Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

294/2014

Reglugerð um (1.) breytingu á reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs.

1. gr.

Á eftir 8. gr. kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:

Gildistaka tiltekinna gerða Evrópusambandsins.

Ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í I. kafla I. viðauka skulu öðlast gildi með breytingum og viðbótum sem leiðir af I. viðauka, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Á grundvelli eftirtalinna ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast eftirfarandi EB-gerðir gildi hér á landi:

 

a)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1102/2008 um bann við útflutningi á kvikasilfursmálmi og tilteknum kvikasilfurssamböndum og -blöndum og um örugga geymslu á kvikasilfursmálmi, sem vísað er til í tölulið 22a, IV. kafla XX. viðauka við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 26/2013, frá 1. febrúar 2013. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 16, 14. mars 2013 - 2013/EES/16/55 bls. 270-274.

  

Þrátt fyrir 1. málsl. a-liðar 1. mgr. hér á undan öðlast eftirfarandi atriði EB-reglu­gerðarinnar ekki gildi hér á landi:

  

a.

1. gr. reglugerðarinnar. Í stað hennar gildir eftirfarandi ákvæði:

   

Útflutningur á kvikasilfursmálmi (Hg, CAS-númer 7439-97-6), sinnóbergrýti, kvikasilfurs(I)klóríði (Hg2Cl2, CAS-númer 10112-91-1), kvikasilfurs(II)oxíði (HgO, CAS-númer 21908-53-2) og blöndum kvikasilfursmálms og annarra efna, þ.m.t. kvikasilfursblendi, þar sem styrkur kvikasilfurs er a.m.k. 95% miðað við þyngd frá ESB til EFTA-ríkja og frá EFTA-ríkjum til ESB og milli EFTA-ríkjanna skal heimilaður.

   

Þetta er með fyrirvara um strangara innflutnings- eða útflutningsbann sem er til staðar í EFTA-ríki á þeim tíma þegar reglugerðin er felld inn í EES-samn­inginn.

   

EFTA-ríkin skulu gera árangursríkar ráðstafanir til að tryggja að kvikasilfur og kvikasilfurssambönd og -blöndur, sem getið er í 1. mgr., séu ekki flutt út frá ESB til þriðja lands um EFTA-ríki. Hið sama skal gilda um blöndun kvika­silfurs­málms við önnur efni í þeim eina tilgangi að flytja út kvika­silfurs­málm frá ESB til þriðja lands um EFTA-ríki. Þetta gildir ekki um útflutn­ing á blöndum, sem um getur í 1. mgr., til rannsókna og þróunar eða til lækn­inga eða greininga.

  

b.

Ákvæði 9. gr. reglugerðarinnar gilda ekki að því er varðar EFTA-ríkin.2. gr.

Við lið 4.2 í I. viðauka með reglugerðinni bætast sex nýir undirliðir, sem orðast svo:

4.2.1.

Urðunarstaður tekur á móti lífrænum úrgangi skv. lið 4.2 ef sá úrgangur sem urðaður er á urðunarstaðnum á einu almanaksári inniheldur samanlagt 6% lífrænt efni eða meira (TOC ≥ 6%).

4.2.2.

Rekstraraðili, sem hættir urðun lífræns úrgangs fyrir 16. júlí 2014, er undan­þeginn kröfu um söfnun hauggass skv. lið 4.2. Rekstraraðili skal senda tilkynn­ingu til Umhverfisstofnunar þess efnis fyrir 1. júní 2014.

4.2.3.

Loki rekstraraðili urðunarstað fyrir 16. júlí 2014 er ekki krafist hauggassöfnunar á vöktunartímabili. Rekstraraðili skal tilkynna lokun og skila inn fullnægjandi lokunar­áætlun til Umhverfisstofnunar fyrir 1. júní 2014.

4.2.4.

Rekstraraðili starfandi urðunarstaðar getur sýnt fram á að tæknilega ógerlegt sé að safna hauggasi ef urðunarstaðurinn uppfyllir annað af eftirfarandi:

 

a)

urðunarstaðurinn tekur við minna en 50 þúsund tonnum af úrgangi á öllum rekstrartíma sínum,

 

b)

myndun metans á urðunarstaðnum er 0,16 Gg eða meira á ári að hámarki í sex ár.

 

Umhverfisstofnun skal útbúa viðmið um hvenær krafist er söfnunar hauggass á urðunarstöðum og birta þau á vefsvæði sínu. Ef skilyrði a- og b-liðar eru uppfyllt skal rekstraraðili senda rökstuðning til Umhverfisstofnunar, í samræmi við viðmið Umhverfisstofnunar um hvenær krafist er söfnunar hauggass á urðunarstöðum, fyrir 1. júní 2014.

4.2.5.

Rekstraraðili starfandi urðunarstaðar sem urðar lífrænan úrgang eftir 16. júlí 2014 og getur ekki sýnt fram á að tæknilega ógerlegt sé að safna hauggasi, skal safna hauggasi af öllum staðnum, sbr. viðmið Umhverfisstofnunar um hvenær krafist er söfnunar hauggass á urðunarstöðum. Rekstraraðili skal senda inn framkvæmdaáætlun fyrir 1. júní 2014 um söfnun á hauggasi frá urðunarstaðnum.

4.2.6.

Ef ekki er gerð krafa um söfnun hauggass skv. lið 4.2 og liðum 4.2.1-4.2.5, er ekki gerð krafa um sýnatöku og mælingar á hauggasi skv. III. viðauka.3. gr.

Á eftir 7. tölul. I. viðauka kemur nýr töluliður ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

8. Tímabundin geymsla kvikasilfursmálms.

Eftirfarandi kröfur skulu gilda fyrir urðunarstaði, sem hafa heimild til að taka á móti kvika­silfurs­málmi, að því er varðar tímabundna geymslu kvikasilfursmálms í meira en eitt ár:

 

-

Kvikasilfursmálmur skal geymdur aðskilinn frá öðrum úrgangi.

 

-

Ílát skulu geymd í söfnunarkerjum sem eru húðuð með tilskildum hætti þannig að þau séu laus við sprungur og glufur og ógegndræp fyrir kvikasilfursmálmi og nógu stór fyrir það magn kvikasilfurs sem geymt er.

 

-

Geymslusvæðið skal hafa tilbúna eða náttúrulega tálma, sem duga til að vernda umhverfið fyrir losun kvikasilfurs, og vera nógu stórt fyrir það magn kvikasilfurs sem geymt er.

 

-

Gólfin á geymslusvæðinu skulu þakin með kvikasilfursþolnum þéttiefnum. Halli með safnþró skal vera til staðar.

 

-

Á geymslusvæðinu skal vera brunavarnarkerfi.

 

-

Geymslu skal hagað þannig að tryggt sé að auðveldlega megi endurheimta öll ílát.4. gr.

Við II. viðauka bætist nýr liður ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

4. SÉRTÆKAR KRÖFUR VARÐANDI KVIKASILFURSMÁLM.

Eftirfarandi kröfur skulu gilda að því er varðar tímabundna geymslu kvikasilfursmálms í meira en eitt ár:

 

A.

Samsetning kvikasilfursins.

  

Kvikasilfursmálmur skal vera í samræmi við eftirfarandi forskriftir:

  

-

kvikasilfursinnihald skal vera meira en 99,9% miðað við þyngd,

  

-

ekki mega vera í honum nein óhreinindi sem geta tært kolastál eða ryðfrítt stál (t.d. saltpéturssýrulausn, klóríðsaltslausnir).

 

B.

Geymsla.

  

Ílát sem eru notuð til að geyma kvikasilfursmálm skulu vera tæringar- og högg­þolin. Þar af leiðandi skal forðast að beita málmsuðu. Ílátin skulu einkum vera í samræmi við eftirfarandi forskriftir:

  

-

Efni íláta: kolstál (að lágmarki ASTM A36) eða ryðfrítt stál (AISI 304, 316L),

  

-

ílát skulu vera gas- og vökvaþétt,

  

-

ytri hlið ílátsins skal vera þolin gagnvart geymsluskilyrðunum,

  

-

hönnunargerð ílátsins skal standast fallprófun og lekaþéttniprófun eins og lýst er í köflum 6.1.5.3. og 6.1.5.4. í tilmælum Sameinuðu þjóðanna um flutning á hættulegum farmi, Handbók um prófanir og viðmiðanir.

  

Mesta fyllingarhlutfall ílátsins skal vera 80% miðað við rúmmál til að tryggt sé að nægilegt tómarúm sé í því og að þensla vökvans við hátt hitastig leiði hvorki til þess að ílátið fari að leka né aflagist varanlega.

 

C.

Verklagsreglur um móttöku.

  

Einungis ílát sem hafa vottorð um að þau uppfylli þær kröfur sem eru settar fram í þessum þætti skulu hljóta samþykki.

