Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

245/2014

Reglugerð um (2.) breytingu á reglugerð nr. 251/2002 um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings. - Brottfallin

1. gr.

Við 3. gr. bætast þjár nýjar skilgreiningar sem orðast svo:

3.28 Markgildi er stig mengunarefnis sem er ákvarðað með það fyrir augum að komist verði í auknum mæli hjá skaðlegum áhrifum á heilsu manna og/eða umhverfið í heild til lengri tíma litið og sem skal nást innan tilskilinna tímamarka, ef unnt er.

3.29 Meðalváhrifavísir er meðalgildi sem er ákvarðað á grundvelli mælinga á bak­grunns­stöðum í þéttbýli og endurspeglar váhrif á íbúa. Vísirinn er notaður til útreikn­inga á markmiðum Íslands um minnkun váhrifa og skuldbindingunni um styrk váhrifa.

3.30 Landsbundin markmið um minnkun váhrifa er hlutfallsleg minnkun meðalváhrifa fyrir fólk sem sett eru fyrir viðmiðunarárið með það fyrir augum að draga úr skaðlegum áhrifum á heilbrigði manna og sem skulu, ef mögulegt er, nást á tilteknu tímabili.

2. gr.

Í stað 3. mgr. 5. gr. komi þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:

5.3 Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir, sem ekki hafa í för með sér óhóflegan kostnað, til að sjá til þess að styrkur PM2,5 í andrúmslofti fari ekki yfir markgildið sem mælt er fyrir um í XIII. viðauka við reglugerð þessa frá og með þeim dagsetningum sem til­greindar eru þar.

5.4 Heilbrigðisnefndir skulu sjá til þess að styrkur PM2,5 í andrúmslofti á svæðum þeirra og þéttbýlisstöðum fari ekki yfir viðmiðunarmörkin sem mælt er fyrir um í XIII. viðauka, með hliðsjón af þeim dagsetningum sem tilgreindar eru þar.

5.5 Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd eftir því sem við á er heimilt að gera strangari kröfur en reglugerð þessi segir til um ef loftmengun á tilteknu svæði er sérstaklega mikil eða ef svæðið á að njóta sérstakrar verndar.

3. gr.

Breytingar eru gerðar á viðaukum III, V, VII og XI í reglugerðinni, sbr. fylgiskjal 1 með þessari breytingarreglugerð.

4. gr.

Við reglugerðina bætast tveir nýir viðaukar, viðauki XII og viðauki XIII, sbr. fylgiskjal 2 með þessari breytingarreglugerð.

5. gr.

Hvarvetna sem vísað er til Hollustuverndar ríkisins í reglugerðinni skal vísa til Umhverfis­stofnunar í viðeigandi beygingu.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/50/EB frá 21. maí 2008 um gæði andrúmslofts og hreinna loft í Evrópu, sbr. ákvörðun sam­eigin­legu EES-nefndarinnar nr. 121/2011, frá 21. október 2011.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. og 6. gr. d. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað þátt sveitarfélaganna varðar, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 7. mars 2014.

F. h. r.

Jón Geir Pétursson.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Fylgiskjöl.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica