Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

665/2012

Reglugerð um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

1. gr. Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að stuðla að verndun náttúrufars, þ.e. lífríkis, jarðmyndana og landslags Mývatns- og Laxársvæðisins í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun, og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum.

Reglugerðin á einnig að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni á vatnasviði Mývatns og Laxár ásamt verndun jarðmyndana og landslags með virkri náttúruvernd, einkum með tilliti til vísindalegra, félagslegra og fagurfræðilegra sjónarmiða.

2. gr. Gildissvið.

Ákvæði þessarar reglugerðar taka til Mývatns og Laxár með eyjum, hólmum og kvíslum allt að ósi árinnar við Skjálfandaflóa, ásamt 200 m breiðum bakka meðfram Mývatni öllu og Laxá báðum megin. Auk þess nær reglugerðin til eftirtalinna votlendissvæða, ásamt 200 m bakka meðfram vötnum, ám og lækjum: Sortulækjar, Geirastaðahrauns, Sandvatns ytra, Belgjarskógar, Slýja, Neslandatanga, Framengja, Krákár frá Strengjabrekku að Laxá, Grænavatns, Helluvaðsár og Arnarvatns, ásamt votlendi sem því tilheyrir, sbr. kort í fylgiskjali I með lögum nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Reglugerðin gildir jafnframt um vatnsvernd á vatnasviði Mývatns og Laxár, sbr. kort í fylgiskjali II með lögum nr. 97/2004.

3. gr. Skilgreiningar.

Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:

Áburður: Efni sem inniheldur köfnunarefnis- eða fosfórsamband, sem borin eru m.a. á land til þess að auka gróðurvöxt.

Eiturefni: Hættulegt efni sem í litlu magni veldur dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð.

Framandi tegundir: Lífverur og dreifingarform þeirra sem geta lifað af og fjölgað sér og sem menn hafa flutt vísvitandi eða óafvitandi út fyrir sitt náttúrulega útbreiðslusvæði, óháð því hvenær það gerðist.

Grunnvatn: Vatn, kalt eða heitt, sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi.

Hættulegt efni: Efni sem getur valdið dauða, bráðum eða langvarandi skaða á heilsu við innöndun og inntöku eða í snertingu við húð, er eldnærandi, eld- eða sprengifimt eða getur valdið tjóni á umhverfi.

Mengun: Þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

Neyslugeymir: geymir sem einn eða fleiri notendur hafa aðgang að og er ekki í tengslum við olíubirgða- eða bensínstöð, (t.d. húsageymir, þ.e. geymir sem er tengdur beint inn í hús, eða lausageymir, þ.e. geymir sem ætlaður er til notkunar á tilteknum stað í skamman tíma).

Verndarsvæðið: Verndarsvæði Mývatns og Laxár eins og það er skilgreint í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar þessarar, sbr. einnig kort í fylgiskjali I með lögum nr. 97/2004.

Vatnasviðið: Vatnasvið Mývatns og Laxár, sbr. 2. mgr. 2. gr. og kort í fylgiskjali II með lögum nr. 97/2004.

Yfirborðsvatn: Kyrrstætt eða rennandi vatn, straumvötn, stöðuvötn, lón, árósavatn og strandsjór, auk jökla.

4. gr. Verndarsvæðið.

Óheimilt er að valda spjöllum eða raska lífríki, jarðmyndunum og landslagi á verndarsvæðinu, þ.m.t. á líffræðilegri fjölbreytni ásamt vistfræðilegum eiginleikum og einkennum svæðisins.

5. gr. Vatnasvið Mývatns og Laxár.

Forðast skal að valda spjöllum á vatnasviðinu sem raskað gætu vernd Mývatns og Laxár samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar og laga nr. 97/2004, sérstaklega gæðum og rennsli grunnvatns.

6. gr. Umsjón svæðisins.

Umhverfisstofnun hefur umsjón með verndun þess svæðis sem reglugerðin nær til og eftirlit með framkvæmdum á svæðinu. Stofnunin hefur einnig umsjón og eftirlit með vörnum gegn hvers konar mengun á vatnasviðinu sem áhrif gætu haft á verndun svæðisins. Stofnuninni er þó heimilt að fela öðrum umsjón með verndun þess svæðis sem reglugerðin nær til, í heild eða að hluta, í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Ákveði stofnunin að fela öðrum aðila umsjón með svæðinu skal gerður um það umsjónarsamningur sem umhverfisráðherra samþykkir og staðfestir.

7. gr. Verndaráætlun.

Umhverfisstofnun ber ábyrgð á gerð verndaráætlunar í samræmi við ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 97/2004. Í verndaráætlun skal m.a. fjallað um nauðsynlegar verndaraðgerðir, friðlýsingu náttúruminja, landnýtingu, umferðarrétt almennings og aðgengi ferðamanna að svæðinu, sbr. 6. laga nr. 97/2004.

8. gr. Réttindi og skyldur gesta á verndarsvæðinu.

Almenningi er frjálst að fara gangandi um verndarsvæðið til útivistar og náttúruskoðunar í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar og eftir því sem lög leyfa. Um umferðarrétt að öðru leyti fer samkvæmt 12.-17. gr. Réttur til umferðar getur þó sætt takmörkunum í verndaráætlun, sbr. 7. gr., eða samkvæmt heimildum 16. gr.

Öllum er skylt að sýna lífríki verndarsvæðisins virðingu og nærgætni, ganga vel um jarðmyndanir og forðast alla röskun á náttúru svæðisins. Óheimilt er að skilja rusl eftir á víðavangi eða urða rusl á svæðinu.

Skylt er að fylgja göngustígum á verndarsvæðinu eins og unnt er þar sem þeir hafa verið lagðir eða stikaðir.

Gestum svæðisins er óheimilt að hafa náttstað á verndarsvæðinu, hvort sem er undir berum himni, í tjaldi, hjólhýsi eða bíl, nema á tjaldsvæðum sem til þess eru ætluð og merkt. Heimilt er að takmarka frekar dvöl gesta ef þörf krefur. Slíkar takmarkanir skal auglýsa sérstaklega á vefsíðu Umhverfisstofnunar og með skilti eða sambærilegri merkingu á viðkomandi svæði. Umráðamenn landareigna á svæðinu geta þó ætíð heimilað tjöldun á eigin landi.

Þeim sem fara um verndarsvæðið ber að fara að fyrirmælum umsjónaraðila svæðisins um umgengni og háttsemi og að kynna sér reglur þær sem gilda á svæðinu. Skulu reglur svæðisins vera aðgengilegar almenningi, s.s. á vefsíðu Umhverfisstofnunar, í bæklingi stofnunarinnar og í gestastofu svæðisins.

9. gr. Takmörkun á veiðum á verndarsvæðinu.

Óheimilt er að skjóta endur á verndarsvæðinu og gildir bannið jafnt um allar tegundir. Ekki er um að ræða aðrar sérstakar takmarkanir á veiðum á grundvelli verndunar svæðisins, sbr. 10. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, og fer því um veiðar að öðru leyti samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/1994 og reglugerða settra á grundvelli laganna, sbr. reglugerð um refa- og minkaveiðar og reglugerð um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum.

10. gr. Takmarkanir á ræktun á verndarsvæðinu.

Hefðbundin túnrækt og önnur ræktun vegna landbúnaðar sem og garðrækt er heimil á verndarsvæðinu, sbr. þó lista reglugerðar um innflutning, ræktun og dreifingu og dreifingu útlendra plöntutegunda, yfir útlendar plöntutegundir sem óheimilt er að flytja til landsins eða rækta. Til verndar lífríki og landslagi er að öðru leyti óheimilt að rækta og dreifa framandi tegundum á svæðinu.

11. gr. Veiðar á tegundum sem hafa skaðleg áhrif.

Umhverfisstofnun skal vinna í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög sérstaka aðgerðaáætlun um veiðar á tegundum sem geta haft skaðleg áhrif á verndarstöðu fuglalífs á verndarsvæðinu. Áætlunin skal unnin í samráði við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn, Náttúrufræðistofnun Íslands og umráðamenn landareigna sem ekki eru í ríkiseigu, og með hliðsjón af niðurstöðum viðeigandi rannsókna á svæðinu. Aðgerðaáætlunin skal vera tímabundin og skal endurskoða hana a.m.k. samhliða verndaráætlun og ætíð ef forsendur aðgerðaáætlunarinnar breytast. Aðgerðaáætlunarinnar skal ætíð getið í verndaráætlun. Umhverfisstofnun skal sjá til þess að aðgerðaáætluninni sé framfylgt og að hún sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um refa- og minkaveiðar og reglugerðar um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, sbr. einnig lög nr. 64/1994.

12. gr. Umferð á hestum á verndarsvæðinu.

Leyfi Umhverfisstofnunar þarf fyrir skipulögðum hópferðum á hestum á verndarsvæðinu utan skipulagðra reiðleiða og getur stofnunin sett skilyrði um ferðamáta til að tryggja að ekki verði spjöll á landslagi og gróðurlendi eða truflun á dýralífi. Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands.

13. gr. Hjólreiðar á verndarsvæðinu.

Þegar farið er á reiðhjólum um verndarsvæðið skal fylgja vegum og skipulögðum reiðhjólastígum eins og kostur er og gæta þess að ekki hljótist af náttúruspjöll.

14. gr. Akstur vélknúinna ökutækja á verndarsvæðinu.

Akstur vélknúinna ökutækja á verndarsvæðinu er einungis heimill á til þess gerðum vegum í samræmi við verndaráætlun og í samræmi við merkingar, enda séu vegir ekki ófærir vegna aurbleytu eða lokaðir.

Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á snævi þakinni jörð utan vega svo fremi jörð sé frosin og augljóst að ekki sé hætta á náttúruspjöllum. Um akstur vélknúinna ökutækja utan vega að öðru leyti fer samkvæmt reglugerð nr. 528/2005 um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. Slíkur akstur er þó ekki heimill nema að undangenginni tilkynningu til Umhverfisstofnunar og skal ætíð farið að fyrirmælum stofnunarinnar um aðgát við aksturinn. Ekki er þó skylt að tilkynna um akstur utan vega vegna starfa við landbúnað á ræktuðu landi.

Við akstur utan vega er óheimilt að aka utan í gervigígum.

15. gr. Umferð og umgengni um vatn á verndarsvæðinu.

Á tímabilinu 15. apríl til 20. ágúst er notkun farartækja á Mývatni og Laxá og öðrum stöðuvötnum á verndarsvæðinu einungis heimil vegna hefðbundinna nytja og veiða, náttúrurannsókna og umsjónar með svæðinu. Umhverfisstofnun getur einnig takmarkað frekar notkun tiltekinna farartækja á þessu tímabili að höfðu samráði við Náttúrurannsóknarstöðina við Mývatn og umráðamenn viðkomandi landareigna sem ekki eru í ríkiseigu.

Notkun hraðbáta með 25 hestafla eða öflugri vél er alfarið bönnuð á verndarsvæðinu og getur Umhverfisstofnun ef nauðsyn krefur takmarkað notkun annarra vélknúinna báta, m.a. með því að ákvarða tiltekin hraða- og hávaðamörk eða tiltekið hámark vélarafls báta.

Umhverfisstofnun skal auglýsa allar takmarkanir á umferð samkvæmt grein þessari með áberandi hætti á svæðinu og birta á vefsíðu Umhverfisstofnunar, í gestastofu og á gististöðum svæðisins. Skulu þær einnig tilkynntar til sveitarstjórna, umráðamanna landareigna og lögreglustjóra.

Notkun aðkomubáta, annarra siglingatækja og veiðarfæra er bönnuð nema þau hafi verið sótthreinsuð og komið í veg fyrir að framandi lífverur geti borist með þeim í ár og vötn á verndarsvæðinu.

Um almenna umferð um vötn verndarsvæðisins að öðru leyti, þ.m.t. um ísilögð vötn, fer samkvæmt ákvæðum vatnalaga, nr. 15/1923, með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í verndaráætlun svæðisins, sbr. 7. gr. reglugerðar þessarar.

16. gr. Takmörkun á umferð á verndarsvæðinu.

Til að tryggja verndargildi verndarsvæðisins getur Umhverfisstofnun takmarkað umferð um sérstök svæði, umfram það sem getið er um í verndaráætlun skv. 7. gr., svo sem um varplönd, gíga, jarðmyndanir, stöðuvötn og straumvötn, eða um hluta þeirra, þ.e. til verndunar lífríkis, jarðmyndana og landslags. Getur stofnunin einnig takmarkað umferð ef aðrar knýjandi ástæður krefjast þess, t.d. um vegi, göngustíga og á reiðleiðum sem hafa spillst vegna færðar eða þar sem landslag eða gróðurlendi getur hlotið skaða af.

Umhverfisstofnun skal leita eftir athugasemdum umráðamanna viðkomandi landareigna sem ekki eru í ríkiseigu, fyrir töku ákvörðunar um takmörkun á umferð á verndarsvæðinu, nema brýn þörf sé á skjótum aðgerðum, s.s. til að tryggja verndargildi svæðisins. Umhverfisstofnun skal auglýsa allar takmarkanir á umferðarrétti með áberandi hætti á svæðinu og birta á vefsíðu Umhverfisstofnunar, í gestastofu og á gististöðum svæðisins. Skulu þær einnig tilkynntar sveitarstjórn, umráðamönnum landareigna og lögreglustjóra.

17. gr. Leyfi fyrir framkvæmdum, mannvirkjagerð o.fl. á verndarsvæðinu.

Sumarbústaðir, önnur frístundahús og hvers konar mannvirki sem þeim fylgja eru óheimil á verndarsvæðinu. Umhverfisstofnun getur þó veitt undanþágur frá ákvæði þessu vegna fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar við bæi og vegna mannvirkja veiðifélaga og almennrar aðstöðu ferðamanna. Við veitingu undanþágu gilda ákvæði 2. mgr.

Leita skal leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmd og hvers konar starfsemi á verndarsvæðinu sem getur haft áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag svæðisins. Umsókn skal berast stofnuninni a.m.k. fjórum vikum áður en fyrirhugað er að viðkomandi starfsemi eða framkvæmd hefjist. Óheimilt er að hefja slíka starfsemi eða framkvæmdir áður en leyfi hefur fengist. Umhverfisstofnun skal leita umsagnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands um leyfisumsókn samkvæmt grein þessari. Einnig skal leita umsagnar umráðamanna landareigna sem ekki eru í ríkiseigu. Umsækjanda um leyfi ber að beiðni Umhverfisstofnunar að afhenda öll nauðsynleg gögn við meðferð leyfisumsóknar. Heimilt er að setja nánari skilyrði í útgefnu leyfi til að tryggja að verndargildi svæðisins verði ekki stefnt í hættu.

Þrátt fyrir 2. málsl. 1. mgr. og 2. mgr., eru heimilar, án sérstakrar undanþágu eða leyfis Umhverfisstofnunar, framkvæmdir samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi Umhverfisstofnun fallist á umrædda skipulagsáætlun. Skulu framkvæmdirnar ætíð vera í samræmi við gildandi skipulag og verndaráætlun fyrir svæðið.

Breytingar á hæð vatnsborðs stöðuvatna og rennsli straumvatna á verndarsvæðinu eru óheimilar nema til verndunar og ræktunar þess, enda komi til sérstakt leyfi Umhverfisstofnunar. Við veitingu leyfis gilda ákvæði 2. mgr.

18. gr. Varnir gegn mengun á vatnasviði Mývatns og Laxár.

Við starfsemi sem rekin er á vatnasviðinu skulu rekstraraðilar uppfylla allar kröfur viðeigandi laga og reglugerða til starfseminnar, þ.m.t. hvað varðar leyfisveitingar, vöktun, rannsóknir, kröfur um úrbætur o.fl., sbr. m.a. lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, reglugerð um varnir gegn mengun vatns, reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns, reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi, reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri, reglugerð um fráveitur og skólp, reglugerð um meðhöndlun úrgangs og reglugerð um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Að öðru leyti skulu rekstraraðilar kappkosta að halda í lágmarki mengun og öðrum umhverfisáhrifum sem af viðkomandi starfsemi leiðir.

19. gr. Notkun áburðar á vatnasviðinu.

Óheimilt er að dreifa áburði á frosna jörð á vatnasviðinu. Að öðru leyti er skylt að fara að starfsreglum um góða búskaparhætti, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnureksti, við geymslu og notkun áburðar á vatnasviðinu.

20. gr. Viðhald bygginga o.fl. á vatnasviðinu.

Við viðhald bygginga, girðinga, raflína o.þ.h. á vatnasviðinu skal gætt sérstakrar varúðar við notkun hættulegra efna, s.s. fúavarnarefna, olíu o.þ.h.

21. gr. Takmörkun á notkun blýs á vatnasviðinu.

Veiðitækjum í ám og vötnum á vatnasviðinu sem innihalda blý, þ.m.t. blýsökkur, skal skipt út fyrir veiðitæki án blýs sé þess kostur.

22. gr. Neyslugeymar.

Einungis er heimilt að hafa neyslugeyma fyrir olíu og eiturefni og hættuleg efni sem ætluð eru til notkunar á vatnasviðinu, t.d. vegna landbúnaðar og fyrirtækja með starfsleyfi á verndarsvæðinu. Geymarnir skulu vera samkvæmt fullnægjandi mengunarvarnakröfum og allur frágangur miðaður við að mæta óhöppum við áfyllingu. Afla skal leyfis viðkomandi heilbrigðisnefndar fyrir byggingu og notkun olíugeyma og geyma fyrir eiturefni og hættuleg efni, sbr. reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi.

23. gr. Losun í vatn á vatnasviðinu.

Bein losun áburðar í yfirborðsvatn á vatnasviðinu er óheimil, sbr. reglugerð um varnir gegn mengun vatns af völdum köfnunarefnissambanda frá landbúnaði og öðrum atvinnurekstri.

Mengun vatns á vatnasviðinu er óheimil og er losun efna og úrgangs í vatn óheimil nema í samræmi við ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns, viðaukum með henni og starfsleyfa, þ.m.t. efni á listum I, II, III og IV í viðauka með reglugerðinni. Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um varnir gegn mengun vatns og reglugerðar um varnir gegn mengun grunnvatns.

24. gr. Frárennsli.

Skólp á vatnasviðinu skal hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um fráveitur og skólp.

Um rekstur fráveitna á vatnasviðinu fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerða settra samkvæmt þeim. Til fráveitu telst allt lagnakerfi sem flytur frárennsli frá heimilum, stofnunum, atvinnufyrirtækjum, götum, gönguleiðum, lóðum og opnum svæðum og einnig öll mannvirki sem reist eru til meðhöndlunar eða flutnings á frárennsli. Um söfnun, hreinsun og losun skólps gildir reglugerð um fráveitur og skólp.

Þeir aðilar sem sjá um hirðu og meðhöndlun seyru skulu hafa til þess tilskilin starfsleyfi í samræmi við reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

25. gr. Rannsóknir, ljósmyndataka, kvikmyndataka o.fl. á verndarsvæðinu.

Til að stunda athuganir, vöktun eða rannsóknir á náttúru verndarsvæðisins, svo sem sýnatöku vegna rannsókna, söfnun náttúrugripa, fuglaljósmyndun úr felutjöldum, kvikmyndatöku, fuglamerkingar, svo og aðrar hliðstæðar athuganir, skal afla leyfis Umhverfisstofnunar. Áður en stofnunin veitir slík leyfi skal hún leita umsagnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Um athafnir samkvæmt grein þessari gilda einnig eftir atvikum ákvæði annarra laga, m.a. laga nr. 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur.

26. gr. Lög um náttúruvernd o.fl.

Að öðru leyti fer um verndun Mývatns- og Laxársvæðisins samkvæmt lögum nr. 97/2007, lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 og reglugerðum byggðum á þeim lögum eftir því sem við á.

27. gr. Refsiábyrgð og dagsektir.

Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 97/2004. Sektir renna í ríkissjóð.

Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð, allt að 50.000 kr. á dag, til að knýja menn til framkvæmda sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt reglugerð þessari eða láta af atferli sem er ólögmætt, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 97/2004.

28. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 3. og 4. gr. laga nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 136/1978 um verndun Mývatns og Laxár með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

Aðgerðaáætlun um veiðar á tegundum sem geta haft skaðleg áhrif á verndarstöðu fuglalífs á verndarsvæðinu, sbr. 11. gr., skal í fyrsta sinn liggja fyrir eigi síðar en 1 ári eftir gildistöku reglugerðar þessarar.

Umhverfisráðuneytinu, 10. júlí 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.