Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

134/2015

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 486/2003 um stjórn hreindýraveiða, með síðari breytingum.

1. gr.

3. mgr. 6. gr. orðist svo:

Veiðitími tarfa er frá 1. ágúst til 15. september og veiðitími kúa frá 1. ágúst til 20. september ár hvert að báðum dagsetningum meðtöldum. Umhverfisstofnun getur þó heimilað veiðar á törfum frá 15. júlí að fenginni umsögn hreindýraráðs. Ráðherra getur ákveðið, skv. tillögu Umhverfisstofnunar, að heimila veiðar á kúm á veiðisvæði 7, 8 og 9 á tímabilinu frá 1. til 30. nóvember, sbr. 1. mgr. séu hjarðir óaðgengilegar á veiðitíma að mati Náttúrustofu Austurlands. Ef ekki tekst á veiðitímanum að veiða nægilega mörg dýr til þess að stofnstærð verði innan fyrirhugaðra marka getur ráðherra heimilað Umhverfisstofnun veiðar utan veiðitíma. Arður af þeim veiðum rennur til Umhverfisstofnunar, að frádregnum kostnaði, og skal nýttur til rannsókna og verkefna sem tengjast hreindýraveiðum.

2. gr.

2. mgr. 10. gr. orðist svo:

Veiðileyfi skal gefið út á nafn veiðimanns og er það ekki framseljanlegt. Þeir sem fengið hafa úthlutað veiðileyfi skulu greiða gjaldið að fullu eigi síðar en 15. apríl. Hyggist veiði­maður ekki nýta veiðileyfi skal Umhverfisstofnun endurgreiða sem nemur ¾ hlutum gjaldsins takist Umhverfisstofnun að endurselja leyfið. Mæli sérstakar ástæður með er stofnuninni heimilt að endurgreiða gjaldið að fullu jafnvel þótt ekki takist að endurselja það.

3. gr.

Reglugerð þessi er sett skv. 14. gr. laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 9. febrúar 2015.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigríður Svana Helgadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica