1. gr.
Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að byggja upp og viðhalda grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar á vegum stjórnvalda og tryggja aðgengi stjórnvalda og almennings að landupplýsingum um Ísland. Jafnframt er markmiðið að kveða á um kröfur um skráningu og viðhald lýsigagna fyrir stafrænar landupplýsingar og landupplýsingaþjónustu.
2. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi tekur til stafrænna landupplýsinga sem eru í eigu eða á vegum stjórnvalda og varða íslenskt land, landhelgi og efnahagslögsögu, sbr. 1. og 3. gr. laga um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979.
Reglugerð þessi tekur einnig til stafrænna landupplýsinga í eigu eða á vegum lögaðila sem falla undir ákvæði b- og c-liðar 3. tölul. 3. gr. að svo miklu leyti sem þær verða til eða er aflað í tilefni af hinu opinbera hlutverki þeirra eða þjónustu.
Reglugerð þessi hefur ekki áhrif á höfundarétt stjórnvalda að landupplýsingum sem falla undir reglugerðina.
Stafrænar landupplýsingar í eigu annarra en reglugerð þessi tekur til falla undir reglugerð þessa hafi eigandi þeirra fengið leyfi til að tengja þær við landupplýsingagátt, sbr. 5. gr. og 7. gr. laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.
Séu til mörg samsvarandi eintök af sömu gögnum nær reglugerðin einungis til upprunalegrar útgáfu þeirra.
3. gr.
Skilgreiningar.
Í reglugerð þessari er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:
4. gr.
Hlutverk Landmælinga Íslands.
Landmælingar Íslands fara með framkvæmd reglugerðar þessarar.
5. gr.
Lýsigögn.
Stjórnvöld skulu leggja fram lýsigögn fyrir þær stafrænu landupplýsingar og vefþjónustu sem þau eiga, reka eða varðveita. Uppfæra skal lýsigögnin ef breytingar verða á gögnunum eða ný gögn bætast við.
Stjórnvöld skulu leggja fram lýsigögn skv. 1. mgr. í samræmi við þær kröfur um skráningu og viðhald lýsigagna fyrir stafrænar landupplýsingar og landupplýsingaþjónustu sem fram koma í 6. gr.
6. gr.
Gildistaka reglugerðar Evrópusambandsins.
Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1205/2008 frá 3. desember 2008 um framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2007/2 um notkun og miðlun landupplýsinga, að því er varðar lýsigögn, sem vísað er til í lið 1ja í XX. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124/2010 frá 20. nóvember 2010. Reglugerðin er birt í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 40 frá 14. júlí 2011, 2011/EES/40/06, bls. 65-83.
7. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi er sett með stoð í b-lið 1. mgr. 13. gr. laga nr. 44/2001, um grunngerð fyrir stafrænar landupplýsingar.
Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 27. apríl 2012.
Svandís Svavarsdóttir.
Magnús Jóhannesson.