Fara beint í efnið

Prentað þann 28. mars 2024

Stofnreglugerð

982/2010

Reglugerð um fráveitur sveitarfélaga.

1. gr. Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um uppbyggingu og rekstur fráveitna í eigu sveitarfélaga.

Um ábyrgð sveitarfélaga á uppbyggingu fráveitna, forgangsrétt til þess að starfrækja fráveitu og framsal einkaréttar sveitarfélags fer skv. lögum nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

2. gr. Markmið.

Markmið með reglugerðinni er að tryggja öryggi í uppbyggingu og rekstri fráveitna, stuðla að tæknilegum framförum og setja reglur um réttindi, skyldur og ábyrgð notenda annars vegar og þjónustu fráveitu við íbúa og atvinnulíf hins vegar.

3. gr. Rekstur fráveitu.

Sveitarstjórn getur kosið sérstaka stjórn til að hafa umsjón með framkvæmd fráveitumála sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar og skal hún þá kjörin á fyrsta eða öðrum fundi sveitarstjórnar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Kjörtímabilið skal vera hið sama og sveitarstjórnar nema sveitarstjórn ákveði annað. Sveitarstjórn skal ákveða fjölda stjórnarmanna. Um fundarsköp gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 svo og ákvæði í samþykkt um stjórn og fundarsköp hlutaðeigandi sveitarfélags. Sveitarstjórn skipar formann stjórnar nema samþykktir sveitarstjórnar kveði á um annað.

Þar sem ekki hefur verið kosin stjórn fráveitu fer sveitarstjórn eða nefnd samkvæmt samþykkt sveitarfélags með þau verkefni sem stjórn fráveitu eru falin samkvæmt reglugerð þessari.

Sveitarstjórn skal fylgjast reglubundið með því að þjónusta fráveitu við íbúa sé í samræmi við það sem lög eða samningar kveða á um.

Þar sem sveitarstjórn hefur falið öðrum rekstur fráveitu skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 9/2009 fer stjórn viðkomandi lögaðila með réttindi og skyldur stjórnar fráveitu skv. reglugerð þessari.

4. gr. Hlutverk stjórnar.

Helstu verkefni stjórnar fráveitu eru:

  1. að ákveða framkvæmd fráveitumála á starfssvæði fráveitunnar í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar og ákvæði laga, þar á meðal að hafa yfirumsjón með uppbyggingu og viðhaldi veitunnar, lagningu fráveitukerfis og byggingu annarra mannvirkja sem nauðsynleg kunna að vera til reksturs veitunnar, svo sem dælu- og hreinsistöðva,
  2. að semja gjaldskrá fráveitunnar, sbr. 15. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og auglýsa gjaldskrána og breytingar á henni,
  3. að annast eftirlit með rekstri fráveitu í umboði sveitarstjórnar, marka stefnu um þjónustu hennar og umhverfismarkmið, þ.m.t. nýtingu viðtaka og
  4. að fjalla um drög að fjárhagsáætlun fyrir fráveituna og leggja fyrir sveitarstjórn.

5. gr. Fráveitustjóri.

Sveitarstjórn getur ráðið fráveitustjóra að fengnum tillögum stjórnar fráveitunnar. Gera skal sérstakan ráðningarsamning við fráveitustjóra. Fráveitustjóri hefur umsjón með uppbyggingu fráveitunnar og annast daglegan rekstur hennar í umboði stjórnar fráveitunnar. Stjórn fráveitunnar skal setja honum erindisbréf, í samráði við sveitarstjórn, þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans.

Fráveitustjóri skal sitja fundi stjórnar fráveitunnar með málfrelsi og tillögurétt.

6. gr. Samvinna sveitarfélaga.

Þegar sveitarfélög hafa samvinnu sín á milli um uppbyggingu og/eða rekstur fráveitu skal gerður um það skriflegur samningur eða samþykkt sem hljóta skal staðfestingu hlutaðeigandi sveitarstjórna.

Í stofnsamningi, sbr. 1. mgr., skal meðal annars kveða á um rekstrarform, stjórn og kjör fulltrúa, fjölda þeirra, kjörtímabil, fjárhagslega ábyrgð á skuldbindingum veitunnar og hvaða ákvarðanir stjórnar þarfnist staðfestingu eigenda veitunnar.

7. gr. Bókhald og reikningsskil.

Fráveitur skulu haga bókhaldi og reikningshaldi sínu á skýran og aðgengilegan hátt. Að svo miklu leyti sem ekki er sérstaklega mælt fyrir á annan veg í reglugerð þessari eða sérlögum gilda ákvæði laga nr. 145/1994 um bókhald og laga nr. 3/2006 um ársreikninga.

Í bókhaldi skal lögð áhersla á að leiða fram beinan rekstrarkostnað og tekjur einstakra rekstrareininga á reikningsárinu. Gera skal reikninga fyrir hlutdeild í beinum rekstrarkostnaði svo og vöru og þjónustu, sem einstakar rekstrareiningar fá frá öðrum rekstrareiningum. Reikningar þessir skulu ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði vegna viðkomandi rekstrarþáttar og skulu þeir færðir í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar með reglubundnum hætti innan reikningsársins.

Sameiginlegur rekstrarkostnaður, þ.e. kostnaður sem ekki telst til beins rekstrarkostnaðar einstakra rekstrareininga, skal færður á sérstakan málaflokk í bókhaldi fráveitu. Til frádráttar á sama málaflokk skal færa reikninga sem gerðir eru vegna hlutdeildar rekstrareininga með sjálfstætt reikningshald í sameiginlegum rekstrarkostnaði. Reikningar þessir skulu ekki vera hærri en sem nemur kostnaðarverði og skulu þeir færðir í bókhaldi viðkomandi rekstrareiningar með reglubundnum hætti innan reikningsársins.

8. gr. Langtímaáætlun.

Stjórn fráveitu skal samþykkja langtímaáætlun fyrir veituna þar sem meðal annars er gerð grein fyrir áformum um framkvæmdir á hverju gjaldskrársvæði veitunnar á næstu fimm árum hið skemmsta. Langtímaáætlun skal gefa glögga mynd af áformum um rekstur, framkvæmdir og efnahag og gilda sem rammi við gerð árlegrar fjárhagsáætlunar, stefnumörkun, ákvörðun gjaldskrár og stjórnun fráveitunnar. Áætlunin er ekki bindandi fyrir sveitarfélagið en skal lýsa fyrirhugaðri framkvæmdaröð.

Langtímaáætlun skal uppfærð árlega.

9. gr. Gjaldskrá fráveitu.

Stjórn fráveitu skal semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um álagningu og innheimtu gjalda sem heimilt er að innheimta samkvæmt þessum kafla, svo og gjalddaga þeirra. Í gjaldskrá skal koma fram hvort í gildi eru reglur um niðurfellingu eða afslátt gjalda sem álögð eru samkvæmt þessum kafla.

Miða skal við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar og uppbyggingu, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar. Heimilt er að ákveða hámark og lágmark fráveitugjalds miðað við rúmmál húseigna. Enn fremur er heimilt að miða fráveitugjaldið við fast gjald, annað hvort fasta krónutölu eða sem hlutfall af fasteignamati, auk álags vegna stærðar eða notkunar fasteignar.

Heimilt er að skipta starfssvæði fráveitu í fráveitusvæði og setja sérstaka gjaldskrá fyrir hvert svæði. Slíka skiptingu skal auglýsa með gjaldskránni. Nýti stjórn fráveitu sér þessa heimild skal hún jafnframt gæta þess að rekstri einstakra veitusvæða sé haldið aðskildum í bókhaldi fráveitunnar. Heimilt er einnig að setja sérstaka gjaldskrá innan fráveitusvæðis fyrir einstök hús eða þyrpingu húsa sem ekki eru tengd fráveitukerfinu en njóta þjónustu fráveitu sveitarfélagsins. Gjald skal miða við áætlaðan raunkostnað við þjónustuna.

Stjórn fráveitu skal láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

10. gr. Fráveitugjald.

Heimilt er að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum, þ.m.t. óbyggðum lóðum sem tengdar eru, munu tengjast fráveitu sveitarfélags eða njóta þjónustu hennar.

Þar sem frárennsli er veitt frá atvinnustarfsemi eða vegna annars en venjulegra heimilisnota í fráveitukerfi sveitarfélags er heimilt að innheimta gjald vegna losunar miðað við innrennsli vatns samkvæmt mæli. Sé vatn notað til framleiðslu þannig að því sé ekki veitt í fráveitukerfi skal notandi mæla notkun þess. Sú notkun skal dregin frá innmældu magni við útreikning á gjaldi. Verði mælingu ekki við komið skulu aðilar meta vatnsnotkun til frádráttar á innmældu vatnsmagni.

Heimilt er að innheimta sérstakt aukagjald ef frárennsli tiltekins gjaldskylds aðila samkvæmt lögum þessum er svo mengað að það leiði til sérstakra aðgerða við fráveitukerfið, svo sem ef losun fer yfir skilgreind losunarmörk samkvæmt starfsleyfi. Við ákvörðun gjaldsins skal miða við áætlaðan kostnað við aðgerðirnar þann tíma sem ástandið varir. Álagning gjaldsins er tímabundin og skal sá sem losar í fráveituna leita samþykkis viðkomandi heilbrigðiseftirlits vegna hennar.

Stjórn fráveitu er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessarar greinar í tengiskilmálum fráveitu.

11. gr. Tengigjald.

Eiganda eða rétthafa fasteignar sem tengjast mun fráveitu ber að greiða gjald fyrir tengingu við fráveitukerfi sveitarfélagsins. Gjaldið má miða við áætlaðan kostnað við tenginguna sjálfa og kostnaðarhlutdeild í aðliggjandi fráveitukerfum. Heimilt er að miða upphæð tengigjalds við áætlaðan meðalkostnað við lagningu tenginga frá lögn fráveitu að lóðamörkum við land sveitarfélagsins í viðkomandi hverfi eða fráveitusvæði.

Þar sem tengigjald innifelur hlutdeild í stofnkostnaði við aðliggjandi fráveitukerfi er heimilt að taka mið af áætluðum kostnaði við lagningu þess. Í nýbyggingahverfum er áætlaður heildarkostnaður við gerð safnlagna fundinn og honum deilt að hluta eða öllu leyti á viðkomandi fasteignir. Við ákvörðun á þessum hluta tengigjalds er heimilt að taka mið af stærð lóðar eða því byggingarmagni sem heimilað er á lóðinni. Miða má við byggingarmagn hvort sem er í fermetrum, rúmmetrum eða fjölda eininga samkvæmt fasteignamati. Í eldri hverfum er heimilt að miða tengigjald við áætlaðan kostnað við tenginguna sjálfa auk fastrar upphæðar, sem miðast við áætlaðan stofnkostnað við aðliggjandi safnkerfi að viðbættu álagi vegna stærðar lóðar eða heimilað byggingarmagn að frádregnu því byggingarmagni sem fyrir var á lóðinni.

Þurfi að gera breytingar á tengingu að ósk lóðarhafa ber hann allan kostnað sem af því hlýst. Óski lóðarhafi eftir fleiri en einni tengingu inn á lóð sína greiðir hann allan kostnað sem af því hlýst og verða þær tengingar hans eign.

Gjaldið og gjalddagi þess skal ákveðið í gjaldskrá skv. 9. gr. Tengigjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar sem er í eigu sveitarfélags eða það hefur ráðstöfunarrétt á og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum.

12. gr. Sérstakar aðstæður sem torvelda tengingu.

Ef hús liggur við götu, gönguleið eða opið svæði í þéttbýli þar sem rekstur og uppbygging fráveitu er skylduverkefni sveitarfélagsins og þar sem ekki liggur fráveita skal sveitarfélagið sjá til þess að lögð sé frá því fráveita, lagnakerfi og/eða hreinsivirki, sem samþykkt er af heilbrigðisnefnd. Lóðarhafi greiðir raunkostnað við að tengja viðkomandi fasteign við lagnakerfi sveitarfélagsins eða gerð hreinsivirkis sem heilbrigðisnefnd samþykkir. Hreinsivirkið og lagnakerfi innan lóðar er eign lóðarhafa.

Þar sem hús er þannig hæðarsett að það getur ekki tengst fráveitukerfi sveitarfélags án sérstakra ráðstafana skal fasteignareigandi, ef þess er krafist, kosta gerð dælubúnaðar sem verður hans eign og skal hann annast og kosta rekstur hans.

Komi til sértækra aðgerða samkvæmt 1. eða 2. mgr. annast sveitarfélagið rekstur hreinsivirkis og lagnakerfis utan lóðamarka nema um annað sé samið enda greiði eigandi fasteignar fráveitugjald samkvæmt gjaldskrá hverju sinni. Tengigjald ákvarðast að öðru leyti samkvæmt 11. gr.

Þar sem fráveita beitir sértækum aðgerðum við hús sem ekki tengjast fráveitukerfi þess er heimilt að innheimta sérstakt álag ofan á almenna gjaldskrá. Álagið miðast við aukinn raunkostnað við rekstur kerfisins og stafar af þeim aðgerðum sem beita þarf.

13. gr. Rennslismælar.

Við notkunarmælingar skal nota vatnsmæla vatnsveitu, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga nr. 32/2004, nema um annað sé samið. Ekki kemur til sérstakt viðbótargjald þó mælar vatnsveitu séu einnig nýttir til ákvörðunar á fráveitugjaldi.

14. gr. Tenging við fráveitu.

Sá sem óskar eftir því að tengjast fráveitu eða að breytingar verði gerðar á fráveitutengingu vegna framkvæmda á hans vegum, skal sækja um það til fráveitu. Umsókn skal undirrituð af eiganda eða umboðsmanni hans. Lega heimæða að lóðarmörkum skal koma fram á afstöðumynd sem fylgja skal umsókn. Á yfirlitsmyndinni skal einnig koma fram hæð á rennslisbotni heimæða við lóðamörk. Enn fremur skal gera grein fyrir fyrirhugaðri vatnsnotkun, afrennslissvæði og stærð þeirrar tengingar sem um er sótt.

Tenging fráveitulagna við fráveitukerfi skal gerð í samræmi við tengiskilmála viðkomandi veitu.

Við ósk um yfirtöku eldri tenginga skal umsækjandi greina frá þeim upplýsingum sem hann býr yfir varðandi ástand lagnarinnar og nýlegum rekstrartruflunum ef um slíkt er að ræða. Þá skal hann við umsókn leggja fram gögn s.s. myndband, mynddisk eða greinargerð hafi lögnin verið mynduð eða skoðuð af fagmanni. Umsókn skal skila skriflega til sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði, með bréfi, tölvupósti eða á annan þann hátt sem sveitarfélagið ákveður. Umsókninni skal fylgja yfirlitsmynd þar sem kemur skýrt fram um hvaða tengingu er að ræða. Sveitarfélagið yfirtekur þá tengingu sem um er sótt í því ástandi sem hún er og í þeirri legu sem hún er við yfirtöku.

15. gr. Eftirlit og viðhald fráveitulagna sem lagðar eru í kvöð um lóðir eða lönd.

Starfsmenn fráveitu eða verktakar á þeirra vegum skulu, eftir því sem nauðsyn krefur og að höfðu samráði við húseigendur, hafa frjálsan aðgang að fráveitulögnum í eigu sveitarfélagsins til viðhalds og eftirlits að því marki sem kvöð innan lóðar segir til um. Hið sama gildir um lönd þar sem fráveituæðar liggja.

Sé nauðsynlegt vegna bilunar eða endurnýjunar á fráveitulögn að grafa lögnina upp er starfsmönnum fráveitu eða verktökum á þeirra vegum það heimilt, en að verki loknu skulu þeir færa lóð eða land til fyrra horfs eins og unnt er.

Eigandi fasteignar á ekki kröfu á sérstakri greiðslu fyrir óþægindi vegna lagningar eða viðhalds fráveitulagna.

16. gr. Viðgerðir á veitukerfi.

Ef nauðsyn krefur, vegna viðgerða eða endurnýjunar á fráveitukerfi, getur fráveitan fyrirskipað takmörkun á vatnsnotkun, í samráði við vatnsveitu takmarkað vatnsrennsli eða lokað fyrir vatn, eftir því sem þörf krefur hverju sinni. Tilkynna skal fyrirfram um slíkar takmarkanir ef unnt er.

Fráveita ber ekki fjárhagslega ábyrgð á tjóni er leiða kann af rekstrartruflunum sem verða vegna vinnu við veitukerfi fráveitunnar, rafmagnstruflana eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum nema tjónið verði rakið til gáleysis starfsmanna veitunnar.

17. gr. Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 21. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samorku til þess að öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 2. desember 2010.

Svandís Svavarsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fyrirvari

Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.

Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.