Umhverfisráðuneyti

360/2012

Reglugerð um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir. - Brottfallin

1. gr.

Tilgangur og gildissvið.

Reglugerð þessi mælir fyrir um kröfur sem gilda um skráningarkerfi fyrir losunarheimildir íslenska ríkisins, losunarheimildir aðila sem heyra undir gildissvið viðskiptakerfis ESB og losunarheimildir annarra aðila.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

  1. Aðili: Einstaklingur eða lögaðili.
  2. Losunarheimild: Heimild til losunar gróðurhúsalofttegunda. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíðsígildi á ári. Eitt tonn af koldíoxíðsígildi samsvarar einu tonni af koldíoxíði eða því magni annarra gróðurhúsalofttegunda sem hefur sambærilegan hlýnunarmátt.
  3. Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: Kerfi sem starfrækt er á Evrópska efnahagssvæðinu samkvæmt tilskipun 2003/87/EB með síðari breytingum, sbr. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

3. gr.

Lögbært yfirvald og landsstjórnandi.

Umhverfisstofnun er lögbært yfirvald og landsstjórnandi íslenska ríkisins vegna skrán­ingar­kerfis fyrir losunarheimildir.

4. gr.

Skilyrði fyrir stofnun reikninga aðila innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Einstaklingar innan Evrópska efnahagssvæðisins geta aðeins óskað eftir því að stofnaður verði einkavörslureikningur eða vörslureikningur fyrir viðskiptavettvang í Sambands­skránni ef þeir hafa fasta búsetu á Íslandi. Lögaðilar innan Evrópska efnahags­svæðisins geta aðeins óskað eftir því að stofnaður verði einkavörslureikningur eða vörslu­reikningur fyrir viðskiptavettvang í Sambandsskránni ef þeir eru skráðir á Íslandi.

5. gr.

Innleiðing EES-gerða.

Eftirfarandi EES-gerð skal öðlast gildi hér á landi:

Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 920/2010 frá 7. október 2010 um staðlað og varið skráningarkerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB, sem vísað er til í tölulið 21an, III. kafla, XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 156/2011, frá 1. desember 2011, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af reglugerð þessari, XX. viðauka samningsins, bókun 1 við samninginn og öðrum ákvæðum hans. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 12 frá 1. mars 2012, 2012/EES/12/39, bls. 306-357.

6. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 65/2007 um losun gróður­húsa­lofttegunda.

Reglugerðin öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

Atvinnurekstur sem hefur við gildistöku þessarar reglugerðar fengið útgefið losunarleyfi samkvæmt 6. gr. a laga nr. 65/2007 um losun gróðurhúsalofttegunda skal óska eftir því við Umhverfisstofnun að stofnaður verði reikningur í skráningarkerfinu innan 20 virkra daga frá því að skráningarkerfið verður að fullu virkt fyrir Ísland. Að öðru leyti skulu ákvæði 15. gr. reglugerðar (ESB) nr. 920/2010, sbr. 5. gr. þessarar reglugerðar, gilda um stofnun reikningsins.

Umhverfisráðuneytinu, 16. apríl 2012.

Svandís Svavarsdóttir.

Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica