi viðkomandi umhverfisgæðakrafna, og að magngreiningarmörkin séu ekki yfir 30% af gildinu fyrir viðkomandi umhverfisgæðakröfur. Þegar þessar viðmiðanir eru ekki uppfylltar fyrir neitt fylki skal sjá til þess að vöktun sé framkvæmd með bestu, fáanlegri tækni sem ekki felur í sér óhóflegan kostnað og að greiningaraðferðin virki a.m.k. jafn vel og sú sem er í boði fyrir fylkið sem er tilgreint í 2. mgr., að því er varðar viðkomandi efni:

  1. Þegar mælingar eða áætlanir á styrk í umhverfinu eða á losun benda til hugsanlegrar áhættu vegna bráðra váhrifa sem steðjar að vatnsumhverfinu eða kemur fram í gegnum vatnsumhverfið og umhverfisgæðakröfum vegna lífríkis eða sets er beitt, skal Umhverfis­stofnun sjá til þess að yfirborðsvatn sé einnig vaktað og skal stuðst við leyfilegan hámarks­styrk umhverfisgæðakröfunnar, hafi hann verið fastsettur.
  2. Ef styrkur eðlisefnafræðilegra eða efnafræðilegra mæliþátta í tilteknu sýni er undir magn­greiningarmörkum skal nota hálft gildi viðkomandi magngreiningarmarka sem mæli­niðurstöður við útreikning á meðalgildum og tilgreina það sem "undir magngreiningar­mörkum". Ákvæðið gildir ekki um mæliþætti sem eru heildarsumma tiltekins hóps eðlis­efnafræði­legra þátta eða efnafræðilegra mæliþátta, þ.m.t. þau umbrotsefni og niðurbrots­efni og myndefni sem skipta máli. Í þessum tilvikum skulu niðurstöður, sem eru undir magngreiningar­mörkum fyrir einstök efni, fá gildið núll. Ef þess er getið að reiknað meðalgildi mælingar, sem er gerð með bestu, fáanlegu tækni sem ekki felur í sér óhóflegan kostnað, sé "undir magn­greiningarmörkum" og magngreiningarmörk þeirrar tækni eru hærri en viðkom­andi gildi í umhverfisgæðakröfunni skal ekki nota niðurstöðuna fyrir efnið sem var mælt til að meta efnafræði­legt heildarástand þess vatnshlots.

Efni sem umhverfisgæðakröfu fyrir set og/eða lífríki er beitt fyrir, skal vakta í viðeigandi fylki a.m.k. einu sinni það ár sem vöktun fer fram, nema tækniþekking og sérfræðimat réttlæti aðra tíma­viðmiðun.

Við endurskoðun á vatnaáætlun, í samræmi við 19. gr. laga um stjórn vatnamála, skal taka inn eftirfarandi upplýsingar:

  a) töflu þar sem fram koma magngreiningarmörk efnagreiningaraðferðarinnar sem beitt var og upplýsingar um frammistöðu þessara aðferða m.t.t. lágmarksviðmiðananna um nothæfi sem mælt er fyrir um í 3. málsl. 3. mgr.,
  b) fyrir efnin sem valkosturinn í 3. mgr. er valin fyrir:
  1. ástæðurnar fyrir beitingu þess valkostar og á hvaða grundvelli honum er beitt,
  2. ef við á, aðrar umhverfisgæðakröfur sem er komið á fót, sannanir fyrir því að þessar umhverfisgæðakröfur bjóði upp á a.m.k. sama verndarstig og umhverfis­gæðakröf­urnar sem mælt er fyrir um í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, þ.m.t. gögnin og aðferðirnar sem beitt er til að leiða út umhverfis­gæðakröf­una, og þeir flokkar yfirborðsvatns sem þeim er ætlað að gilda um,
  3. magngreiningarmörk greiningaraðferðanna fyrir fylkin sem eru tilgreind í A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, þ.m.t. upplýsingar um gagnsemi þessara aðferða í tengslum við lágmarksviðmiðanirnar um nothæfi sem mælt er fyrir um í 3. málsl. 3. mgr., til samanburðar við upplýsingarnar sem um getur í a-lið,
  c) rökstuðning fyrir tíðni vöktunar sem er beitt í samræmi við 4. mgr., ef bil á milli vaktana er lengra en eitt ár.

Vatnaáætlun, sem hefur verið endurskoðuð í samræmi við 19. gr. laga um stjórn vatnamála og hefur að geyma niðurstöður og upplýsingar um áhrif ráðstafananna sem gerðar voru til að koma í veg fyrir efnamengun yfirborðsvatns, skal gerð aðgengileg á vefsetri Umhverfisstofnunar, sbr. 27. gr. laga um stjórn vatnamála.

Umhverfisstofnun skal láta vinna langtímaleitnigreiningu á styrk þeirra forgangsefna, sem tilgreind eru til vöktunar í A-hluta lista III í viðauka við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og sem hafa tilhneigingu til að safnast fyrir í seti og/eða lífríki, með sérstakri áherslu á efni sem skráð eru í ofangreindan lista með númerunum 2, 5, 6, 7, 12, 15, 16, 17, 18, 20, 21, 26, 28, 30, 34, 35, 36, 37, 43 og 44. Leitnigreininguna skal vinna á grundvelli vöktunar á ástandi yfirborðsvatns, í samræmi við 22. gr. laga um stjórn vatnamála. Með hliðsjón af umhverfismarkmiðum laga um stjórn vatnamála skal í aðgerðaáætlun skilgreina ráðstafanir til að koma í veg fyrir marktæka aukningu í styrk þessara efna í seti og/eða viðkomandi lífríki. Tíðni vöktunar skal vera nægileg til að fá fullnægjandi gögn til áreiðanlegrar langtímaleitnigreiningar í seti og/eða lífríki og skal tiltekin í vöktunaráætlun. Til viðmiðunar skal hafa að slík vöktun fari fram á þriggja ára fresti, nema tækni­þekking og sérfræðimat réttlæti aðra tímaviðmiðun.

3. gr.

Á eftir 14. gr. reglugerðarinnar bætist við ný grein, 14. gr. a, svohljóðandi:

14. gr. a

Sértæk ákvæði sem varða tiltekin efni.

Í vatnaáætlun er heimilt að sýna á sérstöku viðbótarkorti upplýsingar um efnafræðilegt ástand fyrir eitt eða fleiri eftirtalinna efna af A-hluta lista III í viðauka með reglugerð um varnir gegn mengun vatns, aðskilið frá upplýsingum um hin efnin á listanum:

  a) efni með númerin 5, 21, 28, 30, 35, 37, 43 og 44 (efni sem haga sér eins og aldreifð PBT-efni),
  b) efni með númer á bilinu 34 til 45 (nýlega tilgreind efni),
  c) efni með númerin 2, 5, 15, 20, 22, 23 og 28 (efni sem settar hafa verið endurskoðaðar, strangari umhverfisgæðakröfur fyrir).

Í vatnaáætlun má einnig leggja fram upplýsingar um umfang frávika, ef einhver eru, frá gildinu í umhverfisgæðakröfunum fyrir efnin í stafliðum a - c.

Beita má veigaminni vöktun fyrir forgangsefni en krafist er í samræmi við 4. mgr. 8. gr. d og III. viðauka þegar í hlut eiga efnin sem bera númerin 5, 21, 28, 30, 35, 37, 43 og 44 í A-hluta lista III í viðauka við reglugerð um varnir gegn mengun vatns, að því tilskildu að vöktunin sé dæmigerð og að tölfræðilega sterk grunnlína sé fyrir hendi að því er varðar tilvist þessara efna í vatns­umhverfinu. Til viðmiðunar skal slík vöktun fara fram á þriggja ára fresti, í samræmi við 7. mgr. 8. gr. d, nema tækniþekking og sérfræðimat réttlæti aðra tímaviðmiðun.

4. gr.

Á eftir 19. gr. reglugerðarinnar bætast við tvær nýjar greinar, 19. gr. a og 19. gr. b, svohljóðandi:

19. gr. a

Vöktun skv. vaktlista.

Vöktun efna á vaktlista fer fram til að safna gögnum á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er ætlað að styðja ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við ákvarðanatöku um þau efni sem skulu vera á skrá yfir forgangsefni, sbr. A-hluta lista III í viðauka með reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns og til að bæta við önnur gögn sem m.a. fást með greiningum og úttektum í tengslum við álagsgreiningu og hættumat skv. 7. gr. og með vöktun skv. 13. gr.

Efni á vaktlista skal vakta á völdum, dæmigerðum vöktunarstöðum í a.m.k. 12 mánuði.

Við ákvörðun á fjölda vöktunarstaða skal velja a.m.k. eina vöktunarstöð að viðbættri einni stöð ef íbúafjöldi þess ríkis er meiri en ein milljón, að viðbættum fjölda stöðva sem samsvarar land­fræði­legri stærð landsins í km² deilt með 60.000 (námundað að næstu heilu tölu), auk sama fjölda stöðva og íbúatala Íslands deilt með fimm milljónum (námundað að næstu heilu tölu).

Við val á dæmigerðum vöktunarstöðvum, tíðni vöktunar og tímasetningum fyrir hvert efni skal taka tillit til notkunarmynstra og hugsanlegrar tilvistar efnisins. Vöktun hvers efnis skal taka til 12 mánaða og skal ekki fara fram sjaldnar en einu sinni á ári.

Tímabil vöktunar efna samkvæmt fyrsta vaktlistanum skal hefjast 14. september 2015 eða innan sex mánaða frá stofnun vaktlistans en vöktun hvers efnis samkvæmt síðari listum innan sex mánaða frá því viðkomandi efni var tekið á listann.

Ef lögð eru fram fullnægjandi, sambærileg, dæmigerð og nýleg vöktunargögn um tiltekið efni úr fyrirliggjandi vöktunaráætlun eða rannsóknum er ekki nauðsynlegt að framkvæma viðbótarvöktun fyrir það efni samkvæmt fyrirkomulagi vöktunarskrárinnar, að því tilskildu að efnið hafi einnig verið vaktað með aðferðafræði sem uppfyllir kröfur í tæknilegum viðmiðunarreglum framkvæmda­stjórnar­innar.

19. gr. b

Skaðleg og þrávirk efni (forgangsefni).

Draga skal í áföngum úr mengun vegna skaðlegra og þrávirkra efna (forgangsefna) í vatni með markvissum aðgerðum með það að markmiði að stöðva losun þeirra.

Raða skal efnunum í forgangsröð og leggja fram tímasetta áætlun um takmörkun á losun þeirra og bann við slíkri losun eftir því hve mikla hættu þau skapa fyrir vatn og landumhverfi þess. Röðunin skal greind með aðferð byggðri á áhættumati.

Skrá yfir forgangsefni er að finna í viðauka VI.

5. gr.

Við bætist nýr viðauki, viðauki VI, sbr. viðauki I við reglugerð þessa.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/39/ESB sem breytir tilskipunum 2000/60/EB og 2008/105/EB að því er varðar forgangsefni á sviði stjórnar vatnamála, sem vísað er til í tölulið 13ca, II. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efna­hags­svæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2014, frá 25. september 2014.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í b- og d-liðum 29. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 16. október 2015.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Íris Bjargmundsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica