Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

344/2013

Reglugerð um frjálsa þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi Evrópusambandsins (EMAS).

1. gr.

Markmið reglugerðar þessarar er að skapa skilyrði fyrir frjálsri þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi Evrópusambandsins (EMAS).

2. gr.

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með framkvæmd reglugerðar þessarar.

Umhverfisstofnun gegnir hlutverki þar til bærs yfirvalds sbr. 1. mgr. 11. gr. reglugerðar (EB) nr. 1221/2009 og hefur umsjón með skráningu fyrirtækja og stofnana frá ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

3. gr.

Faggildingarsvið Einkaleyfastofu annast faggildingu vottunaraðila og hefur eftirlit með störfum þeirra, sbr. 1. mgr. 28. gr. reglugerðar (EB) nr. 1221/2009.

4. gr.

Staðlaráð Íslands er lögbær staðlastofnun, sbr. viðauka II við reglugerð (EB) nr. 1221/2009.

5. gr.

Fyrirtækjum og stofnunum sem eru aðilar að EMAS er einungis heimilt að nota merki EMAS, sbr. viðauka V við reglugerð (EB) nr. 1221/2009, ef þau eða þær eru með gilda EMAS skráningu. Notkunin skal fylgja skilmálum í 10. gr. áðurnefndrar reglugerðar.

Íslenskur texti með merki EMAS, sbr. viðauka V við reglugerð (EB) nr. 1221/2009 er: Vottuð umhverfisstjórnun.

6. gr.

Um kostnað við skráningu fyrirtækja eða stofnana fer samkvæmt gjaldskrá Umhverfis­stofnunar.

Um kostnað við faggildingu vottunaraðila og eftirlit með störfum þeirra fer samkvæmt gjaldskrá faggildingarsviðs Einkaleyfastofu.

7. gr.

Heimilt er að draga úr reglubundnu mengunarvarnaeftirliti með fyrirtækjum sem taka þátt í EMAS, sbr. reglugerð um mengunarvarnaeftirlit.

8. gr.

Með mál sem kunna að rísa vegna brota á reglugerð þessari skal farið samkvæmt VIII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.

9. gr.

Eftirfarandi EB-gerð skal öðlast gildi hér á landi:

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1221/2009 frá 25. nóvember 2009 um frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS) og um niðurfellingu reglugerðar (EB) nr. 761/2001 og ákvarðana framkvæmdastjórnarinnar 2001/681/EB og 2006/193/EB, sem vísað er til í tölulið 1ea, I. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 136/2012, frá 13. júlí 2012, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samn­ing­inn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnar­tíðindi Evrópusambandsins nr. 59 frá 18. október 2012, 2012/EES/59/42, bls. 757-801.

10. gr.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 5. tl. 5. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og meng­unarvarnir, með síðari breytingum, og að höfðu samráði við atvinnuvega- og nýsköp­unar­ráðuneytið hvað varðar hlutverk faggildingarsviðs Einkaleyfastofu, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 24/2006 um faggildingu o.fl.

Reglugerðin öðlast þegar gildi. Við gildistöku þessarar reglugerðar fellur úr gildi reglugerð nr. 990/2005 um frjálsa þátttöku fyrirtækja og stofnana í umhverfisstjórnunarkerfi Banda­lagsins (EMAS), með síðari breytingum.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 3. apríl 2013.

Svandís Svavarsdóttir.

Stefán Thors.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica