Leita
Hreinsa Um leit

Umhverfisráðuneyti

244/2009

Reglugerð um skil atvinnurekstrar á upplýsingum um losun gróðurhúsalofttegunda.

1. gr.

Markmið.

Markmið reglugerðar þessarar er að afla heildstæðra, áreiðanlegra og gegnsærra upp­lýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda frá atvinnurekstri sem hefur fengið úthlutað losunarheimildum í samræmi við lög um losun gróðurhúsalofttegunda.

2. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um skil á skýrslu um losun koldíoxíðs (CO₂) og upplýsingum um losun annarra gróðurhúsalofttegunda frá atvinnurekstri á landi og í mengunarlögsögu Íslands samkvæmt lögum um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 65/2007.

3. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari er merking orða og orðasambanda sem hér segir:

Atvinnurekstur: Öll starfsemi sem hefur fengið úthlutað losunarheimildum í samræmi við lög um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 65/2007.

Ákvörðun 14/CP.7: Ákvörðun 7. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna um áhrif einstakra verkefna á losun koldíoxíðs á skuldbindingartímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012.

Gróðurhúsalofttegundir: Koldíoxíð (CO₂), metan (CH₄), díköfnunarefnisoxíð (N₂O), vetnis­flúor­kolefni (HFC), perflúorkolefni (PFC), brennisteinshexaflúoríð (SF₆).

Losun gróðurhúsalofttegunda: Útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið af manna völdum.

Losunarheimild: Heimild til losunar koldíoxíðs. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar á einu tonni af koldíoxíði á ári.

Rekstraraðili: Einstaklingur eða lögaðili sem ábyrgð ber á viðkomandi atvinnurekstri.

4. gr.

Útreikningar losunar.

Losun gróðurhúsalofttegunda skal reiknuð í samræmi við aðferðir sem lýst er í viðauka með reglugerð þessari.

5. gr.

Skýrsla um losun koldíoxíðs.

Atvinnurekstur sem hefur fengið úthlutað losunarheimildum skal fyrir 1. mars ár hvert skila skýrslu um losun koldíoxíðs til Umhverfisstofnunar.

Skýrsla um losun koldíoxíðs skal innihalda:

 

a)

upplýsingar um atvinnureksturinn (framleiðsluna), eiganda, staðsetningu og rekstraraðila.

 

b)

lýsingu á uppsprettum losunar þ.m.t. vinnsluaðferðum og hráefnum sem valda losun koldíoxíðs.

 

c)

upplýsingar um ráðstafanir sem gerðar eru til að halda losun í lágmarki.

 

d)

gögn um starfsemi (orka, hráefni, framleiðslumagn o.s.frv.) og greinargerð um hvernig þeim er safnað og hvernig er unnið úr þeim. Tilgreina skal óvissu gagna. Gera skal grein fyrir á hvern hátt óvissan er reiknuð eða fundin út.

 

e)

upplýsingar um breytingar á starfsemi er geta haft áhrif á losun gróðurhúsa­lofttegunda.

 

f)

aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort kröfum um útreikninga á losun koldíoxíðs sem háð er losunarheimildum er fullnægt.

 

g)

upplýsingar um stöðu losunarheimilda í upphafi fyrra árs, losun koldíoxíðs á árinu og stöðu losunarheimilda í lok árs.

 

h)

niðurstöður útreikninga losunar.Gögnum skv. d), g) og h) liðum 2. mgr. skal skilað á rafrænu eyðublaði sem Umhverfis­stofnun lætur rekstraraðilum í té.

Atvinnurekstur sem hefur fengið úthlutað losunarheimildum samkvæmt ákvörðun 14/CP.7 skal tilgreina hvernig losun koldíoxíðs fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í þeirri ákvörðun. Gera skal sérstaklega grein fyrir:

 

a)

að notuð sé endurnýjanleg orka sem leiði til minnkunar útstreymis gróðurhúsa­loftegunda á hverja framleiðslueiningu.

 

b)

hvernig atvinnureksturinn uppfyllir skilyrði um bestu fáanlegu tækni (BAT) og bestu umhverfisvenjur (BEP).

 

c)

losun perflúorkolefna (PFC).6. gr.

Skýrsluskil.

Rekstraraðilum er heimilt að skila skýrslu skv. 5. gr. sem hluta af grænu bókhaldi eða á annan hátt sem þeim hentar, að því tilskyldu að skilafrestur í því ákvæði sé virtur og tölulegar upplýsingar séu birtar í samræmi við viðauka með þessari reglugerð.

7. gr.

Staðfesting áreiðanleika upplýsinga.

Umhverfisstofnun getur krafist þess að áreiðanleiki upplýsinga í skýrslu skv. 5. gr. sé staðfestur af óháðum aðila.

8. gr.

Yfirferð Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun fer yfir hvort skýrsla um losun koldíoxíðs sé í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Að lokinni yfirferð sendir stofnunin skýrsluna ásamt greinargerð til úthlutunarnefndar losunarheimilda.

9. gr.

Upplýsingar um losun annarra gróðurhúsalofttegunda.

Atvinnurekstri ber að skila Umhverfisstofnun upplýsingum um losun annarra gróðurhúsa­loft­tegunda en greinir í 5. gr. fyrir 1. maí ár hvert. Heimilt er að skila framangreindum upplýsingum með skýrslu um losun koldíoxíðs eða grænu bókhaldi. Umhverfisstofnun getur farið fram á að upplýsingum um losun annarra gróðurhúsa­loft­tegunda sé skilað á rafrænu eyðublaði sem Umhverfisstofnun lætur rekstraraðilum í té.

Tilgreina skal upplýsingar skv. 5. gr. eftir því sem við á.

10. gr.

Aðgangur að upplýsingum.

Skýrslur um losun koldíoxíðs skulu birtar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

11. gr.

Gjaldskrá.

Umhverfisstofnun innheimtir gjald fyrir yfirferð skýrslna um losun koldíoxíðs samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem umhverfisráðherra setur.

12. gr.

Viðurlög.

Umhverfisstofnun er heimilt að ákvarða sektir allt að 100.000 kr. á dag ef atvinnurekstur sinnir ekki skyldu um skil á skýrslu skv. reglugerð þessari.

13. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi sem sett er með stoð í 13. gr. laga um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 65/2007 öðlast þegar gildi.

Umhverfisráðuneytinu, 2. mars 2009.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Glóey Finnsdóttir.

VIÐAUKI
(sjá PDF-skjal)
Þetta vefsvæði byggir á Eplica