  

Verklagsreglur um móttöku skulu samrýmast eftirfarandi:

  

-

einungis skal samþykkja kvikasilfursmálm sem uppfyllir þær lágmarks­samþykktar­viðmiðanir sem greint er frá hér að framan,

  

-

ílát skulu tekin til sjónrænnar skoðunar áður en þau eru látin í geymslu. Ekki skal samþykkja ílát sem eru sködduð, lek eða tærð,

  

-

á ílátum skal vera varanlegur stimpill (gerður með götun) þar sem fram kemur kenninúmer ílátsins, smíðaefni þess, þyngd þess þegar það er tómt, tilvísun til framleiðandans og smíðadagsetning,

  

-

á hverju íláti skal vera plata, sem er varanlega fest við viðkomandi ílát, þar sem fram kemur kenninúmer vottorðs þess.

 

D.

Vottorð.

  

Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram á vottorðinu sem kveðið er á um í undir­þætti C:

  

-

heiti og heimilisfang framleiðanda úrgangsins,

  

-

heiti og heimilisfang þess sem ber ábyrgð á áfyllingunni,

  

-

áfyllingarstaður og -dagur,

  

-

magn kvikasilfursins,

  

-

hreinleiki kvikasilfursins og lýsing á óhreinindunum, ef við á, ásamt skýrslu um greiningu,

  

-

staðfesting á að ílátin hafi eingöngu verið notuð til að flytja/geyma kvika­silfur,

  

-

kenninúmer ílátanna,

  

-

hugsanlegar sérstakar athugasemdir.

  

Vottorð skulu gefin út af framleiðanda úrgangsins eða, sé það ekki hægt, af þeim sem ber ábyrgð á meðhöndlun hans.

5. gr.

Við III. viðauka reglugerðarinnar bætist nýr liður ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

6. Sértækar kröfur varðandi kvikasilfursmálm,

Eftirfarandi kröfur skulu gilda að því er varðar tímabundna geymslu kvikasilfursmálms í meira en eitt ár:

 

A.

Kröfur um vöktun, eftirlit og neyðaraðgerðir.

  

Setja skal upp kerfi fyrir samfellda vöktun kvikasilfursgufu, sem er nógu næmt til að greina a.m.k. 0,02 mg af kvikasilfri/m³, á geymslusvæðinu. Nemum skal komið fyrir við jörðu og í höfuðhæð. Kerfið skal gefa frá sér sjónræna og hljóðræna viðvörun. Viðhaldi á kerfinu skal sinnt árlega.

  

Viðurkenndur aðili skal taka geymslusvæðið og ílátin til sjónrænnar skoðunar a.m.k. einu sinni í mánuði. Ef vart verður við leka skal rekstraraðili tafarlaust grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir alla losun kvikasilfurs út í umhverfið og gera geymslu kvikasilfursins örugga á nýjan leik. Allur leki telst hafa veruleg skaðleg umhverfisáhrif eins og um getur í 21. gr.

  

Neyðaráætlanir og fullnægjandi hlífðarbúnaður til að meðhöndla kvikasilfursmálm skulu vera til taks á staðnum.

 

B.

Skráahald.

  

Öll skjöl sem innihalda þær upplýsingar sem um getur í 4. lið II. viðauka og í A-lið þessa þáttar, þ.m.t. vottorðið sem fylgir ílátinu, auk skráa sem varða birgða­minnkun og afgreiðslu kvikasilfursmálmsins eftir tímabundna geymslu hans, sem og ákvörðunarstað hans og fyrirhugaða meðferð, skulu varðveitt í a.m.k. 3 ár eftir að geymslu er hætt.

6. gr.

Innleiðing.

Reglugerðin er sett til innleiðingar á eftirfarandi ESB-gerðum:

 

a)

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1102/2008 um bann við útflutningi á kvikasilfursmálmi og tilteknum kvikasilfurssamböndum og -blöndum og um örugga geymslu á kvikasilfursmálmi.

 

b)

Tilskipun ráðsins 2011/97/ESB um breytingu á tilskipun 1999/31/EB að því er varðar sértækar viðmiðanir vegna geymslu á kvikasilfursmálmi sem telst vera úrgangur.7. gr.

Lagastoð.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í b-, c- og d-liðum 29. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, og 11. tölul. 1. mgr. 11. gr. efnalaga nr. 61/2013.

8. gr.

Gildistaka.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 26. mars 2014.

F. h. r.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.

Kjartan Ingvarsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica